Aðalfundur LFE, haldinn á Akureyri þann 06.02.2018 samþykkti eftirfarandi ályktun:
Á aðalfundi Lögreglufélags Eyjafjarðar [LFE] var fjallað um þá alvarlegu stöðu sem uppi er í mönnunarmálum lögreglunnar. Fundarmenn lýsa yfir miklum áhyggjum af þeirri grafalvarlegu stöðu sem er í löggæslumálum á Norðurlandi eystra [LSNE] og þeirri staðreynd, að allt of fáir menntaðir lögreglumenn eru við störf. Að mati fundarmanna veikir það stórlega gæði þjónustu lögreglunnar og raskar almannaöryggi. Þessi undirmönnun og skortur sem er á menntuðum lögreglumönnum er ekki boðlegur að mati fundarins.
Ennfremur vill LFE benda á þá staðreynd að einungis einn sérsveitarmaður úr sérsveit ríkislögreglustjóra, er við störf á starfssvæði LSNE en fyrir fáeinum árum voru þeir fjórir skv. ákvörðun dómsmálaráðherra frá því árið 2005. Fundinum er ekki annað ljóst en að ákvörðun ráðherra um fjölda sérsveitarmanna hér, sé óbreytt.
Fundurinn telur þetta ástand ekki á neinn hátt ásættanlegt og óskar eftir því við stjórnvöld að við þessu verði brugðist hið snarasta og bætt úr.
Fjölga þarf stöðugildum og menntuðum lögreglumönnum í lögreglunni á starfssvæði LSNE og fjölga að nýju sérsveitarmönnum með starfsstöð á Akureyri.
Telur fundurinn þetta eitt mesta forgangsmál í málefnum lögreglunnar í dag.
Lögreglufélag Eyjafjarðar.
The post Fjölga þarf stöðugildum og menntuðum lögreglumönnum í lögreglunni á starfssvæði LSNE og fjölga að nýju sérsveitarmönnum með starfsstöð á Akureyri. appeared first on Fréttatíminn.is.