Sólveig Anna Jónsdóttir fer yfir stöðuna á vinnumarkaði, á vef sínum og kemur víða við. Varðandi launamál, og lífskjör á Íslandi. En á undanförnum mánuðum hefur fátt verið jafn mikið til umræðu opinberlega og hér fer hún yfir stöðuna, frá sínum bæjardyrum séð.
Staðan
Innblásnir og í baráttuhug mála þeir skrattann á vegginn; boða efnahagshrun ef hér verður unnið að því að draga úr misskiptingu og að því að tryggja að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af dagvinnulaunum. Nýjasta dæmið um vinnusemina og kraftinn við lyklaborðið er leiðari Fréttablaðsins sem birtist síðasta mánudag. Þar eru nýir leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar varaðir við draumórum (enda fátt verra og hættulegra en þegar vinnuaflið fer að láta sig dreyma um öðruvísi tilveru og aukið svigrúm; 8 stunda vinnudagur (er fólk bilað?), það að börn sleppi við vinnuþrælkun (iðjulausar hendur eru alsettar puttum djöfulsins!), vistarverur sem henta mannfólki (fær þetta fólk aldrei nóg?), sumarfrí (á nú að fara á fyllerí?), atvinnuleysisbætur (á að borga aumingjunum fyrir að gera ekki neitt?) og svo mætti lengi lengi telja upp drauma verkafólks sem samfélög hafa stundum leyft sér að þakka fyrir að hafi orðið að veruleika),
og því haldið fram eins og ekkert sé að hér á landi sé nú þegar hafin efnahagsleg niðursveifla og því megi fyrirtæki ekki við „stórauknum launakostnaði”.
En vitiði hvað:
Hér benda hagvísar ekki til þess að niðursveifla sé hafin. Það að hagkerfið sé ekki lengur í ofhitnunarfasa jafngildir þvi ekki kreppa sé á næsta leiti. Og það er brjálæðislega öfgakennt og til vitnis um sérlega lélegt jarðsamband að halda slíku fram.
Hér eru nokkrir hagvísar sem bera vott um töluverða getu samfélagsins til að láta svigrúms-drauma vissra hópa rætast:
Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki greiddu í fyrra út meiri arð en nokkru sinni fyrr eða 14,5 milljarð.
Stjórn Arion banka samþykkti á hluthafafundi að greiða 10 milljaraða arð tl hluthafa fyrir lok þessa árs.
Á árunum 2015 til 2017 jókst launakostnaður Landsbankans vegna bankastjóra um 61,1 %.
Ef eitt ríkasta land heims, með ótakmarkað svigrúm fyrir plássfreka yfirstétt, hefur ekki svigrúm til að borga vinnuaflinu mannsæmandi laun sem duga fyrir lágmarksframfærslu við þessar aðstæður, þessar ótrúlegu velsældaraðstæður þar sem þau með aðgang að völdum og fjármagni hafi ekki einu reynt að hemja sig, ekki einu sinni þóst reyna að hemja sig, hvenær er þá hægt að vænta þess að slíkt svigrúm myndist? Við vitum svarið. Það er löngu orðið ljóst að staðan er alltaf ofuviðkvæm og það er aldrei réttur tími til að krefjast „leiðréttingar“ og efnahagslegs öryggis fyrir þau sem eiga að lifa á lágmarkslaunum.
Það er engin tilviljun að „fólk, sem er á himinháum launum“ tekur sér „ofurbónusa án þess að blikna“ eins og talað er mæðulega um í leiðaranum. Græðgin sem birtist í sjálftökunni er hluti af kerfislægum vanda, tilkomnum vegna þess að nýfrjálshyggjan hefur fengið að ríkja sem opinber hugmyndafræði á Íslandi. Sem dæmi um að við búum inn í efnahagskerfi sem er sérstaklega hannað til að hygla fjármagnseigendum og hinum ríku má benda á þá staðreynd að skattbyrði tekjulægsta hóps þeirra sem hér lifa var á árunum 1993 – 2015 aukin um 12,6% á meðan hin agalega þunga og óréttláta skattbyrði ríkasta eins prósents samborgara okkar léttist um 8%.
Það hlýtur að vera ljóst að það er ekki verkalýðsforystan sem er að blása til stéttastríðs heldur er lágtekjufólk, vinnuaflið, verkafólk að vakna upp við þá staðreynd að hér hefur verið háð einhliða stéttastríð gegn okkur. Fólk hefur einfaldlega vaknað upp við að það er kominn tími til að snúa skipulagslausu undanhaldi í sókn.
Hvernig stendur á því að enn er ætlast til þess að vinnuaflið bíði eftir því að útreiknarar óbreytts ástand komi með lausnir, þegar öllum ætti að vera ljóst að þaðan er engra lausna að vænta. Er í alvöru hægt að krefja okkur um að við bíðum eftir því að þau sem reiknuðu yfir okkur húsnæðisvandann með ótrúlegu skeytingarleysi um hagsmuni þeirra sem hér lifa og starfa, reiknuðu okkur inn í ferðamanna-uppsveiflu með æðisgenginni „samkeppni“ um vistarverur almennings, reikni fyrir okkur leiðréttingu?
Er í alvöru hægt að ætlast til þess að fólk sem ávallt er tilbúið í að ráðast í þjóðfélagslegar tilraunir með atvinnugreinar, sem aldrei hikar við að binda alla velsæld verka og láglaunafólks við afkomu og „rekstrargrundvöll“ fyrirtækja fái að stjórna því hvað vinnuaflið skuli gjöra svo vel og sætta sig við?
Leiðarinn er einhverskonar manifestó;
yfirlýsing um pólitíska afstöðu til samfélagsins, afstöðu sem ætti auðvitað að tilheyra jaðarhugmyndaheimi en hefur fengið að taka því sem næst allt pláss í hugmyndaheimi meginstraumsmiðla. Sú ótrúlega naumhyggja sem í leiðaranum birtist; þar sem búið að ákveða hvernig fólk eigi að hegða sér, hvað það megi segja og hvað það eigi að láta duga, er ólýðræðisleg. Hugmyndin sem birtist um hlutverk verkalýðshreyfingarinnar er afturhaldssöm. Ef að hreyfingin hefði í gegnum söguna lifað eftir þessari sýn; að hlutverk hennar væri að „beita sér fyrir að leiðrétta kjör þeirra sem lægstu launin hafa“ þá hefðu hinir stóru samfélagslegu sigrar ekki unnist, sigrar byggðir á því að setja fram sýn um samfélag réttlætis og jöfnuðar, ekki að búta viðfangsefnin niður eftir því sem hin betur settu leyfðu hverju sinni.