Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

“Dásamlegt að vera eilífðarstúdent”

$
0
0

84 ára að verða doktor eftir 18 ára nám

„Það eru margir sem hafa þráð að setjast aftur á skólabekk en eru smeykir við að vera í kringum yngra fólkið. Það þarf þó engu að kvíða,” segir Sigurður E. Guðmundsson, sem hóf BA nám við Háskóla Íslands fyrir 18 árum, þá 66 ára gamall. Hann er nú að skila inn doktorsritgerðinni.

„Markmiðið var að vera búinn með BA prófið á sjötugsafmælinu, sama ár og ég varð 50 ára stúdent. En þar sem ég fékk ágætis einkunn opnaðist leiðin í MA nám og þau á deildinni byrjuðu snemma að „agitera” fyrir að ég færi í doktorsnám.”

En hvernig voru viðbrögð þinna nánustu þegar þú ákvaðst að fara aftur í skóla?

„Gömlu vinirnir ráku upp stór augu en voru ánægðir og hafa veitt mér hvatningu. Nemendurnir voru flestir á milli tvítugs og þrítugs en við drukkum kaffi saman og spjölluðum um lífið og námið og tilveruna. Og dótturdóttir mín er að læra sálfræði í háskólanum og við höfum stundum hist í kaffiteríunni.”

Öll þrjú börn Sigurðar eru sagnfræðingar, en sjálfur fór hann í læknisfræði á sínum tíma.

„Hugur fylgdi ekki máli og ég varð blaðamaður Alþýðublaðsins, svo framkvæmdarstjóri Alþýðuflokksins og loks forstjóri Húsnæðisstofnunnar sem varð ævistarfið. Hugurinn stefndi alltaf að námi í hugvísindum, ég var ekki að fara í nám í von um vinnu síðar svo ég vildi eitthvað skemmtilegt. Fólk á mínum aldri hefur feikimikið til málanna að leggja og mikla reynslu að baki.”

Doktorsritgerðin fjallar um þróun velferðarkerfisins á fyrri hluta 20. aldar, en MA ritgerðin fjallaði um tilurð lífeyrissjóðanna, þar sem hann byggir að nokkru á eigin reynslu. Sigurður missti konu sína fyrir næstum áratug og tók þá hlé frá námi en byrjaði síðan í doktorsnáminu sem hann segir veita gríðarlega lífsfyllingu. Síðan þá hefur hann setið á Bókhlöðunni í átta tíma á dag árið um kring og hefur litla þörf yfir sumarfrí. En hvað tekur nú við?

„Ég vil að vel fari fyrir doktorsritgerðinni og mér, sem ég mun verja í haust, og ég vonast til að fá útgefna bók um lífeyrissjóðina sem ég byggi á ritgerðinni. Það er dásamlegt hlutskipti að vera eilífðarstúdent.”

Mt. Sigurður E. Guðmundsson hóf BA nám við Háskóla Íslands fyrir 18 árum, þá 66 ára gamall. Hann er nú að skila inn doktorsritgerðinni, 84 ára.

 

The post “Dásamlegt að vera eilífðarstúdent” appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652