Alex Michael Green stofnaði tískubloggið Herratrend.is og fékk sex aðra unga karlmenn í lið með sér til að skrifa á síðuna. Síðan varð upphaflega til þegar Alex fékk það verkefni í námi sínu í grafískri hönnun að búa til eigin vefsíðu. Hann kaupir mest af sínum fötum erlendis eða á netinu, og eru Primark og Topman þar í mestu uppáhaldi.
„Ég hef sjálfur mjög mikinn áhuga á tísku og var alltaf að bíða eftir að einhver opnaði bloggsíðu fyrir herra þar sem væri fjallað um tísku og fleira. Það gerðist aldrei og ég stofnaði því síðuna bara sjálfur,“ segir Alex Michael Green sem fékk sex aðra unga karlmenn í lið með sér og stofnaði síðuna Herratrend.is. Tískan er þar í fyrsta sæti en Alex segir hópinn þannig samansettan að efnistökin verði sem fjölbreyttust. Til að mynda er hægt að lesa sér til um tónlist og tattú en þeir drengir halda einnig úti Herratrend TV og hafa gert stutta þætti um Secret Solstice og Reykjavík Fashion Festival, svo eitthvað sé nefnt.
Alex er nemi í grafískri hönnun í Tækniskóla Íslands og lagði hann fyrstu drög að síðunni í forritunartíma. „Okkur var sett fyrir það verkefni að búa til eigin síðu og koma eigin hugmynd á framfæri og ég ákvað þá að búa sjálfur til tískublogg fyrir stráka. Ég hef síðan þróað þetta áfram, skref fyrir skref,“ segir hann.
Alex fylgist vel með tískunni og spurður hvað sé heitast í dag fyrir unga karlmenn, leggur hann áherslu á að hver finni sinn eigin stíl. „Ég tek hins vegar mikið eftir því að það er mjög vinsælt að vera í Nike-skóm, þröngum svörtum buxum og síðum bol,“ segir hann.
Hann kaupir mikið af fötum erlendis og heldur þar mest upp á verslanirnar Primark og Topman. „Ég hreinlega stenst ekki verðið í Primark og kaupi allt of mikið af fötum þar. Mér finnst Topman vera geðveikt flott búð og þeir skara fram úr þegar kemur að nýjustu trendunum,“ segir Alex. Hann kaupir mest af sínum fötum erlendis eða í gegnum netið en hér heima er það verslunin Neon í Kringlunni sem er í mestu uppáhaldi. „Hún er á þriðju hæð í Kringlunni og ekki margir sem vita af henni en þetta er virkilega flott búð með mikið af stílum sem höfða til mín. Þeir selja alls konar „trendy“-föt með öðruvísi sniðum en hefðbundnar búðir og ég versla oft þar.“
The post Tískublogg fyrir karlmenn appeared first on FRÉTTATÍMINN.