Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Streita kostar samfélagið milljarða

$
0
0

Um 60 % forfalla á vinnumarkaði má rekja til vinnutengdrar streitu og segja sérfræðingar streitu vera eitt stærsta vandamál vestrænna ríkja. Streitueinkenni eru náttúruleg viðbrögð líkamans við of miklu áreiti og eru okkur í raun nauðsynleg. En, líkt og Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir sálfræðingur bendir á, þá felst vandinn í því að við kunnum ekki lengur að hlusta á líkamann og bregðast við streitunni. Fólk ráfar um heilbrigðiskerfið í leit að svörum við vanda sem kemur svo í ljós, oftast allt of seint, að er afleiðing streitu. Andleg vandamál sem má rekja til streitu hafa tekið við af stoðkerfisvandamálum sem stærsti útgjaldaliður sjúkrasjóðs. Rannveig Sigurðardóttir, formaður framkvæmdastjórnar Sjúkrasjóðs VR, segir ábyrgðina liggja hjá vinnuveitendum sem taki allt of seint eftir vanda launamannsins og undir það taka allir viðmælendur Fréttatímans. Ólafur Kári Júlíusson, vinnusálfræðingur hjá Vinnuvernd, segir kostnað samfélagsins vegna streitu hlaupa á milljörðum og kallar eftir því að stjórnvöld bregðist við vandanum. Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins, segir lausnina felast sveigjanlegum vinnutíma.

 

Kostnaður vegna streitu hleypur á milljörðum

„Þegar ég kem inn í fyrirtæki vegna streituvandamála þá er vanalega fyrsta skrefið að biðja mig um að taka einhvern stressaðan einstakling í viðtal í stað þess að fara í að greina vandann,“ segir Ólafur Kári Júlíusson, vinnusálfræðingur hjá Vinnuvernd. Stóran part af streitu má rekja til sálfræðilegra þátta, sem eru ósýnilegir á vinnustaðnum. Þá erum við ekki að tala um skrifborðið eða stólinn heldur eðli stjórnunar, kröfurnar og fjölda verkefna. Þetta eru að mati stjórnenda hér á landi mest krefjandi og flóknustu þættir sem hægt er að vinna með en á sama tíma eru þetta þættir sem stjórnendur leita síst með til sérfræðinga. Það eru ekki nema 11% stjórnenda sem nýta sér þjónustu fagaðila á þessu sviði, sem þýðir að það er gripið allt of seint inn í, en það er einmitt dálítið trendið í flestu á Íslandi, að það er allt of seint gripið inn í vandann.“
„Þetta kostar fyrirtæki að sjálfsögðu ótrúlegar fjárhæðir á ári. Starfstengd streita vegna andlegs álags getur á endanum leitt til örorku og kostnaðurinn fyrir samfélagið veltur á tugum milljóna. Í Evrópusambandinu árið 2004, þegar sambandsríkin voru 14, þá velti kostnaðurinn vegna streitu á 3.333 milljörðum evra. Þannig að þetta eru þúsundir milljarða í Evrópu og við getum sagt með öryggi að kostnaðurinn vegna streitu hleypur á tugum milljarða hér á Íslandi. En þessa tölu væri hægt að lækka verulega með tímabæru inngripi á vinnustöðum.
Því miður erum við langt á eftir nágrannalöndunum í að fylgjast með starfsfólki. Við erum með vinnuverndarlög sem gera ráð fyrir algjöru lágmarkseftirliti og það er mjög auðvelt að tikka bara í nokkur box og málið er dautt. Við vitum hver vandinn er, en vandamálið er að fólkið sem hefur völdin er ekki að bregðast við. Hugarfarið er alltaf það sama hér, það er horft á það hversu miklum peningum er eytt í málaflokka í dag, í stað þess að reikna út hversu mikið útgjöldin eiga eftir að spara okkur til framtíðar.“

man holding head in hands rear view

Launamenn vilja oft leyna þunglyndi

„Geðraskanir eru stærsta vandamál flestra örorkugreindra í landinu, hvort sem það er hjá lífeyrissjóðum, sjúkrasjóðum eða Tryggingastofnun, og þar eru þunglyndi og streita mjög ofarlega á blaði,“ segir Rannveig Sigurðardóttir, formaður framkvæmdastjórnar Sjúkrasjóðs VR. „Launamaðurinn vill oft leyna því að eitthvað sé að, sem þýðir að vandinn greinist seint. Hann er óvinnufær og fær vottorð, en ég vil meina að atvinnurekendur, með sína trúnaðarmenn og mannauðsstjóra, eigi að þekkja launamanninn og geta greint vandann fyrr. Ef launamaður fer að detta ítrekað úr vinnu væri eðlilegast að taka hann í viðtal og reyna að gera eitthvað í málunum.“

„Ábyrgðin liggur því að miklu leyti hjá vinnuveitendum sem taka ekki eftir ástandinu. Ég hef talað fyrir því að trúnaðarmenn á vinnustöðum skoði þetta með okkar trúnaðarmönnum innan VR því það verður að greina vandann fyrr. Það er bara allt of seint í rassinn gripið að ætla að gera eitthvað þegar fólk er komið í örorku. Að sjálfsögðu eiga allir rétt á sínum greiðslum en við verðum að skoða hvað við getum gert til að hjálpa fólki. Það er engum hollt að fara í örorku og þurfa að sitja heima og bíða eftir bótum inn um bréfalúguna. Þess vegna eru forvarnir svo mikilvægar.“

Close-up of a businesswoman suffering from a headache in an office
Sveigjanleiki í vinnutíma er lykilhugtak í dag

„Stórfelldur hluti heilsutjóns í vestrænu samfélagi grundvallast af streitu,“ segir Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins. „Rannsóknir sýna að um 60% tapaðra vinnudaga í Evrópusambandinu megi tengja við streitu og það er engin ástæða til að ætla að það öðruvísi hér á landi. Hlutfall geðraskana í örorku er vaxandi hér á landi og fólk er að hrökklast af vinnumarkaði fyrst og fremst vegna þeirra, en líka vegna stoðkerfisvandamála. Við erum að eyða umtalsverðum tíma, fé og fyrirhöfn í að endurhæfa einstaklinga en gleymum að spyrja hvernig við getum skipulagt vinnudaginn betur. Hvernig stjórnendur geta skipulagt tímann betur og komið í veg fyrir árekstra á vinnustaðnum og almennt ónæði.

Almennt talið væri jákvætt mál að stytta vinnudaginn niður í 35 vinnustundir en það sem skiptir mestu máli er að hafa vinnudaginn sveigjanlegan, þannig að hann falli að mismunandi þörfum hvers starfsmanns. Sumum hentar að vinna hægt á meðan það hentar öðrum að vinna hratt, en afköstin geta verið þau sömu. Vinnulag okkar er mismunandi svo sveigjanleiki er lykilhugtak þegar kemur að því að bæta umhverfi á vinnustöðum.
Keppnin um hámarksárangur getur verið mjög streituvaldandi og það sést glögglega á vinnutímunum. Ef einstaklingur vinnur 35 vinnustundir á viku en eykur þær svo upp í 40 stundir þá eykst streitan ekki það mikið en ef vinnustundir verða 45 þá eykst streitan verulega og hún snareykst ef einstaklingurinn ef farinn að vinna 48 klukkustundir á viku við sama verk. Kröfur um vinnutímaákvæði eru til þess fallin að draga úr streitu, svo það er mjög mikilvægt að fólk virði vinnutímaákvæðið. Um leið og streitan eykst þá fjölgar mistökum sem geta valdið tjóni, óþægindum og jafnvel slysum.

 

-Streita er oftast ástæða fyrir forföllum starfsmanna, slakari frammistöðu og afköstum ásamt neikvæðu andrúmslofti.
-Alþjóða heilbrigðisstofnunin spáir því að árið 2020 verði þunglyndi önnur helsta orsök örorku.
-Um 50-60% allra tapaðra vinnudaga í ríkjum Evrópusambandsins má tengja við streitu.
-Geðsjúkdómar eru á meðal fimm algengustu ástæðna fyrir skammtímafjarvistum frá vinnustöðum, sérstaklega vegna streitu og þunglyndis.
-Innan ESB eru geðraskanir algengasta orsök örorku, algengari en stoðkerfisvandamál og hjartasjúkdómar. Það sama á við um Ísland. Samkvæmt heimildum Tryggingastofnunar ríkisins árið 2009 voru geðraskanir fyrsta orsök örorku hjá þeim sem voru metnir með 75% örorku eða meiri (Tryggingastofnun ríkisins, 2010).

Viðtal Fréttatímans við Ragnheiði Guðfinnu Guðnadóttur vinnusálfræðing má lesa hér

The post Streita kostar samfélagið milljarða appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652