Húsráðandi er grunaður um að hafa kveikt í húsinu skv. lögregluskýrslum
Konan sem var handtekin vegna rannsóknar á brunanum á Selfossi þar sem karl og kona létust, sagði lögreglu frá því á vettvangi, fyrir utan húsið sem þá stóð í björtu báli. Að maðurinn sem nú situr í gæsluvarðhaldi, hefði kveikt í húsinu. Maðurinn staðfesti við lögregluna á vettvangi að hann hefði kveikt í en bæði voru þau í annarlegu ástandi.
Maðurinn er grunaður um að hafa kveikt í gardínum í húsinu eftir að hafa kveikt í pizzakössum á stofugólfi sem konan slökkti í með bjór.
Úrskurðurinn birtist í dag á vef Landsréttar en hann var kveðinn upp á þriðjudag.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi gerði þá kröfu að konunni, yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 8. nóvember 2018. Þá var þess krafist að kærðu mundu sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu samkvæmt meðferð sakamála.
Kemur fram í greinargerð lögreglu að klukkan 15:53 miðvikudaginn 31. október sl., hafi lögreglu borist tilkynning um að eldur væri laus í framangreindu íbúðarhúsi.
Þegar lögregla hafi komið á vettvang skömmu síðar hafi verið mikill eldur í húsinu og hafi mikinn reyk lagt frá því. Hafi konan verið fyrir utan húsið ásamt húsráðanda, og hafi þau tjáð lögreglu að tveir menn væru á efri hæð hússins.
Ekki hafi reynst unnt að senda reykkafara inn í húsið sökum mikils elds og hita. Hafi konan og nefndur maður sjáanlega bæði verið í annarlegu ástandi og undir áhrifum áfengis, lyfja og/eða fíkniefna. Hafi maðurinn að eigin frumkvæði, á vettvangi greint lögreglu frá því að hann hafi kveikt í, og konan haft á orði við lögreglu að maðurinn hafi kveikt í húsinu. Hafi þau bæði verið handtekin á vettvangi, færð á lögreglustöðina og vistuð í fangaklefa en sökum ástands þeirra hafi ekki verið unnt að taka af þeim skýrslu.
Slökkvistarf hafi staðið yfir allt þar til í morgun, fimmtudaginn 1. nóvember, og hafi lögregla fengið vettvang afhentan frá slökkviliði um klukkan 8:30 og þá fyrst hafi rannsókn inni í húsinu hafist. Fram kemur að aðstæður til rannsóknar inni í húsinu séu erfiðar sökum skemmda og hrunhættu og sé vettvangsrannsókn af þeim sökum tímafrek.
Undir hádegi hafi tvö lík fundist í húsinu og hafi verið staðfest að líkin væru af manni og konu. Konan hafi verið yfirheyrð hjá lögreglu um hádegi fimmtudaginn 1. nóvember, og hún þá greint frá því að hafa komið að manninum um klukkan 15:30 í gærdag. Þar hafi verið fyrir þrennt annað fólk. Hafi maðurinn verið að kveikja í pizzakössum á stofugólfi á neðri hæð hússins.
Hafi hún skammað hann og hellt bjór yfir kassana til að slökkva eldinn. Þá hafi annað þeirra sem voru á eftir hæðinni, komið niður á neðri hæðina, átt í einhverjum orðaskiptum eða rifrildi við manninn en síðan farið aftur upp á efri hæðina. Í framhaldinu hafi maðurinn lagt eld með kveikjara að gardínum aftan við sófa í stofunni. Kvaðst konan hafa farið í svokallað black-out og ekki muna eftir atvikum fyrr en hún hafi verið komin út úr húsinu og þar hafi maðurinn verið.
Maðurinn hafi verið yfirheyrður hjá lögreglu eftir hádegi sama dag. Hafi hann greint frá því að muna eftir að hafa kveikt eld í pappakassa í stofu á neðri hæð hússins. Atvik muni hann óljóst en skyndilega hafi eldur verið kominn um allt. Lögreglustjóri vísar til þess að til rannsóknar sakamál og að um sé að ræða mjög alvarlegar sakargiftir enda hefur löggjafinn ákveðið að við brotum gegn 2. mgr. 164. gr. skuli refsing ekki vera lægri en 2 ára fangelsi og allt að ævilöngu fangelsi.
Lögreglustjóri telur að þrátt fyrir að rannsókn málsins sé á frumstigi og margt enn óljóst um málsatvik sé kominn fram rökstuddur grunur um að konan hafi með saknæmum hætti átt þátt í eldsvoðanum sem varð tveimur einstaklingum að bana og að brot hennar geti varðað fangelsisrefsingu eins og áður segir. Lögreglustjóri segir rannsókn málsins á algeru frumstigi. Taka þurfi ítarlegri skýrslur af fólkinu.
Unnið sé að því að afla frekari vitna sem varpað geta ljósi á atburðarásina og mikil vinna sé fyrir höndum við vettvangsrannsókn, en sökum umfangs brunans hafi, eins og áður greinir, dregist að hefja þá vinnu. Lögreglustjóri telur að veruleg og raunveruleg hætta sé á að kærða geti torveldað rannsókn málsins m.a. með því að koma undan sönnunargögnum og hafa áhrif á vitni gangi hún laus á þessu stigi rannsóknarinnar.
Framburður þeirra, svo langt sem hann nær, er samhljóða varðandi það að maðurinn hafi borið eld að pappakössum í stofu á neðri hæð hússins áður en konan, sem hafi verið að leggja sig ásamt manninum á efri hæð hússins, hafi komið niður í stofuna. Í skýrslutökunni bar kærða við minnisleysi um atvik eftir að konan fór aftur upp á efri hæðina og maðurinn hafði kveikt í gardínum í stofunni.
Kvaðst hún hafa rankað við sér í sófa í stofunni og þá hafi allt verið í svörtum reyk. Eins og staða rannsóknar málsins er nú nýtur ekki við annarra gagna en framburðar kærðu hjá lögreglu um ætlaða hlutdeild hennar í eldsvoðanum. Hins vegar kom skýrt fram í skýrslutöku hjá lögreglu að kærðu var kunnugt um að fólkið var á efri hæð hússins þegar eldur logaði annars vegar í pappakössum á stofugólfi og hins vegar í gardínum í stofunni.