Sunna Rut segir allt öðruvísi að búa með fjölskyldu sinni nú en á unglingsárum. Myndir|Rut
Með hækkandi leiguverði og minnkandi framboði á húsnæði sem hentar ungu fólki í startholum lífsins fjölgar þeim sem dvelja í hreiðrinu fram eftir aldri. Talið er að nærri helmingur ungs fólks á aldrinum 18-30 ára í Evrópu búi enn í foreldrahúsum. Ísland er þar ekki undanskilið. Eru þetta ósjálfstæðir eilífðarunglingar eða er þetta bara það sem koma skal ef leigumarkaðurinn breytist ekki?
Hin 29 ára gamla Sunna Rut Óskar Þórisdóttir starfar sem verslunarstjóri Heilsuhússins meðfram mastersnámi í þróunarfræði. Hún býr með móður sinni og yngri systur í Fellsmúlanum í Reykjavík.
„Ég hef búið í Paragvæ með hléum allt frá því ég fór þangað í skiptinám árið 2005. Þar giftist ég paragvæskum manni og skildi við hann þar líka. Svo handleggsbrotnaði ég þar úti í júlí og paragvæsku læknarnir vildu setja mig í rosalega aðgerð við því, sem mér fannst skrýtið miðað við venjulegt handleggsbrot. Mömmu fannst það líka og hvatti mig til að koma heim. Ég hef því búið hjá mömmu síðan. Ég hef reyndar handleggsbrotnað aftur eftir þetta og fengið hettusótt, svo ég hef verið mjög óheppin síðustu mánuði.“
Sunna lítur á þetta sem tímabundið fyrirkomulag þar til hún hyggst koma undir sig fótunum og ákveða næstu skref.
„Það er ágætt að eiga í hús að venda og mér finnst miklu betra að búa með mömmu en ein.“ Hún segir að eiga heima hjá fjölskyldu sinni nú sé allt annað en þegar hún bjó þar á unglingsárum. „Nú er þetta meira eins og að eiga sambýlinga, það er ekki þessi fjölskyldurútína í gangi. Allir eru orðnir fullorðnir og fara bara í sína vinnu og borða ekki endilega saman klukkan sjö á hverju kvöldi.“




The post Flutti til mömmu í kjölfar handleggsbrots appeared first on Fréttatíminn.