Áslaug Snorradóttir matarstílisti vinnur við að halda boð og fagna tímamótum annarra en þegar kemur að því að fagna sínum eigin hefur hún oftast ekki tíma. Hún segist þó almennt vera dugleg að fagna sjálfri sér, bara ekki á fyrirfram ákveðnum tímamótum. Áslaug varð fimmtug í vikunni og ákvað á síðustu stundu að halda upp það, með sínum eigin sérstaka stíl.

„Þar sem ég er í vinnunni hérna þá ætlaði ég alls ekkert að halda upp á þetta, en svo hugsaði ég með mér að ég væri bara rola ef ég gerði það ekki,“ segir Áslaug þaðan sem hún situr á kaffihúsi á Bali. Hún er mjög hrifin af Bali þar sem hún hefur ferðast um áður en þetta er í fyrsta sinn sem hún er þar í vinnunni. „Ég er á ferðinni með Þórunni Birnu Guðmundsdóttur nálastungusérfræðingi því við erum að vinna hér saman að rosalega spennandi verkefni,“ segir Áslaug.


Þær Birna skipulögðu ferðina í nóvember og þannig vildi til að ferðin náði fram yfir 15. janúar, afmælisdag Áslaugar, sem þetta árið er stórafmælisdagur. „Þegar dagurinn fór að nálgast byrjaði ég aðeins að velta þessu fyrir mér, hvernig ég ætti að halda upp á þetta. Við erum búnar að vera á ferðalagi og þegar afmælisdagurinn kom upp þá vorum við á Norður-Bali í alveg æðislegu húsi þar sem bjó með okkur allskonar fólk sem gerði daginn sérstaklega skemmtilegan.“


„Ég hafði tekið eftir því á ökrunum í kring að það var allt fullt af marigold blómum og þar sem ég hef alltaf haft alveg einstaka gleði og ánægju af blómum ákvað ég að hafa mína eigin blómahátíð á afmælisdaginn. Og það varð niðurstaðan, með hjálp bændanna í kring sem hjálpuðu mér að tína 50 kíló af marigold blómum sem ég skellti í sundlaugina við húsið,“ segir Áslaug sem eyddi svo afmælisdeginum, og nóttinni, í að synda á milli uppáhaldsblóma sinna. „Konurnar sem unnu í húsinu hjálpuðu okkur að skreyta líka garðinn og svæðið umhverfis laugina með blómum og bjuggu til ávaxtatertu á mörgum hæðum og ávaxtakokteila úr drekaávöxtum. Þetta var algjört ávaxtagleðiblómaflæði,“ segir Áslaug hlæjandi.

Eldsnemma daginn eftir blómasundið, á upphafsdegi sjötta áratugarins, settist Áslaug upp á þak hússins, leit yfir blómadalinn, saup á ávaxtakokteil og hugsaði um það hversu heppin hún væri. „Allt í einu fannst mér allt svo frábært, og þetta var allt svo óvart. Ég passa mig alltaf á því að halda upp á mig af og til, og þess vegna var ég alls ekkert stressuð yfir þessum áfanga. Mér fannst ég ekki þurfa neitt og hafði engar væntingar né nokkurn áhuga á því að halda nokkra flugeldasýningu. Svo það var mjög óvænt gleði að synda og fagna með fólkinu á Norður-Balí.“

