Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Farið að snúast um allt annað en launamál

$
0
0

Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilu starfsmanna ÍSAL og álversins í Straumsvík og stefnir allt í að verkfall hefjist í næstu viku. Þá verður byrjað að slökkva á kerjum álversins, jafnvel til frambúðar. Augljóst að afstaða Rio Tinto snýst ekki um kjaramálin, að sögn talsmanns samninganefndar starfsmanna.

 

„Þetta er farið að snúast um eitthvað allt annað en launamál,“ segir Gylfi Ingvarsson, talsmaður samninganefndar starfsmanna hjá ÍSAL, í kjaradeilu þeirra við Álverið í Straumsvík. „Það hefur enginn fundur verið boðaður og á síðasta fundi þurftum við að bíða eftir fulltrúum fyrirtækisins í samninganefnd í tvo klukkutíma fram yfir boðaðan fundartíma. Þegar þau loksins mættu var komin ný greining á því hvað þeir legðu áherslu á og ekki nóg með það heldur sögðu þau okkur líka hvað við ættum að leggja áherslu á. Framsetning þeirra var með þeim hætti að það var enginn grundvöllur fyrir viðræðum svo sá fundur varð mjög stuttur.“
Starfsmenn ÍSAL hafa boðað verkfall frá 2. desember og látið hefur verið í það skína að ef af því verði þá sé óvíst hvort álverið verði nokkurn tíma opnað aftur. „Við leggjum enga áherslu á verkfall,“ segir Gylfi. „Það eina sem við erum að fara fram á er að fá launahækkanir til jafns við aðra aðila vinnumarkaðarins. Það er það eina sem við erum að biðja um.“
Gylfi segir augljóst að málið sé farið að snúast um eitthvað allt annað en umræddar launahækkanir lægst launuðu starfsmannanna. „Ég verð nú bara að segja það hreint út að ég hef ekki grænan grun um á hvaða vegferð Rio Tinto er,“ segir hann. „Afstaða þeirra getur ekki snúist um þessar deilur okkar. Það hlýtur eitthvað annað að liggja að baki. Þetta er gengið svo langt að það hefur verið hringt í mig frá London til að spyrja um þann orðróm sem gengur innan málmbransans að það sé allt annað sem vakir fyrir Rio Tinto en það sem snertir þessa launadeilu. Það er búið að semja við æðstu stjórnendur ÍSAL, alla millistjórnendur fyrirtækisins og það er meira að segja búið að gera árssamning við verktaka sem þeir vilja að fari í almenn útboð sem þeir hafa ekki heimild fyrir í dag. Það þarf enginn að segja manni það að afkoma fyrirtækisins byggist á því að hækka ekki laun lægst launuðu starfsmannanna. Það sér hver maður.“
Kjaradeilan er í svo hörðum hnút að komin er áætlun um að byrjað verði að slökkva á kerjunum eftir rúma viku, jafnvel til frambúðar. Uggur er í Hafnfirðingum vegna hugsanlegrar lokunar álversins þar sem það myndi hafa áhrif á afkomu hátt í 1000 manns í bænum. Raforkusala upp á mörg hundruð milljarða króna næstu tuttugu ár er einnig í húfi því árið 2010 gerðu Rio Tinto og Landsvirkjun með sér raforkusamning sem gildir til ársins 2036. Óvíst er hvort hugsanleg lokun vegna verkfalls losi Rio Tinto undan þeim samningi.
Ekki náðist í forsvarsmenn álversins við vinnslu fréttarinnar.

 

The post Farið að snúast um allt annað en launamál appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652