Alda Lóa Leifsdóttir rifjar upp minningar frá borginni rétt áður en múrinn féll, en þar var talsvert samfélag íslenskra námsmanna sem upplifði þessa sögulegu tíma.
Á níunda áratugnum hljómaði þýskan einsog flauel í kvikmyndum Fassbinders, Trottu og Wenders, tregafull fegurð og ný dýpt í mennsku sem hafði ekki farið mikið fyrir í kvikmyndum fram að því. Á sama tíma var hreyfing innan myndlistarinnar sem kallaði sig „Neue Wilden“ og náði meir að segja til fleiri en bara listunnenda. Neue Wilden voru mikið til bara strákar að mála stórt og klæddu sig í leður og spiluðu á bassagítar eða trommusett, dálítið einsog Utangarðsmenn að mála myndir. Fyrir unga manneskju, sem var svag fyrir nýjungum, var allt þetta ágætis aðdráttarafl til þess að flytja búferlum og setjast að í Berlín.

„Eyjan í rauða hafinu“
Berlín „Eyjan í rauða hafinu“ var hernumin og skipt í franska, ameríska og breska hlutann innan múrsins en Rússarnir fengu Austur-Berlín og allt fyrir utan múrinn. Þetta var lítið að abbast upp á okkur Íslendingana, maður vissi þó að ef viðkomandi labbaði nógu lengi í eina átt þá blasti við múrveggur. Það var þó helst þegar einhver skriðdrekasýning poppaði upp í hverfinu að henni fylgdi svona óljós áminning um að Berlín hafði einu sinni verið leiksvæði ógnvekjandi atburða sem vonandi myndu ekki endurtaka sig og núna var hún undir eftirliti.
Ég bjó í Kreutzberg og hjólaði meðfram ánni Spree á markaðinn þegar veður leyfði. Það gat hinsvegar verið alveg skuggalega kalt í Berlín á veturna. Ég hef aldrei upplifað eins mikinn kulda, fyrir utan kannski á Svalbarða. Þegar verst lét þá hreinlega fraus andardrátturinn, og loftið var svart af mengun vegna kolanna sem voru notuð í upphitun húsanna og fyrir verksmiðjurnar í Austur-Berlín.
Það voru stærðarinnar svæði innan Berlínar sem voru óbyggð og höfðu staðið óáreitt síðan í stríðinu. Þessi svæði voru mögnuð af því að þau sögðu svo mikla sögu með því að segja ekki neitt og vera ekki neitt nema sandur, mold og strá og nokkrir múrsteinar og bíða þarna auðmjúk eftir næsta degi. Uppáhalds svæðið mitt var Potsdam, landið í kringum bókasafnið og fílharmóníuna þar sem flóamarkaðurinn var um helgar og hinn ástsæli þýski leikari Curt Bois ráfaði um í myndinni Himmel uber Berlin.

Þorpið í Berlín
Árið 1986 fékk ég inngöngu í Hochschule der Kunste þar sem þeir Ómar Stefánsson og Tolli voru fyrir í málaradeildinni en það var svo kalt þann veturinn í Berlín að ég frestaði flutningunum. Í millitíðinni hafði Kalda stríðið þiðnað eftir fund Reagans og Gorbachev í Reykjavík 1986. En þegar Auður, dóttir mín, fæddist árið eftir og var orðin rétt tæplega níu mánaða gömul tókum við á okkur rögg, ég og Kristján, barnsfaðir minn, og fluttum til Berlínar.
En árið 1989 þegar skólasystir mín, Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarkona og ferðafrömuður, tók myndina í garðinum við hliðin á TU, Tekniske Universitet, bjuggu ekki fleiri en 40 íslenskir námsmenn í Vestur-Berlín með börnum. Síðan hefur Íslendingunum fjölgað og eru í dag tífalt fleiri, en ég efast samt um að hlutfallið af börnunum sé hið sama, mig grunar að börnin séu færri í dag. Þá vorum við bara námsfólk á námslánum í Berlín, fæst eitthvað að vinna í borginni, allavega ekki við sem áttum börn. Þetta voru upp til hópa gagnkynhneigð pör sem komu með eða eignuðust barn í miðju námi.
Þegar ég settist að í Berlín tóku reyndari og eldri Íslendingar við mér og fjölskyldunni. Ég man eftir Gústa heimspekingi heima við eldhúsborðið að hjálpa okkur nýliðunum að sækja um barnabætur, leigubætur og alla styrki sem hugsast gat. Hann var með vitneskju sem var gulls ígildi og hafði farið á milli kynslóða námsmanna frá Íslandi. Íbúðirnar héldust gjarnan innan nýlendunnar, ég fékk mína íbúð hjá Íslendingi sem fékk hana eftir annan Íslending.
Það var gott að vera með barn í Berlín og mikið gert fyrir barnafjölskyldur og ýmsar fyrirgreiðslur fyrir ungt fjölskyldufólk. Leiguhúsnæði og matur ódýr miðað við á Íslandi og í minningunni þá lifði ég góðu lífi og keyrði á gulum Mercedes Benz sem var keyptur af Tyrkja í Kreutzberg.

Syndaflausn í Bioladen
Það var í Berlín sem ég heyrði fólk fyrst véfengja bólusetningar og yfirhöfuð gera athugasemdir um uppruna fæðunnar. Ég lærði að versla í Bioladen þar sem allir voru PC og frekar þurrir á manninn, „weltsmerz“ hékk í loftinu en maður keypti sér syndaaflausn og barnið var gult eins og það væri með gulu eftir allan gulrótarsafann.
Í Berlín lærði ég líka að elda og það var gaman að elda af því að það var svo gott. Á Íslandi var ekkert á boðstólum nema tómatar og gúrkur. Og ég var sólgin í grænmeti sem ég keypti hjá Tyrkjanum og Tyrkjabúðin var, samanborið við Bioladen, óður til lífsins. Þar flæddu yfir allar hugsanlegar tegundir af ólívum og fetaosti, kökum í sírópi, halvasælgæti, rúsínum og möndlum í sekkjum og allt þetta úrval af grænmeti var mikill munaður.
Þjóðverjar voru og eru líklega ennþá með frábært heilbrigðiskerfi.
Þeir tóku ungbörnin nýfædd í höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð og ég fór í fyrsta sinn í nálarstungur á ævinni þegar töflur sem læknirinn gaf mér virkuðu ekki á höfuðverkinn. Sumir læknanna voru homópatar og gáfu út remedíur samhliða pensiíni. Fyrir þessa þjónustu borgaði ég sem námsmaður einhverja smáaura í sjúkrakassann og fékk í staðinn sálfræðing, nudd og spangir og allt það maður þarf til þess að vera keikur í spori.
Þýska þjóðarsálin
Á yfirborðinu var Berlín frekar róleg og eitthvað skjól þarna innan múrsins. Það var engin herskylda, þannig að þýskir friðarsinnar fluttu til Berlínar og samkynhneigðir úr sveitum Þýskalands settust þar að. Það var því þessi víðsýni í loftinu en á sama tíma þessi þýska reglufesta og pólitísk rétthugsun. Það er ótrúlegt hvað tvær þjóðir geta verið ólíkar, eins og Þjóðverjar og Frakkar, sem búa sitt hvoru megin við landamærin, en það liggur við að Frakkarnir fari frekar yfir á rauðu en grænu ljósi. Ef þú vogar þér að ganga yfir á rauðu ljósi í Berlín þá áttu á hættu að fá gusuna yfir þig. Þá stendur þjóðin þéttingsfast saman, ungir og gamlir, og hella úr skálum reiði sinnar, oftast yfir einhvern útlendingsbjána eins og mig sem lærði í Reykjavík að hlaupa yfir á rauðu áður en vindurinn feykti mér út í sjó.
Innri barátta útlendingsins
Margir af Íslendingunum stunduðu nám við Freie Universitet sem var hálfgerður hippaskóli á þessum tíma, stofnaður eftir að múrinn var byggður en Humbolt skólinn varð eftir í Austur-Berlín. Freie Universitet stóð undir nafni og var frekar frjálslegur skóli í hvað varðaði skil og námsárangur og sumir nemendanna voru komnir til ára sinna og höfðu kannski verið viðloðandi skólann í 10 eða 15 ár og ekkert bólaði á útskrift.
Við Ósk Vilhjálmsdóttir sátum í tímum hjá voða gáfuðum listasöguprófessor í Hochschule der Kunst. Ég man hvað mig langaði að fá einhvern botn í þessa fyrirlestra herra Kerbers, en ég fór alltaf jafn ringluð út eftir tíma hjá honum. Hjá Kerber voru gjarnan heitar umræður um listasögu og heimspeki og þýsku krakkarnir töluðu, að því virtist, endalaust, langlokur sem byrjuðu á einni sögn. Maður beið svo og beið eftir næstu sögn sem kom svo aldrei eða ef hún kom loksins þá tapaðist þessi örfíni þráður sem ég hélt mig hafa náð.

Frá vinstri: Soffía Gunnarsdóttir, starfsmaður íslenska sendiráðsins í Berlín, með dóttur sína. Sesselja Auður Eyjólfsdóttir, aðstoðarskólastjóri Langholtsskóla. Hrönn Kristinsdóttir kvikmyndaframleiðandi. Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur með Elísabetu í fanginu. Krjúpandi er Jóna Fanney Friðriksdóttir framkvæmdastjóri, Hrafnhildur Ragnarsdóttir sérkennslukennari. Margrét Rósa Sigurðardóttir menntaskólakennari. Jórunn Sigurðardóttir útvarpskona. Börnin eru frá vinstri fremst, Sölvi Tómasson í fanginu á Jórunni, Stígur Helgason hjá Hrafnhildi, Hildur Guðnadóttir með Þórarin Guðnason í fanginu á Jónu, Arnór Óskarsson fremst fyrir miðju, Guðbjörg Ágústsdóttir, Borghildur Indriðadóttir, Auður Anna Kristjánsdóttir lengst til vinstri. Fyrir aftan Auði er síðan Una Stígsdóttir og við hliðina á henni er Elísabet Ágústsdóttir með kaskeiti.
Austrið
Það var hægt að skreppa í dagsferð yfir til Austur-Berlínar í gegnum Check point Charlie, en það þurfti að skila sér til baka fyrir miðnætti og eyða gjaldeyrinum sem manni var uppálagt að kaupa. Búðirnar voru meira og minna tómar, að vísu gátu tónlistarnemar náð sér í klassískar nótur, aðrir gátu keypt sér das Kapital og kommúnistaávarpið, drukkið bjór og kaffi og fengið fremur þurrlega þjónustu.
Ég veit ekki hvað við Íslendingarnir skildum vel þessar absúrd aðstæður. Ég man allavega að það bar ekki á neinni samkennd með Austur-Þjóðverjunum sem þjónustuðu okkur. Það var meira eins og manni fyndist örlög þeirra vera sjálfsköpuð eins og hugmyndir eru almennt um fátækt fólk, að það sé því sjálfu að kenna.
Þegar múrinn féll kom í ljós að Íslendingarnir áttu oft meiri samleið með Austur-Þjóðverjum. Þeir voru einsog útlendingar í vestrinu. „Der Ossi“ tókst einhvern vegin að skilja sögu sína úr seinni heimstyrjöldinni eftir hjá Vestur-Þjóðverjanum og glímdu ekki við fortíðina.
Ég var ein heima með barnið þegar múrinn féll og allt svo undursamlega óraunverulegt, en daginn eftir, þegar ég fór út að keyra á benzinum mínum og ég var stödd á hringtorginu í kringum sigursúluna, var ég föst í miðjum flota af austurþýskum bílum þeirrar tegundar sem Ingvar Helgason hafði flutt inn til Íslands þegar ég var barn. Allt í kringum mig voru litlir trabantar.
Á þessum vikum minnist ég þess að hafa eignast austur-þýska vinkonu sem ég man ekki lengur nafnið á, en það fylltist allt af bjartsýnu fólki sem fór um borgina og vildi kynnast fólki og var meira að segja komið heim til fráskilinnar, einstæðrar móður frá Íslandi sem bjó í Kreutzberg með dóttur sina.
Hrönn Kristinsdóttir, kvikmyndaframleiðandi:

Hrönn Kristinsdóttir flaug í byrjun árs 1985 með fragtvél Arnarflugs til Amsterdam, en þar var pláss fyrir 10 farþega. Þaðan lá leiðin til Berlínar. Hún innritaði sig í Freie Universitet og byrjaði í leikhúsfræði og málvísindum.
„Þegar ég kom fyrst til Berlínar fannst mér ég í fyrsta sinn finna fyrir algjöru frelsi, ég þekkti fáa og gat ferðast um borgina án þess að rekast á nokkurn sem ég kannaðist við,“ segir Hrönn. „Þetta var frelsi frá smábænum Reykjavík þar sem maður þekkti annan hvern mann. Í byrjun tók ég alltaf öðruhvoru u-bahn, allskyns leiðir, bara til að sjá fullt af fólki sem ég hafði aldrei séð áður, það gladdi mig mjög.
Í Urbanstrasse bjuggum við Jóna Fanney Friðriksdóttir saman. Þar lásum við upphátt fyrir hvor aðra milli herbergja, texta sem okkur fundust mikilvægir og merkingarþrungnir og einmitt fullir af angist, til dæmis ljóð H. Hesse „Alles das schwere tut Mann allein“ – sem er jú í raun rétt. Þetta var áður en við urðum ástfangnar af mönnum okkar og eignuðust börnin,“ segir hún.
„Mér finnst Berlín hafa haft mjög mikil áhrif á mig. Ég var í borginni þegar ég var á mörkum þess að verða alvöru fullorðin og gekk með mitt fyrsta barn. Eftir að ég flutti burtu til LA (mánuði áður en múrinn féll) kom ég ekki til Berlínar í 12 ár. Þegar ég síðan kom, til að fara á Berlinale, og keyrði inn í borgina með leigubíl framhjá Potsdamer Platz (Sony Center) þá þurfti ég að gráta smá þegar ég sá hvað borgin hafði breyst og ég er nú ekki sérlega „sentimental“ týpa. Það hafði bara svo margt breyst. Mig hefur oft langað að flytja aftur til gömlu Berlínar, sérstaklega eftir að ég bjó í Sarajevo 2014 sem hafði að einhverju leyti sömu dýnamík og Berlín fyrir 28 árum. Stríð og ógn svo nálæg í tíma og rúmi og fólk svo ákveðið í að láta það ekki hafa áhrif á sig heldur frekar nýta það í sköpun og bjartsýni – kannski rugl en það var mín upplifun.“
Jóna Fanney, framkvæmdastjóri:

Ég hélt til Þýskalands í nám einfaldlega vegna þess að ég vildi ná góðum tökum á þýsku. Ég sótti um fjölmiðlafræði í nokkrum háskólum í Þýskalandi og fékk inn í Freie Universität í Vestur-Berlín og bara lét slag standa. Ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í. Ég var frekar saklaus og lúðaleg þegar ég mætti til Berlínar. Stemningin í borginni var hins vegar svört og pönkuð. Andrúmsloftið var mjög sérstakt. Borgin var full af ekkjum sem misst höfðu menn sína í heimsstyrjöldinni og svo flykktist ungt fólk til Berlínar vegna þess að þeir sem þar höfðu lögheimili þurftu ekki að ganga í herinn. Ekkjur og námsmenn var skrýtin blanda. Stemningin var köld og jafnvel hrokafull. En einhvern veginn vandist þetta og ég hætti að skynja þetta svona sterkt með tímanum. Þetta var eins og að búa á eyju og ég skynjaði alltaf af og til að ég þurfti að komast frá borginni. Ferðalagið í gegnum Austur-Þýskaland var sérstakt. Við máttum einungis stoppa á vissum stöðum á svokölluðum Gaststätte og oft var austur-þýska lögreglan að reyna að næla sér í aukapening með því að stoppa mann og sekta fyrir nákvæmlega ekki neitt. Oft var farið í heimsókn til Austur-Berlínar og þá þurftum við að skipta 25 vestur-þýskum mörkum á móti 25 austur-þýskum sem höfðu nákvæmlega ekkert verðgildi nema austan megin. En fyrir þessa upphæð var hægt að lifa kóngalífi í einn dag, borða, drekka og kaupa bækur. Ég keypti t.a.m. öll bindin af Das Kapital eftir Engels og Marx fyrir slikk og þetta las maður inn á milli og bóhemaðist. Kalda stríðið var í algleymingi og þetta var allt beint fyrir framan nefið á manni. Þetta var lærdómsríkur tími fyrir sálina og Berlín hefur breyst mikið frá því sem hún var á níunda áratugnum. Þetta var óhemju góður tími en Berlín er í dag mun glaðari og lítríkari.
Ósk Vilhjálmsdóttir, myndlistarkona:

Ósk stundaði myndlistarnám við Hochscule der Kunste í Berlin og bjó þar frá ‘88 til ‘94. „Það var algjör tilviljun að ég flutti þangað, ég var ekki á leið til Berlínar heldur til San Francisco. Mér fannst leiðinlegt í þýsku í menntaskóla en elskaði frönsku og allt franskt. Ég vissi ekkert um Berlín, vissi ekki einu sinni að það væri múr og að borgin væri innmúruð í miðju austrinu. Ég fór í skrýtið ferðalag og lenti í Berlín þar sem hópur af Íslendingum var ennþá að skemmta sér í björtu morgunsárinu. Ég hafði áður verið einn vetur í París og fann hvað Berlín var miklu meira „cool“ og töff. París var svo formföst og gamaldags og Frakkar snobbaðir.
Berlín kom þarna á óvart, ævintýri, myrkur, rokk og roll, sterk vinstri slagsíða, miklu meiri broddur en í París. Þarna bjuggu listamenn einsog Blixa Bargeld. Um þetta leyti var ég í málaradeildinni heima og málaði allan daginn, heilluð af nýja málverkinu og með svo sterka útþrá. Berlín var Mekka nýja málverksins. HdK akademían í Berlín stútfull af stælgæjum og stælpíum í útslettum vinnugöllum með pensil á lofti og hrokafullan svip. Ómótstæðilegt. Kreuzberg svo „cool“, geggjuð „fusion“ í því hverfi; harðasta pönksenan, stærsta Tyrkjanýlendan, húsatökusena, táragas, knæpur, rokktónleikar – en samt svo sveitó.“
Sigríður Þorgeirsdóttir, heimspekingur:

Sigríður lauk heimspekinámi við Freie Universität árið 1988 en hélt síðan áfram í doktorsnám sem hún lauk við Humbodlt háskólann. Hún er sérfræðingur okkar í Nitetzsche og femíniskri heimspeki. „Þegar ég kom fyrst til Berlínar bjó ég í Wohngemeinschaf (wg). Andi ‘68 sveif enn yfir vötnum og allt var rætt í kaf. Þýsk heimspeki var alveg sérkapítuli, svakalega „intense“, við eyddum mörgum vikum í að kryfja fáeinar síður af texta og það var upp á líf og dauða, eins og ekkert væri mikilvægara. Ég bý enn að þeirri ástríðu. Berlínarbúar hafa reynt mikið á 20. öldinni, og virka hrjúfir í fyrstu en undir slær heitt hjarta. „Herz mit Schnauze“. Engin gervikurteisi og það hét „radikale Ehrlichkeit“ að segja það sem manni bjó í brjósti. Þetta var heiðarleiki, hjálpsemi, andmaterialismi þessa tíma. Þessi ár voru hápunktur „alternatív“ menningar í Vestur-Berlín, samanber alla foreldrareknu leikskólana, skóladagheimilin og náttúrulækningastofur. Leiga var lág, matur ódýr og fallegar Altbau-leiguíbúðir. „Það var spennandi að fara yfir í Austrið. Heimsókn í diskó í Austur-Berlín var svolítið eins og að koma á félagsheimili út á landi. Menn mættu í hermannabúningum á dansgólfið og þótt fínt. Það var eitt og annað í Austrinu sem minnti okkur á Ísland uppvaxtaráranna, ákveðin einangrun, en líka einlæg forvitni um umheiminn.“ „Það var ódýrt á sinfó og leikhús í beggja megin múrsins. Kapítalisminn sópaði því út eftir að Berlín var ekki lengur niðurgreidd eftir hrun múrsins. Fáum árum síðar varð borgin næstum gjaldþrota þegar peningamenn/bankamenn/pólitíkusar fóru ránshendi um fjárhirslur borgarinnar. Fyrr á tímum voru dómkirkjuturnar miðja borga en eftir að allt var komið undir merki samkeppnissamfélagsins og Potsdamer Platz var byggt sem nýtt miðbæjartorg, var það hannað þannig að Merzedes Bens merkið og Sony merkið báru við himin.“ „Eitt besta djobb sem ég hef haft á ævinni fékk ég fyrsta árið mitt í Berlín þegar ég sat sem áhorfandi við sjónvarpsupptökur á öllum 9 sinfóníum Beethovens í Berliner Filharmóníunni með Herbert von Karajan sem stjórnanda.“
Hrafnhildur Ragnarsdóttir, sérkennari:

Hrafnhildur flutti til Berlínar árið 1982 og lærði sérkennslufræði við FU. Hún bjó fyrst á fimmtu hæð á Haubachstrasse í Charlottenburg þar sem kolin voru sótt niður í kolakjallarann, en það voru svona eggjakol sem fuðruðu upp. „Ég man eftir því að hafa geymt fötin mín fyrir næsta dag undir sænginni svo að það yrði auðveldara að fara á fætur.“
„Í byrjun vorum við varla fleiri en 20 Íslendingar í borginni. Svo fæddust börnin og hópurinn stækkaði og voru nálægt 50 þegar myndin var tekin 1989. Ég gat ekki hugsað mér að fæða á þýsku og fór heim og fæddi Stíg „á íslensku“ árið 1984. Stígur synti um einsog fiskur í sínu þýska umhverfi en um leið og hann fór yfir landamærin þá var ekki hægt að fá eitt orð upp úr honum á þýsku, hvernig sem ömmurnar reyndu. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar við mæðgin flugum til baka til Berlínar eftir langa sumardvöl á Íslandi, ekki stakt orð á þýsku og þýska flugfreyjan hjá Euroflot spurði: „Darf Ich Ihnen etwas anbieten?“ og Stígur, þriggja ára, svaraði um hæl: „Bitte geben Sie mir ein Apfelsaft mit eiswürfel, bitte Schön.“
„Í Berlín var mikið umburðarlyndi fyrir skrýtnu fólki, en alltaf þessi krafa um að vera PC og að borða „sonnenblumenbrot“. Á foreldrarekna leikskólanum hans Stígs kom tilkynning um að rauða Haribo hlaupið væri eitrað og það mætti ekki borða það. Síðan kom tilkynning um að bláa Haribo væri líka eitrað og krakkarnir tíndu samviskusamlega eitrið frá og lögðu það til hliðar, nema Stígur sem var mikill nammigrís. Einu sinni vorum við saman í bíó og Stígur sat þar alsæll með sitt nammi, ekki nema það að í næstu röð sátu feðgin þar sem dóttirin var með gulrætur í poka. Pabbinn bendir í áttina til okkar Stígs og segir við dótturina: Guck mal wie die Kinder verwöhnt werden, sem þýðir á lausbeislaðri íslensku, sjáðu, hvernig dekrað er við börnin.“
„Þetta var á þessum pönkárum, allir með litað hár. Ég gleymi því ekki þegar ég, ásamt einhverjum Íslendingum, var að þvælast seint um kvöld í Kreutzberg og það kom svona hópur á móti okkur af þýskum pönkurum, uppstrílaðir með bleika handakamba, nælur og dót í andlitinu og rottu á öxlinni, en það var eins og við manninn mælt þrátt fyrir að engin umferð væri í kringum okkur, þá biðu pönkararnir á rauða ljósinu á meðan við villingarnir löbbuðum yfir án þess að blikna.“
The post Innmúraðar mæður í Berlín appeared first on Fréttatíminn.