Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Nýyrði yfir hin ýmsu hýryrði

$
0
0
Samtökin ’78 hafa efnt til nýyrðasamkeppni sem fengið hefur heitið Hýryrði 2015.

„Það er mikilvægt að við getum öll talað um hinsegin reynslu og hinsegin líf á móðurmáli okkar. Fjölmörg orð eru til í hinsegin orðaforðanum sem enn hafa ekki fengið íslenska þýðingu, en hinsegin hugtök og orð endurspegla svo sannarlega þá breidd sem er til staðar í hinsegin samfélaginu,“ segir á heimasíðu samtakanna. Þau orð sem  þarfnast íslensks nýyrðis eru til dæmis orð sem tengjast kyntjáningu, svo sem androgynous, butch og femme og orð sem tengjast kynvitund, svo sem agender, androgyne, bigender  og gender fluid. Auk þess er óskað eftir nýyrðum yfir ókyngreind frændsemisorð, svo sem frænka/frændi, kærasti/kærasta, mamma/pabbi og vinkona/vinur.

Samtökin hvetja öll þau sem hafa áhuga á íslenskri tungu og hinsegin menningu til þess að taka þátt og senda inn tillögur að nýyrðum. Keppnin hófst í gær, 4. ágúst, en hægt verður að senda inn tillögur að orðum til 4. september næstkomandi á slóðinni samkeppni.samtokin78.is. Áhugasömum er einnig bent á myllumerkið #hýryrði á Twitter, sem er kjörinn vettvangur fyrir þátttakendur til þess að deila hugmyndum sínum og pælingum með öðrum sem hafa áhuga á keppninni.

Dómnefnd er skipuð hinsegin fólki, sérfræðingum í íslensku máli og kynjafræði mun velja bestu orðin, en viðurkenningar verða veittar á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember. Dómnefnd skipar fjölbreyttur hópur fólks, en þau eru; Ágústa Þorbergsdóttir, Gyða Margrét Pétursdóttir, Guðmunda Smári Veigarsdóttir, Setta María, Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir og Örn Danival Kristjánsson.

Allar nánari upplýsingar um orðin og skilgreiningar á þeim er að finna á heimasíðu keppninnar.

 

The post Nýyrði yfir hin ýmsu hýryrði appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652