Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all 7652 articles
Browse latest View live

Aldurinn er afstæður

$
0
0

Íslenska landsliðið í knattspyrnu tekur á móti Tékkum í undankeppni Evrópumóts landsliða í knattspyrnu í kvöld á Laugardalsvelli. Leikurinn er einn sá mikilvægasti í sögu landsliðsins og með góðum úrslitum styrkir landsliðið stöðu sína í riðlinum og færist nær takmarki sínu, að komast á stórmót í fyrsta sinn. Í rauninni hafa allir leikir landsliðsins verið þeir mikilvægustu, eftir að liðinu tókst að sigra feiknasterk lið Tyrkja og Hollendinga. Í hópnum er markmaðurinn Gunnleifur Vignir Gunnleifsson sem var valinn á ný eftir góða frammistöðu með Breiðabliki í byrjun Íslandsmótsins. Ef Gunnleifur heldur áfram í því formi sem hann hefur verið í og jafnvel spilar æfingaleik í haust getur hann slegið met Birkis Kristinssonar sem er elsti leikmaður sem hefur spilað fyrir Íslands hönd. Gunnleifur verður fertugur í næsta mánuði og hugsar ekki um það að slá einhver met.

Fæ að vera einn í herbergi
„Eina sem ég hugsa um er að halda mér í góðu standi, andlega og líkamlega og sjá hverju það skilar,“ segir Gunnleifur. „Ég set mér mín markmið persónulega og það eru margir hlutir sem koma þar að. Ég horfði ekkert endilega aftur inn í landsliðshópinn sem slíkan, en auðvitað með því að standa mig vel með mínu félagsliði þá breytast markmiðin,“ segir hann. „Auðvitað horfir maður fram á veginn og það eru spennandi hlutir fram undan. Það breytir samt ekkert mínum metnaði í fótboltanum. Ég er alltaf með minn metnað og mín markmið og hitt spilar bara með. Auðvitað langar mann að fara á stórmót eins og aðra, en á mínum aldri tekur maður eitt skref í einu,“ segir Gunnleifur. „Skrokkurinn er góður og mér líður betur en nokkur undanfarin ár. Ég nýt mín vel í núinu og tel það mjög mikilvægt.
Það eru margar ástæður fyrir því að ég er í góðu formi í dag. Ég þakka það góðu andlegu jafnvægi utan vallar mikið. Ég er vel giftur og konan skilur hvað ég þarf að gera til þess að getað spilað fótbolta,“ segir Gunnleifur. „Einnig er ég með mjög góða þjálfara í mínum klúbbi að vinna með mér. Við erum ekkert að finna upp hjólið og ég þekki skrokkinn á mér mjög vel.“
Gunnleifur segir að það fylgi því ákveðin forréttindi að vera elstur í hópnum. „Ég fæ að vera einn í herbergi,“ segir hann og hlær. „Maður er á toppnum í fæðukeðjunni. Það kitlar samt ekkert að slá þetta met Birkis,“ segir Gunnleifur. „Það kitlar meira að fá bara að spila. Það eru aðrir í því að horfa alltaf í aldurinn minn, en ég er ekkert í því.
Ef ég slæ þetta met þá er það bara skemmtilegt, en ég er ekkert að fara að senda Birki SMS og núa honum því um nasir,“ segir Gunnleifur Gunnleifsson markmaður.

Elstu leikmenn landsliðsins frá upphafi.

22077-birki

 

Birkir Kristinsson, 74 landsleikir.
Birkir er elsti leikmaður sem spilað hefur fyrir Íslands hönd. Hann var 40 ára og 4 daga gamall sínum síðasta landsleik, sögufrægum sigri á Ítölum á Laugardalsvelli, fjórum dögum eftir fertugsafmælið.

Gudni Bergsson of Bolton Wanderers

Guðni Bergsson 37 ára og 335 daga
80 landsleikir, 1984-2003

Netherlands v Iceland - FIFA 2010 World Cup Qualifier

Hermann Hreiðarsson 37 ára og 31 dags
89 landsleikir 1996-2011

Croatia v Iceland - FIFA 2014 World Cup Qualifier: Play-off Second Leg

Eiður Smári Guðjohnsen 36 ára, 79 landsleikir

Eiður á þann heiður að vera sá elsti sem hefur skorað fyrir íslenska landsliðið. Þegar hann skoraði gegn Kasakstan í vor var hann 36 ára og 195 daga gamall. Hann sló þar með met Arnórs föður síns sem skoraði þegar hann var 36 ára og 74 daga gamall. Eiður verður 37 ára í september. Með sama áframhaldi gæti hann bætt í sitt eigið met og gert eftirmönnum sínum afar erfitt fyrir að slá það.

Iceland v England

Arnór Guðjohnsen 36 ára og 74 daga.
73 landsleikir, 1979-1997

Runar Kristinsson of Iceland

Rúnar Kristinsson 35 ára.
104 landsleikir, 1987-2004
Leikjahæsti leikmaður Íslands frá upphafi.

The post Aldurinn er afstæður appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Vilja fleiri konur í frisbígolf

$
0
0

Frisbígolfsamband Íslands stendur fyrir námskeiði í frisbígolfi á Klambratúni á morgun, laugardag. Finninn Jenni Eskelinen er Evrópumeistari í greininni og mun hún halda tvö námskeið yfir daginn, annað er sérstaklega ætlað fyrir konur, en með því vill Frisbígolfsambandið auka áhuga kvenna á íþróttinni. 

„Fyrsti frisbígolfvöllurinn var tekinn í notkun á Úlfljótsvatni fyrir 15 árum, en á síðustu 5 árum hefur orðið algjör sprenging í greininni,“ segir Birgir Þór Ómarsson, formaður Frisbígolfsambands Íslands. Hann kynntist íþróttinni þegar hann stundaði nám í Bandaríkjunum og varð algjörlega heillaður. „Þetta er ódýrt og heilsusamlegt sport sem hentar öllum aldurshópum. Þú þarft að minnsta kosti að hafa einstaka hæfileika til að geta ekki kastað frisbídiski,“ segir hann og hlær. Vellirnir hér á landi eru orðnir 20 talsins, þar af fimm í Reykjavík, og sífellt fleiri bætast við. „Segja má að íþróttin hafi farið á flug þegar Besti flokkurinn tók við í Reykjavík. Eitt af kosningaloforðum þeirra var að efla Klambratún sem útivistarsvæði og við gripum tækifærið og sendum Jóni Gnarr skeyti þess efnis að koma fyrir frisbígolfvelli og hann var ekki lengi að græja það,“ segir Birgir.

22103 Folf 3839

Um helgina mun Íslenska frisbígolfsambandið í samvinnu við Frisbígolfbúðina standa fyrir námskeiði þar sem Jenni Eskelinen, Evrópumeistari í frisbígolfi, mun kenna áhugasömum réttu tæknina. „Námskeiðin verða tvö yfir daginn og fara fram á Klambratúni. Klukkan 13 verður námskeið einungis fyrir konur og klukkan 16 verður námskeið opið öllum. Með þessu fyrirkomulagi langar okkur að auka áhuga kvenna á þessu frábæra sporti og vonandi grípa þær tækifærið og læra handtökin af þessum snillingi,“ segir Birgir.

Jenni hefur stundað frisbígolf í sex ár og fór að æfa af kappi þegar hún fattaði að hún kastaði töluvert lengra en aðrir í vinahópnum. Nú eru hún atvinnumaður í greininni. „Við Íslendingar eigum enga atvinnumenn í frisbígolfi ennþá en það er örugglega ekki langt í það,“ segir Birgir. Aðspurður um ástæður þess hvers vegna fleiri karlar en konur stundi frisbígolf segist hann ekki vera viss. „Ég hvet hins vegar konur á öllum aldri til að mæta á morgun.“ Ekki er þörf að skrá sig sérstaklega á námskeiðið. „Jenni mun ekki vísa neinum frá, hún er menntaður íþróttafræðingur og starfar sem íþróttakennari, hún mun því ekki eiga í neinum vandræðum með að kenna áhugasömum núverandi og tilvonandi frisbígolfurum,“ segir Birgir.

The post Vilja fleiri konur í frisbígolf appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Fer enginn í sveit lengur?

$
0
0

Á sumrin leitar hugurinn oft til baka. Til þeirra tíma sem þegar veðrið var alltaf gott. Ég man ekki eftir neinu sumri í æsku minni þar sem það var vont veður. Eflaust hefur einhvern tímann verið vont veður, en það nær ekki inn á radarinn hjá mér. Ég er einn af þeim mörgu af minni kynslóð sem fór í sveit á sumrin. Oftast fór ég til afabróður míns í Skagafjörðinn fagra og eitt sinn fór ég ásamt systur minni, sem þá var heltekin af unglingaveiki og vildi helst ekkert annað gera en að lesa ástarsögur og hlusta á dramtíska 80´s tónlist, til ömmusystur okkar á Mývatni. Á hvorn staðinn sem ég fór var upplifunin ekkert minna en stórkostleg. Á bænum Garði í Mývatnssveit, sem ég fór að mig minnir eitt sumarið, sá ég t.a.m hest geltan. Það var mögnuð upplifun og í hvert einasta sinn sem ég sé hest þá reikar hugurinn aftur til þessarar aðgerðar sem ég var vitni að. Ég fann til með hestinum, en um leið skildi ég alltaf það sem þurfti að gera. Ég hef aldrei fundið til samkenndar þegar kemur að slátrun eða annarskonar verknaði sem bændur þurfa að grípa til í sínu verkum og vinnu. Dýraníð er svo annað mál, og óskylt að mér finnst, en nóg um það.

Sumrin mín í Skagafirðinum voru merkileg. Þar lærði ég að keyra traktor, ég lærði að sitja á hestbaki, lærði að smala saman kindum, lærði að gefa fiðurfénaði að éta, lærði að raka gras og moka flór. Allt þetta eru undirstöðuatriði þess að alast upp á Íslandi, finnst mér. Ekki það að ég sé með einhvern þjóðernisrembing og haldi því virkilega fram að landið og þjóðin standi og falli með því að moka flór og slá gras, alls ekki. Ég er bara á því að það sé hollt fyrir ungt fólk að læra á þessa grunnþætti. Fatta aðeins hvaðan við komum, þó við séum ekkert endilega á leiðinni þangað.

Í dag er því miður minna um það að krakkar komist í sveit. Helst er það vegna þess að búum hefur fækkað, skilst mér. Eins er minna um það að nánustu ættingjar manns stundi búskap, eins og var kannski algengara fyrir þrjátíu árum. Margir af mínum vinum áttu frænda, frænku, afa eða ömmu sem voru í búskap um allt land og allir voru sendir í sveit. Byrjað var á því að fara til rakarans og allt hár tekið af, svo maður væri tilbúinn í slaginn í góða veðrinu sem var alltaf í gamla daga. Það var enginn ungur drengur með hár sem fór í sveit.
Þegar haldið var í Skagafjörðinn fór maður með rútu frá BSÍ. Vopnaður brauði með kæfu og súkkulaðimjólk í flösku. Ferðalagið var langt og því var gott að hafa lesefni við höndina. Bækur um Frank og Jóa og/eða meistaraverk Enid Blyton voru í bakpokanum og rútan fór af stað. Í minningunni var stoppað í Botnskála, Ferstiklu, Borgarnesi, Staðarskála og Blönduósi þar til að maður hoppaði út á áfangastað í Varmahlíð. Þetta var að mig minnir 8 tíma ferð. Kannski minna, en ekki skemmri en sex tímar. Alltaf sex tímar. Með galtóma flöskuna mætti maður í sveitina, smá heimþrá svona fyrsta daginn og óvissa um hvað biði manns. Sumurin í sveitinni voru stórkostleg. Aldrei minnist ég þess að manni hafi leiðst eða fundið til söknuðar. Það var bara ekki tími til þess. Verkin þurfti að vinna og maður var úti frá morgni, fram á kvöld.

Í dag heyrir maður aldrei neitt um það að börn fari í sveitina. Nema kannski eina helgi með foreldrunum. Vissulega eru börn sem eiga afa og ömmu sem stunda búskap og eru bændur, en ég er ekki beint að hugsa um slíka vist. Ef ég mundi taka upp á því að senda 11 ára gamlan son minn, til einbúa í Skagafirði, þá fengi ég misjöfn viðbrögð, held ég. Það mundi teljast mjög óvenjulegt og jafnvel ábyrgðarlaust af minni hálfu. Er heimurinn virkilega orðinn svona slæmur, eða erum það við sem treystum engu og engum?
Í dag fer ekkert barn á íþróttamót, nema báðir foreldrar fari með, og stundum afi og amma líka. Börnin okkar eru í svo mikilli vernd að ég er ekki viss um að þau myndu höndla rútuferðina í sveitina, hvað þá nokkrar vikur á bóndabæ. Þegar ég æfði íþróttir í gamla daga sást ekki foreldri í kílómetra fjarlægð. Engum var skutlað og enginn var sóttur. Hvað erum við að gera börnunum okkar?

Við erum vonandi að gera rétt, og ég vil nú trúa því, en stundum finnst mér við öll vera sek um að vefja (bómullinni) ansi þétt að þessum litlu skinnum. Börnin okkar þurfa að læra það að bjarga sér. Vinna smá. Fatta út á hvað hlutirnir ganga. Jafnvel meiða sig pínu og læra það að vera ein í smá stund. Nú hugsa margir „Mitt barn kann að vera eitt“, ég veit það alveg og mitt barn kann það líka. En það er samt með iPad og Playstation sem félagsskap. Börnum þarf að leiðast. þegar manni leiðist þá gerir maður eitthvað.

Ég væri alveg til í að senda minn dreng í sveit, en það mun aldrei gerast. Ég þekki engan bónda og varla fer ég að senda hann til einhvers sem ég þekki ekki neitt. Ekki ef ég ætla að eiga mér von í samfélagi mannanna.
Mér fannst gaman í sveitinni. Mér fannst samt alltaf sérstakt þegar mamma og pabbi komu og sóttu mig, kaffibrún eftir sólarlandaferðina sem þau fóru í á meðan ég var að vinna. Ég lái þeim það samt ekki. Þau þurftu á þessari hvíld að halda.

Hannes Friðbjarnarson
hannes@frettatiminn.is

The post Fer enginn í sveit lengur? appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Var púaður niður í MH

$
0
0

Leikarinn Halldór Gylfason hefur samið tónlist síðan hann var ungur maður í menntaskóla. Hann var meðlimur í hljómsveitinni Geirfuglarnir um árabil og á ógrynni af lögum sem hann hefur samið í gegnum tíðina. Fimmtudaginn 18. júní ætlar Halldór að halda tónleika í sínu eigin nafni í fyrsta sinn í aldarfjórðung á KEX Hostel. Hann var búinn að ákveða það að gera þetta í kringum 45 ára afmælið, en hann á afmæli um helgina. Hann hlakkar til tónleikanna, en kvíðir þeim líka.

„Ég gerði talsvert af því í menntaskóla að koma fram sem trúbador og var að bræða það með mér að verða tónlistarmaður,“ segir Halldór Gylfason leikari. „Einu sinni var ég pantaður til að spila í MH, af frænda mínum sem var þar. Hann ætlaði að borga mér vodkaflösku fyrir,“ segir hann. „Það var einhver busahátíð og það hlustaði enginn á mig, og ég var púaður niður. Sá sem stóð mest fyrir því var Benedikt Erlingsson sem þá var í námi í MH,“ segir Halldór. „Þetta féll greinilega ekki í góðan jarðveg þarna og var mjög súr reynsla. Ég náði að flytja tvö lög áður en ég var púaður niður og Óli frændi skuldar mér ennþá flöskuna,“ segir Halldór. „Eftir þetta fór ég í hljómsveitastúss. Var í hljómsveitinni Sirkus Babalú í MS og fór svo í leiklistarskólann og á þeim tíma voru Geirfuglarnir stofnaðir.“
Halldór segist hafa samið lög stöðugt alla tíð en hann hefur lítið skrásett fyrir utan það sem hefur komið út á plötum með Geirfuglunum. „Ég man bara allt sem ég hef samið,“ segir Halldór. „Ég man lög sem ég samdi tvítugur. Svo hef ég samið fyrir Geirfuglana og fyrir Þróttarana og fyrir hin og þessi leikrit og skemmtanir sem ég hef verið með eða verið í,“ segir hann en Halldór er mikill Þróttari. „Þar á meðal eru ógeðslega mörg léleg lög inn á milli,“ segir hann. „Ég er búinn að taka saman í kringum tuttugu lög sem ég ætla að flytja á þessum tónleikum. Ég er bara með vini mína með mér í hljómsveitinni og planið er að hafa þetta eins einfalt eins og hægt er,“ segir Halldór. „Svo koma nokkrir gestir og taka lagið, sem eru líka vinir mínir. Elsta lagið er svona 27 ára gamalt. Ég skipti þessu upp í nokkrar „kategoríur“ þegar ég var að velja þetta. Ein kategorían heitir Rugl, önnur nýlegt rugl og allt þar á milli,“ segir Halldór.
„Annars á þetta bara að vera gaman og ég hlakka til, en kvíði alveg ótrúlega mikið fyrir líka. Ég er með upphitunaratriði sem er hann Kári Viðarsson, leikari frá Rifi, sem er bróðursonur minn, og hann byrjar klukkan 20.30 og ég kem á eftir. Þróttur á bikarleik við ÍBV þetta kvöld og verður gaman að fá Þróttara á tónleikana strax á eftir leiknum,“ segir Halldór Gylfason, leikari og tónlistarmaður.

 

The post Var púaður niður í MH appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Airwaves heimsækir landsbyggðina

$
0
0

Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hóf í vikunni mikla tónleikaferð sem stendur yfir helgina. Henný María Frímannsdóttir, upplýsingafulltrúi hátíðarinnar, segir þetta lið í því að kynna hátíðina fyrir fólki á landsbyggðinni. Hún segir tónlistarfólkið sem tekur þátt i ferðalaginu hafa tekið mjög vel í hugmyndina og lagði hópurinn af stað á miðvikudaginn. Henný segir að ákveðið hafið verið að heimsækja þá staði sem eru ekki í hinum hefðbundnu plönum þeirra sem fara í tónleikaferðir og er hún á því að það geri ferðina enn skemmtilegri.

Tónleikaferð Iceland Airwaves nefnist Veðurskipið Líma og áhöfnin samanstendur af tónlistarkonunni Dj. Flugvél og geimskip, rapparanum MC Gauta og hljómsveitinni Agent Fresco. Hópurinn hóf tónleikaferðina á Bolungarvík á miðvikudagskvöldið, í gær var hópurinn í Grenivík, í kvöld, föstudagskvöld, verða tónleikar á Raufarhöfn, Breiðdalsvík á laugardag og ferðalagið endar á sunnudagskvöldið með tónleikum í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ.
Henný María Frímannsdóttir, upplýsingafulltrúi hátíðarinnar, segir ferðalagið vera part af undirbúningi hátíðarinnar, sem er í fullum gangi. „Við vildum leyfa landsbyggðinni að taka þátt í þessu með okkur,“ segir hún. „Þetta hefur staðið til í nokkur ár að fara í svona ferð og nú létum við bara verða af því. Við gætum trúað því að fólki á landsbyggðinni finnist það vera útundan hvað þessa hátíð varðar, þar sem hún er mjög reykvísk, en við viljum breyta því og fá sem flesta,“ segir Henný. „Listamennirnir allir voru bara mjög til í að gera þetta með okkur og það er gríðarlega góð stemning í hópnum. Við erum að fara á staði sem eru ekki oft á kortinu hjá hljómsveitum og okkur langaði að gera eitthvað aðeins öðruvísi,“ segir hún. „Á Breiðdalsvík er t.d verið að standsetja nýjan tónleikastað sem nefnist Frystihúsið og það verður mjög gaman að koma þangað,“ segir Henný.
Iceland Airwaves fer fram í byrjun nóvember og segir Henný að undirbúningur fyrir hátíðina sé í fullum gangi. Hún segir að hátíðin verði með svipuðu sniði og undanfarin ár, og mikill fjöldi erlendra gesta hafi nú þegar skráð sig til leiks. „Við erum búin að tilkynna listamenn þrisvar og verðum með tvær kynningar í viðbót, og í lok júní kemur ein stór frá okkur. Við erum enn að taka við umsóknum og það eru nokkur hundruð blaðamenn búnir að boða komu sína. Á síðustu hátíð voru um 700 of-venue tónleikar og það verður eitthvað svipað hjá okkur á þeirri næstu,“ segir Henný María hjá Iceland Airwaves.
Frítt er inn á alla tónleikana á ferðalaginu um landið og allar upplýsingar um tímasetningar má finna á Facebook síðu viðburðarins, Veðurskipið Líma.

The post Airwaves heimsækir landsbyggðina appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Persónuleg brjóstabylting

$
0
0

Afhverju má allur líkami kvenna sjást í fjölmiðlum, nema geirvartan? Af hverju þurfa konur að óttast að ráðist sé á þær gangi þær hálfnaktar um göturnar en ekki karlar? Hvernig hemja karlmenn sig í samfélögum þar sem konur eru með brjóstin ber allan daginn? Eru geirvörtur karlmanna ekki kynæsandi eða eru konur með minni kynhvöt en karlar? Af hverju þurfa konur að læra að klæða sig á viðeigandi hátt á meðan karlar þurfa ekki að læra að haga sér á viðeigandi hátt? Með því að draga geirvörtuna fram í dagsljósið vill „Free the nipple“ hreyfingin draga spurningar á borð við þessar fram í dagsljósið. Að svara þeim getur reynst þrautin þyngri en að skapa vettvang til þess er einmitt annar tilgangur þess að bera saman brjóstin á Austurvelli á morgun, laugardaginn 13. júní klukkan 13.

Bjóstabyltingin hófst í Bandaríkjunum þar sem konum er bannað með lögum í flestum ríkjum þeirra að vera berbrjósta á almannafæri, líka þegar þær gefa brjóst. Refsingar við að sýna geirvörtu geta verið mjög strangar, allt að þriggja ára fangelsisvist. Sem er þversagnakennt í landi þar sem brjóst eru úti um allt í fjölmiðlum og þar sem fjölmiðlar eru stútfullir af ofbeldi sem ætti nú að teljast hættulegra en ein lítil geirvarta. Upphaflegur tilgangur „Free the nipple“ hreyfingarinnar var að ögra lögunum og sýna í leiðinni fram á misréttið sem felst í því að banna konum en ekki körlum að sýna líkama sinn.

Gegn hlutgervingu líkamans

Á Íslandi er ekki bannað með lögum að sýna geirvörtur en konum er ekki ráðlagt að vera berbrjósta á almannafæri þar sem það gæti sært blygðunarkennd nærstaddra. Sem er skrítið því fyrir ekki svo löngu gátu konur verið berbrjósta á almannafæri, hvort sem það var við garðvinnu í sólinni eða í sólbaði á Austurvelli. Karen Björk Eyþórsdóttir, ein þeirra átta kvenna sem skipuleggja „Free the nipple“ viðburðinn á Austurvelli um helgina bendir á að sú þróun sé bein afleiðing klámvæðingar síðustu ára. Öfgakenndar afleiðingar klámvæðingarinnar hafi komið hvað best í ljós um daginn þegar fimm ára stelpu var vísað upp úr sundlaug í Reykjavík þar sem hún var ekki í toppi við bikiníbuxurnar. „Samfélagið er orðið svo vant því að kvenlíkaminn sé bara hver annar hlutur, eða söluvara, að það er hætt að sjá hann sem eitthvað náttúrulegt,“ segir Karen. „Að það sé ósiðlegt að sjá fimm ára stelpu án bikinítopps sýnir vel hversu brenglað samfélagið er orðið.“

Brjóstabyltingin er persónuleg

Í dag snýst samt berun geirvörtunnar um eitthvað meira en brenglaða siðferðisvitund. Síðan hreyfingin fór af stað á Íslandi hafa hlutir eins og #6dagsleikinn og Bjútítipsbyltingin farið af stað. Skipuleggjendur eru sammála um að eitthvað merkilegt sé að gerast, jafnvel eldri kynslóðin sem ekkert hafi skilið í byrjun, sé farin að sjá hlutina í skýrara ljósi. „Ég held að brjóstabyltingin tákni mjög margt og að hún sé mjög persónuleg. Fyrir mér getur hún snúist um allt annað en fyrir næstu konu,“ segir Stefanía Pálsdóttir, önnur skipuleggjenda. „Við viljum búa til vettvang þar sem hægt er að ræða þessi mál en þetta snýst um líka um anti-þöggun og að slá vopnin úr höndum þeirra sem stunda hrelliklám. Konur eru stærsti minnihlutahópur í heimi, hugsaðu þér hvað við getum áorkað miklu ef við erum allar í sama liði.“

Þetta snýst í rauninni ekkert um brjóst heldur um það að konur hafi sjálfar valdið yfir sínum brjóstum. Þetta snýst bara um algjöra hugarfarsbreytingu.“

Gagnrýni er heilbrigður fylgifiskur aukinnar umræðu og meðlimir hreyfingarinnar hafa ekki farið varhluta af henni, því þrátt fyrir að kvenlíkamanum sé slengt framan í okkur alla daga sem söluvöru þá fer það fyrir brjóstið á mörgum að nú skuli konur gerast svo djarfar að ætla að sýna líkamann sjálfar. Það sé nú meiri athyglissýkin. En þar liggur einmitt mergur málsins. Þær sýna líkamann sjálfar. „Í okkar samfélagi er búið að ákveða það fyrirfram að ef ég ákveð að hylja ekki hluta af mínum líkama þá sé ég að tæla einhvern,“ segir Karen. „Valdið hefur verið tekið af mér því það er ekki ég sjálf sem ákveð hvort ég sé að tæla eða ekki heldur einhver út í bæ. Það geta allir mögulegir líkamshlutar verið kynæsandi en það er búið að ákveða að ef ég er berbrjósta í sundi þá hljóti ég að vera að táldraga. Við viljum fá að ráða því sjálfar hvenær og hvenær ekki við erum að táldraga,“ segir Karen og bendir á að umræðan grafi undan karlmönnum. „Það er gert ráð fyrir því að karlmenn séu bara eins og spólgraðir hundar sem ráði ekkert við sig og fái bara bóner við að sjá geirvörtu. Þetta snýst í rauninni ekkert um brjóst heldur um það að konur hafi sjálfar valdið yfir sínum brjóstum. Þetta snýst bara um algjöra hugarfarsbreytingu.“

Gegn hræsni

Að frelsa geirvörtuna þýðir að taka til sín völdin og fá aftur eignarhald yfir eigin líkama. Konur eru hreinlega þreyttar á því að ráða því ekki hvenær brjóst eru kynferðisleg og hvenær ekki, að karlmenn stjórni ferðinni en ekki þær. Nú vill kona fara út á götu á sínum geirvörtum án þess að lög eða siðferðisvitund annara banni henni það. Því á sama tíma og henni er bannað að gera það er líkami hennar misnotaður sem söluvara. Sem er hræsni. Konur hafa nú ákveðið að eigna sér geirvörtuna sjálfar því hún er dálítið eins og þeirra síðasta vígi í heimi þar sem líkami konunnar hefur verið seldur og misnotaður trekk í trekk, án hennar samþykkis.

22086 Free the nipple 3748

Að draga geirvörtuna fram í dagsljósið er að draga hlutgervingu kvenna, afleiðingar klámvæðingar, hrelliklám og brenglaða siðferðisvitund fram í dagsljósið. Skipuleggjendur hvetja allar konur til að mæta, berbrjósta eða ekki, það sé ekki það sem skipti máli. Viðburðurinn kallast „Frelsum geirvörtuna – Berbrystingar sameinumst“ og hefst klukkan 13 á morgun, laugardag, á Austurvelli. Guðbjörg Ríkey Hauksdóttir, Stefanía Pálsdóttir, Nanna Hermannsdóttir, Sóley Sigurjónsdóttir, Hildur Harðardóttir, Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir, Azra Crnac og Karen Björk Eyþórsdóttir.

 

The post Persónuleg brjóstabylting appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Þegar hið ómögulega verður að hinu mögulega

$
0
0

Meistari allra meina er stórbrotin en jafnframt auðlesin ævisaga krabbameins og samfélaganna sem það hefur mótað í þúsundir ára. Bókin kom fyrst út fyrir fimm árum en er nú komin út í íslenskri þýðingu Ólafar Eldjárn. Nýverið kom út heimildamynd sem er byggð á bókinni og nefnist hún Cancer: The Emperor of All Maladies. 

Meistari allra meina – ævisaga krabbameins, hefur vakið mikla athygli víða um heim fyrir aðgengilega, ítarlega og trausta umfjöllun um flókið og vandmeðfarið efni. Höfundur bókarinnar er Siddhartha Mukherjee, læknir og líffræðingur og starfandi krabbameinssérfræðingur í New York. Mukherjee fékk áhuga á að skrifa um sögu krabbameins þegar einn sjúklinga hans sem hafði lengi glímt við krabbamein sagðist vera tilbúinn til að berjast við það, ef hann bara vissi aðeins meira um hvað hann væri nákvæmlega að berjast við. Hvaðan kemur þetta mein og hversu lengi hefur það verið til? Mukherjee áttaði sig á því að hann gat ekki bent sjúklingi sínum á neitt les- eða myndefni þessu tengt og hófst því handa við að útvega það sjálfur. Úr varð ævisaga krabbameins.

18951 LaraD

Lára G. Sigurðardóttir, læknir og fræðslustjóri hjá Krabbameinsfélaginu. Mynd/Hari

Lestur sem vekur upp von

„Við fyrstu sýn virðist sem svo að þetta sé eingöngu bók fyrir þá sem hafa greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra en það er alls ekki svo, inntak bókarinnar er mun dýpra en það,“ segir Lára G. Sigurðardóttir, læknir hjá Krabbameinsfélaginu. Í bókinni er farið yfir sögu krabbameins, sagt frá fjölbreyttum birtingarmyndum þess og viðleitni til lækningar, allt frá elstu heimildum til nýjustu meðferða og uppgötvana. Gerð er nákvæm grein fyrir því hvernig þekkingu á sjúkdómnum hefur fleygt fram, sagt frá sjúklingum, læknum og vísindamönnum, þrotlausum rannsóknum, óvæntum uppgötvunum, misskilningi og mistökum, árangri og sigrum. Bókin er afar yfirgripsmikil og skrifuð af víðtækri þekkingu og einlægum áhuga á viðfangsefninu, en lýsir um leið persónulegri reynslu læknis af að hlynna að krabbameinssjúklingum og aðstandendum þeirra, fræða þá og leiða gegnum sjúkdómsferlið.

„Það sem heillaði mig er að höfundur kynnir okkur fyrir persónum sem hafa helgað lífi sínu læknavísindunum. Persónum sem lögðu allt undir til að draga úr þeirri kvöl og eymd sem fylgdi sjúkdómnum og þessar persónur eiga stóran þátt í að í dag tölum við ekki lengur um krabbamein sem dauðadóm heldur í flestum tilfellum læknanlegan sjúkdóm. Maður dregst inn í söguþráðinn því hann skilur eftir sig von. Hið ómögulega verður mögulegt og með lestrinum verður maður meðvitaðri um hvað það er í raun margt sem við hljótum að eiga eftir að uppgötva,“ segir Lára.

Ein af 100 áhrifamestu bókum síðustu 100 ára22122 Meistara_allra_meina
Meistari allra meina hefur unnið til fjölmargra verðlauna og viðurkenninga og hlaut meðal annars Pulitzer-verðlaunin í flokki fræðirita árið 2011 og var auk þess valin ein af 100 áhrifamestu bókum síðustu 100 ára samkvæmt Time. Mukherjee var einnig útnefndur sem einn af 100 áhrifamestu manneskjum heims árið 2011 af Time. Bókin er gefin út með styrk frá Krabbameinsfélagi Íslands og Miðstöð íslenskra bókmennta.

 

The post Þegar hið ómögulega verður að hinu mögulega appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Frá neðanjarðarlestinni í eldhúsið

$
0
0

Svokallaðar „subway“ flísar eru að verða meira og meira áberandi í innanhússhönnun. Um er að ræða klassískar keramikflísar sem draga nafn sitt af álíka flísum sem hafa prýtt neðanjarðarlestarkerfið í New York frá því það var tekið í notkun fyrir rúmlega 100 árum. Listamennirnir Heins & LaFarge fengu þá hugmynd að fegra neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar með litríkum keramik flísum og var það liður í lista- og handverkshreyfingu sem átti upptök sín í Bretlandi um miðja 19. öld sem andsvar við óvandaðri fjöldaframleiðslu sem fylgdi í kjölfar iðnvæðingar. Úr urðu mörg falleg listaverk sem prýða stöðvarnar enn þann dag í dag og sífellt bætist í hópinn.

22107 1. subway

Svokallaðar „subway“ flísar eiga nafngift sína að rekja til neðanjarðarlestarstöðva í New York borg. Mynd/Shutterstock

Flísar af þessu tagi hafa nú notið mikilli vinsælda í innanhúshönnun og þá helst á baðherbergjum eða í eldhúsum. Flísarnar eru til í öllum regnbogans litum en flísar í ljósum lit falla vel inn í þann nútímalega og einfalda stíl sem nú einkennir innanhúshönnun. Flísarnar henta bæði vel í stærri og minni rými og þær er auðvelt að þrífa.

Subway flísar í ljósum lit koma einstaklega vel út í eldhúsinu. Mynd/Shutterstock

Subway flísar í ljósum lit koma einstaklega vel út í eldhúsinu. Mynd/Shutterstock

22107 3. subway flísar hálf

Með því að flísaleggja aðeins hluta af vegg virkar eldhúsrýmið stærra. Mynd/Shutterstock

 

The post Frá neðanjarðarlestinni í eldhúsið appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Jóga er andleg sturta

$
0
0

Kundalini jóga, hugleiðsla, lífrænt grænmetisfæði og náttúruskoðun eru meðal þess sem Jógahátíð á Ásgarði í Kjós býður upp á þann 21. júní næstkomandi. Sólveig Hlín Kjartansdóttir, ein skipuleggjenda, segir hátíðina vera kærkomið tækifæri fyrir fólk með sömu áhugamál til að hittast en líka fyrir forvitna til að kynnast jógamenningunni. Hún segir jóga vera ávanabindandi og líkir jógaiðkun við andlega sturtu sem auki orkubúskapinn og komi huganum í jafnvægi.

„Hugmyndin að hátíðinni fæddist hjá okkur vinkonunum í Frakklandi þegar við sóttum svipaða hátíð,“ segir Sólveig Hlín Kristjánsdóttir, ein kvennanna sem skipuleggja úti-jógahátíð á sumarsólstöðum, þann 21. júní næstkomandi á Ásgarði í Kjós. Þetta verður í fimmta sinn sem hátíðin er haldin á Íslandi. „Það var eitthvað svo góður andi á hátíðinni í Frakklandi, mikið um að vera og jákvæð og uppbyggileg fjölskyldustemning. Okkur fannst tilvalið að flytja þetta til Íslands og hafa hana á þessum tíma þegar birtan er mest og orkan þar af leiðandi líka. Innan jógafræðanna er mikil hefð fyrir því að fagna sumarsólstöðum og nú hafa sameinuðu þjóðirnar ákveðið að 21. júní sé alþjóðlegur jógadagur.“

Jóga verður ávanabindandi

Sólveig segir jóga vera góða líkamsrækt sem henti öllum, ungum sem öldnum. „Þegar maður byrjar að stunda jóga þá verður það fljótt ávanabindandi. Maður finnur mjög fljótlega fyrir auknu jafnvægi í huganum en líkaminn er líka fljótur að styrkjast. Það er líka magnað hvað orkan verður miklu meiri, sérstaklega beint eftir æfingar. Það er í raun best að líkja þessu við andlega sturtu.“
Sólveig segir mjög auðvelt að kenna börnum jóga og í raun gott að byrja snemma. „Börnin segja manni alltaf hreint út um leið hvað þeim finnst skemmtilegt og hvað þeim finnst leiðinlegt. Þau er líka svo móttækileg fyrir nýjungum svo það er gaman að leiðbeina þeim.“

Endurnærandi hátíð fyrir börn og fullorðna

„Á hátíðinni verðum við ekki bara með jógatíma fyrir börnin heldur bjóðum við líka upp á leiki og listasmiðjur. Það verður ýmiskonar dagskrá í gangi yfir daginn, líka möntrusöngur og göngur og svo endar hátíðin með alvöru kvöldvöku fyrir alla fjölskylduna. Við bjóðum líka upp á grænmetismat og hráfæði og það hefur alltaf verið hálfgerður hápunktur dagsins því maturinn er svo góður. Tilgangurinn með hátíðinni er að fólk með lík áhugamál geti hist og verið saman, líka fólk með börn. Þetta er líka tækifæri fyrir fólk sem þekkir ekki jóga til að kynnast einhverju nýju. Hátíðin gefur innsýn í jóga-menninguna og heimspekina á bak við hana, á dýpri hátt en þú fengir með einum prufutíma í bænum. Það verða allir endurnærðir eftir svona hátíð.“

Sólveig Hlín Kristjánsdóttir, ein kvennanna sem skipuleggja úti-jógahátíð fyrir alla fjölskylduna.

Sólveig Hlín Kristjánsdóttir, ein kvennanna sem skipuleggja úti-jógahátíð fyrir alla fjölskylduna.

The post Jóga er andleg sturta appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Nýtum afgangana í garðræktina

$
0
0

Ætlar þú að rækta garðinn þinn í sumar? Góður jarðvegur er grunnurinn að farsælli ræktun, hvort sem um er að ræða krydd- og matjurtir eða annars konar plöntur. Besti jarðvegur sem hægt er að fá er sá jarðvegur sem garðræktandi býr til sjálfur og í hann er tilvalið að nota ýmislegt sem fellur til í eldhúsinu. Talið er að frá þriggja manna fjölskyldu komi um 1200 kíló af sorpi á ári og að helmingur þess sé endurnýtanlegur, svo sem ýmis konar afgangar. Hér er dæmi um þrenns konar lífrænan úrgang sem stuðlar að öflugri jarðvegi og ætti því ekki að fara í ruslið, heldur beint í garðinn.

Eggjaskurn22111 egg
Safnið saman eggjaskurn og geymið í íláti við sólríkan glugga (eða þar sem er tiltölulega hlýtt) í nokkra daga. Þurr eggjaskurn brotnar auðveldlega niður og því er auðvelt að blanda henni saman við jarðveginn. Eggjaskurnin er rík af kalsíum sem hjálpar til við vöxt plantna. Skurnin fælir einnig burt snigla, en þeir forðast víst eggjaskurn eins og við forðumst að ganga á glerbrotum. Einnig er hægt að mylja eggjaskurn út í vatn og nota til vökvunar, en skurnin er fínasti kalkgjafi.

Kaffikorgur 22111 kaffikorgur
Kaffikorgur er dæmi um úrgang sem á aldrei að fara í venjulegt rusl. Hann er lífrænn og því tilvalinn sem almennur áburður. Kaffikorgur inniheldur nitur sem eykur vöxt gróðursins. Korgurinn hefur ekki áhrif á sýrustig jarðvegsins nema að hann sé notaður í mjög miklu magni.

Bananahýði
Skerðu bananahýðið í sm22111 bananiærri bita og bættu beint út í jarðveginn. Hýðið brotnar hratt niður og stuðlar þannig að gómsætum næringarefnakokteil fyrir plönturnar, sem inniheldur til dæmis kalsíum, magnesíum, fosfat, kalín og sódíum, sem hafa blómstrandi áhrif á plöntur.

The post Nýtum afgangana í garðræktina appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Einhvern Lee Buchheit í kjaramálin

$
0
0

Til undirbúnings afnáms fjármagnshafta á þrotabú föllnu bankanna var fyrst safnað saman upplýsingum til að kortleggja vandann. Þar næst var kannað hvaða lausnir væru í boði og hvaða aðgerðum þjóðir í svipaðri aðstöðu höfðu beitt til að losna úr höftum. Þá hófust samræður við kröfuhafa um hverjar af þessum leiðum væru framkvæmanlegar og um hvaða leiðir mætti ná sátt. Þegar það lá fyrir var almenningi greint frá með hvaða hærri ríkisstjórnin ætlaði að fylgja eftir ákvörðun sinni um afnám fjármagnshafta og hvaða þjóðhagslegu þýðingu þær aðgerðir hefðu.

Allt var þetta til ágætrar fyrirmyndar. Nema kynningin. Því miður var hún um of lituð af löngun stjórnarflokkanna til að tíðindin lyftu undir fylgi þeirra og ykju traust landsmanna á óvinsælli ríkisstjórn — og kannski ekki síst hinum feikn óvinsæla forsætisráðherra. Þetta var bæði óþarft og heimskulegt. Það er nefnilega helst hið látlausa skrum í kringum ríkisstjórnina og ráðherrann sem grafa undan traustinu. Besta leiðin til að byggja traustið upp er að kynna almenningi stöðu mála án skrums og stóryrða; ræða málefni dagsins við þjóðina á hófstilltan hátt og án örvæntingar drukknandi manns.

Tíminn á eftir að leiða í ljós hversu góð niðurstaðan varð úr samráði við kröfuhafa. Reyndar vill forsætisráðherrann ekki kalla þetta samráð eða samninga; það er eitt af ruglinu sem fylgir kynningu hans á niðurstöðunni. Hann hafnar því meira að segja að talað hafi verið við kröfuhafa, en vill samt fallast á að samtöl hafi átt sér stað. En gleymum því rugli. Eftir stendur að endanleg niðurstaða er ekki ljós og nokkur tími mun líða þar til umræðan hefur kallað fram öll sjónarhorn á þetta stóra mál.

Ríkisstjórnin fór ekki ólíka leið við útfærslu á niðurgreiðslu úr ríkissjóði á húsnæðisskuldum. Þar vann hópur sérfræðinga að því að kortleggja vandann, safna saman mögulegri útfærslu og vega þær síðan og meta. Niðurstaðan var því miður kynnt á sama uppblásna máta. Markmið hennar virtist vera fyrst og fremst að gera sem mest úr ríkisstjórninni — og þá einkum hinum unga og óvinsæla forsætisráðherra — fremur en að draga fram í hverju tillögurnar fólust, hvaða hópur fengu niðurgreiðslu skulda og hver yrðu áhrif aðgerðanna á ríkissjóð og efnahagslífið. Löngun ráðherranna til að fólki líkaði vel við sig og aðgerðirnar brenglaði kynninguna svo að erfitt var að glöggva sig á aðgerðunum. Enn þann dag í dag liggur ekki fyrir hvaða fólk naut þessarar niðurgreiðslna. Og því vex og dafnar sá grunur að það hafi fyrst og fremst verið tekjuhæsta fólkið í samfélaginu.

En þetta hlýtur að standa til bóta. Þegar í ljós hefur komið að niðurgreiðsla húsnæðislána jók hvorki fylgi stjórnarflokkanna né traustið á ráðherrunum og þegar í ljós kemur að samningarnar við kröfuhafa þrotabúanna gera það ekki heldur; hljóta ráðherrarnir að endurskoða samtal sitt við þjóðina. Fólk sem kynnir öll mál sem enn eina sönnuna fyrir eigin ágæti missir áheyrendur. Á skömmum tíma hættir fólk að heyra orðaskil; allt hljómar sem sjálfshól, belgingur og mont.

Ef ráðherrarnir hætta að tala yfir þjóðinni um eigið ágæti en færu að ræða við hana á afslöppuðum nótum; er líklegt að þeir átti sig á mikilvægum hlut. Hann er sá að þótt ráðherrarnir hafi skilgreint niðurgreiðslu húsnæðislána og losun fjármagnshafta sem lykilmál þessa kjörtímabils; þá telur þjóðin önnur mál ekki síður mikilvæg og jafnvel enn meira aðkallandi. Það er mikilvægt fyrir ráðherranna að hlusta eftir þessu; þó ekki væri nema til að forðast þá gryfju sem fjármálaráðherrann gekk í eftir kynninguna á losun hafta þegar hann boðaði lækkun skatta sem næsta stóra verkefni stjórnarinnar.

Þegar stærsti hluti launafólks hefur verið í harðri kjarabaráttu og verkföllum undanfarna mánuði, þar sem annars vegar er lögð áhersla á hækkun skammarlega lágra lægstu launa og hins vegar hækkun allra launa svo kjör launafólks verði samanburðarhæf við kjör fólks í nágrannalöndunum; þá er afhjúpar það mikla pólitíska blindu ráðherranna að þeir átta sig ekki á að þetta eru einmitt brýnustu mál íslenskra stjórnmála.

Hvernig hefur ríkisstjórnin tekið á þeim?

Ég treysti mér ekki til að lesa samræmda stefnu út úr viðbrögðum, yfirlýsingum og aðgerðum ráðherranna. Þeir sömdu við lækna um þónokkrar kjarabætur til að forða landflótta læknanna en settu síðan lög á verkfall hjúkrunarfræðinga. Þeir fögnuðu tekjujöfnunaráhrifum af kjarasamningum Starfsgreinasambandsins en boðuðu svo lækkun tekjuskatts sem mun gagnast best fólki með tvöföld eða þreföld lægstu laun. Þeir svöruðu kaupkröfum með fullyrðingum um að ekki væri hægt að hækka laun nema að auka fyrst framleiðni en áttu þó engar áætlanir um aukna framleiðni — ég fæ mig ekki til að telja með orð forsætisráðherra um að virkjanir væru forsenda launahækkana) Þeir geta ekki rætt viðvarandi landflótta fólks á besta aldri þar sem slíkt stangast á við fullyrðingar um að allt sé á réttri leið og að þeir sem halda öðru fram séu neikvæðir og án tengsla við raunveruleikann. Þetta á reyndar við um margt annað sem tengist lífskjörum meginþorra fólks. Ráðherrarnir velja úr þær staðreyndir sem henta þeirri mynd sem þeir vilja gefa af hinu góða Íslandi, en reyna að breiða yfir þær staðreyndir sem falla ekki að þeirri mynd.

Það þarf ekki að skoða viðbrögð, yfirlýsingar og aðgerðir ráðherranna í þeim málum sem varða lífskjör almennings; til að átta sig á að ríkisstjórnin hefur enga skýra stefnu í þessum málum. Ráðherrarnir reyna að bregðast við þeim frá degi til dags með brjóstvitinu einu að vopni. Ráðherrarnir reyna að gera sem minnst úr vandanum og virðast vonast til að hann hverfi af sjálfum sér. Viðbrögð þeirra eru fálmkennd og mótsagnakennd og magna oftast vandann fremur en að leysa hann.

Auðvitað má halda því fram að þetta sé einmitt skýr stefna. Svona hegðaði Davíð Oddsson sér í flestum málum. Í stað þess að leggja fram stefnu sína og vinna henni fylgi lét hann reika á reiðanum þar til staðan var orðin svo ömurleg að fólk var tilbúið að hlusta á þær lausnir sem Davíð vildi alla koma í gegn. Heilbrigðiskerfið var þannig látið grotna niður þar til farvegur skapaðist fyrir stóraukna einkavæðingu. Kjör kúabænda voru látin versna svo að þeir neyddust til að selja kvóta sinn fyrirtækjum sem vildu hasla sér völl í búrekstri. Skorið var niður í grunnskólum til að skapa þörf meðal foreldra fyrir að senda börn sín í einkaskóla; fyrst betur efnaðir foreldrar en meginþorrinn þegar fólk verður farið að líta á skólagöngu í opinbera skóla sem merki um veika fjárhagsstöðu og lítinn metnað fyrir hönd barnanna. Og svona má lengi telja. Stefnan var ljós þótt hún væri ekki orðuð. Hún var ekki orðuð vegna þess að hún naut sáralítils fylgis og hefði aldrei verið samþykkt. Verið var að þröngva upp á samfélagið framtíð sem það fólk kærði sig alls ekki um.

Ef við reynum að greina stefnu ríkisstjórnarinnar í kjaramálum og lífskjörum almennings út frá aðferðum Davíðs; þá fellst hún í að halda eins mikið aftur af launahækkunum og kostur er. Gagnvart opinberum starfsmönnum er markmiðið að opinber þjónusta skaðist svo að almenningur sættist á aukna einakvæðingu. Gagnvart verkafólki er markmiðið að halda launum niðri og flytja fremur inn vinnuafl frá löndum þar sem verkafólk býr við enn lakari kjör í stað þess að hækka kjör þeirra sem vinna þessi störf í dag. Litið er á landflótta sem jákvætt fyrirbrigði. Hann gefur annars vegar möguleika á að skipta út vinnuaflinu (kröfuharðir Íslendingar flýja en réttindalitlir nýbúar koma í staðinn) og hins vegar að draga úr þrýstingi frá menntaðri hluta vinnuaflsins um störf við hæfi og kröfum um samkeppnishæfni íslensks samfélags. Samanlagt má kalla þessa stefnu Verstöðina Ísland. Markmiðið er að halda niðri kjörum meginþorra launafólks en beina arðsemi af auðlindum lands og sjávar til fárra fyrirtækja og fjölskyldna.

Ef við gerum hins vegar ráð fyrir að ráðherrarnir vilji í raun og sannleik sjá hér rísa upp réttlátt samfélag sem stendur undir sambærilegum lífskjörum og í næstu löndum; og ef við gerum ráð fyrir að ráðherrarnir átti sig á hversu stórt slíkt verkefni sé; þá verðum við að leita svara um hvers vegna þeir taka ekki á þessu verkefni líkt og þeir gerðu varðandi niðurgreiðslu húsnæðisskulda og losun fjármagnshafta.

Hvers vegna skipar ríkisstjórnin ekki hóp kröftugra sérfræðinga til að kortleggja vandann? Bera saman kjör á Íslandi og í næstu löndum og virkni helstu grunnkerfa samfélagsins gagnvart almenningi; húsnæðiskerfisins, námslánakerfisins, heilbrigðiskerfisins, lífeyrissjóðakerfisins og svo framvegis. Afla síðan upplýsinga um hvernig aðrar þjóðir hafa aukið framleiðni í fyrirtækjum og stofnunum. Og ekki síður hvaða leiðir aðrar þjóðir hafa farið í að bæta almenn lífskjör? Að því búnu þyrfti hópurinn að eiga samtöl við helstu hagsmunaaðila um afstöðu þeirra til einstakra leiða. Hópurinn gæti fengið heimild til að beita jafnt gulrótum og sleggjum; boðið fyrirtækjum umbun fyrir samstarf en hótað þeim hækkun skatta eða þrengri starfsskilyrðum ef þau spila ekki með. Að því búnu gæti hópurinn lagt fram áætlun um hvernig ríkisstjórnin hygðist stórbæta almenn lífskjör á næstu árum. Ekki væri verra ef í sömu mund bærust viljayfirlýsingar frá stærstu fyrirtækjum, verkalýðshreyfingu, bönkum og öðrum hagsmunaaðilum um framlag þeirra til þessarar áætlunar.

Þá gætu ráðherrarnir aftur skundað niður í Hörpu og haldið ræður undir glærusýningu um bjartari framtíð og blóm í haga.

Páll postuli, sá mikli áróðursmeistari, sagði eitt sinn: Reynið allt og haldið því sem gott er. Ef ráðherrarnir færu að ráðum hans myndu þeir nota aftur þær aðferðir sem gáfust vel við mótun skuldaniðurgreiðslna og áætlun um losun hafta en leggja af þær aðferðir sem hafa litlu skilað í lífskjaramálum — og í raun aðeins aukið við vandann. Það eina sem ráðherrarnir þurfa að gera er að færa almenn lífskjör á Íslandi í sama áhersluflokk í hausnum á sér og losun hafta og niðurgreiðslu húsnæðislána. Ef ráðherrarnir teldu lífskjör á Íslandi jafn mikilsvert mál og hin tvö myndu þeir auðvitað nota sambærilegar aðferðir til að bæta þau.

Við gætum sagt sem svo að ráðherrarnir ættu að taka Jón Gnarr á þetta. Hann vildi láta sérfræðinga um flókin og erfið mál en nota eigið brjóstvit á mál sem það réð við; sanngirni í samskiptum fólks og samstöðu með þeim sem minna mega sín. Þar sem löngun ráðherranna eftir viðurkenningu og samþykki fer ekki fram hjá neinum má benda á að þessi leið reyndist Jóni Gnarr vel. Hún gerði hann að vinsælasta stjórnmálamanni landsins. Og Jón Gnarr opnaði í leiðinni augu fólks fyrir því að líklega fer alls ekki best á því að stjórnmálamenn séu að vasast of mikið í lausnum mála. Þeir eiga að áhersluskipa málum og móta markmið en þeir eiga ekki að móta lausnirnar. Þegar lausnirnar liggja fyrir eiga þeir hins vegar að skapa sátt um þær.

Ef ráðherrarnir vilja bæta lífskjör á Íslandi og gera landið samkeppnishæft um vinnuafl við helstu nágrannalönd ættu þeir því að leita sem fyrst uppi einhvern Lee Buchheit til að afla upplýsinga um vandann, leita lausna og samkomulags um leiðir til að vinna Ísland út úr þessum stærsta vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir.

Og það liggur á. Ekki aðeins fyrir fólkið sem býr við þessi löku lífskjör heldur líka ráðherranna í ríkisstjórninni. Meðan þeir mæta mikilvægasta málinu með úrræðaleysi og áhugaleysi er engin von til að traust á þeim vaxi.

Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is

The post Einhvern Lee Buchheit í kjaramálin appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Ég er víst ekki úr stáli

$
0
0

Björk Eiðsdóttir var flutt á spítala eftir að hún fékk heilablóðfall fyrir fimm vikum. Hún var þá nýbúin að skila nýjasta hefti MAN í prentun eftir að hafa skipt út forsíðuviðtali við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á síðustu stundu. Læknar hafa ekki fundið neina skýringu á heilablóðfallinu og er Björk á batavegi. Hún er einstæð þriggja barna móðir sem hefur látið drauma sína rætast með því að gefa út eigið blað og stýra eigin sjónvarpsþætti. Björk hefur alltaf verið heilsuhraust en heilablóðfallið hefur sýnt henni að hún er ekki úr stáli. 

„Ég var búin að vera með gríðarlegan höfuðverk í tvo daga, fá svo slæmt svimakast að ég þurfti að leggjast í gólfið til að jafna mig. Samt hvarflaði aldrei að mér að ég væri með heilablóðfall heldur ákvað ég að kaupa bara meiri verkjalyf. Það er ótrúlegt hvað maður getur verið blindur á eigin veikindi,“ segir Björk Eiðsdóttir, ritstjóri og eigandi tímaritsins MAN og umsjónarmaður sjónvarpsþáttarins Kvennaráð á Hringbraut.
Björk var flutt á spítala fimmtudaginn 7. maí og eftir ítarlegar rannsóknir kom í ljós næsta dag að hún hafði fengið heilablóðfall, eða nánar tiltekið svokallað blóðþurrðarslag við mænukylfuna. „Ég sagði strax við læknana að ég væri almennt undir miklu álagi en það skipti nákvæmlega engu máli í þessu samhengi. Þetta heilablóðfall er algjörlega óútskýrt, engar skemmdir voru sýnilegar á heilanum og ég er bara ótrúlega heppin að ekki fór verr,“ segir hún.

Björk býr í Hlíðunum ásamt þremur börnum sínum; Blævi 18 ára, Birtu 14 ára og Eiði 9 ára. Við Björk erum sannarlega ekki ókunnugar og fórum til að mynda saman í nokkur viðtöl árið 2012 þegar við unnum sitt hvort málið sama daginn fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Ég tók líka viðtal við Blævi þegar hún vann íslenska ríkið í héraðsdómi árið 2013 sem komst að þeirri niðurstöðu að hún mætti bera nafnið sem henni var gefið sem ungbarni en þangað til hafði hún heitið „Stúlka“ á opinberum skjölum. Það er seigt í þessari fjölskyldu og nú er komið að viðtali við Björk. Þegar hún tekur á móti mér blasir við poki frá hönnuðinum Andreu á eldhúsborðinu. Ég sé ennfremur glitta í lógó Andreu á fatnaði Bjarkar sem hefur svar á reiðum höndum þegar ég minnist á það: „Ég fékk heilabóðfall! Ég má „tríta“ mig aðeins,“ segir hún og skellir upp úr.Björk Eiðsdóttirí viðtali um heilablæðinguna ofl.

Lá í gólfinu vegna svima

Þrátt fyrir að vera að stíga upp úr alvarlegum veikindum er stutt í húmorinn og hún grínast með að heilablóðfallið hefði ekki getað komið á betri tíma hvað varðar útgáfuna á MAN.
„Blaðið var að koma út þennan sama dag og því mánuður í næsta tölublað, þannig að þetta var besti mögulegi tíminn. Gríðarlegri vinnutörn var að ljúka, þetta var blaðið þar sem ég skipti um forsíðu á síðustu stundu, hafði Davíð Þór Jónsson á forsíðunni í staðinn fyrir Hönnu Birnu Kristjánsdóttir, og það þurfti að vinna nýtt efni í blaðið eftir prentskil hjá prentsmiðjunni sem sýndi okkur afskaplega mikla þolinmæði og skilning rétt eins og núna í þessum veikindum mínum. Auður Húnfjörð, sem á blaðið með mér og er auglýsingastjóri þess og framkvæmdastjóri, var farin í langþráð vikufrí til Tenerife og ég notaði dagana frá því við skiluðum blaðinu til að vinna í haginn, nokkuð sem ég hef sjaldan gert af jafn miklum krafti því ég vildi hafa sem mest tilbúið þegar Auður kæmi aftur, endurnærð. Ég var búin að bóka næsta forsíðuviðtal og skipuleggja blaðið í stórum dráttum. Á þriðjudeginum byrja ég að fá mikinn höfuðverk og verk í hálsinn vinstra megin. Ég hef aldrei þjáðst af vöðvabólgu en fannst þetta passa við þær lýsingar sem ég hef heyrt frá öðrum, varð sannfærð um að ég væri komin með vöðvabólgu og tók inn íbúfen sem er bólgueyðandi. Á fimmtudeginum er ég enn með höfuðverk en þrjóskast við að halda áfram að vinna, í þetta skiptið var ég einnig að undirbúa næsta þátt af Kvennaráðum sem við tökum alltaf upp í hádeginu á föstudögum.

Skyndilega fæ ég aðsvif, verð virkilega hrædd og kalla á Birtu sem var inni í herbergi. Ég hreinlega treysti mér ekki til að vera ein og fannst ég vera búin að missa öll tök á sjálfri mér. Öll skynjun var orðin ýkt og ég get helst lýst líðaninni eins og taugakerfið væri utan á mér. Birta kom hlaupandi og Eiður líka. Þau voru eðlilega bæði mjög skelkuð að sjá mig svona, og það endaði með því að ég þurfti að leggjast í gólfið í um tíu mínútur til að jafna mig. Sviminn lagast mikið en brátt fer ég að upplifa hálfgerða lömun og mikla verki vinstra megin í andlitinu og upp í höfuð. Ég spurði Birtu hvort ég væri eitthvað undarleg í framan, hún sér að vinstra augað er orðið lokaðra en hitt og hún hreinlega skipar mér að fara til læknis eftir aukahvatningu frá Birnu vinkonu minni sem grunaði strax heilablóðfall eftir að ég lýsti einkennunum í símtali. Enn var ég algjörlega lokuð fyrir því að eitthvað alvarlegt væri að en ákvað að keyra á Læknavaktina og tók krakkana með. Birta er mjög ákveðin við mig á leiðinni og segir: „Mamma, þú verður að hlusta betur á mig. Þú veist að ég ætla að verða skurðlæknir þegar ég verð stór og ég er búin að horfa mjög mikið á Gray´s Anatomy.“ Hún hefur fengið mikið af verðskulduðu hrósi eftir þetta,“ segir Björk.

Myndin sem Björk sendi Birnu vinkonu sinni og Birnu grunaði þá strax að Björk hefði fengið heilablóðfall, eftir að hafa heyrt hana lýsa fleiri einkennum.

Myndin sem Björk sendi Birnu vinkonu sinni og Birnu grunaði þá strax að Björk hefði fengið heilablóðfall, eftir að hafa heyrt hana lýsa fleiri einkennum.

Á Læknavaktinni byrjaði sviminn aftur og ágerðist hratt, Björk settist nánast ofan á aðra konu á biðstofunni þegar hún ætlaði að fá sér sæti og þegar læknirinn lét hana gera ýmsar æfingar til að kanna skynjun og samhæfingu varð ljóst að þetta var eitthvað alvarlegt. „Ég gat gert sumar æfingarnar en þær urðu alltaf erfiðari. Þegar ég síðan gat ekki sett hægri fótinn fyrir framan vinstri til að ganga beina línu vissi ég að það var mikið að og tárin hreinlega byrjuðu að streyma niður kinnarnar. Blóðþrýstingurinn var einnig gríðarlega hár eða 114/189 sem er fylgikvilli blæðingarinnar en ég hafði aldrei mælst með hækkaðan blóðþrýsting áður. Læknirinn krafðist þess að ég færi með sjúkrabíl upp á Landspítalann og sagði að ég yrði að láta sækja börnin. Til að minnka áhyggjur þeirra sagðist ég bara ætla að fara í öðrum bíl og vinkona mín kom og sótti þau áður en hringt var á sjúkrabíl. Þegar sjúkraflutningamennirnir komu mótmælti ég í fyrstu að leggjast á börurnar, fannst það fulldramatískt og sagðist alveg geta gengið með sjálf út í sjúkrabíl ef þeir báðir styddu mig en þeir hlýddu lækninum betur en ég. Ég man að þegar þeir rúlluðu mér á börunum inn á slysó sagði annar þeirra við mig: „Heyrðu, ert þú ekki þessi úr þættinum Köld eru kvennaráð?,“ sem ég játti og gat brosað að því innra með mér að þátturinn væri greinilega búinn að „meikaða“ fyrst sjúkraflutningamaðurinn þekkti mig þó hann hefði jú ekki alveg náð nafni þáttarins.“

Þegar á spítalann var komið var ég sett í heilaskanna, hjartalínurit, röntgenmyndatöku og blóðprufur, en allt kom fyrir ekki – læknarnir vissu ekki hvað amaði að mér. Morguninn eftir skoðaði taugasérfræðingur mig sem grunaði strax að æðin í hálsinum hefði rofnað og bað um að ég yrði sett í segulómun, nokkuð sem var ekki víst að ég gæti farið í strax vegna verkfalla, en í henni kom í ljós að ég var með heilablæðingu. Ég var með rofna æð, sem heitir vertebralis og liggur upp að litla heila og mænukylfunni, og það er ástæðan fyrir því að ég fékk þessi einkenni sem kallast Wallenberg heilkenni og ég er enn að kljást við að einhverju leyti, er til dæmis með brenglaða skynjun í hægri hluta líkamans.“

Áskorun að sleppa takinu

Nánustu vinir og ættingjar Bjarkar brugðust skjótt við og lögðust allir á eitt um að hún þyrfti hvorki að hafa áhyggjur af börnunum né vinnunni. Þegar ljóst var að batinn tæki tíma hafði æskuvinkona Bjarkar, Selma Björnsdóttir, samband við barnsföður Bjarkar sem á með henni tvö yngri börnin og býr í Noregi, og hann kom til Íslands næsta dag og hefur séð um börnin að mestu síðan þá. Björk lá á taugadeild í 8 daga og til stóð að hún færi í endurhæfingu á Grensási en hefur enn ekki komist að þar vegna verkfalla.

„Ég er búin að taka því mjög rólega, miðað við mig. Ég hef lélegan fókus og lítið úthald og þarf í fyrsta sinn að leggja mig yfir daginn og oft í marga klukkutíma,“ segir hún. „Fólk er duglegt að segja mér að hlusta á líkamann, ég svara á móti að ekkert annað sé í boði. Þessa dagana og líklega næstu mánuði er það hann sem ræður för, ekki ég. Það er mjög áþreifanlegt og getur verið erfitt að kyngja. Og þessi mikla félagsvera sem ég er, get til að mynda get ekki verið lengi í margmenni því áreiti virkar mjög lýjandi.“

Björk segist ekki fyllilega hafa áttað sig á orðum læknisins þegar hann útskýrði fyrir henni niðurstöðurnar en vinur hennar sem hafi meira vit á slíku sérfræðitali hafi sem betur fer verið viðstaddur og hans viðbrögð: „Það eru frábærar fréttir!“ hafi létt á áhyggjunum. Hann hafi svo bætt við að fréttirnar væru góðar þar sem þá væri ljóst að einkennin gengju til baka auk þess sem engar skemmdir hafi komið í ljós á heilanum.
„Ég óttaðist helst að ekki fyndist hvað ylli þessu og ég yrði áfram svona en ég gat ekki einu sinni gengið óstudd, og varð því mjög létt þegar læknirinn sagði að ég væri heppin og ætti að jafna mig að fullu. Ég hef alltaf verið mjög heilsuhraust og aldrei neitt amað að. Það var mikið áfall þegar fótunum er svona kippt undan manni. Mamma systranna Selmu og Birnu, vinkvenna minna, sem ég hef þekkt frá því ég var stelpa, sagði við mig þegar hún kom á spítalann: „Jæja, Björk. Þú ert þá ekki úr stáli eftir allt saman.“ Það var mikil áskorun fyrir mig að sleppa takinu og þiggja alla þá góðu hjálp sem ég fékk. Barnsfaðir minn bjó á mínu heimili með krakkana, það var hluti af því að sleppa takinu og var hreinlega frábært. Þetta var það besta fyrir börnin sem fengu þannig að vera á sínu heimili og eitthvað jákvætt og gott kom í staðinn fyrir erfiðleikana; mamma fór á spítalann en pabbi kom heim. Hann fór svo með þau til Noregs í þessarri viku og verða þau þar fram í ágúst. Ég held að það sé best fyrir alla,“ segir hún.

„Þetta er mikill lærdómur og til dæmis lét ég foreldra mína ekki vita að ég lægi á spítala fyrr en sólarhring síðar og hef fengið þónokkrar áminningar frá þeim um að það séu ekki ásættanleg viðbrögð. Ég er þeim sammála núna, en á þeirri stundu vildi ég einfaldlega ekki valda neinum áhyggjum og var því frekar ein, með bullandi áhyggjur,“ segir hún og hristir höfuðið.

Björk tók „selfie“ á sjúkrahúsinu til að eiga vitnisburð um spítalavist eftir heilablóðfall. Hér sést berlega munurinn á hægri og vinstri hluta andlitsins.

Björk tók „selfie“ á sjúkrahúsinu til að eiga vitnisburð um spítalavist eftir heilablóðfall. Hér sést berlega munurinn á hægri og vinstri hluta andlitsins.

Björk segir það hafa verið sérlega erfitt að taka því að hún hafi fengið heilablóðfall því hún hafi alltaf hugað vel að heilsunni, jafnvel þó læknar sögðu að svona gæti gerst án nokkurrar raunverulegrar skýringar. Hún er virk í hreyfingu, hefur gengið á þónokkuð mörg fjöll og gekk til að mynda á Hvannadalshnúk árin 2012 og aftur 2013, fer í Tabata-tíma þrisvar í viku, hjólar og reynir að passa upp á að ná góðum svefni og borða skynsamlega. Þegar fregnir af veikindunum tóku að breiðast út voru það fyrstu viðbrögð margra að Björk hlyti að hafa unnið of mikið og er Björk ósátt við það. „Ég held að karlmaður í sömu stöðu hefði ekki fengið þessi viðbrögð. Ég held að konum leyfist ekki að vinna jafn mikið og körlum því innst inni finnst okkur að konur eigi að verja meiri tíma í að sinna heimili og fjölskyldu. Ég hef alltaf verið orkumikil og virk, og það hentar mér að vinna mikið enda er vinnan mín virkilega skemmtileg og gefur mér mikið. Ég hugsa líka vel um börnin mín, við erum mjög náin og ég vona að ég sé þeim góð móðir þó ég sé ekki alltaf með heitan kvöldmat eða heimabakað. Sumir lögðu til að við Auður myndum ekki gefa út júníblað af MAN vegna veikinda minna en það kom ekki til greina í okkar huga, enda erum við með fjölda hæfs fólks í vinnu sem kemur að hverju tölublaði og berum skyldur til lesenda okkar. MAN er okkar fyrirtæki, ég borga mín eigin laun og allir sem reka heimili einir vita að það er ekkert hægt að sleppa innkomu í einn mánuð.“

Fjölskyldan fór saman í myndatöku þegar Birta fermdist. Hér er Birta með Björk, Eið og Blævi. Mynd/Helgi Ómarsson

Fjölskyldan fór saman í myndatöku þegar Birta fermdist. Hér er Birta með Björk, Eið og Blævi.
Mynd/Helgi Ómarsson

Svik Hönnu Birnu

Björk segir það einmitt hluta af því að vera ábyrg móðir að vera börnum sínum góð fyrirmynd og sýna þeim í verki að stundum þarf blóð, svita og tár til að láta drauma sína rætast. „Mig hafði lengi dreymt um að gefa út mitt eigið tímarit og mig hafði dreymt um að stjórna mínum eigin sjónvarpsþætti. Börnin mín eru einkar sjálfstæð en það auk góðs sjálfstrausts held ég að sé mikilvægt veganesti út í lífið og legg ég mikla áherslu á hvoru tveggja í uppeldinu.“

Björk sýndi sjálf mikið sjálfstæði og dirfsku þegar hún henti forsíðuviðtali maí tölublaðs MAN við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í heilu lagi þegar prentun blaðsins átti að vera hafin. Fjallað var um málið í fjölmiðlum en Hanna Birna fór í viðtal í Íslandi í dag þegar MAN átti að vera farið í prent og sagði allt það sem hún hafði sagt í viðtalinu í MAN og meira til. „Á 10 ára ferli í blaðamennsku hef ég aldrei lent í öðru eins. Setningar sem hún sagði í viðtalinu hjá okkur endurtók hún í Íslandi í dag. Hún sagði meira að segja forsíðufyrirsögnina orðrétta. Það gefur auga leið að það einfaldlega gengur ekki upp að vera í samskonar viðtali á tveimur stöðum á sama tíma. Við gerðum með okkur sama samkomulag og við gerum við alla, að fólk sé ekki í viðtölum annars staðar í minnst tvær vikur frá því blaðið kemur út. Í hennar tilviki var hún að koma aftur á þing eftir lekamálið og því var það niðurstaðan að hún myndi fara í fréttaviðtöl en engin persónuleg viðtöl.“
Björk segir að Hanna Birna hafi sent henni sms daginn fyrir viðtalið í Íslandi í dag og því ákvað Björk að bíða með prentun á MAN sem annars var algjörlega tilbúið til prentunar og horfa á þáttinn. Spurð hvort hún líti á þetta sem svik Hönnu Birnu við sig segir hún: „Auðvitað eru þetta svik. Hún vissi að ég ætlaði að taka afstöðu eftir áhorfið og eftir það sendi ég henni póst um að þetta viðtal myndi ekki birtast,“ segir Björk sem síðan hefur ekki átt samskipti við Hönnu Birnu. „Hlutirnir hafa tilhneigingu til að fara vel á endanum,“ bætir hún við.

Grimm samkeppni

Í ljósi þess að MAN er lítið fyrirtæki í eigu tveggja kvenna segir Björk að það hafi verið stór biti að henda forsíðuviðtali, auk forsíðumyndatöku sem fjöldi manns kemur að. „MAN verður tveggja ára í september. Við erum lítið fyrirtæki í samkeppni við útgáfurisana Birtíng og 365 á tímaritamarkaði, og við gerum miklar kröfur um að blaðið okkar sé vandað og spennandi. Engu að síður þurfum við að reyna að halda kostnaði í lágmarki. Við Auður erum bara nýhættar að sjá um dreifinguna sjálfar. Blaðinu var dreift fyrir okkur úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu fórum við tvær mánaðarlega í allar verslanir með MAN. Þetta var orðið fullmikið aukaálag ásamt öllu hinu sem viðkemur rekstrinum þegar komið var á annað ár en við getum nú leyft okkur að láta aðra sjá um dreifinguna. Það góða við að fara sjálfar á alla sölustaði er að við höfum getað tekið virkan þátt í baráttunni fyrir staðsetningu, sem skiptir öllu þegar tímarit eru seld í verslunum. Við verðum oft varar við að tímarit samkeppnisaðilanna eru sett ofan á okkar, þannig að þau sjást ekki. Það er ekkert leyndarmál að við höfum þurft að berjast við Birtíng, og svo núna líka 365. Samkeppnin er grimm og þess vegna förum við tvær reglulega í verslanir til að tryggja að okkar tímarit sé á réttum stað og sýnileg. Svo finnst okkur líka svo gaman að vera í góðum tengslum fólkið okkar og vera á ferðinni.“

Ég er búin að lofa að keyra Björk á skrifstofu MAN í Ármúla eftir viðtalið. Hún mætti þangað í fyrsta sinn viku áður, eftir þriggja vikna frí, og er enn ekki farin að keyra bíl. Björk segist hafa verið að taka því rólega en ég bendi henni á að það sé ekki beint slökun að hafa skilað tímariti í prent og tekið upp nýjan þátt af Kvennaráðum, jafnvel þó hún hafi lagt sig á skiladegi MAN. „Ég hef jafnað mig ótrúlega fljótt en ég hlusta sannarlega á líkamann, sem segja má að leyfi mér ekki annað. Það er alvarleg áminning að fá heilablóðfall. Þó ég grínist stundum með þetta þá tek ég þessu af fullri alvöru og ætla bara að taka eitt skref í einu. Eða tvö.“

Erla Hlynsdóttir
erla@frettatiminn.is

The post Ég er víst ekki úr stáli appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Eldur í húsi Bílaleigu Akureyrar

$
0
0

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út á fjórða tímanum eftir að tilkynnt var um eldsvoða í húsi Bílaleigu Akureyrar. Bílaleigan er í Skeifunni 9. Eldurinn kviknaði á efri hæð hússins en um þessar mundir er unnið að endurbótum á þaki þess. Reyk lagði frá þaki hússins um tíma.

Slökkviliðið í SkeifunniEuropcarHöldur

Lögreglan lokaði nærliggjandi götum og tveir bílar frá Slökkviliðinu komu á vettvang. Þeir voru enn á staðnum þegar klukkan var farin að nálgast fjögur en eldurinn virðist þó hafa verið minniháttar.

Bílaleiga Akureyrar er við hliðina á staðnum þar sem stórbruni varð í efnalauginni Fönn sumarið 2014.

Slökkviliðið í Skeifunni Europcar Höldur

 

The post Eldur í húsi Bílaleigu Akureyrar appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Gefa hjúkrunarfræðingum 500 tónleikamiða

$
0
0

KÍTÓN – Konur í tónlist – og afmælisnefnd 100 ára kosningaréttar kvenna hafa ákveðið að bjóða hjúkrunarfræðingum að fagna kvennréttindadeginum á hátíðartónleikunum „Höfundur óþekktur“ sem fara fram í Hörpu að kvöldi 19. júní.

„Við sáum fram á að geta ekki fyllt salinn með keyptum miðum og ég fór að hugsa um að bjóða fleiri embættisfólki alþingismönnum og fleirum – en svo fannst mér réttara að fylla salinn með þeim sem eiga það skilið. Hjúkrunarfræðingar fá aldrei boðsmiða á neitt og eru nýbúnir að fá yfir sig verkfallslög,“ segir Diljá Ámundadóttir, verkefnastjóri tónleikanna.

Á vefsíðu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga kemur fram að 500 miðar séu í boði. „Hægt er að nálgast miðana í miðasölu Hörpu frá og með núna. Hjúkrunarfræðingar er beðnir um að koma með auðkenniskort sitt og sýna í miðasölunni. Hámark 2 miðar á mann. Fyrstur kemur fyrstur fær,“ segir þar ennfremur.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hvetur hjúkrunarfræðinga til að nýta sér gjöfina og þakkar aðstandendum tónleikana fyrir stuðninginn.

Íslenskir kvenhöfundar í tónlist eru í forgrunni á tónleikunum með sérstökum kynjasnúningi þar sem karlflytjendur syngja lög kvenhöfunda við undirleik og hljómsveitarstjórn kvenna. Bein útsending verður á RÚV frá tónleikunum en meðal lagahöfunda eru Björk Guðmundsdóttir, Emilíana Torrini, Hafdís Huld, Ingibjörg Þorbergs, Lay Low, Lára Rúnars, Mammút, Ólöf Arnalds, Ragnheiður Gröndal, Samaris, Sóley, Svala Björgvins, Védís Hervör, Ylja og Þórunn Antonía. Meðal flytjenda eru síðan Björgvin Halldórsson, Bubbi Morthens, Friðrik Ómar, Friðrik Dór, Helgi Björns, Jón Jónsson og Páll Óskar.

Nánari upplýsingar um tónleikana eru hægt að nálgast á vef Hörpu með því að smella hér. 

Facebook-slóð viðburðarins: Facebook.com/events/767536713367641/

The post Gefa hjúkrunarfræðingum 500 tónleikamiða appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Hverju lofaði Sigmundur?

$
0
0

Ég slysaðist til að skrifa þetta á vegginn minn á Facebook í morgun:

Þegar Sigmundur Davíð talaði í kosningabaráttunni um 300 milljarða króna svigrúm og líklega miklu meira en það; átti hann við þá fjármuni sem mögulegt væri að færa frá föllnu bönkunum til heimila sem höfðu borið mestan skaðann af Hruninu. Samkomulagið við þrotabúin snýst hins vegar um að gera um 450-500 milljarða króna óvirka í hagkerfinu, fyrst og fremst með því að borga niður skuldir ríkissjóðs við Seðlabanka. Forystumenn annarra stjórnmálaflokka en Framsóknarflokksins vöruðu almenning við yfirlýsingum Sigmundar Davíðs og sögðu þær háskalegt skrum. Það hefur nú komið í ljós að þeir höfðu rétt fyrir sér en Sigmundur Davíð rangt. Miðað við samninga við kröfuhafana er svigrúmið innan uppgjörs þrotabúanna til að bæta heimilunum í landinu skaðann af Hruninu akkúrat núll. Skattgreiðendur, en ekki þrotabú föllnu bankanna, munu greiða kosningaloforð Framsóknar. Það má svo benda á að stór hluti þess sem þrotabúin láta af hendi rakna er hagnaður sem orðið hefur til vegna ávöxtunar eigna búanna eftir Hrun og innan hafta; meðal annars vegna ógnargróða nýju bankanna, fasteignabólunnar og annarra sjúkdómseinkenna íslensks efnahagslífs undir stjórn þessarar og síðustu ríkisstjórnar.

Eins og oft gerist voru einhverjir til að andmæla þessari túlkun á atburðarásinni, minnti að Sigmundur Davíð hefði sagt eitthvað annað fyrir kosningar og vildu túlka það með öðrum hætti sem gert var eftir kosningar. Af þessu spruttu nokkrar samræður. Í þær lagði Lára Hanna Einarsdóttir fram þetta myndbrot til að hressa upp á minni fólks.

Þarna segir Sigmundur Davíð meðal annars eftir að hafa bent spyrlunum á að það væri enginn vafi að þessir 300 milljarðar króna sem þeir nefndu væru til hjá þrotabúunum og miklu meira en það:

„Ég get ábyrgst það að þetta fjármagn verður að nýta til að koma til móts við heimilin.“

Mér finnst svolítið undarlegt að nú sé risin upp deila um hvort Sigmundur Davíð hafið lofað að sækja fé til þrotabúanna og færa það heimilunum í landinu. Það fór líklega ekki fram hjá neinum að kosningabaráttan 2013 snerist nær öll um þetta loforð. Eftir kosningarnar var það almennt og viðurkennt mat að rekja mætti kosningasigur Framsóknar einmitt til þessa loforðs. Ég man ekki til þess að nokkur hafi haldið því fram að fylgisaukningu Framsóknar mætti rekja til þess að Sigmundur Davíð hafi lofað að færa fé úr þrotabúunum yfir til Seðlabanka Íslands.

Í umræðunum við færsluna á Facebook benti ég á þessa grein sem Össur Skarphéðinsson, þá utanríkisráðherra, skrifaði stuttu fyrir kosningar. Þarna lýsir hann deilunni um svigrúmið svo:

Sigmundur Davíð ætlar að búa til 300 milljarða með nauðasamningum við kröfuhafa og nota til að lina þjáningar þeirra sem sitja uppi með stökkbreyttar skuldabyrðar verðtryggðra lána. Sigmundur er í góðu skapi þessi dægrin og á Sprengisandi lofaði hann líka að taka á sinn klakk byrði þeirra sem tóku myntkörfulán, en hafa ekki fengið næga úrlausn. Aldrei er að vita hvað honum tækist með góðra manna hjálp.

Sjálfur er hann kominn með nýjan sið og hættur við að „rýja“ kröfuhafana eins og Jón Steinsson kallar það, og segir réttilega að ríkið hafi tæki til að ná við þá samningum. Hann vill bara ekki að nokkur nema hann noti þau. En hver bjó til þessi tæki? Hvar var þá Sigmundur sjálfur? Var hann fylgjandi því að tækin, sem skapa nú þrýstinginn á kröfuhafana, yrðu búin til? Nei, hann var það ekki. – Þessi tæki, sem eru forsenda svigrúms í samningum við kröfuhafa, bjó núverandi stjórnarmeirihluti á Alþingi til með því að framlengja gjaldeyrishöftin án tímamarka og með því að fella í mars á sl. ári gjaldeyriseign þrotabúa föllnu bankana líka undir höftin.

Í þeirri stöðu eiga kröfuhafarnir þann grænstan að taka hugsanlegu tilboði stjórnvalda eða horfa á eftir þrotabúum gömlu bankanna í gjaldþrot og sjá þá allt sitt fé læst niður alllengur en lyst þeirra stendur til. Samningaleiðin, sem Sigmundur er nú orðinn sammála ríkisstjórninni um, er að sönnu harkaleg. En hún er fullkomlega boðleg miðað við efnahagsstöðuna og aðdraganda máls.

Það er hins vegar athyglisvert að þegar í harðbakkann sló treysti Sigmundur sér ekki til að taka þátt í að smíða þessi tæki. Hann og Framsókn studdu ekki framlengingu gjaldeyrishaftanna fyrr en í annarri atrennu. Sigmundur sat hjá með sínu liði. Stjórnarandstaðan notaði stöðu sína við þinglok á sínum tíma til að koma í veg fyrir að gjaldeyrishöftin yrðu í fyrstu atrennu framlengd lengur en til 2013. Það styrkti stöðu kröfuhafanna og veikti verulega stöðu Seðlabankans til að vinda ofan af snjóhengjunni. Í seinni atrennunni tókst að koma vitinu fyrir stjórnarandstöðuna. Þá loks náðist sú sterka staða gagnvart nauðasamningum sem nú er komin upp fyrir atbeina stjórnarmeirihlutans á Alþingi.

Þegar stjórnarmeirihlutinn lagði svo til að gjaldeyriseign búanna félli undir höftin, sem var algjört lykilatriði, þá sat Framsókn aftur hjá á Alþingi. Hún treysti sér semsagt ekki til að styðja ákvörðun um að bú bankanna færu undir höftin. Í dag er það þó önnur meginforsenda þess að hægt verði að skapa svigrúmið fræga með samningum. Í þeim slag var brynja Framsóknar tómlætið eitt.

Hitt er rétt, að það fjárhagslega svigrúm sem ríkisstjórnin ætlaði sér að skapa í fyllingu tímans með þessari aðferð átti að fara í að greiða niður skuldir ríkisins, og hugsanlega í að endurfjármagna Íbúðalánasjóð og tryggja þannig örugg og ódýr húsnæðislán til framtíðar. Sú aðgerð að nýta umrætt fjárhagslegt svigrúm til að treysta fjárhagslega stöðu ríkisins dregur úr þenslu til framtíðar og vinnur gegn áframhaldandi verðbólgu. Hinu er ég líka sammála, að við eigum óloknu verki gagnvart þeim fjölskyldum sem hafa horft á eignarhlut í heimilum sínum brenna upp í gengishruni – og þær gátu ekki séð fyrir.

Þeir sem vilja nota til þess verks svigrúmið fræga verða að hafa í huga að verulegur hluti af því mun felast í krónueign sem gæti komið í hlut ríkisins, og jafngilti seðlaprentun að koma henni út í hagkerfið. Ætli Sigmundur að fara þá leið, þá verður samhliða að grípa til ráðstafana sem til lengri tíma vinna gegn þenslu og tryggja þannig að sá ávinningur fórnarlamba hrunsins brenni ekki á nýju verðbólgubáli. Það er ekki hægt nema flytja inn þann stöðugleika sem felst í að taka upp evruna. Leið Sigmundar er því ekki fær, nema ganga í Evrópusambandið og opna þannig leið til að taka upp evruna. Það endatafl er ég til í að ræða.

Það verður líka að horfast í augu við þá spurningu, hvort það sé ábyrgt að lofa fólki úrlausn á grundvelli svigrúms, sem enn er fugl í skógi? Höfum hugfast að það getur tekið langan tíma að fanga þann fugl og koma í hús. Slitastjórnir og ráðgjafar sem hafa prívathagsmuni af því að nauðasamningar taki sem lengstan tíma munu finna hvert fótakeflið á fætur öðru til að velta á allar götur sem liggja til samninga. Lagaskrúbbið á samningunum eitt og sér, þegar þeir eru í höfn, gæti þar að auki tekið fast að ári til viðbótar. Trúir eðli sínu og yfirboðurum er heldur ekki ósennilegt að lagakrókamenn á vegum einhverra kröfuhafa muni neyta allra ráða til að tefja feril máls með lögsóknum.

Samningaleiðin, eins og Sigmundur vill núna fara, felur þar að auki í sér að opinber aðili þarf að kaupa bankana af kröfuhöfum, og selja þá síðar á markaði til að innleysa a.m.k. hluta af þeim hagnaði sem Sigmundur ætlar að hafa af gerningnum. Það mun væntanlega þurfa að gerast í áföngum og lengir því enn tímann þangað til fuglinn í skóginum verður hugsanlega höndum tekinn – og svigrúmið skapað. Varla ætlar Framsókn að fara að hætti pólitískra feðra sinna og selja það nýjum S-hópi, eða mönnum í teinóttum jakkafötum eins og síðast?

Punctum saliens er því að það er algerlega óvíst hvenær hægt er að innleysa svigrúmið sem næst með nauðasamningunum. Allt eins líklegt er að það verði ekki fyrr en eftir nokkur ár – jafnvel ekki fyrr en kjörtímabilið er á enda. Kemur þá að spurningu til Sigmundar: Er þá ekki betra að hefja ferðalagið með því að fara skjótvirkari leið, sem felur samt í sér að kröfuhafarnir eru teknir með inn í fjármögnun á aðgerðum til bjargar heimilum landsins? Hún gæti falist í því að skattleggja ofsagróða bankanna, sem kröfuhafarnir eiga að stærstum hluta, og höfðu á síðasta ári næstum 70 milljarða samanlagt í hagnað.

Þessi leið tryggir fjármögnun strax til að kosta aðgerðir fyrir verst settu skuldarana sem keyptu húsnæði með verðtryggðum lánum á bóluárunum fyrir hrun. Bankarnir eru að stórum hluta í eigu kröfuhafanna og þetta er því í raun aðeins önnur leið til að nýta það svigrúm sem verður til í samningum við þá – en hún er fljótvirkari, öruggari, og er ekki fugl í skógi. Hún virkar strax. Ef enn er féskylft til verksins þegar nauðasamningum lýkur í fyllingu tímans er hægt að sækja í svigrúmið. Ef ekki, þá gætum við Sigmundur líklega orðið sammála um að hugsanlegt svigrúm rynni til að lækka árlega vaxtabyrði ríkisins með því að greiða niður skuldir þess, eða/og sömuleiðis, að endurfjármagna Íbúðalánasjóð til að gera honum fært að lána ódýr og örugg lán inn í framtíðina. Þar með væri líka gengið frá kosningavíxli Framsóknar síðan 2003.

Ástæða þess að ég birti þessa grein alla er að í henni kemur ágætlega fram að nær allir frambjóðendur reyndu að tala um fyrir Sigmundi Davíð og fá hann ofan af loforðum um að sækja strax eftir kosningar fé inn í þrotabúin og færa það heimilinum í landinu. Það kemur líka ágætlega fram í þessari grein að hugmyndir Össurar eru miklu líkari þeirra leið sem síðan var farin en þeim aðferðum sem Sigmundur Davíð boðaði og Össur andmælir. Þetta er ekki eftiráskýring stjórnarndstöðunnar, sem vill svo gjarnan hafa kveðið Lilju Sigmundar Davíðs, heldur er þetta grein sem Össur skrifaði áður en Sigmundur Davíð lagði af stað í leiðangur sinn.

Það er því fráleitt að halda því fram að Sigmundur Davíð hafi einn séð þessa leið fyrir og barist einn fyrir henni gegn andmælum svo til allra annarra stjórnmálamanna, gott ef ekki landsmanna.

Eyjan.is tók skrif mín af veggnum á Facebook og birti á vefnum sínum. Þar leggur Jóhannes Þór, aðstoðarmaður Sigmundar, inn eftirfarandi athugasemd:

Það er furðulegt að Gunnar Smári virðist telja sig komast upp með að snúa sannleikanum á haus.

Í fyrsta lagi var því aldrei lofað að 300 milljarðar yrðu notaðir til að lækka verðtryggðar skuldir. Því var lofað að a) þetta svigrúm myndi myndast vegna slitabúa föllnu bankanna og b) að það svigrúm yrði nýtt í þágu heimilanna í landinu. Þetta er nákvæmlega það sem er að gerast, og reyndar gott betur.

Í öðru lagi þarf ekki að lesa neitt eftir framsóknarmenn til að fá staðfest að Sigmundur Davíð var eini stjórnmálaforinginn sem talaði um fyrir kosningar að þetta svigrúm myndi myndast — það er nóg að hlusta einfaldlega á fréttamenn RÚV í Forystusætisþættinum 10. apríl 2013 – þar segja þeir þetta ítrekað — þráendurtaka þetta reyndar. Þarf ekki frekari staðfestingar við.

Í þriðja lagi er óumdeilanlegt að 80 milljarðarnir sem leiðréttingin kostar koma allir frá bönkunum, hver einasta króna, með bankaskatti og stöðugleikaskatti. Þessi söngur Gunnars Smára (og annarra sem hafa þörf fyrir að tala þær aðgerðir niður) um að skattgreiðendur borgi skuldaleiðréttinguna sjálfir er einfaldlega röng. Hrein della.

Í fjórða lagi mun allt fjármagn sem kemur úr stöðugleikaskatti eða -framlagi nýtast íslenskum heimilum. Það mun verða nýtt til að vinna á móti gjaldeyrisútflæði og verja þannig lífskjör almennings og til að greiða niður skuldir ríkisins – hvort tveggja kemur öllum landsmönnum til góða – öllum heimilum landsins.

Ég man ekki betur en að helstu stjórnarandstæðingar hafi einmitt talað hvað mest fyrir því í kring um leiðréttinguna að það að greiða niður skuldir væri eitt það besta sem hægt væri að gera við fé – einmitt vegna þess að það komi öllum til góða. Það er stórfurðulegt að Gunnar Smári og aðrir snúi nú eigin málflutningi á hvolf þegar verið er að gera nákvæmlega það sem þeir hafa talað fyrir.

Eða nei, það er reyndar ekkert stórfurðulegt – það er bara pólitískur spuni. Eins og þessi málflutningur allur.

Jóhannes Þór er sem kunnugt er einskonar afruglari Sigmundar Davíðs. Þegar Sigmundur Davíð hefur sagt eitthvað sem ýfir upp andmæli, vekur forundran eða gengur fram af fólki kemur Jóhannes Þór iðulega með sína túlkun á ummælum Sigmundar Davíðs eða heldur því jafnvel fram að Sigmundur Davíð hafi alls ekki sagt það sem hann sagði. Í þessu svari heldur Jóhannes Þór því fram að Sigmundur Davíð hafi aldrei lofað kosningaloforði allra tíma — og því líklega ekki staðið við það heldur. Jóhannes Þór heldur því fram að Sigmundur Davíð hafi áskilið sér allan rétt til að meta sjálfur hvernig hagur heimilanna yrði best bættur — til dæmis með því að gera það með þeim hætti sem aðrir flokkar lofuðu í kosningabaráttunni en ekki með þeim hætti sem hann sjálfur lofaði.

En ég ætla ekki að andmæla skrifum Jóhannesar Þórs. Ég nenni því ekki. Þarna leikur hann þann eina leik sem hann kann; að ætla þeim sem andmæla einhverju sem ráðherrann hans segir eða gerir að vera þar af leiðandi á móti öllu sem ráðherrann hefur gert eða vill gera. Líka á móti þvi sem ráðherrann þykist vera að verja. Sigmundur Davíð er þannig ókljúfanlegt fyrirbrigði í huga Jóhannesar Þórs. Annað hvort fær maður hann allan eða ekki neitt. Hann er eins og ólétta. Annað hvort er maður með Sigmundi Davíð eða alls ekki. Ef maður samþykkir ekki allt ruglið sem vellur upp úr honum er maður líka mótfallinn því að þrotabúin verði látin borga útgönguskatt og mótfallinn því að hann verði notaður til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Svona einfeldningslegur og ofsóknarkenndur málflutningur er engum hollur, en það er eiginlega ólíðandi að hann skuli ríða húsum í forsætisráðuneytinu. Við eigum að geta gert kröfur um að ráðuneytið og þeir sem þar vinna geti átt í eðlilegum og málefnalegum orðaskiptum við fólk. Haldið sig við málefni en ekki stillt öllum málum upp sem sömu orustunni um Sigmund Davíð sjálfan.

Ég vil benda fólki á að lesa gömlu greinina hans Össurar og máta hana við fullyrðingar Jóhannesar Þórs um að enginn nema Sigmundur Davíð hafi talað um svigrúmið fyrir kosningarnar 2013. Reyndar þarf fólk ekki að lesa Össur; líklega geta allir sem fylgdust með kosningabaráttunni rifjað upp umræðuþætti sem snerust meira og minna um þetta svigrúm. Þannig að nauðsynleg umræða um samfélagsumbætur komust varla á dagskrá. Sem er sorglegt. Sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs endaði á að framkvæma þá leið sem svo til allir flokkar voru sammála um. Ef loforð hans um að færa féð frá þrotabúunum beint til kjósenda hefðu ekki ruglað umræðuna hefðu kjósendur mögulega getað hlýtt á innihaldsríkari stjórnmálaumræðu. Og þá hugsanlega ráðstafað atkvæðum sínum með gáfulegri hætti.

Tilboð Sigmundar Davíðs hefði átt að vera: Allir eru sammála um að svigrúmið verði notað til að lækka opinberar skuldir en ég vil taka 80 milljarða af því (10 milljörðum meira en Össur) og ráðstafa að mestu til tekjuhárra skuldsettra heimila. Ég efast um að svona raunsætt loforð hefði skilað Framsókn því fylgi sem loforðin um 300 milljarða plús úr þrotabúunum beint til heimilanna gerði. Almennt skyldu kjósendur loforð Sigmundar Davíðs með þeim hætti. Orð hans voru túlkuð sem loforð um ávísun í pósti stuttu eftir kosningar. Og Sigmundur Davíð gerði engar tilraunir til að leiðrétta þann skilning heldur notaði hvert tækifæri til að ýta undir hann.

Lára Hanna Einarsdóttir hefur tekið saman helstu ummæli Sigmundar Davíðs í umræðuþáttum með öðrum forystumönnum fyrir síðustu kosningar.

Þarna segist Sigmundur Davíð ekki aðeins ætla að greiða niður verðtryggð lán með fé frá hrægammasjóðum heldur líka að færa öðrum skuldugum þetta fé; fólki sem skuldaði myntkörfulán og líka fólki sem skuldar mikið án þess að eiga neinar eignir. Og líka leigjendum. Auk annarra heimila.

En loforð Sigmundar Davíðs um að færa fé frá þrotabúunum til heimilanna voru ekki þau einu óábyrgu sem hann lét falla í kosningabaráttunni.

Hér lofar hann að afnema verðtryggingu, hér lofar hann að hækka laun hjúkrunarfræðinga svo Ísland verði samkeppnisfært og þeir hverfi ekki úr landi og hérna lofar hann að bæta kjör leigjenda, aldraðra og öryrkja. Þeir sem nenna geta fundið fleiri loforð á þessari síðu, sem Sigmundur Davíð hefur ekki staðið við.

En Jóhannes Þór getur ábyggilega útskýrt fyrir okkur að í raun hafi Sigmundur Davíð staðið við þessi loforð öll og gott betur. Eða þá að hann hafi ekki lofað neinu þeirra. En samt staðið við þau.

Það virðist vera meginverkefni hans; að kynna mál með þeim hætti fyrir fólki að hlutur Sigmundar Davíðs sé sem mikilfenglegastur. Honum nægir ekki að kynna langþráð og að mestu ágætt samkomulag við kröfuhafa í þrotabú föllnu bankanna heldur vill hann kynna það með þeim hætti að það sé einstakur sigur fyrir Sigmund Davíð persónulega. Þetta eru ekki bara kjánalegar áherslur heldur í meginatriðum rangar. Leiðin sem var valin var leiðin sem Sigmundur Davíð vildi ekki fara. Leiðin sem Sigmundur Davíð vildi fara var ekki farin. Og að öllum líkindum er það hið besta mál bæði fyrir þjóðina og Sigmund Davíð.

Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is

The post Hverju lofaði Sigmundur? appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Sannaði að konur eru líka menn

$
0
0

Vigdís Finnbogadóttir bauð hefðunum birginn þegar hún bauð sig fram til forseta árið 1980. Hún segist hafa þurft kjark til þess að vera kona í framboði því á þeim tíma hafi það ekki verið til siðs að konur stigju fram á sínum eigin forsendum. Með framboðinu gekk henni það eitt til að sanna að kona gæti verið í forsetaframboði, rétt eins og karl. Sem hún gerði, og svo miklu meira en það. Vigdís er hvergi hætt að sinna sínum helstu ástríðum, verndun landsins, ræktun tungunnar, hitta fólk og hafa gaman að lífinu. 

Vigdís Finnbogadóttir, fyrsti kvenforseti mannkynssögunnar, hellir upp á kaffi í heimilislegu eldhúsi sínu á Aragötunni. Hún er nýkomin heim frá Frakklandi þar sem hún talaði á hátíðardagskrá við Sorbonne-háskóla. Sólin skín úti og tal okkar berst að ferðalögum, íslensku sveitinni og hversu gott það sé að komast í snertingu við náttúruna, þrátt fyrir að meiningin hafi verið að vinda okkur beint í að ræða kosningarétt kvenna.
„Fórstu nokkuð á hálendisfundinn um daginn, sem Landvernd skipulagði í Háskólabíói,“ spyr Vigdís sem er ekki nærri hætt að sinna því sem lengi hafa verið hennar helstu hugðarefni, að rækta andann og hitta fólk. Auk þess að vera heiðursdoktor í háskólum og stofnunum víðsvegar um heim er Vigdís verndari Landverndar og lét fundinn því að sjálfsögðu ekki fram hjá sér fara.

Konan með trén

„Það skiptir afar miklu máli fyrir æskuna að hún komist í snertingu við landið, þessa ættjörð okkar. Öll börn sem hafa til að mynda farið í berjamó og verið með náttúrunni, upplifað fjöl og firnindi, skynja þetta án þess að orða það við sjálf sig. Það er svo gaman að vera úti þar sem er fallegt. En náttúran á Íslandi er viðkvæm því við erum staðsett svo norðarlega. Við megum aldrei ganga á þessa náttúru heldur er það okkar hlutverk að hjálpa henni. Það má heldur ekki níðast á náttúrunni okkar því hún á svo stóran stað í hjartanu á okkur öllum. Menn átta sig stundum ekki á því að þeir kunni að vera að taka náttúruna frá okkur, þegar verið er að breyta henni með virkjunum og rafmagnsnetum. Þá er búið að taka svo mikið frá okkur af því sem lífið gefur okkur, fyrir hugann og hjartað. Við megum aldrei gleyma því að minna á mikilvægi náttúrunnar fyrir þjóðina,“ segir Vigdís og rifjar upp þegar hún ferðaðist um landið í forsetatíð sinni og gróðursetti tré.
„Þegar ég fór fyrst að heimsækja landsbyggðina frétti ég að það ætti að færa mér gjöf til minningar um heimsóknina. Ég er alin þannig upp að æ skal gjöf gjalda svo ég fékk þessa bráðsnjöllu hugmynd að gefa á móti eitthvað sem kæmi landinu til góða. Eitthvað sem bindur landið, því landið er að fjúka í burt. Svo ég ákvað að gefa þrjú tré í heimsóknum mínum um byggðirnar í landinu, eitt fyrir stelpur, eitt fyrir stráka og eitt fyrir ófæddu börnin. Í fyrstu þótti þetta tiltæki spaugilegt, sérstaklega kætti það blaðamenn sem fannst tiltækið í þá daga fjarstæðukennt, dæmigert fyrir kvenmann í embættiserindum á leið um landið, með tré.“ segir Vigdís og hlær að minningunni.

Ferð forsetans um Vestfirði hafin.

Kvennafrídagurinn breytti öllu

Við sitjum í fallegri dagstofunni og á blámáluðum veggjunum hangir myndlist og minningar. Pappírar og bækur standa í stöflum á öllum borðum. Mér leikur forvitni á að vita hvernig Vigdís lítur á þessi merku tímamót kvenréttinda, 100 ára kosningaafmæli kvenna. Þessi kona sem bauð öllum viðteknum venjum birginn þegar hún ákvað að taka áskorunum fjölda fólks og bjóða sig fram til forseta lýðveldisins, þá 50 ára gömul, einstæð móðir.
„Ég hefði auðvitað aldrei orðið forseti ef ekki hefði verið fyrir kvennafrídaginn,“ segir Vigdís þá. „Í forsetakosningunum, fimm árum síðar, fannst fólki að það ætti að vera kona á meðal frambjóðenda. Á kvennafrídaginn varð mönnum ljóst, þegar konur lögðu niður vinnu, að þær eru máttarstólpar þjóðfélagsins til jafns á við karla. En á þeim tímum var ekki enn farið að nefna slíkt til sögu. Það er ekki enn mikið talað um það en þær eru nú engu að síður stólparnir við hliðina á körlum, það vitum við.“

Vildi sanna að kona gæti verið í framboði

Vigdís bauð hefðunum birginn. Strax og framboðið hafði verið ákveðið var hún komin á fulla ferð eins og meðframbjóðendur hennar. Skrifstofa var stofnuð í einum grænum og ferðalög skipulögð um allt land. „Þessi svonefnda kosningabarátta var ótrúlega gefandi tími. Ég fór um allt land, stuðningsmenn tóku á móti mér í öllum landsfjórðungum. Ég gisti aldrei á hótelum heldur alltaf í heimahúsum og borðaði aldrei á veitingahúsum heldur alltaf með fólkinu. Ég hafði engan tíma til að velta neinu öðru fyrir mér en því fyrir hvað ég stæði. Ég var ekkert að velta því fyrir mér hvernig þetta yrði nú allt saman yrði ég kosin. Enda ætlaði ég ekkert endilega að verða kosin. Markmið mitt var að sanna að kona gæti farið í svona framboð, ekki síður en karl. Mér var ýtt út í þetta, ekki endilega af konum, heldur mikið til af körlum. Af til dæmis sjómönnum því þeir vildu hafa konu í framboði. Sjómenn hafa alltaf vitað hvað konan er sterk því hún er í landi og sér um allt. Hún er menntamálaráðherra, fjármálaráðherra, arkítekt og allt í senn.“
Vigdís segir konur í dag hafa breyst frá því að hún var í framboði. „Afstaða kvenna til sjálfra sín hefur gjörbreyst. Í dag treysta konur sjálfum sér betur. Hér áður fyrr var ekki til siðs að þær stigju fram á sínum eigin forsendum. Það þurfti kjark til þess, það veit ég sjálf. Árið 1980 þurfti alveg gríðarlegan kjark. Maður vaknar ekkert upp einn morguninn og segir; „Góðan daginn nú ætla ég að verða forseti.“ Mér fannst þetta alveg út í heiðan bláinn þegar fólk fór að biðja mig um að vera í kjöri. En síðan, þegar maður lendir í því að verða kosin, þá er ekki hlaupið í neitt skjól. Þá verður maður bara að standa sig. Ef maður er kjörin í ábyrgðarstöðu þá verður maður að vanda sig og standa sig. Og það var ekki lítið sem ég þurfti að vanda mig og standa mig fyrstu árin. En mér lá ekki annað til en að sanna það að kona gæti gert þetta rétt eins og karl.“ Enda sannaðist það.

Vigdís Finnbogadóttir

Heitt í íslensku ullinni

Kvennafrídagurinn var frétt sem vakti athygli út um allan heim. Fimm árum síðar kaus þjóðin konu sem forseta og komst aftur í heimsfréttirnar. „Þetta gerði það að verkum að ég var mjög velkominn gestur. Fyrsta erlenda heimsóknin var samkvæmt gamalli hefð til Danmerkur. Útflutningsráð kom strax með íslenskar vörur og þar var náttúrulega ull og fiskur fremst á blaði. Mér var svo heitt í þessari ferð því ég var endalaust í íslenskri ull. Fyrir þessa fyrstu ferð bjuggu Bændasamtökin til á mig pels úr gæru og báðu mig um að fara í honum í ferðina, sem ég gerði því ég geri allt fyrir Ísland, allt. Svo kem ég til Kaupmannahafnar þar sem Margrét Danadrottning tekur á móti mér, há og grönn í minkapels niður á tær, æðislega flott með hatt. En ég valt niður landganginn eins og snjóbolti í hvítu gærunni. Svo stóð í dönsku blöðunum daginn eftir; „Dronningen í mink, presidenten í får!“ Ég hef nú aldrei aftur notað þennan pels en svo var hann sýndur á fatasýningunni um daginn og þetta er bara ljómandi falleg flík, merkt Sláturfélagi Suðurlands,“ segir Vigdís og hlær innilega.
„Það var auðvitað alltaf mikið spáð í fötin en það gleymist stundum að á bak við öll þessi dress er alveg gríðarleg vinna sem fór í að semja ræður. Maður auðvitað sýndi sig ekki eins og sýningardama heldur gekk maður með ræður í öllum þessum fatnaði. Maður þurfti nú líka að tala í þessum fötum.“

Kvenréttindi eru mannréttindi

Þegar Vigdís lét af störfum í embætti var komið að máli við hana um að hafa forgöngu um stofnun samtaka kvenna í heiminum sem hafa gengt forseta eða forsætisráðherrastöðu. Vigdís stofnaði „Heimsráð kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders) ásamt Mary Robinsson, forseta Írlands og Laura Lizwood, framkvæmdastjóra ráðsins. „Það er enginn vafi á því að hvar sem er í heiminum þá er það nýjung enn þann dag í dag að konur taki á sig stórar ábyrgðarstöður í stjórnmálum. Við vorum í upphafi sex konur í ráðinu, Margret Thatcher vildi ekki vera með sem okkur þótti skrítið en ég held hún hafi viljað það seinna, en í dag eru hátt í fimmtíu konur í ráðinu. Það er ótrúleg fjölgun á fáum árum og sýnir að konur hafa verið að ryðja sér til rúms. Kvenréttindi eru auðvitað mannréttindi. Konur hafa ekki haft mikil mannréttindi í heiminum og þannig er það víða enn. Það er stórkostlegt að sjá hvernig konur hafa haslað sér völl á síðustu áratugum. Þær hafa stigið fram og þorað að gera sig gildandi.“

Í rótunum er meiningin

„Það er svo skrítið að ég hafði aldrei heyrt þetta, að vera fyrirmynd, fyrr en núna á síðari árum,” segir Vigdís aðspurð um sínar fyrirmyndir. Konan sem sannaði það fyrir okkur öllum að konur væru svo sannarlega líka menn og sem er í hugum margra sterk fyrirmynd. Aðspurð á blaðamannafundi í aðdraganda kosninganna hvort þjóðin ætti að kjósa hana því hún væri kona, svaraði hún því neitandi. Þjóðin ætti að kjósa hana því hún væri maður. „Að hafa einhverja fyrirmynd og reyna að vera eins og einhver annar – maður var bara að reyna að vera maður sjálfur. En, það er hægt að láta blása sér anda í brjóst. Ekki að verða undir áhrifum heldur að láta þá aðila sem manni finnst þess virði að hlusta á blása sér anda í brjóst.“
Orðin fyrirmynd og maður færa okkur að einni helstu ástríðu Vigdísar, tungumálum. Vigdís hefur gegnt starfi velgjörðarsendiherra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í tungumálum frá árinu 1998 og er fyrsti opinberi talsmaður tungumála á heimsvísu. Vigdís segir tungumálin vera lykilinn að heiminum og hún brennur fyrir Vigdísarstofnun, alþjóðlega miðstöð Háskóla Íslands í tungumálum og menningu, sem starfar undir formerkjum UNESCO. Vigdísi er íslensk tunga ekki síður hugleikin og hún ljómar þegar hún ræðir mikilvægi tungunnar og merkingu orða. „Við verðum að vernda íslenska tungu. Við eigum að leggja rækt við tunguna og leyfa henni að þróast en einnig að vernda gamlar hugmyndir og söguna á bak við orðin. Eins og af hverju er orðið æ útbreiddara að nota orðið menn um karlmenn? Því er auðvitað bara stolið úr ensku því að karlmenn eru karlmenn en konur eru kvenmenn, við erum öll menn. Það er eitt sem fer alveg óskaplega í taugarnar á mér. Þegar það stendur „konur“ á upplýsingaskiltum til að benda á hvar konur geti verslað, og „menn“ þar sem karlmenn geti verslað. Ég vil ekki hanga í fornri tungu því auðvitað á tungan að vera lifandi. Hún er lifandi tæki til tjáningar en við megum ekki gleyma að hún á sér rætur. Og í rótunum er meiningin. Og af því að við erum að tala um tunguna þá verð ég að segja að ég er miklu hrifnari af orðinu kvenréttindi en orðinu femínismi. Mér finnst kvenréttindi vera svo flott orð fyrir jafnréttið – það rímar við mannréttindi.“

Fyrsta skóflustungan að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, 8.mars 2015.

Fyrsta skóflustungan að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, 8.mars 2015.

Gaman að vera til

Ég spyr Vigdísi að lokum hvernig hún fari að því að halda svona vel í heilsuna og gleðina. „Ég er alltaf að gera það sem mér finnst skemmtilegt og mér finnst afskaplega gaman að vera til. Ég er svo þakklát fyrir að hafa þessa góðu heilsu en ég þarf auðvitað að hafa fyrir því. Ég hef stundað Qigong í 25 ár og ég hjóla hérna úti og reyni að hreyfa mig,“ segir Vigdís og bendir á þrekjól sem stendur úti á svölum á milli blómapottanna. Mér finnst það því miður alveg hræðilega leiðinlegt. Auðvitað veit maður að maður er ekki lengur sprellungur og það er heldur leiðinleg tilfinning þegar líkaminn er farin að vinna hægar en orkan í höfðinu er enn til staðar. Ég hef sagt að ég mundi hlaupa upp á Esjuna einu sinni á dag ef ég fengi handrið á leiðinni niður.“
Vigdís á kannski ekki eftir klífa Esjuna án handriðs en hún er samt alltaf að klífa einhverskonar fjöll hvert sem hún fer, með alla sína reynslu á bakinu. Hvort sem það er í hlutverki sendiherra tungumálsins eða sem verndari náttúrunnar. Og að miðla reynslunni til æsku landsins er það sem henni finnst einna skemmtilegast að gera. „Æskan er það sem skiptir mestu máli. Það þarf alltaf að muna eftir henni og kenna henni að vernda dýrmæta náttúruna og að leggja rækt við einstakt tungumál okkar. Því náttúran og tungan er það sem gerir okkur að þjóð, án þess værum við ekki lengur – við.”

Vigdís Finnbogadóttir  Fyrrum forseti Íslands

 

The post Sannaði að konur eru líka menn appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Menningarblaðamaður frekar en ritstjóri

$
0
0

Silja Aðalsteinsdóttir er fyrsta konan sem ritstýrði dagblaði á Íslandi. Hún segist þó frekar hafa litið á sig sem menningarblaðamann með ritstjóratitil, enda hefur menningin alltaf verið hennar helsta áhugasvið og hefur hún einbeitt sér að því. Silja hlaut riddarakross, heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu, í upphafi þessa árs fyrir framlag til íslenskrar menningar og bókmennta. Ljóð hafa alla tíð heillað Silju og í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna hefur ljóðasafnið Perlur úr ljóðum íslenskra kvenna verið endurútgefin en Silja sá um val ljóðanna.   

„Mér finnst það við hæfi og skemmtilegt að verið sé að minnast 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna og sýnist það vera gert af miklum myndarskap en að öðru leyti þá er svolítið sorglegt að jafnréttismálin skuli ekki vera komin lengra en raun ber vitni,“ segir Silja Aðalsteinsdóttir og nefnir í því samhengi til dæmis umtalsverðan launamun kynjanna. „Annað dæmi er Perlur úr ljóðum íslenskra kvenna. Þó það sé gaman að gefa út svona fallega bók þá er það svolítið sorglegt að það þurfi sérstakt úrvalsrit íslenskra skáldkvenna til að vekja athygli á þeim. Það er normið að vera karlmaður og því þurfa þeir ekki sérstakt tilefni svo að þeirra rit séu gefin út með sama hætti og rit kvenna.“

Silja nefnir dæmi máli sínu til stuðnings. „Þegar bókin kom út sagði vinur minn við mig að aldrei væru gefnar út perlur úr ljóðum íslenskra karla. Ég sagði jú, það er gert, en þær bækur heita Þjóðskáldin, Íslensk úrvalssljóð eða Íslensk lýrík.“ Hún segir þó að það sé þó vel þess virði að gefa út Perlur úr ljóðum íslenskra kvenna. „Höfuðmarkmið svona bókar er að draga fram og minna á hvað við eigum margar góðar skáldkonur.“

Ljóð sem lýsa æviferli konu
Perlur úr ljóðum íslenskra kvenna kom fyrst út árið 1998 og fylgdi eftir bókinni Stúlka sem fjallar um ljóðagerð íslenskra kvenna frá upphafi fram til um það bil 1970 með sérstakri áherslu á stöðu þeirra í bókmenntasögu og bókmenntahefð. Helga Kress ritstýrði og setti hún upp sögulegt yfirlit yfir ljóð íslenskra kvenljóðskálda. „Þegar ég var beðin um að velja ljóð undir nafninu Ljóðaperlur íslenskra kvenna ákvað ég að fara aðra leið og taka ljóðin svolítið þematískt fyrir, þar sem æviferli konu er fylgt eftir,“ segir Silja. Í bókinni er ljóðum því raðað eftir efni en ekki eftir aldri skálda.

„Í bókinni er að finna ljóð um það að vera stelpa, ung kona, ástfangin, móðir, ástarsorg og lýsingar á helstu atburðum í lífi kvenna,“ segir Silja. Ljóðin segja sögu og blanda þannig saman ljóðum frá ólíkum tímum. „Mér fannst það sérstaklega skemmtilegt að láta skáld frá mismunandi tíma standa hlið við hlið, konur frá 19. öld og 20. öld og svo konur sem koma fram á 21. öld. Það sýnir manni vonandi betur hvað þær eiga sameiginlegt, jafnvel þótt formið og efnistökin séu ólík.“

Von á góðu þegar kona gefur út ljóðabók
Perlur úr ljóðum íslenskra kvenna voru prentaðar tvisvar, en eru löngu uppseldar. Það varð því úr að gera nýja útgáfu þar sem notast var við sömu aðferð, það er leitað var að ljóðum þar sem skáldkonur lýsa persónulegri og kynbundinni reynslu. „Ég bætti einhverju við eftir konur sem höfðu verið í eldri útgáfunni og orkt síðan, til dæmis ljóðum eftir tvær af höfuðskáldum bókarinnar, þær Vilborgu Dagbjartsdóttur og Ingibjörgu Haraldsdóttur.“

Í þessu valferli segir Silja það hafa komið sér mest á óvart hvað konur eru persónulegar í ljóðum sínum og þá sérstaklega hvað þær yrkja mikið um það sem stendur þeim næst. „Um tilfinningarnar, heimilið og ástina, en það gera karlar vissulega líka, en þeir skrifa ekki eins mikið um börn og heimilið. Konur yrkja um allt sem karlar yrkja um, nema kannski pólitík og stríð, en að öðru leyti er efnisvalið svipað en þær koma með hversdagsleikann og daglega lífið sem viðbót.“

Perlur_kvenna

Perlur úr ljóðum íslenskra kvenna er nú komin út í endurbættri útgáfu. Silja hafði umsjón með ljóðavali.

Silja segir einnig að það sé alveg ótvírætt að íslenskar skáldkonur og verk þeirra vekja meiri athygli nú en áður. „Það er fyrst og fremst því að þakka að þeim hefur vissulega fjölgað og hvað þær hafa fengið mikið lof. Einnig er talsvert auðveldara fyrir nýjar skáldkonur að vekja athygli því maður á von á góðu þegar kona gefur út ljóðabók.“

Ég hef aldrei tapað neinu á því að vera kona
Silja tók við starfi ritstjóra á Þjóðviljanum árið 1989, fyrst íslenskra kvenna til að ritstýra dagblaði. „En það var nú ekki langur tími,“ segir hún og hlær, en bætir svo við heldur alvarlegri: „ Ég get alveg sagt, án þess að hika, að þessi tími á Þjóðviljanum var mjög erfiður, aðallega vegna fjármála. Það var þá strax orðið miklu erfiðara að gefa út dagblað.“ Silja segir einnig að takmarkaður áhugi hennar á beinni flokkspólitík hafi haft þær afleiðingar að hún forðaðist að skrifa pólitíska leiðara eða fréttir. „Í rauninni finnst mér, eftir á að hyggja, að ég hafi verið menningarblaðamaður með ritstjóratitil. Ég fylgdist mest með því sem var að gerast í menningarmálum og stjórnaði krítíkerum, það var heill gagnrýnendaher á blaðinu í öllum greinum og ég hafði umsjón með þeim. Þetta var í raun sams konar starf, fyrir utan stöku leiðaraskrif, og ég gegndi svo á DV, þar sem ég var menningarritstjóri.“ Silja minnist tímanna á DV með mikilli gleði. „Mér fannst, burtséð frá blöðunum að öðru leyti, mun skemmtilegra að starfa á DV. Þar var góður andi, skemmtilegt fólk og stærri ritstjórn.“

25 ár eru nú liðin frá því að Silja starfaði á Þjóðviljanum og segir hún að kynjahlutfallið þar hafi verið mjög skarpt. „Það komu inn blaðakonur, eins og til dæmis Vilborg Harðardóttir, ein af fyrstu rauðsokkunum sem starfaði á blaðinu á undan mér, alveg rosalega flott kona, og svo voru einhverjar ungar blaðakonur. En þetta voru fyrst og fremst karlkyns blaðamenn og ljósmyndarar.“ Silja segir samt að hún hafi aldrei velt sér mikið upp úr þessari kynjaskiptingu. „Mér fannst alls ekkert óþægilegt að vera kona á Þjóðviljanum, það var fyrst og fremst fjármagnsskortur og staða blaðsins sem angraði mig. Ég hef alls ekki upplifað þá tilfinningu að hafa tapað neinu á því að vera kona.“

Jafnvægi á öllum sviðum
Silja segir að fjölmiðlarnir geti tekið virkan þátt í jafnréttisbaráttunni. „Við þurfum sífellt að hugsa um þetta jafnvægi. Ég veit af eigin reynslu að það getur verið erfitt að fá konur í viðtöl og fá þær til að tjá sig um sín sérsvið. En þær verða fúsari þegar þær fá samanburðinn. Þegar konum fjölgar yfir línuna þykir þeim ekki fylgja jafn mikil ábyrgð að vera eina konan sem hefur tjáð sig um ákveðið atriði. Við þurfum að jafna þetta út á öllum sviðum. Það sama má segja um ábyrgðarstörf bæði í háskólum, fjármálageiranum og hinu opinbera.“ Silja segir jafnframt að þetta verði að virka jafnt fyrir bæði kyn. „Konur hafa lagt undir sig ákveðin svið og þar mætti þá fjölga körlum eins og fjölga má konum þar sem karlar eru ráðandi. Maður vill nú síður setja ófrávíkjanlegar reglur, en þetta má ævinlega vera ofarlega í okkar huga.“

 

The post Menningarblaðamaður frekar en ritstjóri appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Kristín Jóhannesdóttir útnefnd borgarlistamaður

$
0
0

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri útnefndi leikstjórann Kristínu Jóhannesdóttur Borgarlistamann Reykjavíkur 2015 í Höfða á þjóðhátíðardaginn. Við hátíðlega athöfn var listamanninum veittur ágrafinn steinn, heiðursskjal og viðurkenningarfé.

Sem kunnugt er á Kristín Jóhannesdóttir farsælan feril sem leikstjóri kvikmynda, sjónvarpsmynda, sviðsverka í leikhúsi og útvarpsleikrita auk þess að vera handritshöfundur og framleiðandi kvikmynda. Þekktasta kvikmynd hennar er Á hjara veraldar frá árinu 1992 sem hún bæði skrifaði og leikstýrði. Um þessar mundir vinnur hún að nýrri kvikmynd í fullri lengd. Myndin mun heita Alma og hefjast tökur í haust.

Kristín hefur látið til sín taka í heimi kvikmyndagerðarfólks og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum. Hún hefur á síðustu árum vakið athygli á skertum hlut kvenna í framlögum til kvikmyndagerðar. Hún situr í stjórn WIFT (Women in Film and Television).

Borgarlistamaðurinn er margverðlaunaður fyrir list sína. Nú síðast hlutu þrjár sýningar í leikstjórn hennar 11 tilnefningar til Grímuverðlaunanna sem veitt voru í vikunni. Útvarpsleikritið Blinda konan og þjónninn eftir Sigurð Pálsson, eiginmann Kristínar, var útnefnt útvarpsverk ársins.

The post Kristín Jóhannesdóttir útnefnd borgarlistamaður appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Loksins nógu gömul til að kjósa

$
0
0

Tengdadóttir mín er fertug í dag, á kvenréttindadeginum 19. júní, þegar því er fagnað að öld er liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Það er varla hægt að hugsa sér annan eins dag til að fagna stórafmælinu og minnast um leið þessara merku tímamóta. Miðað við þann áfanga sem þá náðist hefði mín ágæta tengdadóttir loksins verið orðin nógu gömul til að kjósa, en þennan dag fyrir réttri öld fengu konur, 40 ára og eldri, kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Þetta þykir okkur skrýtið í dag og svo er að sjá sem þetta hafi líka þótt fremur hjákátlegt fljótlega eftir að þetta stjórnarskrárákvæði var staðfest af Danakóngi 19. júní 1915. Aldurinn átti nefnilega að lækka um eitt ár næstu fimmtán árin, eða þar til 25 ára aldri væri náð, en það var aldurstakmark kosningabærra karla. Ákvæðið var því fellt úr gildi fimm árum síðar, árið 1920. Karlar og konur hafa því notið sama réttar við kosningar til alþingis undanfarin 95 ár.

Fyrstu áratugina eftir þetta þokuðust réttindamál kvenna hægt. Ýmsir áfangar náðust að sönnu, fyrsta konan settist á þing sjö árum síðar, konur létu smám saman meira til sín taka, sóttu sér aukna menntun og að því kom að fyrsta konan varð bæjarstjóri, ráðherra, dómari og svo framvegis, auk áfanga í jafnlaunamálum karla og kvenna – en segja má að réttindabarátta kvenna hafi ekki komist á verulegan skrið fyrr en um og upp úr 1970. Þá var Rauðsokkahreyfingin stofnuð og hinn stórmerki kvennafrídagur haldinn árið 1975 þegar konur lögðu niður vinnu og flykktust á baráttufundi víðsvegar um landið en fjölmennasti fundurinn var haldinn á Lækjartorgi þar sem 25-30 þúsund manns, aðallega konur, mættu, stilltu saman strengi og lögðu línur til framtíðar. Samkoman vakti heimsathygli og leiddi, með ýmsu öðru vitaskuld, til þess að Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands fimm árum síðar, fyrst kvenna í heiminum til að gegna embætti þjóðkjörins forseta.

Hlutirnir gerðust því hratt á þessum árum, fyrstu sambúðarárum okkar hjóna þegar við vorum að feta okkur áfram í nýjum hlutverkum sem bráðung hjón og foreldrar. Minn betri helmingur minntist þess einmitt á dögunum að hún, sem starfsmaður Kópavogsapóteks á kvennafrídaginn 24. október 1975, fékk frí, en aðeins í klukkutíma eins og aðrar konur í apótekinu, til að sækja fundinn á Lækjartorgi. Það var mikil umferð og mannmergð í bænum og því gafst lítill tími til þátttöku á fundinum sjálfum ef komast þurfti fram og til baka til Kópavogs á þeim stutta tíma. Hún var þar samt og sýndi samstöðu með kynsystrum sínum.

Það var ekki vanþörf á, hvort heldur var á heimilum, vinnumarkaði eða í jafnréttismálum almennt. Það hallaði mjög á konur og ég játa það undanbragðalaust að ég var engu betri en kynbræður mínir almennt í rembunni en hef tíðaranda þess tíma mér til afsökunar. Þegar við hófum okkar búskap kunni hvorugt okkar mikið fyrir sér í eldamennsku en mín góða kona tók það hlutverk í meginatriðum að sér. Sama gilti um uppeldi drengsins okkar sem við áttum þá – og raunar einnig um seinni börnin. Ég var frekar á hliðarlínunni. Mér hefur heldur farið fram, vona ég að minnsta kosti, en gleðst yfir þeirri augljósu bót sem orðið hefur milli kynslóða þegar ég fylgist með börnum okkar og tengdabörnum. Þar ríkir mikið jafnræði milli kynja á öllum sviðum, í matargerð, umönnun barna og öðru því sem að heimilisrekstri lýtur. Öll hafa börn okkar og tengdabörn sinnt sínu námi af alúð og síðar vinnu og hallast þar ekki á milli kynja. Heimur batnandi fer.

Í þessum breytta og betri heimi alast barnabörnin okkar upp. Á heimilum þeirra þykir eðlilegt að pabbi og mamma skiptist á að fara með þau í leikskólann eða sækja, auk þess sem gengið er út frá því sem vísu að pabbinn eldi ekki síður en mamman og gangi frá – eða setji í þvottavél og taki úr þurrkaranum. Þess vegna er líka kallað á afann, ekki síður en ömmuna þegar smátt fólk hefur gert stórt í heimsókn hjá afa og ömmu og hreinsa þarf botninn. Vera kann að afinn gjói öðru auganu á ömmuna, svona af gömlum vana, áður en hann stendur upp en svo er amman sjóuð orðin að hún horfir bara í hina áttina – svo afinn stendur upp og gerir sig kláran.

Enn er verk að vinna þótt konur sæki fram á öllum vígstöðvum. Óútskýrður launamunur kynjanna er enn til staðar, konur eru færri en karlar á þingi og í sveitarstjórnum og lagasetningu þurfti til svo konum fjölgaði í stjórnum fyrirtækja. Samt hljótum við að staldra við á þessum degi, 19. júní 2015, þegar öld er liðin frá því að fertugar konur fengu kosningarétt. Það hefur ótrúlega margt áunnist og í minni tíð, ekki eldri en ég er, man ég eftir fyrstu konunni á ráðherrastóli, kvennafrídeginum að sjálfsögðu, fyrstu konunum sem klæddust lögreglubúningi, fyrstu konunni sem gegndi prestsembætti, framboði Kvennalistans og í seinni tíð þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra og Agnes M. Sigurðardóttir biskup. Upp úr stendur þó sú stund þegar Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti Íslands árið 1980. Ég var mættur sem ungur blaðamaður árla morguns á Aragötuna þar sem mannfjöldinn hyllti Vigdísi í blíðu júníveðri – og var jafnframt viðstaddur fyrsta blaðamannafund hennar, einnig heima á Aragötu. Það fundu allir að blað hafði verið brotið – stórtíðindi höfðu orðið.

Fyrir þessum stóra áfanga – og öllum hinum líka – leyfi ég mér að skála í dag við fertuga tengdadóttur mína. Afmælisdagurinn hefði ekki getað verið betur valinn!

The post Loksins nógu gömul til að kjósa appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Ráðvilltir ferðamenn gráta lokun hálendisins

$
0
0

Starfsfólk ferðaþjónustunnar hefur þurft að liðsinna ferðamönnum og benda þeim á nýjar slóðir vegna snjóþunga á fjallvegum. Linda Björk Árnadóttir hjá Höfuðborgarstofu segir upplýsingamiðstöðina fá fjölda símtala og heimsókna frá ferðamönnum sem viti ekki hvað þeir eigi af sér að gera. Kjölur opnar í fyrsta lagi um mánaðamót.

Starfsmenn ferðþjónustufyrirtækja hafa staðið í ströngu við að aðstoða ferðamenn sem höfðu skipulegt hálendisferðir en þurfa nú að breyta ferðum sínum vegna snjóþunga á hálendinu.
Linda Björk Árnadóttir hjá Höfuðborgarstofu segir fjölda fólks hringja eða mæta í upplýsingamiðstöðina í Aðalstræti til að leita sér aðstoðar.
„Það er mikið hringt í okkur, bara í dag hef ég fengið þrjú símtöl frá fólki sem ætlaði í Landmannalaugar en kemst ekki því vegurinn hefur enn ekki verið opnaður. Fólk er líka að hringja að utan svo upplýsingarnar hafa greinilega borist út fyrir landsteinana.“

Mesta ásóknin er í Landmannalaugar

„Þetta fólk er miður sín því það hefur skipulagt ferðalag hingað oft með margra mánaða fyrirvara og svo gengur planið ekki upp. Margir eru miður sín og við höfum séð fólk koma hingað grátandi yfir því að komast ekki í þá göngu sem það ætlaði sér í,“ segir Linda Björk. Hún segir ráðvilltu ferðamennina aðallega vera göngufólk sem komi til Íslands á eigin vegum, ferðist á bílaleigubíl eða með langferðabílum og ætli sér að gista í skálum eða tjöldum. „Við reynum að liðsinna þessu fólki svo það þurfi ekki að vera í Reykjavík að mæla göturnar. Við bendum því á aðrar gönguleiðir, eins og að fara upp í Hengil, á Reykjanesið eða út á Snæfellsnes þar sem hægt er að ganga fjörurnar.“
Sigurbergur Steinsson, framkvæmdastjóri Reykjavík Excursions, hefur svipaða sögu að segja. Á Umferðarmiðstöðina komi fólk sem hafi ætlað sér að ferðast í Landmannalaugar en starfsfólk hafi þurft að leiðbeina því og benda á aðrar leiðir þar sem vegurinn þangað hafi ekki enn verið opnaður.

Kjölur lokaður til mánaðarloka

„Það er enn lokað í Landmannalaugar og Kjölur opnar í fyrsta lagi um mánaðamót,“ segir Jón Hálfdán Jónsson, þjónustufulltrúi hjá Vegagerðinni. „Það hefur verið þungur vetur og kalt vor og því frekar einfalt reikningsdæmi. Þetta er auðvitað misjafnt eftir leiðum og það eru ákveðnar leiðir sem oft eru opnaðar í fyrrihluta júní en það er allt að opnast töluvert seinna núna en venjulega. Að öllu jöfnu á ekki að moka hálendisvegi og það er aðallega spurning um fjármagn. Svo er ekki nóg að snjórinn fari heldur þarf vegurinn að jafna sig.“

The post Ráðvilltir ferðamenn gráta lokun hálendisins appeared first on FRÉTTATÍMINN.

Viewing all 7652 articles
Browse latest View live