Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Fjölskyldusaga

$
0
0

Nærri þrjátíu ár eru liðin frá því að ég skrifaði minn fyrsta helgarpistil í dagblað, í DV þar sem ég vann þá. Þeim skrifum hélt ég áfram þar vistinni lauk þar, síðla árs 2003. Þá flutti ég mig um set, hóf störf á Viðskiptablaðinu og skrifaði pistlana þar. Síðan skrifaði ég sambærilega pistla í ágætt blað sem yngri sonur minn, Haraldur, gaf út um hríð. Stoppað í matargatið hét það og fjallaði, eins og nafnið bendir til, um mat og matargerð. Loks hef ég undanfarin rúm fimm ár skrifað helgarpistla Fréttatímans, lengst af vikulega en í seinni tíð aðra hverja viku.

Enga tölu hef ég á öllum þessum pistlum enda hef ég ekki safnað þeim, þótt þeir séu vitaskuld til í fyrrgreindum blöðum. Ég hef litið á pistlana sem dægurflugur, efni til að bæta lund fólks þá helgi sem blaðið kemur út. Ekki veitir af, nóg er harðlífið í veðurbörðu verðbólgusamfélaginu. Á minni löngu blaðamennskutíð hef ég reynt að létta heldur efni þeirra blaða sem ég hef unnið við. Blöð mega ekki vera leiðinleg.

Efni helgarpistlanna, eins og þeir hafa kallast hér í Fréttatímanum, eða laugardagspistlanna eins og þeir kölluðust í DV, hefur verið margs konar. Meginþemað öll þessi ár hefur þó verið fjölskyldusaga eða jafnvel þroskasaga manns frá tiltölulega ungum aldri til dagsins í dag, þegar ég telst vera kominn á virðulegan aldur – og næ á árinu sem nú er að ganga í garð því afmæli sem Bítlarnir sungu um í mínu ungdæmi, „When I’m Sixty Four“. Það þótti mér þá í ansi langri framtíð – en tíminn líður hratt.

Fjölskyldusaga mín er væntanlega svipuð og flestra sem strita í þessum víngarði drottins. Þess vegna hafa þeir getað séð sjálfa sig í þeim, speglað sig þar. Við hjónin höfum baslað eins og aðrir, alið upp börnin, gengið til vinnu, komið okkur upp þaki yfir höfuðið, sparað fyrir bíl og farið í ferðalög – sem sagt lifað lífinu eins og gengur og gerist meðal fólks í Kópavogi og nærsveitum.

Það þarf ekki annað en smáatriði úr daglega lífinu til að spinna vef í hvern pistil og kosturinn er sá að skáldaleyfi er til staðar. Það þarf ekki allt að vera satt sem sagt er – þótt oft sé sannleikskorn í því. Eigin reynsluheimur hefur verið uppspretta pistlanna. Þegar pistlaskrifin hófust áttum við þrjú börn, það fjórða var ófætt. Nú eru börnin uppkomin, hafa lokið námi, vinna við fjölbreytt störf og hafa stofnað sín eigin heimili. Við hjónakornin erum því ein eftir í kotinu, en engu að síður umvafin okkar fólki og rík, því auk barnanna fjögurra eigum við fjögur tengdabörn og átta barnabörn.

Helsta uppspretta efnis í helgarpistlana hefur verið mín ágæta eiginkona. Hana hef ég þó aldrei nefnt á nafn, heldur talað um eiginkonuna, konuna, frúna eða betri helminginn, sem hún sannarlega er. Tilhlýðilegt er því að segja frá því að hún heitir Halldóra Teitsdóttir, yfirleitt kölluð Dóra. Hún stjórnar, með öðrum, rótgrónu hópferðafyrirtæki. Saman höfum við gengið veginn frá því vorum táningar, 18 og 19 ára, nærri hálfan fimmta tug ára. Dóra er fjörug kona og glaðlynd, enginn veifiskati og hefur drifið sitt fólk áfram. Svo er hún falleg sem er meginástæða þess að börnin okkar eru hið gjörvulegasta fólk.

Vegna þessa aðalhlutverks í mínu lífi hefur Dóra þurft að þola það að vera helsta persónan í fyrrgreindum helgarpistlum. Þann kross hefur hún borið möglunarlaust öll þessi ár. Margir hafa í gegnum tíðina stoppað okkur af, bara til þess að sjá þá konu sem óumbeðin fékk þetta hlutverk. Eitt sinn er við höfðum komið innkaupapokum fyrir í skottinu á heimilisbílnum og bjuggum okkur til brottfarar frá stórmarkaðnum sáum við hvar maður einn tók strikið til okkar. Ég skrúfaði niður bílrúðuna til að tala við manninn, sem ég þekkti ekki. Hann sagðist engan áhuga hafa á mér en vildi hins vegar gjarnan líta þá konu augum sem við hlið mér sat, aðalpersónu pistlanna.

Eins og fram hefur komið, bæði hér í blaðinu og annars staðar, seldum við feðgar meirihlutaeign okkar í útgáfufélagi Fréttatímans í nóvember síðastliðnum. Teitur, eldri sonur okkar, var framkvæmdastjóri blaðsins en er fluttur til Danmerkur með sína fjölskyldu. Haraldur verður áfram ljósmyndari Fréttatímans en ég læt af starfi ritstjóra nú um áramótin. Þessi rúmu fimm ár frá stofnun Fréttatímans hafa verið ævintýri, frjór tími í samstarfi við frábært fólk. Lesendur hafa tekið blaðinu afbragðsvel og það er aufúsugestur á heimilum.

Nú taka nýir eigendur og stjórnendur við blaðinu. Þeir eru stórhuga og enginn vafi er á að það ágæta fólk, í samstarfi við prýðilega áhöfn blaðsins, eiga eftir að efla útgáfuna. Minn blaðamennskuferill spannar nær fjörutíu ár, allan minn starfsferil eftir að námi lauk, lengst af sem stjórnandi á ritstjórn. Það hefur verið skemmtilegur tími, alltaf gefandi, þótt stundum hafi taugar þanist á álagstímum.

Í því streði öllu hafa helgarpistlarnir verið hvíld frá daglegu fréttaamstri – og vonandi veitt einhverjum ánægju þá stund sem fólki gefst milli stríða um hverja helgi.

The post Fjölskyldusaga appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652