Kveiktu á kertum. Búðu til kósí stemmingu heima fyrir með því að kveikja á kertum, þau eru bæði róandi og skapa þægilegt andrúmsloft. Í skammdeginu er líka hægt að kveikja á kertum á morgnanna og getur verið notalegt að hafa kveikt á kertum við morgunverðarborðið áður en haldið er út í daginn.
Lestu bækur. Rannsóknir sýna að bókalestur hefur jákvæð áhrif á heilsuna og heilann. Ein rannsókn sýndi meira að segja að aðeins sex mínútur af bókalestri hefur róandi áhrif á fólk, það losnar um spennu og hjartslátturinn róast. Auk þess sem bókalestur hefur mótandi áhrif á heilann og gerir okkur klárari.
Skoðaðu stjörnurnar og norðurljósin. Gríptu tækifærið þegar það er stjörnubjart eða falleg norðuljós á himni og farðu út að labba. Þú getur líka notað tækifærið og fræðst aðeins um stjörnuhiminn á stjörnufræðivefnum, sem gerir upplifunina ánægjulegri. Eða lært hvernig á að taka myndir af stjörnunum og norðurljósunum og þannig komið af stað áhugamáli sem tengist skammdeginu.
Finndu nýtt áhugamál. Prófaðu eitthvað nýtt, jafnvel eitthvað sem þig hefur alltaf langað til að prófa eða læra. Það getur verið bogfimi, japanska, indversk matargerð, mannrækt, íslensk glíma eða hvað sem er. Það er til ógrynni af skemmtilegum námskeiðum sem þú getur sótt til að gera dimmustu stundir ársins skemmtilegar.
Hittu vini þína. Það getur verið freistandi að liggja undir teppi og horfa á sjónvarpið þegar dimmt er úti, en það er eitthvað sem þú átt að gera sjaldan. Fáðu frekar vini í heimsókn eða kíktu á kaffihús með þeim, og þá helst vini sem fá þig til að hlæja og lyfta andanum. Það skiptir máli að vera á meðal fólks, því maður er manns gaman.
Stundaðu vetraríþróttir. Útvera nærir sál og líkama og það er sérstaklega gott að vera úti yfir bjartasta tíma dagsins. Þú getur farið á skíði eða skauta, eða stundað göngur. Einfaldur göngutúr nokkrum sinnum í viku getur líka gert kraftaverk. Ef þú átt erfitt með að koma þér af stað, finndu þá félaga til að fara með þér.
Fáðu nægan svefn. Það er gott að sofna þegar það er dimmt úti og oftar en ekki er fólk syfjað í skammdeginu. Ekki hanga of lengi á fótum og horfa á sjónvarp eða tölvuskjá. Farðu frekar fyrr að sofa þanngið að það verði aðeins auðveldara að vakna næsta dag. Auk þess sem svefnleysi getur haft slæm áhrif á lundarfarið.
Notaðu dagsbirtuljós. Það hefur sýnt sig að fólk á auðveldara með að vakna við dagsbirtulampa. Það getur líka verið góð hugmynd hafa einn slíkan á skrifborðinu í vinnunni.
Vertu jákvæð/ur. Ekki láta eftir þér að kvarta undan veðrinu og myrkinu. Það er alltaf eitthvað jákvætt að finna við hvaða aðstæður sem er, settu þér það markmið að finna það.
The post Svona tekstu á við skammdegið appeared first on Fréttatíminn.