halla@frettatiminn.is
hjalmar@frettatiminn.is
Einar Sveinbjörnsson sagði í veðurfréttum RÚV fyrir skömmu að þeir sem vildu leggja sitt af mörkum til loftslagsmála, ættu að sniðganga kínverskar vörur. Starfsmenn kínverska sendiráðsins á Íslandi, gagnrýna veðurfréttamanninn, segja skoðun hans öfugsnúna, og hlutdræga. Hvatning hans til Íslendinga um að sniðganga kínverskar vörur, sé enn alvarlegra.
Í yfirlýsingu sem kínverska sendiráðið á Íslandi sendi á Fréttatímann harðneita kínversk yfirvöld að rekja megi loftslagsbreytingar til kínversks iðnaðar. Yfirlýsingin er ekki undirrituð en tölvupósturinn er frá Le Shuang, fyrsta sendiráðsritara í kínverska sendiráðinu.
Í grófum dráttum má segja að yfirlýsingin falli vel að þekktu stefi Kínverja í loftlagsmálum. Þeir benda á að rekja megi hlýnun jarðar til iðnbyltingar Vesturlanda. Iðnbylting þeirra hafi byrjað 200 árum seinna. Kínverjar segja að þrátt fyrir það sé kolefnislosun þeirra álíka mikil og í Evrópu, sé litið til höfðatölu. Kínverjar segja að þeir hafi lagt mikla áherslu á undanförnum árum á draga úr kolanotkun.
„Mig langaði til að skapa umræðu, til þess var leikurinn gerður,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Tilefnið var að hann birti graf frá bresku veðurstofunni sem sýndi að hitastig hefur aldrei verið hærra en nú, frá upphafi mælinga. Hingað til höfum við ekki vanist gagnrýni á loftslagsmál í veðurfréttum en Einar segir að sér hafi alltaf fundist gaman að krydda veðurfréttirnar með ýmsum fróðleik og að veðurtengd málefni, eins og loftslagsmál, séu tilvalin í þennan miðil. En fékk hann tiltal vegna ummælanna um Kína?
„Margir hafa spurt mig að þessu og ég skil ekki af hverju menn halda það,“ segir Einar. „Þetta er fréttamál tengt veðrinu og það hefur verið fjallað um kolanotkun á víðum grundvelli síðan. Umræðan um loftslagsmál er ekki næg og snýst því miður oft um upphrópanir og skyndilausnir. Það verður að ræða þessi mál líka í veðurfréttunum þó formið sé knappt.“
„Kolanotkun í Kína er með því mesta sem gerist í heiminum. Öll framleiðsla Kínverja á gróðurhúsalofttegundum fer á þeirra reikning en það erum samt við sem kaupum vöruna. Þetta er allt tengt. Fólk á Vesturlöndum, þar sem neyslan er mest, álítur sig vera svo umhverfisvænt, en það er ekki nóg að hjóla í vinnuna og flokka sorp. Það er fyrst og fremst hvaða vara þú neytir hér sem skapar losun á gróðurhúsalofttegundum annarsstaðar í heiminum. Við verðum að hugsa um þetta sem hnattrænan vanda og hætta hugsa um losun inn í einhverju lokuðu mengi. Ég hef samt mikla trú á unga fólkinu, það er tilbúið að horfa á stóra samhengið.“
