Karlmaður var þann 10. janúar sl. dæmur í 15 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn stúlku er hún var 11-13 ára gömul.
Mál þetta, sem dómtekið var 10. janúar sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 27. september 2017, á hendur X, kennitala […],[…],[…], fyrir kynferðisbrot, með því að hafa í nokkur skipti, þó eigi sjaldnar en þrisvar sinnum, áreitt sonardóttur sína, A, á tímabilinu frá því í ágúst 2013 og fram á sumarið 2015, er stúlkan var 11–13 ára gömul, ýmist í orlofsíbúð, á heimili stúlkunnar eða á heimili hans, með því að strjúka kynfæri hennar innanklæða.
Upphaf máls þessa var beiðni Barnaverndar um lögreglurannsókn, dags. 24. nóvember 2015, á því hvort brotið hefði verið kynferðislega á henni af hálfu föðurafa hennar. Samkvæmt beiðninni barst Barnavernd tilkynning frá foreldrum stúlkunnar 16. nóvember 2015 um að hún hefði sagt frá því að afi hennar hefði snert hana á óþægilegan hátt. Stúlkan hefði átt að gista hjá afa sínum, en hefði ekki viljað fara. Hún hefði farið inn í herbergið sitt og sent foreldrum sínum skilaboð á facebook um að hann hefði komið óþægilega við sig. Hún hefði einnig lýst áhyggjum af því að litla systir hennar hefði líka orðið fyrir þessu. Brotaþoli hefði greint frá því að þetta hefði gerst fjórum til fimm sinnum sl. tvö ár. Það hefði ýmist verið á heimili afa hennar eða hennar. Eitt skiptið hefði verið 2013 í sumarbústað. Hann hefði strokið á henni píkuna og spurt hvort henni hefði þótt þetta gott. Hún hefði sagt já þar sem hún hefði ekki þorað annað. Þá kom fram að stúlkan hefði greint frá því að hún hefði sagt vinkonu sinni frá þessu. Foreldrar hennar hefðu rætt við foreldra vinkonunnar. Hún hefði staðfest að brotaþoli hefði sagt henni frá þessu þetta sumar.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dóminum að hann kannaðist ekki við neitt af því sem honum væri gefið að sök. Hann hefði átt góð og náin samskipti við brotaþola allt frá fæðingu hennar. Hann hefði stundum gætt hennar og systur hennar og þá hefðu þau gert ýmislegt saman. Dagurinn hefði þá yfirleitt endað á því að þau hefðu horft saman á sjónvarp. Þetta hefði bæði átt sér stað á heimili hans og brotaþola. Þá hefðu þau farið í fjölskylduferð í ágúst 2013. Barnabörn hans bæðu hann oft að strjúka sér. Ákærði kvaðst aldrei hafa strokið kynfæri brotaþola, hvorki innan né utan klæða. Hann minnti þó að hann hefði einu sinni eða tvisvar lagað náttbuxur hennar, en mundi ekki hvar eða hvenær. Hann svæfi sjálfur í náttbuxum og það pirraði hann mikið þegar þær væru snúnar.
Dómsorð: Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði greiði A 1.200.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. ágúst 2015 en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá 12. mars 2016 til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Kormáks Friðrikssonar lögmanns, 915.430 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur lögmanns, 535.990 krónur. Ákærði greiði 72.500 krónur í annan sakarkostnað.
Hér má lesa dóminn í heild sinni