Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Tekinn með mikið magn fíkniefna – 10 mánaða fangelsi

$
0
0

Karlmaður var í dag dæmdur í 10 mánaða fangelsi í Héraðsdóms Suðurlands fyrir að hafa haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 59,70 grömm af amfetamíni, 136,49 grömm af kókaíni og 181 MDMA töflu en fíkniefnin fundust við leit lögreglu í farangurstösku ákærða á lögreglustöðinni í Vestmannaeyjum.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu 29. júlí 2016 var lögregla með almennt fíkniefnaeftirlit á Vestmannabraut við Hótel Vestmannaeyjar. Varð lögregla vör við ákærða koma frá bifreiðinni […] ásamt B bróður sínum, en þar sem mikið fát kom á þá bræður þegar þeir urðu lögreglu varir þá vaknaði grunur um að þeir hefðu óhreint mjöl í pokahorninu. Voru höfð af þeim afskipti og fannst ekkert saknæmt við leit sem þeir heimiluðu að gerð yrði á þeim. Þeir fóru rakleiðis inn á hótelið og virtust vera að forðast frekari afskipti lögreglu. Fylgdist lögregla áfram með bifreið þeirra sem stóð með kveiktum ljósum fyrir utan hótelið.

Meðan lögregla fylgdist með bifreiðinni sást til A, […], þar sem hún stóð fyrir utan hótelið og talaði í síma, en lögregla taldi jafnframt að hún væri að fylgjast með ferðum lögreglu.

Segir svo að þegar A hafi talið lögreglu vera farna af svæðinu, þá hafi hún farið í bifreiðina að sækja eitthvað. Skömmu síðar hafi hún sést skammt frá með gráa ferðatösku á hjólum. Hafi þá lögregla haft af henni afskipti og spurt hver ætti þessa tösku og hún sagst eiga hana. Við skoðun sást að taskan var merkt ákærða og kvað hún þá að hún og ákærði ættu töskuna og að ákærði hafi beðið hana um að taka töskuna og fara með hana burt frá Hótel Vestmannaeyjum. Var A þá tilkynntur sá grunur lögreglu að í töskunni væru fíkniefni og óskuðu þeir eftir að fá að leita í henni, sem A samþykkti. Skömmu síðar kom ákærði gangandi, í öðrum fötum en hann hafði verið í við fyrri afskipti, en jafnframt virtist lögreglu hann hafi farið út af hótelinu bakdyramegin þar sem lögregla sá ekki til ferða hans. Neitaði ákærði lögreglu um heimild til að leita í töskunni, en var þá handtekinn og kynntur grunur um fíkniefnamisferli. Segir að ákærði hafi þá viðurkennt að í töskunni væri mikið magn fíkniefna og óskað eftir að vera fluttur á lögreglustöð þar sem hann vildi framvísa efnunum. Er haft eftir honum í frumskýrslunni að þetta væru tæp 100 grömm af kókaíni, 180 E töflur og svipað af amfetamíni. Voru bæði flutt á lögreglustöð.

Í frumskýrslunni er haft eftir ákærða að ekki kæmi til greina að upplýsa hver væri móttakandi efnanna, með orðunum „þú vilt ekki vera barinn til þess að fá að vita það.“

Í töskunni fundust skv. frumskýrslu ætluð fíkniefni, amfetamín, kókaín og E töflur. Segir að efnin hafi verið í heildsölupakkningum og ein þeirra þannig útbúin að hún hafi verið talin af lögreglu óbreytt frá því þegar hún var flutt til landsins.

Samkvæmt efnaskrá lögreglu var um að ræða 59,7 grömm af amfetamíni í einni einingu, 136,49 grömm af kókaíni í 17 einingum, 181 töflu af „ecstasy“ í 2 einingum og 20,27 grömm af óskilgreindu efni í einni einingu. Voru efnin þannig í 21 einingu. Voru tekin forpróf af 3 einingum kókaíns og 2 einingum af MDMA töflum og voru send 7 sýni til rannsóknar hjá Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Þau sýni sem send voru rannsóknastofunni voru af ætluðu amfetamíni, óþekktu efni, kókaíni og MDMA. Þau kókaínsýni sem send voru til rannsóknar voru önnur sýni en þau sem höfðu svarað forprófi lögreglu sem kókaín. Samkvæmt matsgerð rannsóknastofunnar var um að ræða amfetamín, kókaín og MDMA, auk þess að í einu sýninu fundust engin ávana- og fíkniefni, en í því sýni reyndist vera laktósi. Þá greindist í kókaínsýnum lyfið tetramísól, sem mun vera ormalyf fyrir dýr, en telst ekki til ávana- og fíkniefna.

Tekin var lögregluskýrsla af A við rannsókn málsins. Kvaðst hún ekkert hafa vitað um téð fíkniefni og ekki hafa séð annað fara ofan í töskuna en það sem hún hafi sjálf sett þar. Taldi hún ekki annan koma til greina sem eiganda efnanna en ákærða.

Í skýrslu sem ákærði gaf hjá lögreglu kvaðst hann hafa komið með efni þessi til Vestmannaeyja og hafa tekið það að sér gegn greiðslu. Þetta hafi verið heimska af sinni hálfu. Þetta hafi verið um 50 grömm af amfetamíni, 40 grömm af kókaíni og um 180 E töflur. Hann hafi átt að fá fyrir þetta viðvik um 200.000 til 300.000 kr. en ekki hafi verið búið að sem    ja um tiltekna upphæð og hann ekki búinn að fá greitt. Ekki kvaðst ákærði vilja tjá sig um fyrir hvern hann hafi gert þetta, vegna hræðslu. Margir menn ættu þetta, en hann hafi bara hitt einn þeirra. Menn þessir séu ýmist íslenskir eða erlendir. Kvaðst ákærði ekki hafa tekið neitt af efnunum sjálfur og ekki hafa ætlað að selja þetta sjálfur, heldur hafi ætlun hans verið að afhenda það öðrum aðila, sem ákærði kvaðst telja að hafi ætlað að selja efnin. Þá lýsti ákærði því hvernig hann hefði fengið efnin afhent og komið þeim fyrir í ferðatöskunni án vitundar A og að hún vissi ekkert um þetta. Þá lýsti ákærði því að B bróðir ákærða og C, unnusta B, vissu ekkert um þetta. Kvaðst ákærði áður fyrr hafa verið fíkniefnaneytandi en hann væri hættur þeirri neyslu.

Lesa má dóminn í heild sinni hér.

 

 

The post Tekinn með mikið magn fíkniefna – 10 mánaða fangelsi appeared first on Fréttatíminn.is.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652