Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Kölluð stórstjarna meðal heimamanna í Bolungarvík

$
0
0

Birna Hjaltalín Pálmadóttir þreytir frumraun sína í leiklist í kvikmyndinni Albatross sem frumsýnd var í vikunni. Þar leikur hún meðal annars með stórleikaranum Pálma Gestssyni – pabba sínum. Birna er ánægð með útkomuna en kærasti hennar í myndinni var kærasti hennar í gamla daga.

„Ég var með stóran hnút og feitan í maganum á frumsýningunni en þetta var bara allt í lagi. Ég var sátt við útkomuna, þeir létu mig líta ágætlega út,“ segir Birna Hjaltalín Pálmadóttir.
Birna er einn leikara í kvikmyndinni Albatross sem frumsýnd var í vikunni. Þetta er í fyrsta skipti sem Birna leikur en hún á reyndar ekki langt að sækja hæfileikana, hún er dóttir hins kunna leikara Pálma Gestssonar sem jafnframt leikur í myndinni.

Í Albatross segir af Tómasi sem leggur framtíðarplönin á hilluna og eltir kærustu sína vestur á firði þar sem hann ræður sig í sumarvinnu hjá Golfklúbbi Bolungarvíkur. Þar kynnist hann ýmsum kynlegum kvistum, til að mynda afar metnaðarfullum yfirmanni sem leggur allt undir til að fá stórmót á golfvöllinn í Bolungarvík. Tómasi líst ekki beint á blikuna en lætur sig þó hafa þetta fyrir ástina. Hann verður því ekki par hrifinn þegar í ljós kemur að hann er ekki órjúfanlegur hluti af framtíðarplönum kærustunnar.

Birna leikur kærustu Tómasar en það er Ævar Örn Jóhannsson sem leikur Tómas. Pálmi Gests leikur hinn afar metnaðarfulla yfirmann Tómasar á golfvellinum. Myndin var tekin upp í Bolungarvík og flestir sem komu að henni eru þaðan eða tengdir bænum. „Þetta er Víkaramynd. Við Ævar erum gömul bekkjarsystkin og vorum meira að segja kærustupar í gamla daga,“ segir Birna og hlær.

Leikstjóri Albatross er Snævar Sölvason og þetta er hans fyrsta mynd. Eftirvinnsla myndarinnar var fjármögnuð í gegnum Karolina Fund og mun hún vera fyrsta leikna kvikmyndin sem fjármögnuð er í gegnum síðuna.

Úr kvikmyndinni Albatross.

Úr kvikmyndinni Albatross.

„Snævar spurði mig bara hvort ég væri til í að taka mér smá hlutverk og ég sagði bara já enda er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt,“ segir Birna um þessa frumraun sína í leiklist. Hún hefur þó verið viðriðin kvikmyndir áður, vann bæði að kvikmynd eftir Lýð Árnason og kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Þrestir, sem tekin var fyrir vestan í fyrra. „Annars er ég í fjarnámi í sálfræði við HA og á þrjá stráka sem ég er í kapphlaupi um að sinna sem best. „Svo er ég að byrja með smá ferðaþjónustu í litlu húsi sem við maðurinn minn vorum að kaupa og hef verið að „gæda“,“ segir Birna þegar hún er spurð um dagleg viðfangsefni sín.

Hvernig var svo að leika á móti pabba gamla?
„Það var ótrúlega skemmtilegt að fá að vera í mynd með honum þó ég hafi nú ekkert leikið á móti honum. Það kemur kannski einhvern tímann. Það var sannarlega gaman að sjá hann vinna vinnuna sína. Svo var þetta auðvitað frábært fólk sem var að vinna að þessari mynd og frábær stemning í hópnum.“

Hvað segir þitt heimafólk um myndina og þína frammistöðu?
„Það voru allir mjög ánægðir og ég hef verið kölluð stórstjarna og fleira í búðinni og sundlauginni. Þetta eru stór komment og ég bara roðna og blána. Hér erum við auðvitað á heimavelli og allir þekkja alla en fólk er rosa sátt,“ segir Birna sem nú er komin til Reykjavíkur í stutt frí. Hún ætlar einmitt að nota tækifærið og sjá myndina aftur – í stórum bíósal og er forvitin að sjá viðbrögð hlutlausra. „Ég lauma mér inn í salinn svo enginn þekki mig,“ segir hún og hlær.

The post Kölluð stórstjarna meðal heimamanna í Bolungarvík appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652