Dansverkið The Valley var frumsýnt í Tjarnarbíói í vikunni. Verkið sem er hugarfóstur dansarana Ingu Huldar Hákonardóttur og Rósu Ómarsdóttur er byggt á rannsóknum þeirra á mörkum hins náttúrulega og ónáttúrulega. Dalurinn er staður þar sem manneskja og vél hafa runnið saman og mörkin á milli hins náttúrulega og þess gervilega eru horfin. Dalurinn er staður tvöföldunar og afrita, þar sem tveir verða að einum áður en þeir klofna og margfaldast aftur, svo óljóst verður hvar einn hluti endar og annar hefst. Báðar eru þær búsettar í Brussel og segir Rósa þær hafa unnið mikið saman síðan þær hófu nám í borginni fyrir fimm árum síðan.
„Þetta er dansverk sem teygir sig yfir í hina ýmsu miðla,“ segir Rósa Ómarsdóttir, dansari og annar höfundur The Valley. „Við erum mikið að vinna með hljóð. Við byrjuðum fyrir ábyggilega tveimur árum síðan að rannsaka Foley list, en það er það sem hljóðhönnuðir kvikmynda búa til eftir að myndir eru kvikmyndaðar. Þeir nota ýmsa hluti til þess að framkvæma hin ýmsu hljóð,“ segir hún. „Sellerístönglar hafa til dæmis lengi verið notaðir til þess að gera hljóð fyrir beinbrot og svona ýmislegt. Við búum til okkar eigin hljóðheim sem við stígum síðan inn í og framkvæmum dans sem passar við þennan heim. Svo flækjum við leikinn þar sem spurningin sem við veltum upp er hvort stjórnar hverju. Eru það hljóðin sem stjórna dansinum eða öfugt,“ segir Rósa.
„Dalurinn er hugtak sem við erum hrifnar af. Á ensku heitir þetta The Uncanny Valley,“ segir hún. „Okkur hefur þótt erfitt að þýða það en sú besta er líklega Kynlegi dalurinn. Uncanny er tilfinning sem maður fær þegar eitthvað er á mörkum þess að vera lifandi og dautt, eða náttúrulegt og ónáttúrulegt á sama tíma. Dalurinn er sögusvið verksins í þessum dansi. Fyrir ári síðan bjuggum við til verk sem hét Wilhelm´s Scream sem var mikið byggt á þessari Foley list,“ segir Rósa. „Við sýndum það á Reykjavik Dance Festival og The Valley er svona stærri útgáfa sem er unnin af áhrifum af því verki, bara tekið lengra inn í hugtakið. Við vinnum mikið á mörkum hrolls og húmors.
Við Inga Huld hófum saman nám í mjög virtum samtímadansskóla í Brussel sem heitir Parks og síðan höfum við samið og sýnt dansverk saman á hverju ári, svo okkar samstarf er um fimm ára gamalt,“ segir hún. „Sveinbjörn Thorarensen sér um hljóðmyndina í The Valley og Ragna Þórunn Ragnarsdóttir hannar sviðsmyndina og við vinnum þetta allt saman í mikilli sameiningu,“ segir Rósa Ómarsdóttir, dansari og danshöfundur.
The Valley er sýnt í Tjarnarbíói sunnudaginn 22. nóvember og 29. nóvember og má finna allar upplýsingar um verkið á www.tjarnarbio.is
The post Dans á mörkum hrolls og húmors appeared first on Fréttatíminn.