Á síðasta ári leituðu sjö einstaklingar til neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota vegna brota sem framin voru á skemmtistöðum í Reykjavík. Í þremur tilvikum voru brotin framin á Prikinu.
„Oftast er verið að elta fólk inn á salernið og það er mjög alvarlegt að fólk skuli ekki vera öruggt inn á svona stöðum,“ segir Eyrún Jónsdóttir, hjá Neyðarmóttökunni. Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkur, hyggst kalla eftir upplýsingum um málið.
Eigandi og rekstrarstjóri Priksins líta málið alvarlegum augum. „Prikið er vinsæll skemmtistaður og einhver mál hafa komið upp í gegnum tíðina. Við könnumst samt ekki við að mál hafi komið upp nýlega. En þegar ofbeldi er framið á Prikinu höfum við tekið sterka afstöðu með þolendum og það eru engin frávik á þeirri stefnu. Við sýnum kynferðisbrotum enga þolinmæði og þau eru ekki óhjákvæmilegur fylgifiskur skemmtanalífs,“ segir Geoffrey Þór Huntingdon-Williams, rekstrarstjóri Priksins.
„Ég á sjálfur fimm ungar stelpur og tek svona mál mjög alvarlega. Ég harma að þau koma því miður upp hjá okkur, eins og á öðrum skemmtistöðum í bænum, segir eigandi Priksins, Guðfinnur Sölvi Karlsson.“
Aðspurður sagðist Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrota hjá lögreglunni í Reykjavík, ekki kannast við að fleiri tilfelli komi upp á Prikinu en á öðrum skemmtistöðum í Reykjavík.
The post Flest kynferðisbrot á Prikinu appeared first on Fréttatíminn.