Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Ísafjarðardjúp teppalagt með laxeldiskvíum

$
0
0

Eldiskvíar, þar sem framleidd verða tæplega 25 þúsund tonn af eldislaxi og regbogasilungi, munu verða dreifðar út um allt Ísafjarðardjúp ef áform þriggja laxeldisfyrirtækja um framleiðslu eldislax í firðinum ná fram að ganga. Þetta þýðir rúmlega tíföldun á framleiðslu eldisfisks í Ísafjarðardjúpi. Dreifingu sjókvíanna um þennan dýpsta fjörð landsins má sjá á myndinni en eitt af eldisfyrirtækjunum, Arnarlax ehf., áformar meðal annars að vera með stóra sjókví úti fyrir Óshlíðinni, á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.
Þessar upplýsingar koma fram í tillögu að matsáætlun um laxeldið sem Arnarlax skilaði til Skipulagsstofnunar í byrjun janúar. Arnarlax hyggst framleiða 10 þúsund tonn af eldislaxi í Ísafjarðardjúpi og verður þar með stærsti einstaki framleiðandi á eldislaxi í firðinum. Langstærsta kvíin verður við Óshlíðina en tvær minni kvíar eiga svo að verða við Drangshlíð og Eyjahlíð, úti fyrir Snæfjallaströndinni. Tekið skal fram að einungis einu sinni áður hefur laxeldi verið reynt í Ísafjarðardjúpi, fyrir meira en 20 árum og sluppu laxar þá úr kvíunum og veiddust víða um Vestfirði, meðal annars á Hornströndum.
Í skýrslunni kemur fram að fjölmargar athugasemdir hafa þegar verið gerðar við áform Arnarlax. Meðal annars hefur rækjuveiðimaðurinn Gunnar Torfason í Bolungarvík spurt spurninga um framkvæmdirnar en mikil og góð rækjumið eru í Djúpinu auk þess sem fulltrúar og lögmenn veiðifélaga í laxám hafa gert athugasemdir við laxeldið vegna mögulegrar erfðablöndunar eldislaxsins og villtra íslenskra laxa.
Texti við mynd: 16 eldiskvíar verða dreifðar um Ísafjarðardjúpið ef eldisfyrirtæki fá að hefja þar laxeldi á tæplega 25000 þúsund tonnum árlega.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652