Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Tilgangslaus hverfisráð kosta mikið en skila litlu

$
0
0
30334-halldor-audar-svansson
Halldór Auðar Svansson

Tíu hverfisráð starfa í umboði borgarráðs Reykjavíkur og í hverju ráði eru sex nefndarmenn. Hver nefndarmaður fær 45,776 krónur í fasta mánaðarlega þóknun, nema formaðurinn sem fær 91,552 krónur. Launin eru óháð því hve skilvirk ráðin eru og hve oft þau koma saman. Kostnaður borgarinnar við ráðin er því rúmar 38 milljónir á ári.
Stjórnkerfis- og lýðræðisráð borgarinnar óskaði eftir því að innri endurskoðun kannaði skilvirkni og stöðu hverfisráðanna. Úttekt innri endurskoðunar var kynnt á dögunum en leitað var álits á þriðja hundrað borgarstarfsmanna, kjörinna fulltrúa og áheyrnarfulltrúa. Meðal þess sem fram kemur í úttektinni er að svarendur virðast almennt telja hverfisráðin aðeins að litlu leyti ná að sinna því hlutverki sínu að vera virkir þátttakendur í allri stefnumörkun hverfanna.
Samkvæmt lögum ber ráðunum að funda mánaðarlega en á árunum 2014 og 2015 voru fundir að meðal tali tíu sinnum á ári.
Svo virðist sem starfsmenn borgarinnar hafi almennt lítinn snertiflöt við hverfisráðin eða þekki lítið sem ekkert til starfsemi þeirra. Meginskilaboðin virðast vera að núverandi fyrirkomulag hverfisráða gangi ekki upp af margvíslegum ástæðum, t.d. að þau hafi óskýrt hlutverk, séu ósýnileg og valdalaus. Þetta birtist í svörum allra hópa, bæði kjörinna fulltrúa, fulltrúa þeirra og áheyrnarfulltrúa sem og starfsmanna. Flestir þeirra sem afstöðu tóku lýstu vilja til þess að efla hverfisráðin og kölluðu í því skyni eftir róttækum breytingum en í nokkrum tilvikum var bent á að leggja ætti þau niður miðað við núverandi fyrirkomulag. Samhliða endurskoðun samþykkta þarf að setja fram leiðbeiningar fyrir hverfisráð með lýsingum m.a. á málsmeðferð erinda, hlutverki þeirra sem eiga sæti og/eða eru áheyrnarfulltrúar í ráðum og stöðu.

Halldór Auðar Svansson, formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, segir til greina koma að breyta fyrirkomulaginu.
– Er ekki bruðl á opinberu fé að halda úti ráðum sem ekki skila tilskildum árangri?
„Ég myndi ekki nota orðið bruðl en það er rétt að svona geta þau ekki haldið áfram. Við erum að skoða hvort ekki væri hagkvæmara, nú þegar til stendur að fjölga borgarfulltrúum, að þeir taki að hluta sæti í ráðunum. Borgarfulltrúar fá ekki aukalega greitt fyrir það. Einnig virðast ráðin of mörg en í útlöndum er miðað við að hvert ráð þjóni 20-30 þúsund manna einingum.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652