„Nú er náttúrlega off-síson en maður er reyna að æfa eitthvað, kannski 6-7 sinnum í viku. Svo fer þetta almennilega í gang með vorinu,“ segir Pétur Einarsson, fjárfestir og þríþrautarkappi.
Pétur hefur margoft keppt í þríþrautum og járnkörlum auk þess að taka þátt í helstu maraþonhlaupum heims. Hann er farinn að hlakka til sumarsins þegar bestu aðstæður eru til að stunda sportið.
Pétur er á fullu þessa dagana við að skipuleggja fyrsta alþjóðlega þríþrautarmótið á Íslandi sem haldið verður 23. júlí í sumar. „Við ætlum að fá nokkur hundruð útlendinga til að keppa hér, atvinnumenn sem safna stigum í alþjóðlegri mótaröð. Þetta er ægilega spennandi,“ segir Pétur en nánari upplýsingar má fá á www.challengeiceland.is.

„Ég byrjaði í kringum fertugt. Þá var ég bankamaður í London og var auðvitað allt of þungur. Það kviknaði bara á perunni hjá mér. Ég byrjaði á því að hlaupa, fór í New York maraþonið 2004 og færði mig svo fljótlega yfir í þríþraut. Sú fyrsta var árið 2006 á Jersey og svo fór þetta bara að aukast. Ég tók öll helstu maraþonin; New York, Boston, Chicago, London og Berlín. Svo fór ég í minn fyrsta Iron Man þegar ég var að verða fimmtugur,“ segir Pétur sem var ekki sáttur við tímann í sínum fyrsta járnkarli.
„Þannig að ég fór aftur sex vikum síðar. Þú sérð hvað maður er bilaður. En það virkaði ekkert og ég fór á sama tíma. Ég var nú eiginlega bara ánægður að lifa þetta af. Móðir mín var líka fegin þegar ég var kominn aftur til Íslands og sá að ég var meira og minna heill á húfi. Þau gömlu hafa miklar áhyggjur af mér í þessu sporti. Þetta er önnur kynslóð, foreldrar mínir eru fæddir 1930, og hreyfing fólks á þeim tíma var bara að ná í kindur eða róa bátum. Þá var enginn að fara að hreyfa sig bara til að gera það.“
Hvað er þríþraut?
Þríþraut, eða járnkarl, samanstendur af 3,8 kílómetra sundi, 180 kílómetra hjólakeppni og maraþonhlaupi.
Það virðist vera algengt að fólk taki upp á því að stunda svona íþróttir í kringum fertugt. Er þetta einhver aldurskrísa?
„Já, auðvitað. Maður er kannski búinn að sanna að maður getur lært, maður getur unnið eitthvað og eignast fallega fjölskyldu. Svo hvað meira? Þá kemur eitthvað svona, annað hvort fer maður að skrifa bók eða ganga á fjöll – eða að fara í Iron Man. Þetta er bara spurning um áskoranir, andlegar eða líkamlegar. Það gefur lífinu einhverju meiningu að setja okkur markmið og klára þau. Að sigrast á einhverju. Frumeðlið er mjög sterkt þó við séum alltaf að bæla það niður með því að vera menningarleg og skipulögð. Við þurfum líka þessa útrás, að berjast áfram og sigra.“
Svo er þetta voðalegt græjusport, þessi hjól eru varla þau sömu og venjulegt fólk notar?
„Nei. Þegar ég fékk keppnishjólið mitt fór ég til San Diego í Kaliforníu í bike fit. Þar var ég í hálfan dag tengdur tölvum og búnaði þar sem líkami minn var mældur. Allar stærðir, hvar og hvernig vöðvarnir virka og hvernig ég vinn. Út úr þessu er reiknað og svo kemur grafísk útfærsla á því hvert er hið fullkomna hjól fyrir mig. Svo setja þeir það saman úr hlutum sem henta fyrir mína líkamsbyggingu. Út úr þessu kom uppáhalds hjólið mitt.“
The post Mamma hefur áhyggjur þegar ég keppi í járnkarli appeared first on Fréttatíminn.