Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Lögregla og fjölskylda Valgeirs eru enn viss um að hann hafi verið myrtur

$
0
0

Bjarki Hólmgeir Halldórsson tók efnið saman

VALGEIR VÍÐISSON – Hvarf þann 19. júní 1994

Valgeir Víðisson var fæddur 11. júlí 1964. Hann var uppalinn í Vestmannaeyjum en flutti til Reykjavíkur eftir grunnskólaárin. Hann var ókvæntur og átti einn son.

Hann leigði herbergi á Laugavegi 143 í Reykjavík. Hann var búin að vera í basli með fíkniefni í nokkur ár og tengdist undirheimum Reykjavíkur með einhverjum hætti.

Kvöldið 19. Júní 1994 hafði hann sagt vinkonu sinni að hann væri að bíða eftir mikilvægu símtali síðar um kvöldið en ekki útlistaði hann það nánar fyrir henni, um hvað það snérist.

Síðar þetta kvöld fór hann frá heimili sínu á dökkleitu reiðhjóli sem hann átti. Hann var klæddur í ljósbláar gallabuxur, brúnan leðurjakka og brún reimuð stígvél. Hann var grannur, lágvaxinn með skollitað hár.

Engu var líkara en að hann hafi bara rétt ætlað að skreppa út. Sjónvarp hans var í gang, kveikt ljós og mynd sem að hann var að mála, stóð á trönum og virtist ekki full kláruð.

Ekkert hefur spurst til hans frá þessu kvöldi og þrátt fyrir umfangsmikla leit sem hófst rúmri viku síðar, fannst aldrei neitt sem gat með fullri vissu sagt til um hvað hafði orðið um hann. Eins hefur reiðhjól hans aldrei fundist.

Vegna tengsla hans við fíkniefni og undirheima Reykjavíkur beindist fljótlega grunur að því að hann hafi horfið af mannavöldum. Enn þann dag í dag, teja bæði lögregla og fjölskylda hans að um saknæmt athæfi sé að ræða, það er að segja að Valgeir hafi verið myrtur.

Það má í raun segja að mál hans hafi verið rannsakað í þrígang. Lögregla hefur þó líka verið gagnrýnd fyrir að rannsókn við upphaf hvarfsinns hafi gengið of hægt. Faðir Valgeirs fullyrti í sjónvarpsviðtali að hann viti til þess að sonur sinn hafi fengi hótanir fyrir hvarfið.

Eftir hvarfið fór kunningi Valgeirs inn í vistarverur hans og tók þar svo kallað fílofax sem er einskonar dagbók. Skömmu síðar skilaði hann því til lögreglu en þá vantaði allar blaðsíður sem höfðu að geyma upplýsingar frá deginum sem hann hvarf og dagana þar á undan. Lögreglan telur að þarna hafi getað leynst mikilvægar upplýsingar. Ekki var talið að þessi maður tengdist hvarfinu.

Valgeir var úrskurðaður látinn árið 2000 og var þá haldin minningarathöfn um hann. Árið 2001 varð svo vending á málinu. Þá voru tveir menn handteknir í tengslum við hvarf Valgeirs eftir að trúverðugar ábendigar um aðkomu þeirra bárust lögreglu. Annar þeirra var þá í fangelsi í Hollandi og var framseldur að beiðni Íslenskra yfirvalda. Þeir voru látnir sæta gæsluvarðhaldi um tíma en ekkert kom út úr yfirheyrslum yfir þeim að gagni og neituðu þeir báðir aðild að hvarfi Valgeirs.

Eitt af því sem þótti grunsamlegt við atferli mannana, að í júlí 1994 komu þeir með með bifreið sína sem var svartur Chevrolet Capris árgerð 1978 á bifreiðaverkstæði og vildu selja hann til niðurrifs sem þeir og gerðu.

Til eru myndir af bifreiðinni í gögnum lögreglu vegna rannsóknar á umfangs miklu fíkniefnamáli árið 1994. Það þótti sérstakt við bifreiðina að búið var að fjarlægja alla klæðningu úr farangursrými hennar svo einungis var þar bert stálið. Bíllinn stóð í nokkra daga fyrir utan verkstæðið en þá kom þar maður og ýtti á eftir því að bifreiðin færi í brotajárn. Bíllinn var svo notaður í rallýkross og var hent um haustið 1994.

Ekkert hefur enn orðið til þess að málið megi heita upplýst. Bæði lögregla og fjölskylda Valgeirs eru enn þess viss að hann hafi verið myrtur og samkvæmt því ganga lausir einn eða fleiri einstaklingar sem bera ábyrgð á hvarfi hans. Lögreglan tekur að sjálfsögðu við ábendingum um málið sem er enn til rannsóknar.

Bjarki Hólmgeir Halldórsson tók efnið saman : Búir þú yfir upplýsingum eða vilt koma á framfæri ábendingu varðandi ofangreint, eða önnur mannshvörf er þér bent á að hafa samband með tölvupósti. Póstfangið er mannshvarf@gmail.com

The post Lögregla og fjölskylda Valgeirs eru enn viss um að hann hafi verið myrtur appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652