Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Dýrt en skynsamlegt að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla

$
0
0

Það mun kosta borgina 2,3 til tæpra 6 milljarða að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, samkvæmt skýrslu starfshóps sem skoðað hefur málið. Í skýrslunni, sem kynnt var í vikunni, kemur einnig fram að 515 stöðugildi myndu skapast sem erfitt yrði að manna. Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, segir borgina munu leggja áherslu á að fjölga leikskólaplássum, það sé skynsamlegt, en nauðsynlegt sé að hugsa í skapandi lausnum því kostnaðurinn sé verulegur. 

„Það er mjög er fínt að hafa þetta kortlagt, segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, spurður um álit sitt á skýrslu starfshóps sem skoðað hefur hvernig brúa megi bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla sem í dag miðast við inntöku barna sem eru orðin a.m.k. 18 mánaða. Skýrslan var kynnt í skóla- og frístundaráði síðastliðinn miðvikudag.

515 ný stöðugildi

Í skýrslunni kemur fram að kostnaðarauki Reykjavíkurborgar við að taka inn börn í leikskóla við eins árs aldur er á bilinu 2,3 – tæpra 6 milljarða króna og ræðst af því hvort innritað verður í leik- og grunnskóla einu sinni eða tvisvar á ári. Einnig kemur þar fram að fjölgun barna í leikskólum muni kalla á mikla fjölgun starfsmanna, eða allt að 515 stöðugildi, og að erfitt gæti reynst að manna þessi störf með fagfólki eins og staðan er á vinnumarkaði. Jafnframt segir að erfitt gæti reynst að fá fagfólk í þessi störf miðað við fjölda útskrifaðra leikskólakennara og framboð á vinnumarkaði um þessar mundir. Þá kemur þar fram að mennta – og menningarmálaráðherra hefur í samráði við innanríkisráðherra skipað starfshóp sem á að gera tillögu að áætlun um hvernig sveitarfélögin skuli standa að því að bjóða leikskólaúrræði strax og fæðingarorlofi lýkur. Miðað er við að árið 2016 hafi fæðingarorlof verið lengt í 12 mánuði og þá verði sveitarfélög um landið allt reiðubúin að veita þjónustuna.

Verkefnið er samfélagslegt

Skúli telur næstu skref vera að leggja drög að aðgerðaáætlun um hvernig hægt sé að fjölga leikskólaplássum.„ Við sjáum núna hver kostnaðurinn yrði en það eru auðvitað fleiri kostir í stöðunni sem hægt væri að vinna með samhliða. Lausnin hlýtur að vera sú að móta áætlun til næstu ára þar sem við förum blandaða leið. Bæði með því að auka samstarfið við aðila sem hafa reynslu af því að bjóða leikskólaþjónustu og með því að skoða samhengið við dagforeldrakerfið og aðrar áhugaverðar hugmyndir sem hafa verið í gangi,“ segir Skúli sem telur verkefnið vera samfélagslegt. „Best væri ef hægt væri að ná samræmdum skrefum á milli ríkisins og sveitarfélaganna í heild sinni. Þetta er veruleg fjárfesting sem er skynsamleg til lengri tíma litið en fjárhagur sveitarfélaganna leyfir ekki mikið af nýjum verkefnum eins og staðan er núna. Þannig að menn þurfa að vera skapandi í lausnum.“
En þetta er verkefni sem borgarstjórn mun leggja áherslu á?
„Já, þetta er klárlega eitthvað sem við viljum leggja áherslu á. Við viljum leita allra leiða til að fjölga plássum því þetta er mikilvæg þjónusta sem við erum stolt af.“

The post Dýrt en skynsamlegt að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652