Ég slæst reglulega um sjónvarpsfjarstýringuna við börnin mín tvö. Yfirleitt, eftir talsvert ofbeldi, bæði líkamlegt og andlegt, endum við á því að horfa á Svamp Sveinsson. En nú hefur orðið breyting þar á. Mér datt nefnilega sem í hug, eftir enn einn sófabardagann, að sýna ungunum Krakkafréttir á RÚV í staðinn fyrir svampinn góða í ananasnum. Það var nú ekki beinlínis sáttahugur í erfingjunum við þessa ákvörðun en eftir smá stund datt allt í dúnalogn. Börnin sátu sem límd við skjáinn og þegar þætti dagsins lauk var farið í frelsið og fimm sex þættir teknir í beit.
Krakkafréttirnar eru enda alveg ljómandi dagskrárgerð. Stuttir og snaggaralegir þættir með alvöru lífsins í bland við skemmtilegar hliðar lífsins. Þarna var heldur ekki verið að tala niður til barnanna sem sást best á því að það var vaðið beint í hryðjuverkin í París og stríðið í Sýrlandi sem og flóttamannastrauminn sem þaðan kemur. Ég hvítnaði allur upp og kreisti sófapullu þegar ofbeldið þar bar á góma enda ekki minnst einu orði á stríðin í Miðausturlöndum, hvað þá hryðjuverk framin í borg sem stór hluti fjölskyldunnar heimsótti síðasta sumar með ömmu og afa í fararbroddi. En börnin komu á óvart og tóku þessum fréttum með þroska sem ég var ekki búinn að tengja þau við – grunnskólabörn í fyrsta og fjórða bekk. Það er því óhætt hægt að mæla með því að setjast niður með afkvæmunum og horfa á þessar líka ljómandi fínu krakkafréttir.
Haraldur Jónasson
The post Alvöru krakkafréttir appeared first on Fréttatíminn.