Þóra Tómasdóttir
thora@frettatiminn.is
Þegar sex sérsveitarmenn komu um borð í grænlenska togarann Polar Nanoq, voru þeir sem grunaðir eru um aðild að hvarfi Birnu, einangraðir frá öðrum skipverjum. En þar sem sérsveitarmennirnir voru 6 en áhöfnin 28 manns, var ekki unnt að aðskilja alla áhafnarmeðlimi.
Samkvæmt heimildum Fréttatímans má ráða að skipverjar hafi samræmt hvernig bregðast skyldi við málinu og spurningum lögreglu, áður en hún kom um borð.
Clik here to view.

„Það blasir við að þeir hafa haft möguleika á að samræma framburð sinn,“ segir Grímur Grímsson sem fer fyrir rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur. Sakborningar í málinu höfðu lítið tjáð sig við lögreglu þegar blaðið fór í prentun á fimmtudag og var þess beðið að þeir leysi frá skjóðunni og upplýsi hvar Birnu sé að finna. Lögreglan hefur sterkar vísbendingar um að þeir hafi unnið henni mein og vinnur eftir þeirri tilgátu.
Birna hefur ekki sést í tæpa viku, eða síðan á sjötta tímanum aðfararnótt laugardags. Skipverjarnir sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness á fimmtudag, sáust á eftirlitsmyndavélum aka rauðri Kia Rio bifreið að Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn um klukkan 6.20 að morgni laugardags. Einn fór um borð í skipið en hinn ók, að því er virtist, einn í burtu.
Alls hafa fjórir úr áhöfn Polar Nanoq verið handteknir á undanförnum dögum. Þrír eru grunaðir um aðild að hvarfi hennar. Fjórði maðurinn var handtekinn á fimmtudagseftirmiðdag eftir að mikið magn af hassi fannst í togaranum.
Talið er að hassið hafi verið ætlað til endursölu. „Það vekur athygli að langt er síðan lagt hefur verið hald á hass á Íslandi, og það hefur dregið mikið úr hassnotkun á undanförnum árum því mikið hefur verið um grasræktun hér á landi. Það er munur á efninu sem er í grasi og þegar því hefur verið þjappað saman í hassplötu. Þetta eru hassplötur sem ég held að séu ekki framleiddar á Íslandi,“ segir Grímur
Fíkniefnamálið verður aðskilið frá sakamálinu um hvarf Birnu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru málin aðskilin til að passa að öll orkan og athyglin beinist að leitinni að Birnu. „Við leggjum alla áherslu á að klára það mál og upplýsa eftir bestu getu. Saman gætu rannsóknirnar truflað hvor aðra. Við fáum sérstakt teymi í fíkniefnarannsóknina,“ segir Grímur.
Meðal þess sem er til rannsóknar er hvort fleiri búi yfir upplýsingum um hvarfið á Birnu. „Það er viðbúið en ekki staðfest,“ segir Grímur.
Lögregla telur að mennirnir fjórir séu grænlenskir ríkisborgarar, „En við höfum aðeins fengið það staðfest með vegabréfum tveggja þeirra. Danska sendiráðið í Reykjavík hefur óskað eftir upplýsingum frá okkur um stöðu þessara manna.“
Lögreglan vissi ekkert um bakgrunn eða mögulegan sakaferil mannanna sem nú sitja í gæsluvarðhaldi, grunaðir um aðild að hvarfi Birnu, fyrr en seinnipart á fimmtudag. Þá fóru henni að berast greinargóðar ábendingar um bakgrunn og stöðu sakborninga í málinu. Grímur vill ekkert tjá sig um það en segir að lögreglan fái aðstoð grænlenskra yfirvalda til að kanna sögu þeirra.
Óvíst er hve lengi áhöfn Polar Nanoq dvelur á Íslandi. Aðrir en sakborningar eru talin vitni í málunum og eru ekki í farbanni. Áhöfn togarans telur á þriðja tug manna, og komu þeir hingað til lands ýmist með skipinu eða með flugi.
Image may be NSFW.
Clik here to view.
Samskipti mannanna og Birnu hvergi náðst á mynd utandyra
–Hafið þið útilokað að mennirnir sem nú eru í haldi, séu þeir sem Birna sést, á upptökum öryggismyndavéla, rekast á í Bankastræti? „Við höfum ekki gengið út frá því að samskipti Birnu og mannanna hafi sést utandyra á myndavélum. Það er mikil oftúlkun að mennirnir sem Birna virðist rekast örlítið utan í, séu þessir menn. Við höfum enn áhuga á að ná tali af þeim sem sjást þarna á gangi til að öðlast upplýsingar um tímalínuna, það er ekki þar með sagt að þeir séu grunaðir um að vera valdir að hvarfi Birnu.“
–Hvað með mannaferðirnar sem sjást á myndavélum í Macland-versluninni. Vekur það grunsemdir ykkar að einhverjir séu á hlaupum við hornið um það bil á sama stað og tíma og Birna hverfur?
„Allar mannaferðir á þessum stað og tíma eru athyglisverðar. Mér hefur ekki tekist að lesa úr þessu Maclands-myndbandi að þar séu þeir sem tengist hvarfi Birnu.”
Grímur segir að verið sé að púsla saman brotunum og þeim gögnum sem liggja fyrir.
Aðspurður um tímalínuna, hvort talið sé að bifreiðin sem Birna gæti hafa farið upp í, hafi ekið beint úr miðbænum og í Hafnarfjörð, eða komið við einhverstaðar á leiðinni, segir hann að gengið sé út frá því að keyrt hafi verið beint í Hafnarfjörð.
Rauði bíllinn, sem kemur fram á eftirlitsmyndavélum Hafnarfjarðarhafnar á laugardagsmorgni, sést fara út af hafnarsvæðinu að minnsta kosti einu sinni og hann snýr ekki aftur á svæðið fyrr en að minnsta kosti klukkutíma seinna þennan sama dag, samkvæmt RÚV.
Fjölmargir hafa boðið lögreglu aðstoð við að greina þau gögn sem fram eru komin. „Við höfum verið með það til mats hvort við þiggjum aðstoð við greiningu myndefnis, meðal annars til að sjá bílnúmerið Kia bifreiðarinnar á Laugavegi. Það er þakkarvert þegar fólk býður fram aðstoð.“
–Finnst þér þú vera kominn með skýrari tilgátu um það sem gerðist?
„Já, ég get tekið undir það á þessum tímapunkti, þá finnst mér við hafa þokast nokkuð á veg, um hvað kunni að hafa komið fyrir.”
–Ertu vongóður um að Birna finnist á lífi?
„Þessu vil ég ekki svara.“
Image may be NSFW.
Clik here to view.
Lögregluliðið á vökunni
Fjölmargt lögreglulið kemur að yfirheyrslum sakborninga og vitna, við að semja spurningar og bera þær upp. Reyndasta starfsfólkið, og þeir með sérhæfðustu þekkinguna, hafa verið að störfum sólarhringum saman síðan rannsókn á hvarfi Birnu hófst. Reynt er að hvíla og skiptast á enda er málið prófraun á samhæfingu og samstarf deilda.
Lögreglan hefur þá reynslu að þegar stór mál koma upp, þá bitni það á viðkvæmum málaflokkum eins og kynferðisbrotum og heimilisofbeldi. Kynferðisbrotadeild lögreglunnar er því aðskilin frá málinu og starfar áfram með hefðbundum hætti. Auk þess hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fengið liðsauka frá öðrum stöðvum umdæmisins til að mæta álaginu.
Farið hefur verið yfir gríðarlegt magn myndefnis, fjarskiptagagna, tæknivinnan hefur verið gríðarlega umfangsmikil þar sem meðal annars hefur verið leitað í skipinu, sem er ógnarstórt, og rauðu Kia Rio bifreiðinni. Öryggisgæsla í kringum málið hefur einnig verið mjög umfangsmikil.Image may be NSFW.
Clik here to view.