Á tyllidögum halda valdsmenn því fram að Íslands sé stéttlaust samfélag og hér séu allir jafnir; sjálfstætt fólk sem beygir sig ekki undir vald annarra. Ekkert í sögu okkar styður þessar hugmyndir; þvert á móti. Saga okkar er saga langvarandi kugunar örfárra á valdalausum fjöldanum.
Í ársbyrjun 1866, fyrir rúmum 149 árum, fékk Ísafjörður kaupstaðarréttindi. Þetta var ekki stór bær. Á Eyrinni voru 35 hús. Í þeim bjuggu 220 manns; eða rúmlega sex manns í hverju húsi. Við myndun þessa bæjarfélags fóru fram kosningar til bæjarstjórnar og í þeim höfðu 21 atkvæðarétt; eða 9,5 prósent bæjarbúa.
Þessir kjósendur voru allir karlar; konur fengu ekki kosningarétt fyrr en 1915. En það höfðu ekki allir karlar kosningarétt 1866; heldur aðeins eignamenn. Til að fá að kjósa þurftu þessir karlar að eiga eignir að andvirði um þúsund ríkisdala. Það er eiginlega vonlaust (og enn frekar tilgangslaust) að reikna þá upphæð til núvirðis. Peningalegt mat á eignum í fátæku samfélagi nítjándu aldar hefur allt aðra merkingu en virði peninga í dag. Það þekkja þeir sem hafa ferðast um lönd þar sem er raunveruleg peningaleg fátæk. En ef horft er framhjá slíku; þá eru 1000 ríkisdalir um 1866 líklega jafnvirði vel rúmlega hálfrar milljón króna í dag.
Ef við gerum hins vegar ráð fyrir að íbúar Ísafjarðar hafi endurspeglað aldurs og kynjaskiptingu landsmanna allra á þessum; þá hafa líklega verið um 48 karlar 25 ára og eldri á Ísafirði þegar fyrstu bæjarstjórnarkosningarnar fóru fram. 44 prósent þeirra áttu nægar eignir til að fá að kjósa. 56 prósent karla voru eldri en 25 ára en voru sviptir kosningarétti vegna fátæktar.
Ef við miðum við það réttlæti sem fellst í núgildandi lögum (allir 18 ára og eldri hafa kosningarétt) þá fengu 84 prósent þeirra sem væru með kosningarétt í dag ekki að kjósa 1866 vegna kyns, æsku eða fátæktar. Þetta var samfélag sem var sniðið að hagsmunum 16 prósent fullorðinna.

Kaupmaður, eignafólk og lægri settir fyrir utan hæsta kaupstað á Ísafirði 1877, ellefu árum eftir kosningarnar þar sem fertugasti hver íbúi fékk að kjósa. Aðrir voru ekki spurðir um hvernig samfélag þeir vildu byggja upp.
2,5 prósent áttu Ísland
Þessar bæjarstjórnarkosningar á Ísafirði skera sig ekki frá öðrum kosningum á Íslandi á nítjándu öld. Talið er að um 9 prósent landsmanna hafi haft kosningarétt til Alþingis á nítjándu öld. Það er um þriðjungur fullorðinna karla á þeim tímum; sjötti hluti fullorðins fólks.
Alþingi var ekki valdastofnun á þessum tímum; aðeins ráðgefandi samkunda og veikur samráðsvettvangur eignamanna og nýlenduvaldsins. Valdið var hjá konungi og stjórnarráði nýlenduherranna í Kaupmannahöfn.
Íslendingar gátu hins vegar haft mótandi áhrif á samfélagið í gegnum starfsemi hreppanna, sem meðal annars sinntu framfærsluskyldu þegar fjölskyldunnar risu ekki undir henni. Að hreppsstjórn komu skattbændur, þeir bændur sem greiddu eignaskatt.
Í upphafi nítjándu aldar er talið að jarðir á Íslandi hafi verið um átta þúsund. Við landnám voru flestar jarðir eignarlönd; en þegar komið var fram undir lok átjándu aldar og byrjun þeirrar nítjándu er talið að um 90 prósent (og allt að 95 prósent) allra jarða hafi verið byggðar leiguliðum. Leiguliðar gátu haft atkvæðarétt ef þeir höfðu ævilangan leigurétt að stórum jörðum; en meginþorri þeirra hafði lítið sem ekkert að segja um skipan samfélagsins.
Stórbændur, sem byggðu eigin jörð, voru vart fleiri en 500 til 800 á þessum árum. Auk þeirra höfðu helstu embættismenn, efnaðir kaupmenn og fáeinir aðrir karlar einhver ítök um mótun samfélagsins á nítjándu öld; líklega um 2,5 prósent fullorðinna landsmanna.

Þjóðhátíð á Þingvöllum 1874 kveikti elda sjálfstæðisbaráttunnar. Á þeim tíma fengu um 16 prósent fullorðinna að kjósa til Alþings og hreppsstjórna; og allir meginþræðir samfélagsins voru í höndum um 2,5 prósent landsmanna.
Harðæri drápu hina fátæku
Líf annarra landsmanna var komið upp á náð og miskunn þessara herra. Þetta fólk var undir vald þeirra sett og sagan geymir mýmörg dæmi þess að herrarnir fóru ekki vel með vald sitt.
Um 10 til 15 prósent landsmanna voru niðursetningar og þurfafólk, sem hafði ekkert vald yfir lífi sínu. Kannanir á afleiðinum harðæris og náttúrhamfara sýna að fólk úr þessum hópi var þrisvar til fjórum sinnum líklegra til að farast en fólk almennt. Fullorðið fólk var ekki borið út í harðærum; en augljóst er að fátæku eldra fólki var fækkað skipulega með kerfisbundinni vanrækslu.
Vinnufólk var um 40 prósent landsmanna. Það hafði ekki kosningarétt eða önnur tækifæri til að áhrifa í samfélaginu, var óheimilt að giftast og eignast börn og var því í raun dæmt til ófrjósams lífs og þrældóms.
Meginþorri annarra landsmanna voru síðan leiguliðar og fjölskyldur þeirra. Þéttbýlismyndun við sjávarsíðuna var sáralítil. Fáum leiguliðum eða vinnufólk tókst að flýja þangað undan vonleysi sveitanna vegna laga sem takmörkuðu mjög frelsi fólks til búsetu eða flutninga milli hreppa.
Ef farið er með þjóð, sem er samsett með þessum hætti, í gegnum harðæri og hörmungar margra alda (allt frá harðærum Sturlungualdar að móðuharðindunum og síðan gegnum harðæri nítjándu aldar; er augljóst að þessar hörmungar hafa lagst þyngst á þá efnaminni og réttlausu.
Við þekkjum þetta af árunum eftir Hrun. Þótt sá vilji sé útbreiddur að líta á Hrunið sem almennan vanda, er augljóst að það lék verst þá sem veikast stóðu; voru fátækir eða heilsuveilir fyrir Hrun þótt athyglin hafi mest verið á heilbrigðum íbúðakaupendum.

Vesturferðirnar voru bylting almúgafólks á sínum tíma og viss höfnun á þjóðernsistefnunni — eins og Noregsferðirnar eru þessi árin.
Tvær ranghugmyndir
Viljinn til líta fram hjá þeirri augljósu staðreynd að erfiðleikar leiki þá verst sem eru verst undir þá búnir; byggir á útbreiddum hugmyndum um íslenskt samfélag sem eiga sér enga stoð.
Annars vegar að íslenskt samfélag sé (og hafi jafnvel ætíð verið) stéttlaust og að Íslendingar séu á einhvern hátt jafnari en aðrar þjóðir. Og hins vegar að Íslendingar séu á einhvern hátt eðlislega sjálfstæðir, beygi sig lýtt undir yfirvald og hafi því örlög sín fremur í eigin höndum en annað fólk.
Eins og sjá má af samfélagsgerðinni á nítjándu öld er augljóst að hið fyrra á sér enga stoð. Allt frá þrælahaldi landnáms- og þjóðveldisaldar og fram á okkur daga hefur misskipting auðs og lífsgæða verið mjög mikil á Íslandi. Samfélagið var byggt á þessari misskiptingu og reglur þess sn´rust um að viðhalda henni.
Því miður hefur Íslandssaga mismununar og misskiptingar ekki verið haldið að fólki þótt hún hafi þónokkuð verið rannsökuð af sagnfræðingum. Það er eins og goðsaga sjálfstæðisbaráttunnar, sem er höfðingjasaga, takist að halda hinni raunverulegu sögu frá þjóðarvitundinni. Þegar forseti og forystumenn í stjórnmálum tala inn samhengi sögunnar inn í vandamál dagsins er það ætíð og án undantekninga gert út frá sögu höfðingjanna. Saga fátækra, kvenna, barna, þurfandi og þræla fer ekki hátt.
Síðari hugmyndin; sú um sjálfstæði Íslendinga; byggir á misskilningi. Í stöðnuðu samfélagi vistarbanda var það eina von vinnufólks til sjálfstæðs lífs að reyna fyrir sér sem leiguliðar á kotum þar sem öðrum hafði mistekist. Vinnufólk hafði því í persónulegan hag af því að fjölskyldur fátækra leiguliða yrðu leystar upp. Grimm örlög leiguliðans voru tækifæri fyrir þá sem höfðu enn lakari stöðu. Stöðnun samfélagsins og fá tækifæri til að bæta líf sitt vógu því gegn augljósum hagsmunum vinnufólks, leiguliða og fátækra af því að virkja samtakamátt sinn og losa sig undan kúgun höfðingjanna. Þess í stað stóðu hin kúguðu í röðum eftir að fá sjálf að reyna fyrir sér í vonlausu striti kotbændanna. Sjálfstæðisbarátta heiðabændanna (eins og hún birtist til dæmis í Sjálfstæðu fólki) bætti ekki kjör hinna fátæku og valdalitlu. Í raun viðhélt hún eymd þeirra og valdaleysi.
Þegar tækifærið kom varð bylting þessa fólks hljóðlaus. Um fjórðungur Íslendinga flutti til Vesturheims á seinni hluta nítjándu aldar. Í kjölfarið flutti meginþorri vinnufólksins og leiguliðanna á mölina og gerðist verkafólk á sjávarútvegi; vann daglaunavinnu hjá þeim höfðingjum sem höfðu aðstöðu til að taka lán fyrir skútum og fiskiskipum og með tímanum að ná undir sig öllum rétti til fiskveiða. Kvótakerfið tók þannig við af píningardómi sem tæki til að halda kúguðum hluta þjóðarinnar frá auðlindum hafsins.
Þetta er samhengið í Íslandssögunni. Sú saga snýst um viðvarandi kúgun fárra á mörgum þó hún reyni að halda því fram að allir lifi sömu söguna.

Eftir harða baráttu fyrir réttindum og kjörum í kreppunni hneigðist stór hluti verkalýðsstéttarinnar til hægri lausna eftir stríð. Útifundur við Gúttó 1932.
Hægrið vann verkalýðshreyfinguna
Sú blekking hefur líka leitt hörmungar yfir almenning á síðari árum með þeirri hugmynd að almenningur lifi ekki aðeins sögu höfðingjanna heldur geti hann líka notað sömu aðferðir til að tryggja sér öryggi og efnalega afkomu. Þjóðernissjónarmiðin eru notuð til að draga yfir ólíka hagsmuni stéttanna.
Eins og á við um margar fyrrum nýlendur var íslenska verkalýðshreyfingin klofin á milli hefðbundnari vinstri flokka með áherslu á klassísk velferðarmál (almannatryggingar, ókeypis heilbrigðisþjónustu og skóla) og verkalýðsfélaga þjóðernissinnaðra hægrimanna með áherslu á sjálfsbjargarviðleitni einstaklinga. Verkalýðshreyfingin var í raun klofin langt fram eftir síðustu öld og náði ekki að virkja sameiningarmátt sinn að fullu fyrr en á sjöunda áratugnum; og þá fremur um baráttumál hægri hlutans: Sjálfseignarstefnu í húsnæðismálum og lífeyrissjóðakerfi sem byggði upp sparnað sem einkaeign.
Þessi baráttumál féllu vel að hugmyndum um að samfélaginu farnaðist best ef stétt ynni með stétt, að Ísland væri stéttlaust og Íslendingar allir jafnir. Áhersla verkalýðshreyfingarinnar var flutt frá þeim sjónarmiðum sem höfðu byggt upp velferðarkerfi Bretlands og Skandinavíu; að lágstéttirnar gætu með samtakamætti sínum mótað samfélagið þannig að það þjónaði hagsmunum hinna eigna- og valdalausu; og yfir til klassískra hægri sjónarmiða; að auðvelda einstaklingunum að byggja sjálfur upp sitt eigið velferðar- og öryggisnet með sparnaði og eignamyndun.
Sá vandi sem íslenskur almenningur stendur frammi fyrir í dag er hrun þessara hugmynda. Lífeyris- og séreignarkerfið hefur ekki byggt upp betra og réttlátara samfélag fyrir hina tekjulægri. Það er á engan hátt hægt að líkja saman árangri lágstéttanna og millistéttarinnar af sparnaði og skuldsettum eignakaupum undanfarinna áratuga og því hvernig höfðingjunum hefur tekist til í sinni auð- og valdasöfnun á sama tíma.

Samvinna Guðmundar J. Guðmundssonar (Gvends jaka), formanns Dagsbrúnar, og Magnúsar L. Sveinsson, formanns Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, gat af sér Breiðholtið; hverfi sem var reyst utan um sjálfseignarstefnuna í húsnæðismálum.
Öskubuska þarf að hætta að dreyma
Þótt sú hugmynd hafi verið lífseig að kapítalisminn gæfi öllum sama tækifæri til að finna hugmyndum sínum, hyggindum og atorku skapandi farveg; þá hafa síðustu áratugir og einkum síðustu ár afhjúpað þá hugmynd sem fullkomna blekkingu. Auður hefur þvert á móti hlaðist enn frekar utan á þann sem á mestan auð fyrir. Auðurinn safnast eins og snjór uatn á snjóbolta sem rennur niður hlíð. Og það fólk sem ekki áttu neitt í upphafi, engan ættarauð og ekkert forskot í formi betri aðstöðu eða aðgengis að auðlindum; það fólk er snjórinn í brekkunni. Þegar snjóboltarnir rúlla yfir venjulegt launafólk taka þeir með sér sparnað þess. Í stuttu máli er kapítalisminn, eins og hann festi sig í sessi á nýfrjálshyggjuárunum, kerfi sem færir hægt og bítandi fjármuni til þeirra sem eiga mikið frá þeim sem eiga lítið sem ekki neitt — og allra mest frá þeim sem skulda.
Áhersla verkalýðshreyfingarinnar á séreignarhúsnæði og séreignarsparnað launamanna hefur aukið tilflutning á fjármunum frá almenningi til auð- og valdastéttanna; ekki dregið úr þeim. Misskipting eigna hefur aukist og að óbreyttri stefnu mun misskipting tekna gera það einnig. Þessi stefna reyndist öskubuskuævintýri okkar daga. Almenningur situr í öskustónni og lætur sig dreyma um að fá að taka þátt í dansleik hinna ríku og valdamiklu — en það gerist auðvitað aldrei þótt ævintýrið reyni að viðhalda draumnum. Íbúðalánasjóður er grasker, ekki gullsleginn vagn, og lífeyrissjóðirnir eru mýs, ekki hestar. Þessi fyrirbrigði munu ekki bera okkur til neinnar veislu.
Eins og öskubuska er almenningur fastur í sögu höfðingjanna og þjónar þar með heimsmynd þeirra og hagsmunum. Það er ekki fyrr en almenningur finnur sína eigin sögu að hann mun geta byggt upp samfélag sem þjónar raunverulegum hagsmunum sínum; hagsmunum hinna kúguðu, eigna- og valdalitlu. Til þess þarf að umbylta öllum grunnkerfum samfélagsins því þau þjóna ekki almenningi; stöðva snjóboltana sem renna áreynslulaust niður hlíðina og tútna út á leiðinni af auknum völdum og auð.
Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is
Áður birt í Fréttatímanum.
The post Valdaleysingjar sem lifa í sögu höfðingjanna appeared first on FRÉTTATÍMINN.