Silja Rós Ragnarsdóttir er 22 ára Vesturbæingur sem er ein þriggja íslenskra stelpna sem komust inn í leiklistarskólann The American Academy of Dramatic Arts í Hollywood í haust. Í sumar hefur hún verið að vinna á leikskóla á milli þess sem hún gengur á Esjuna og nýtur góða veðursins í Vesturbæjarlauginni.
Staðalbúnaður
Ég kaupi helst föt helst í útlöndum, mikið í H&M og Topshop. Ég er skósjúk og hef ekki tölu á skópörunum mínum. Ég hef nánast aðeins gengið í hælaskóm síðan ég var 14 ára enda er ég ekki hávaxin. Ég á kannski tvö pör af sléttbotna skóm sem ég nota aðeins í ræktinni eða vinnunni. Gítarinn minn fylgir mér líka oft en ég keypti mér Little Martin gítar um jólin sem er uppáhalds hluturinn minn.
Hugbúnaður
Ég æfi í World Class og fer þá helst út á Nes. Mér finnst mjög gott að fara í Hot Yoga og svo hef ég æft dans síðan ég var sex ára. Í sumar hef ég mikið farið í Vesturbæjarlaugina að njóta góða veðursins. Þegar ég er ekki að vinna reyni ég að hitta vini mína sem mest. Ég dreg þau út á land, upp á Esju eða við setjumst niður á Súfistann. Þegar ég skemmti mér fer það allt eftir stemningunni hvort haldið er á Húrra, Prikið eða b5 en mér finnst skemmtilegast að fara eitthvert að dansa. Ég lifi fyrir tónlist og gerist oft sek um það að spila á gítarinn minn til þrjú á nóttunni. Ég reyni að fylgjast vel með íslenskri tónlist og fer reglulega á tónleika. Í sumar fór ég loksins að sjá uppáhaldstónlistarmanninn minn, Damien Rice, og það var magnað. Ég horfi meira á sjónvarpsþætti og uppistönd en bíómyndir þegar ég finn tíma til þess. Ég er Friends-aðdáandi og hef horft á seríurnar margoft, en núna er ég að fylgjast með True Detective.
Vélbúnaður
Ég er með Macbook Pro og iPhone 5s. Ég er frekar mikil Apple-manneskja. Það app sem ég nota mest er ábyggilega Snapchat og svo er Facebook alltaf opið i símanum mínum. Ég hef reynt að byrja á Twitter en stunda það helst að læka allt sem vinir mínir gera.
Aukabúnaður
Ég hef mikinn áhuga á flestum listgreinum. Ég er mjög mikil félagsvera og finnst best að hafa nóg að gera. Þegar ég vil slaka á finnst mér best að teikna, mála eða semja tónlist. Ég er fædd með leiklistarbakteríuna og er á leiðinni í leiklistarnám í haust. Mér finnst mjög gaman að elda góðan mat og ennþá betra að borða góðan mat. Besta sem ég fæ er humar og nautalund. Ég elska að ferðast bæði um Ísland og erlendis og reyni að gera sem mest af því.
The post Gleymir sér við að spila á gítarinn til þrjú á nóttunni appeared first on FRÉTTATÍMINN.