Eins og Fréttatíminn hefur greint frá eru börnin fædd á Íslandi og hafa íslenska kennitölu. Hjónin sem hafa verið á Íslandi í tvö ár hafa ekkert fengið að vita um hvað bíði þrátt fyrir að lögfræðingur þeirra hafi ítrekað beðið um svör. Þau óttast að lenda á götunni á Ítalíu með börnin. Útlendingastofnun hefur hafnað hælisumsókn þeirra en lögmaður þeirra hefur sent erindi til umboðsmanns Alþingis og beðið er eftir svari. Hann telur að brottvísun barna hjónanna sem eru 8 mánaða og 2 ára gömul brjóti í bága við íslensk lög og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Undir það tekur Katrín Oddsdóttir héraðsdómslögmaður á Facebook: “Þessi börn sem átti að rífa út af heimili sínu í gærnótt hafa búið alla ævi á Íslandi og þar með átt hér lögheimili. Þessi útúrsnúningur að eitthvað annað en skýr lagabókstafur lögheimilislaganna gildi um einstaklinga sem leita eftir alþjóðlegri vernd hér á landi er, afsakið orðbragðið, kjaftæði!”
Hjónunum var einungis tilkynnt munnlega að þau yrðu sótt og færð úr landi. Lögreglan ætlaði fyrst að halda brottflutningi til streitu þrátt fyrir að heimilisfaðirinn fyndist ekki en ákvað síðan frá að hverfa án þess að veita neinar upplýsingar um hvenær hún kæmi aftur.