Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Annáll íslenskra hneykslismála

$
0
0

Panamaskjölin
Stærsta frétt ársins 2016 á Íslandi var tvímælalaust opinberun Panamaskjalanna svokölluðu frá panamaísku lögmannstofunni Mossack Fonseca um vorið 2016. Þrír ráðherrar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal, voru eigendur eða tengdust félögum í skattaskjólum fyrir og eða eftir hrunið árið 2008. Fréttin um íslensku ráðherrana var heimsfrétt en ekki er algengt að tíðindi frá Íslandi séu í heimspressunni, einna helst gerist það vegna eldgosa og svo auðvitað vegna hrunsins á sínum tíma.
Athygli vakti hversu marga Íslendinga var að finna í skjölunum en engin önnur þjóð átti eins marga einstaklinga í gögnunum per capita og Ísland. Íslendingar virðast, út frá gögnunum frá þessari lögmannstofu sem sérhæfði sig í aflandsviðskiptum, hafa átt heimsmet í notkun aflandsfélaga á árunum fyrir hrunið 2008. Um sex hundruð Íslendinga var að finna í gögnunum, fleiri en Svía, Dani og Norðmenn þó þessar þjóðir séu margfalt fjölmennari en Ísland. Opinberanir Panamaskjalanna leiddu meðal annars til þess að rithöfundurinn Hallgrímur Helgason fann upp nýtt hugtak til að nota um Ísland: Landið er ekki bananalýðveldi heldur Panamalýðveldi.

 

 

Panamabyltingin Stærsta hneykslismál ársins og liðins kjörtímabils á Íslandi var sú opinberun Panamaskjalanna að þrír íslenskir ráðherrar hefðu notast við fyrirtæki í skattaskjólum vegna viðskipta sinna. Opinberunin leiddi til fjölmennra mótmæla við Alþingishúsið, mótmæla sem ekki er hægt annað en að bera saman við búsaáhaldabyltinguna eftir hrunið 2008, afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og nýrra kosninga.
Stærsta hneykslismál ársins og liðins kjörtímabils á Íslandi var sú opinberun Panamaskjalanna að þrír íslenskir ráðherrar hefðu notast við fyrirtæki í skattaskjólum vegna viðskipta sinna. Opinberunin leiddi til fjölmennra mótmæla við Alþingishúsið, mótmæla sem ekki er hægt annað en að bera saman við búsaáhaldabyltinguna eftir hrunið 2008, afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og nýrra kosninga.

Sigmundur Davíð og Wintris
Þó þrjá ráðherra hafi verið að finna í Panamaskjölunum beindist mesta athyglin að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og fyrirtæki hans og konu hans, Wintris Inc., á Tortólu. Sigmundur Davíð var eitt af helstu andlitunum í Panamaskjölunum í fréttum um þau á heimsvísu. Ekki bara af því hann var forsætisráðherra heldur líka vegna viðtals sem hann fór í við sænska ríkissjónvarpið þar sem hann endaði á að ganga út eftir að hafa svarað spurningum um Wintris út úr kú. Myndskeiðið var sýnt í fjölmiðlum um allan heim og þráaðist Sigmundur Davíð við að segja af sér og gerði tilraunir til að bjarga pólitísku lífi sínu með þrýstingi á forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson. Sigmundur Davíð hætti hins vegar sem forsætisráðherra og ríkisstjórnin hélt velli án hans með Sigurð Inga Jóhannsson við stjórnvölinn og var ákveðið að boða til nýrra kosninga um haustið 2016 vegna opinberana Panamskjalanna. Þannig leiddu Panamaskjölin, og viðbrögð íslenskra kjósenda við þeim, til þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér og boðað var til nýrra kosninga en ennþá liggur ekki fyrir hvaða ríkisstjórn verður mynduð í kjölfar þeirra. Panamaskjölin eru því ennþá stór áhrifavaldur í íslenskum stjórnmálum.

Lekamálið
Lekamálið var fyrsta stóra pólitíska hneykslismálið á kjörtímabilinu sem var að líða. Hanna Birna Kristjánsdóttir þurfti að segja af sér sem innanríkisráðherra vegna málsins þar sem sannað var að aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, lak gögnum um nígerískan hælisleitanda í fjölmiðla í viðleitni sinni til að stýra umræðum um manninn, ráðuneytinu í hag. Hanna Birna sagði hins vegar ekki af sér fyrr en ári eftir að málið varð opinbert, í nóvember árið 2014, en þá játaði Gísli Freyr að hafa lekið gögnunum um hælisleitandann. Gísli Freyr var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna gagnalekans og Lekamálið batt enda á pólitískan feril Hönnu Birnu sem sat aðeins tæpt kjörtímabil á þingi. Alveg sama hver vitneskja Hönnu Birnu um leka Gísla Freys var þá bar hún pólitíska ábyrgð á gjörðum hans og sínu ráðuneyti.

 

Skýrsla Ríkisendurskoðunar, þar sem Landsbankinn var meðal annars gagnrýndur vegna Borgunarmálsins, var kornið sem fyllti mælinn fyrir Steinþór Pálsson bankastjóra.
Skýrsla Ríkisendurskoðunar, þar sem Landsbankinn var meðal annars gagnrýndur vegna Borgunarmálsins, var kornið sem fyllti mælinn fyrir Steinþór Pálsson bankastjóra.

Borgunarmálið
Ein skýrasta afleiðing Borgunarmálsins voru starfslok Steinþórs Pálssonar, bankastjóra Landsbankans, í lok nóvember árið 2016. Umræða um Borgunarmálið hafði þá staðið yfir í rúm tvö eða allt frá því að fjölmiðlar greindu frá því að ríkisbankinn Landsbankinn væri að selja ríflega 30 prósenta hlut sinn í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun bak við luktar dyr til hóps fjárfesta sem meðal annars taldi föðurbróður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, Einar Sveinsson, og eigendur útgerðarinnar Stálskipa. Í ljós kom síðar að Landsbankinn hafði gert slík mistök við sölu hlutabréfanna að bankinn hafði ekki tekið tillit til eignarhlutar Borgunar í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Visa Europe en hlutur bankans var metinn á um 1900 milljónir króna. Ríkisendurskoðun fjallaði meðal annars um þetta atriði í gagnrýnni skýrslu um eignasölu Landsbankans í nóvember 2016 en þar kom ítrekað fram að bankinn fylgdi ekki eigin verklagsreglum um sölu fyrirtækja og seldi eignir bak við luktar dyr en ekki með gagnsæjum hætti. Þessi skýrsla var kornið sem fyllti mælinn hjá Steinþóri og hann lét af störfum eftir að hafa stýrt Landsbankanum frá árinu 2010.

Landsdómsmálið
Eitt umdeildasta og mest umtalaða mál eftirhrunsáranna á Íslandi er Landsdómsmálið þar sem meirihluti þingmanna á Alþingi Íslendinga tók þá ákvörðun að ákæra Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í september árið 2010. Ísland varð þar með fyrsta og eina landið í heiminum sem dró einn æðsta ráðamann þjóðar fyrir dóm vegna þeirra atburða sem áttu sér stað í fjármálahruninu um haustið 2008. Þeir sem töldu ákæruna og dóminn réttmætan gætu kallað Landsdómsmálið skandal vegna þess sem Geir var ákærður og dæmdur fyrir, formlega ábyrgð sína á því að hafa ekki reynt að bregðast við hruninu áður en það skall yfir Ísland, á meðan gagnrýnendur ákærunnar geta haldið því fram að málið sé skandall út af því ákæruvaldið í málinu var flokkspólitískt og þar með að Geir hafi verið beittur sögulegum órétti. Mannréttindadómstól Evrópu ákvað að taka mál Geirs fyrir árið 2013 en niðurstaða liggur ekki fyrir hjá dómnum. Mál Geirs er í raun ekki ennþá útrætt.

 

Bjarni Benediktsson tók þátt í viðskiptum eignarhaldsfélagsins Vafnings í febrúar 2008 og seldi hlutabréf sín í bankanum í sama mánuði. Hann og faðir hans fengu samtals tæpan milljarð krona fyrir bréf sín sem annars hefðu tapast í hruninu.
Bjarni Benediktsson tók þátt í viðskiptum eignarhaldsfélagsins Vafnings í febrúar 2008 og seldi hlutabréf sín í bankanum í sama mánuði. Hann og faðir hans fengu samtals tæpan milljarð krona fyrir bréf sín sem annars hefðu tapast í hruninu.

Vafningsmálið og sala Bjarna Benediktssonar á Glitnisbréfum
Í febrúar 2008 tók Bjarni Benediktsson, þáverandi þingmaður og formaður allsherjarnefndar, þátt í viðskiptasnúningi sem sýndi svart á hvítu að íslenska bankakerfið var á brauðfótum. Glitnir þurfti að lána einum hluthafa sínum, Þætti International eh., sem ættingjar Bjarna áttu með annars, rúma tíu milljarða króna til að borga erlendum banka lán sem þeim hafði verið veitt fyrir hlutabréfunum. Ekki einn banki í veröldinni, annar en Glitnir, var reiðubúinn til að veita þetta lán þar sem hlutabréfaverð í bankanum hafði hrunið. Þannig tók Glitnir við ábyrgð á tíu milljarða láni sem enginn annar banki vildi. Stjórnendur Glitnis voru hræddir um að ef það fréttist að enginn vildi lána fyrir hlutafé í Glitni myndi hlutabréfaverð í bankanum hrynja. Í sama mánuði seldi Bjarni Benediktsson hlutabréf sem hann átti persónulega í Glitni og faðir hans, Benedikt Sveinsson, gerði slíkt hið sama. Bjarni seldi fyrir 126 milljónir króna en faðir hans fyrir um 850 milljónir en þannig björguðu þeir samtals tæpum milljarði króna sem þeir annars hefðu tapað í íslenska bankahruninu nokkrum mánuðum síðar.

Mál Baldurs Guðlaugssonar
Sala Baldurs Guðlaugssonar, ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, á hlutabréfum sínum í Landsbanka Íslands var eitt fyrsta stóra málið sem embætti sérstaks saksóknara rannsakaði og ákærði í í kjölfar hrunsins árið 2008. Baldur var svo dæmdur fyrir innherjasvik vegna þeirra upplýsinga um stöðu bankakerfisins á Íslandi. Hann reyndi að fara með mál sitt fyrir Mannréttindadómstól Evrópu en án árangurs. Baldur afplánaði sinn dóm og hefur starfað sem ráðgjafi hjá Lögmannsstofunni Lex síðan auk þess sem hann hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja. Mál Baldurs var sögulegt vegna þess að um var að ræða háttsettan embættismann sem hlaut dóm fyrir brot í starfi en í kjölfar dómsins yfir honum var Geir H. Haarde forsætisráðherra einnig dæmdur.
Arðgreiðslumál tryggingafélaganna
Sum skandalmál ná aldrei að verða að veruleika vegna þeirra viðbragða sem þau vekja. Þetta átti til dæmis við um ætlaðar arðgreiðslur tryggingafélaganna VÍS og Sjóvá í mars á þessu ári. VÍS ætlaði til dæmis, eitt og sér, að greiða út fimm milljarða arð til hluthafa. Reiði- og óánægjualda greip um sig í samfélaginu vegna arðgreiðslnanna sem leiddi meðal annars til þess að Jóhanna Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði að tryggingafélögin misbyðu fólki og að þau ættu að „skammast sín“. Einstaklingar og fyrirtæki hótuðu að hætta viðskiptum við tryggingafélögin og Félag íslenskra bifreiðaeigenda brást ókvæða við. Stjórn VÍS lækkaði svo arðgreiðsluna úr 5 milljörðum og niður í tvo og arðgreiðsla Sjóvár var lækkuð úr 3.1 milljarði króna og niður í rúmlega 650. Viðbrögðin við arðgreiðslunum háu létu stjórnir þeirra skipta um skoðun.

 

Al Thani-málið er eitt stærsta dómsmálið sem komið hefur til kasta héraðssaksóknaraembættis Ólafs Haukssonar eftir hrunið. Umræða um málið stendur ennþá yfir þó dæmt hafi verið í því í byrjun árs 2015.
Al Thani-málið er eitt stærsta dómsmálið sem komið hefur til kasta héraðssaksóknaraembættis Ólafs Haukssonar eftir hrunið. Umræða um málið stendur ennþá yfir þó dæmt hafi verið í því í byrjun árs 2015.

Al Thani-málið
Þó dæmt hafi verið í Al Thani-málinu í Hæstarétti Íslands í ársbyrjun 2015 og allir fjórir sakborningarnir, Ólafur Ólafsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, og Magnús Guðmundsson, hafi hlotið þunga fangelsisdóma þá er málinu ekki endanlega lokið. Málið var eitt það stærsta sem embætti sérstaks saksóknara rannsakaði eftir hrun enda snérist það um markaðsmisnotkun með ríflega 25 milljarða króna hlut í Kaupþingi fyrir hrun og blekkingar gegn almenningi um stöðu íslenska bankakerfisins. Fjórmenningarnir hafa nú lokið fangelsisafplánun sinni eftir umdeilda lagabreytingu fyrr á árinu sem eykur möguleika fanga á að afplána dóma sína undir rafrænu eftirliti. Í sumar kallaði Mannréttindadómstóll Evrópu eftir svörum frá íslenska ríkinu um vissa þætti í meðferð Al Thani-málsins og Hreiðar Már hefur stefnt íslenska ríkinu vegna þess og vill fá greiddar skaðabætur fyrir óréttláta og spillta málsmeðferð. Fjórmenningarnir afplána nú eftirstöðvar dómsins með ökklaband undir rafrænu eftirliti en ljóst er að umfjöllun um þetta stóra dómsmál er ekki lokið og enn birtast reglulega greinar í blöðum þar sem hagsmunaðilar fjalla um málið frá sínum sjónarhóli.

Bónusgreiðslur Straums
Tæpu ári eftir hrunið, í ágúst árið 2009, vöktu áætlaðar bónusgreiðslur þrotabús fjárfestingarbankans Straums, sem Björgólfur Thor Björgólfsson átti fyrir hrun, mikla hneykslan í íslensku samfélagi. Til stóð að starfsmenn Straums fengju á milli 3 og 10 milljarða króna greidda fyrir umsýslu með eignir hins gjaldþrota banka. Formaður LSR, Eiríkur Jónsson, sagði um fréttina að hún væri eins og „blaut tuska“ framan í þjóðina og Álfheiður Ingadóttir kallaði tíðindin „lygasögu“. Viðbrögðin leiddu til þess að Straumur hætti við greiðslurnar og þáverandi forstjóri fyrirtækisins, Óttar Pálsson, baðst afsökunar. Vorið 2015 kom hins vegar í ljós að bónusarnir yrðu greiddir út, samtals 3.4 milljarðar króna, og að upphæðin myndi skiptast á milli 20 og 30 starfsmanna þar sem nokkrir lykilstarfsmenn fengju langmest af þessari köku. Í ljós kom að þessi bónusgreiðsla hafði verið ákveðin árið 2011, eftir að Straumur skipti um nafn og var kallaður ALMC og var eignaumsýslufélag utan um eignir Straums og því var tæknilega séð ekki um sama aðila að ræða. Viðbrögðin við þessari frétt árið 2015 urðu allt önnur og minni en árið 2009, rétt eftir hrunið mikla, enda hafði andrúmsloftið í samfélaginu gerbreyst.

 

Brúneggjamálið vakti nær fordómalaus viðbrögð þegar sagt var frá því á RÚV í lok nóvember.
Brúneggjamálið vakti nær fordæmalaus viðbrögð þegar sagt var frá því á RÚV í lok nóvember.

Brúneggjamálið
Sjaldan hafa viðbrögð almennings við einu hneykslismáli eftir hrun verið eins hávær og afgerandi og eftir að Kastljósið sýndi þátt sinn um eggjaframleiðandinn Brúnegg í lok nóvember árið 2016. „Neytendur blekktir um árabil,“ sagði Kastljós en í ljós kom að brúnu „vistvænu“ eggin, sem íslenskir neytendur höfðu keypt um árabil á 40 prósent hærra verði en önnur egg, eru ekki vistvæn að mati Matvælastofnunar. Fjöldi fólks sagði á samfélagsmiðlum eftir þáttinn að það teldi sig hafa verið haft að fífli og margar verslanir tók brúnu eggin úr sölu hjá sér, meðal annars Melabúðin en einn eigandi hennar, Pétur Guðmundsson, sagði meðal annars: „Eins og er teljum við okkur ekki geta verið með þessi egg í sölu.“ Eigendur Brúneggja báru sig hins vegar illa í kjölfarið og sagði Kristinn Gylfi Jónsson, annar eigandinn: „Þetta hefur verið mjög erfitt fyrir okkur persónulega, bræðurna, vegna þess að við erum búnir að vera í landbúnaði alla ævi.“ Ljóst er að erfitt verður fyrir Brúnegg að byggja upp rekstur sinn á nýjan leik eftir þetta enda traust neytenda í garð fyrirtækisins horfið.

Makrílmálið
Eitt umdeildasta mál liðins kjörtímabils var makrílfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra sem hann kynnti á Alþingi um vorið 2015. Frumvarpið hefði falið í sér að kvóta í makríl hefði verið úthlutað til þeirra útgerða sem hafa veitt þessa fisktegund, sem er ný í íslenskri fiskveiðilögsögu, til sex ára í senn og án þess að það kæmi fram í frumvarpinu að makrílkvótinn væri þjóðareign. Einn af þeim gagnrýndi frumvarpið hvað harðast var Jón Steinsson hagfræðingur sem sagði að það treysti stöðu útgerðarmanna gagnvart þjóðinni og fæli í sér grundvallarbreytingu í sjávarútvegsmálum sem væri þeim í hag en ekki almenningi. „Með þessu frumvarpi er því stigið risastórt skref í þá átt að festa varanlega í sessi það fyrirkomulag að útgerðarmenn þurfi ekki að greiða eðlilegt leigugjald til þjóðarinnar fyrir afnot af sameign þjóðarinnar.“ Tekist var á um frumvarpið á Alþingi og víðar í samfélaginu og skrifuðu 30 þúsund manns undir áskorun til forseta Íslands að samþykkja ekki frumvarpið heldur vísa því í þjóðaratkvæði. Vegna deilna um frumvarpið og óánægju víða í samfélaginu hætti Sigurður Ingi svo við að leggja það fram og hefur ekki heyrst af því síðan.

Mál Gunnars Andersen
Í maí 2014 var Gunnar Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í tólf mánuði fyrir að miðla upplýsingum um fjárhagsmálefni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þingmanns til fjölmiðla. Gunnar hafði sætt harðri gagnrýni vegna starfa sinna og umsýslu með aflandsfélög Landsbanka Íslands um síðustu aldamót og var meðal annars fjallað um málefni hans í Kastljósþætti. Guðlaugur Þórðarson hafði verið gagnrýninn á aðkomu Gunnars að málinu og voru uppi sögusagnir um að hann hefði miðlað gögnum um aflandsviðskipti hans til fjölmiðla. Mál Gunnars hafði ekki frekari eftirmál en um var að ræða fyrsta skiptið sem forstjóri Fjármálaeftrlitsins á Íslandi hefur verið ákærður og dæmdur fyrir brot í starfi. Aðkoma Guðlaugs Þórs að málinu var hins vegar aldrei könnuð eða skýrð til fulls en ekki er mörg dæmi um það að þingmaður sé vændur um að grafa undan forstjóra eftirlitsstofnunar hjá ríkinu.

Illugi Gunnarsson gaf ekki kost á sér í yfirstöðnum þingkosningum eftir að Orku Energy-málið var til umfjöllunar stóran hluta síðasta árs.
Illugi Gunnarsson gaf ekki kost á sér í yfirstöðnum þingkosningum eftir að Orku Energy-málið var til umfjöllunar stóran hluta síðasta árs.

Orku Energy-málið
Vorið 2015 kom í ljós að Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafði selt íbúðina sína til fjárfestisins Hauks Harðarsonar, eiganda og stjórnarformanns Orku Energy, í lok árs 2013 og búið í henni æ síðan. Illugi hafði einnig starfað hjá Orku Energy sem ráðgjafi og þegið laun fyrir. Málið kom upp vegna þess að Haukur og aðrir fulltrúar frá Orku Energy fóru í opinbera heimsókn til Kína ásamt menntamálaráðherra um vorið 2015. Í heimsókninni skrifaði Orka Energy undir samstarfssamning við orkufyrirtæki í eigu kínverska ríkisins ásamt ríkisstofnuninni Orkustofnun og öðlaðist Orka Energy um leið stjórnskipulega stöðu líkt og ríkisfyrirtæki í umræddu samstarfi. Um var að ræða fyrsta skiptið sem íslenskt einkafyrirtæki kemst í þessa stöðu erlendis. Illugi Gunnarsson neitaði í kjölfarið að ræða ítarlega um málið og hvernig það vildi til að hann seldi íbúðina sína til Hauks Harðarsonar og hver tengsl þeirra væru önnur en þau að ráðherrann kallaði fjárfestinn einn af sínum nánustu vinum. Illugi ákvað, í aðdraganda þingkosninganna árið 2016, að gefa ekki kost á sér til endursetu á þingi. Ástæðan fyrir þessari ákvörðun Illuga hefur ekki komið fram frá honum sjálfum þó hún hafi verið tekin í skugga Orku Energy-málsins.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652