Kynnisferðir hækkuðu stakt fargjald sitt frá Keflavíkurflugvelli í bæinn úr 2.200 krónum í 2.500 krónur þann 1. nóvember. Gray Line vildi ekki upplýsa Fréttatímann um hvenær síðasta verðhækkun fyrirtækisins var, en stakt fargjald er nú 2.400 frá flugvellinum í bæinn. Bæði fyrirtækin veita þó afslátt ef keyptur er farmiði báðar leiðir í einu.
Þann 1. október hækkaði fast gjald á leigubíl Hreyfils Bæjarleiða milli Keflavíkur og Reykjavíkur úr 15 þúsund í 16 þúsund fyrir venjulegan bíl. Stór leigubíll hækkaði úr 19.500 krónum í 21.500 krónur.
Ef fólk er á sparneytnum bíl getur því margborgað sig að fara á honum út á völl, leggja í langtímastæði á meðan ferðalaginu stendur. Þrír dagar á bílastæðinu kosta 3.750 krónur. Það er þó alltaf umhverfisvænna að vera margir saman í einu farartæki.
Berglind Kristinsdóttir hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur barist fyrir því að strætó fái að stoppa nær flugstöðinni. „Við sendum Isavia formlegt erindi í maí en fengum ekkert svar. Þess vegna ítrekuðum við erindið aftur í síðustu viku. Eins og staðan er í dag fær strætó að stoppa 200 metrum frá flugstöðinni og það er óþægilegt fyrir farþega að ganga með farangurinn þessa óupplýstu leið í myrkri. Við myndum vilja fá að vera sýnilegri valkostur. Hjá mörgum er prinsippmál að ferðast með almenningssamgöngum, þó Íslendingar noti þær ekki mikið. Strætó ekur á klukkutíma fresti frá flugstöðinni, ferðin tekur um klukkustund og fargjaldið í bæinn er um 1680. En það er ódýrara fyrir þá sem eiga strætókort.“