„Ég var mjög ánægð með fundinn og þann vilja til að lækka byggingarkostnað og húsnæðisverð sem við fundum fyrir þar, sem og vilja til að finna lausnir,“ segir Eygló. Verkefnið byggir á samþykkt ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á sviði húsnæðismála í tengslum við gerð kjarasamninga síðastliðið vor. Tilgangur fundarins var að stilla saman strengi allra þeirra sem þurfa að koma að verkefninu og fá fram góðar hugmyndir að leiðum til að lækka byggingarkostnað. Til fundarins voru boðnir allir helstu hagsmunaaðilar sem málefnið snertir. Breytingar á byggingarreglugerð, lægri fjármagnskostnaður, aukið framboð lóða, betri nýting rýma og bætt skipulag á sveitastjórnarstigi var meðal þess sem rætt var á fundinum.
Hægt að lækka byggingarkostnað um 10-15%
Ráðherrarnir Eygló Harðardóttir, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Sigrún Magnúsdóttir hófu fundinn á að fara stuttlega yfir stöðuna í húsnæðismálum. Eygló sagði markmiðið vera þjóðarátak til að lækka byggingarkostnað. Hún greindi frá því að milli 10-15 manns koma að því að byggja hús, frá því verður til á pappír og þar til það er fullbyggt og mikilvægt væri að hver og einn þeirra myndi leita leiða til að lækka kostnaðinn. „Ef hver aðili sparar um 1% má lækka kostnað við byggingu húsnæðis um 10-15%.“ Markmið verkefnisins er jafnframt að skoða lausnir á sviði húsnæðismála í víðu samhengi með það að leiðarljósi að auka fjölbreytni og framboð á hagkvæmu húsnæði, ekki síst fyrir ungt fólk og tekjulágt. „Ofan á stöðuna í dag, þar sem vöntun er á ákveðnum stærðum húsnæðis, eru einnig stórar kynslóðir að koma á markaðinn,“ segir Eygló.

Upphafsfundurinn aðeins fyrsta skrefið
Á fundinum var unnið með svokölluðu þjóðfundarfyrirkomulagi þar sem fólki var skipt niður á borð og hugmyndavinna átti sér stað um helstu verkefnin framundan. Allar hugmyndir voru skráðar niður og stefnt er að vinna með þær í framhaldinu. „Fyrirkomulagið virkaði mjög vel og tryggði þátttöku allra,“ segir Eygló. Fundurinn er hins vegar aðeins fyrsta skref verkefnisins. Framhaldsvinnan verður í höndum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og segir Eygló að stefnt sé á að fara af stað með ákveðið klasasamstarf. „Við teljum að verkefnið „Vandað, hagkvæmt, hratt“ ætti að vera fyrsta verkefni klasans. Jafnframt erum við að huga að samkeppni um hagkvæmar húsnæðislausnir þar sem sigurtillögur yrðu byggðar og gerðar aðgengilegar.“ Aðspurð um næstu skref segir Eygló þau felast í að flokka hugmyndirnar sem fram komu á fundinum og senda áfram til þeirra aðila sem tengjast tillögunum og bera ábyrgð á framkvæmd þeirra. „Þetta eru ýmist sveitarfélögin, fjármálafyrirtæki, stofnanir og hagsmunasamtök á húsnæðismarkaðnum. Við munum biðja um svör um hvernig megi útfæra og vinna hugmyndirnar frekar.“

The post Fyrsta skrefið í átt að lausn við húsnæðisvandanum appeared first on Fréttatíminn.