Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Skattrannsóknarstjóri rannsakar aflandsviðskipti Íslendinga hjá Nordea

$
0
0

Embætti skattrannsóknarstjóra athugar þessa dagana skattaskjólsviðskipti tæplega 30 Íslendinga sem voru viðskiptavinir sænska Nordea-bankans í Lúxemborg í fyrra og eru það hugsanlega ennþá. Þetta segir Bryndís Kristjánsdóttir skattarannsóknarstjóri. Málin eru einungis hluti þeirra sem embættið hefur haft til skoðunar sem tengjast skattaskjólum og viðskiptum í gegnum Mossack Fonseca.

Eins og Fréttatíminn greindi frá í síðustu viku þá voru Íslendingar fjölmennastir á lista yfir viðskipti við panamaísku lögmannsstofuna Mossack Fonseca í gegnum Nordea í fyrravor. Alls voru 27 Íslendingar viðskiptavinir Nordea bankans í Lúxemborg og Mossack Fonseca en næst þar á eftir voru Rússar, 25 talsins, og svo 19 Danir. Þessar upplýsingar koma fram í skýrslu sem Nordea bankinn vann um skattaskjólsviðskipti viðskiptavina bankans í gegnum Mossack Fonseca. Tölurnar sýna ótrúleg umsvif Íslendinga í skattaskjólum en ef sama hlutfall Rússa hefði verið í viðskiptum við Nordea hefðu þeir verið rúmlega tólf þúsund talsins og Bretarnir hefðu verið rúmlega 5300. Áður hefur komið fram að álíka margir Íslendingar, um 600, stunduðu viðskipti í skattaskjólum í gegnum Mossack Fonseca og Svíar jafnvel þótt Svíþjóð sé 30 sinnum fjölmennara en Ísland. Íslendingar áttu því heimsmet í skattaskjólsviðskiptum miðað við höfðatölu.
Í samtali við Fréttímann segir skattrannsóknarstjóri orðrétt að embættið hafi „undir höndum upplýsingar um nöfn Íslendinga sem eru í viðskiptum við Nordea í Lux auk þess að hafa yfir höndum gögn um bankaviðskipti þeirra, þ. á m. bankayfirlit.“ Bryndís segir hins vegar aðspurð að athugun gagna sé stutt á veg komin og því hafi embættið ekki farið í neinar aðgerðir eins og húsleitir út af þeim eða sent einhver tilfelli til ákæruvaldsins vegna gruns um skattalagabrot: „Þessi gögn eru nokkuð nýlega komin í hús og er nú verið að fara yfir þau og greina,“ segir Bryndís.
Fjölmargir Íslendingar úr viðskiptavinahópi Landsbankans í Lúxemborg færðu sig yfir til Nordea-bankans eftir bankahrunið árið 2008. Í nýlegri skýrslu sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið um umsvif Íslendinga í skattaskjólum kemur fram að Nordea-bankinn var í þriðja sæti yfir þá aðila sem stofnuðu flest aflandsfélög fyrir Íslendinga eða samtals 36 talsins. Þó verður að taka með í reikninginn að í einhverjum tilvikum færðu íslenskir viðskiptavinir félög sem búið var að stofna fyrir þá annars staðar yfir til Nordea-bankans þannig sú tala segir ekki alla söguna.
Meðal íslenskra viðskiptavina Nordea bankans og Mossack Fonseca má nefna Ingunni Wernersdóttur, fjárfesti og fyrrverandi hluthafa í Milestone, og fiskútflytjandann  Sigurð Gísla Björnsson hjá fyrirtækinu Sæmark. Eins og Fréttatíminn greindi frá í haust þá lét Sigurður Gísli félag á Panama vera millilið í viðskiptum fyrirtækis hans með fisk frá Íslandi og fékk það greiddar ráðgjafaþóknanir á árinu 2014.

Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652