„Það er skemmtileg tilviljun að þetta er haldið á sama tíma og Beikonhátíðin,“ segir Sæunn Ingibjörg Marínósdóttir, upplýsingafulltrúi Samtaka grænmetisæta á Íslandi sem standa fyrir vegan grillveislu á laugardag.
Samtökin hafa lengi haldið svokölluð Pálínuboð þar sem allir koma með einn rétt, og fær fólk þar tækifæri til að vera í góðum félagsskap og gæða sér á hinum ýmsu grænmetisréttum. „Við vorum búin að hugsa um það í nokkurn tíma að hafa matargleðina utandyra yfir sumarið og nú loksins verður þetta að veruleika. Í grillveislunni ætlum við að selja vegan pulsur með öllu og lífrænt gos,“ segir Sæunn.
Hún segir að innan samtakanna hafi sprottið upp ýmsar hugmyndir um hvernig hægt væri að vekja athygli á illri meðferð sláturdýra í tengslum við hina ýmsu viðburði, til að mynda Beikonhátíðina. „Í staðinn fyrir að mótmæla ætlum við einfaldlega að sýna fram á að það er hægt að gleðjast saman og borða góðan mat án þess að dýrum sé slátrað. Okkar félagsmönnum finnst sorglegt að árið 2015 finnist mörgum ekki hægt að koma saman með fjölskyldunni niðri í bæ án þess að dýraafurðir séu grundvöllur þess að búa til stemningu,“ segir Sæunn.
Þegar er búið að stofna Facebook-hópinn „Popup Vegan Grillveisla“ þar sem hún hvetur áhugasama til að skrá mætingu. Grillveislan verður haldin í Hellisgerði í Hafnarfirði klukkan 14.00 á laugardag.
Hvað er grænmetisæta?
Grænmetisætur eru fjölbreyttur hópur fólks sem á það sameiginlegt að leggja sér ekki til munns hold og aðrar líkamsleifar dýra eða afurðir unnar úr þeim. Ástæðurnar geta verið fjölmargar en segja má að grænmetisætur velji lífsstíl sinn ýmist út frá heilsufarslegum sjónarmiðum, dýraverndunarsjónarmiðum eða umhverfisverndarsjónarmiðum en stundum er ástæðan ekki flóknari en svo að fólki finnist kjöt og dýraafurðir einfaldlega bragðvont.
Innan grænmetishyggjunnar eru svo margar ólíkar hugmyndir og stefnur sem greinast í fjölda undirflokka sem skilgreina nánar mataræði, neysluvenjur og lífsstíl hvers hóps.
Af vefnum Graenmetisaetur.is
Hvað er veganismi?
Fólk sem aðhyllist veganisma kallast almennt vegan grænmetisætur. Þessi hópur grænmetisæta borðar engar afurðir dýra, hvorki líkama þeirra, mjólk né egg. Að sama skapi forðast vegan alla nýtingu varnings sem prófaður hefur verið eða unninn að einhverju leyti úr dýrum, t.a.m. leður, ull, silki og snyrtivörur sem innihalda dýraafurðir eða hafa verið prófaðar á dýrum. Á matseðlinum eru engar dýraafurðir og þar af leiðandi ekkert kjötsoð, ostar og aðrar mjólkurvörur, majónes sem inniheldur egg, hunang eða vörur sem innihalda gelatín svo dæmi séu tekin.
Af vefnum Graenmetisaetur.is
The post Vegan grillveisla valkostur við Beikonhátíðina appeared first on FRÉTTATÍMINN.