„Ég hef skoðað ýmsa möguleika, eins og stúdentaíbúðir og leiguhúsnæði. Ég skoðaði jafnvel möguleikann á að kaupa íbúð en það er lítið í boði í Vesturbænum undir 30 milljónum.“ Bryndís Gunnarsdóttir flutti aftur inn til foreldra sinna í Vesturbænum, með tveggja ára dóttur, eftir sambandsslit. Þar hafa þær mæðgur búið síðastliðna fimm mánuði en aðra hverja viku fer dóttirin til föður síns.
Í fyrstu átti fyrirkomulagið einungis að vera til bráðabirgða en ef að maður vill búa miðsvæðis, eins og Bryndís, virðast ekki margar dyr standa ungum foreldrum opnar. Flestar íbúðir miðsvæðis eru á himinháu leiguverði eða í skammtímaleigu til ferðamanna. „Ég er svokallaður Vesturbæingur með stóru V-i,” segir hún hlæjandi. „Ég vil helst bara bara búa hér. Hér er stuðningsnetið mitt, barnsfaðir minn býr nálægt og dóttir okkar fer í leikskóla stutt frá heimilum okkar beggja.“

Bryndís er á öðru ári í hjúkrunarfræði í fjarnámi við Háskólann á Akureyri. Hún á því á ekki rétt á íbúð á stúdentagörðum Háskóla Íslands hér í Vesturbænum. Henni finnst heldur ekki koma til greina að flytja norður. „Ég gæti mögulega fengið undanþágu hjá Byggingarfélagi námsmanna þrátt fyrir að Háskólinn á Akureyri sé ekki aðildarskóli við félagið. Ég færi samt aftast á biðlistann og samkvæmt upplýsingum frá þeim fengi ég líklegast bara einstaklingsíbúð í Hafnarfirði eftir langa bið.“
Bryndís flutti fyrst að heiman árið 2013 og hefur því áður búið í eigin húsnæði. Að sögn hennar eru margir kostir við það að búa heima hjá foreldrum sínum og hún er þakklát fyrir alla hjálpina sem hún fær: „Stærsti kosturinn við að búa svona er auðvitað að dóttir mín fær stanslaust dekur og nóg af athygli frá þremur fullorðnum og hefur miklu meira pláss en ef við byggjum bara í litlu herbergi.“
Sambúðin gengur ágætlega að hennar sögn, ef að heimasætan vandar umgengnina: „Það er kannski svolítið skrítið að hafa flutt út og vera fullorðinn einstaklingur og mamma, þurfa svo að flytja aftur heim og verða sjálfur „barnið“ á heimilinu á ný. En sambúðin gengur vel, fyrir utan það að góð umgengni er kannski ekki mín sterkasta hlið,” segir hún glottandi. „Svo er ég með bakdyr sem ég get laumast inn og út um, ef brýn þörf er á, þó að það sé erfitt að eiga leyndarmál á þessu heimili.”
Bryndís Silja Pálmadóttir
ritstjorn@frettatiminn.is