Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Í hvaða flokki er íslenska ríkið?

$
0
0

Lánshæfnisfyrirtækið Moody’s hækkaði lánshæfnismat íslenska ríkisins úr Baa3 í Baa2 fyrir nokkrum dögum. Með því færðist Ísland upp úr flokki ríkja með lélegustu fjárfestingaeinkunn, næsta flokki fyrir ofan svokallaðan ruslflokk. Þau ríki sem sitja enn í þessum lægsta fjárfestingarflokki er Azerbaijan, Bahrain, Indland, Indónesía, Namibía, Rúmenía, Slóvenía og Tyrkland. Þau ríki sem eru í flokknum þarna fyrir ofan ásamt Íslandi eru Bahamaeyjar, Brasilía, Búlgaría, Filippseyjar, Ítalía, Kasakstan, Kólumbía, Panama, Spánn, Suður-Afríka, Trínidad & Tóbagó og Uruguay.

Þarna eru tvö lönd Vestur-Evrópu auk Íslands. Spánn er líklegra að vinna sig upp um flokk á næstu misserum en Ítalía. Ríkissjóður Spánar skuldar 98 prósent af landsframleiðslu Spánar, atvinnuleysi er þar 24 prósent en landsframleiðslan jókst um 3,1 prósent í fyrra. Skuldir ríkissjóðs Ítalíu eru 132 prósent af landsframleiðslu, atvinnuleysi er 14 prósent og hagvöxtur var lítill sem enginn í fyrra. Á Íslandi eru skuldirnar 86 prósent af landsframleiðslu, atvinnuleysið 4 prósent og hagvöxtur 2,9 prósent í fyrra.

Ríki sem sitja í skásta ruslflokknum, efst í tossabekk, með einkunnina Ba1 eru Guatemala, Kosta Ríka, Króatía, Marokkó, Paraguay, Portúgal, Rússland og Ungverjaland,. Þarna situr Portúgal, eina ríki Vestur-Evrópu sem er með lægra lánshæfismat en Ísland. Fyrir utan Portúgal er Kýpur og Grikkland einu evrulöndin sem eru með lægra lánshæfnismat en Ísland.

Grikkland situr í neðsta skammarkrók hjá Moody’s ásamt Belize, Kúbu, Jamaíku og Púerto Ríkó með Argentínu og Hvíta-Rússland fyrir ofan sig og Venúzúela fyrir neðan. Þar fyrir neðan er aðeins Úkraína. Síðan eru mörg lönd þar fyrir utan sem eru svo fáránlega illa stæð að Moody’s hefur ekki fyrir því að leggja á mat á greiðsluhæfi þeirra.

Ísland féll aldrei niður í ruslflokk hjá Moody’s Standard & Poors. Aðeins Fitch sendi Ísland þangað niður um tveggja ára skeið.

Ísland var með A2 í einkunn hjá Moody’s í byrjun níunda áratugarins, einkunn sem er um það bil 7,5 á vanabundnum einkunnarskala þar sem 5,0 þýðir fall ofan í ruslflokk. Lánshæfnin hækkaði upp í A1 (8,0) 1996 og í Aa3 (8,5) 1997 og helst þar fram að 2002. Þá fóru undarlegir hlutir að gerast. Þá fékk Ísland allt í einu Aaa í einkun, sem er eiginlega 10,0, og hélt því mati í gegnum litlu Íslandskrísuna 2006 og allt fram í maí 2008 að matið var lækkað í Aa1 (9,5) og síðan í A1 (8,0) þegar allt var að hrynja í október sama ár. Þegar margt var hrunið var lánshæfniseinkunin lækkuð í Baa1 (6,5) í desember 2008 og svo aftur í Baa3 (5,5) í nóvember 2009. Þar sat Ísland í fimm og hálft ár þar til Moody’s hækkaði landið í Baa2 eða 6,0 fyrir nokkrum dögum.

Þróunin hjá hinum matsfyrirtækjunum var svipuð, en þó ekki alveg eins.

Fitch hefur ekki gefið Íslandi einkunn nema frá aldamótum. Landið byrjaði með AA- (sem segja má að sé 8,5) og fór aldrei hærra. Í mars 2007 lækkaði matið í A+ (8,0) og svo í A- í september 2008. Og aftur í BBB- (5,5) í október þegar allt var að hrynja og niður í ruslflokk BB+ (5,0) í janúar 2010 en aftur upp í lélegasta fjárfestingarflokkinn BBB- (5,5) í febrúar 2012 og svo upp í BBB (6,0) í febrúar 2013, þar sem landið situr enn.

Hjá Fitch er Ísland í flokki með Brasilíu, Kólumbíu, Panama og Suður-Afríku. Í næsta flokki fyrir ofan (þangað sem Ísland stefnir) eru Ítalía, Kasakstan, Mexíkó, Perú, San Marino, Slóvenía, Spánn og Taíland. Í flokknum fyrir neðan Ísland (það sem Ísland reis 2013) eru Arúba, Azerbaijan, Bahrain, Búlgaría, Indland, Indónesía, Marokkó, Namibía, Filippseyjar, Rúmenía, Rússland, Tyrkland og Uruguay.

Sagan sem Standard & Poors segir er sú að Ísland var með A (7,5) á níunda áratugnum en hækkaði í A+ (8,0) árið 1996 og hélt því þar til landið hækkaði í AA- (8,5) í febrúar 2005 en var lækkað aftur niður í A+ (8,0) í desember 2006 eftir litlu Íslandskrísuna og svo í A (7,5) í apríl 2008 og í A- (7,0) í september sama ár. Standard & Poors felldi Ísland í BBB (6,0) í október 2008 og niður í BBB- (5,5) í nóvember sama ár. Og þar situr landið enn bráðum sjö árum síðar, einu þrepi fyrir ofan ruslflokk.

Hjá Standard & Poors er Ísland í flokki með Andorra, Azerbaijan, Bahrain, Brasilíu, Indlandi, Ítalíu, Marokkó, Rúmeníu og Suður-Afríku. Ísland er eina landið af þessum með jákvæða stöðu og því líklegast að vinna sig upp í næsta flokk (BBB = 6,0) þar sem eru Bahamas, Kólumbía, Kasakstan, Panama, Filippseyjar, Spánn og Uruguay. Í flokknum fyrir neðan Ísland, skásta ruslflokki (BB+ = 5,0), eru: Búlgaría, Ungverjaland, Indónesía, Rússland og Tyrkland.

Þessi félagsskapur kemur kannski sumum á óvart, einkum þeim sem hefur lagt trúnað á fullyrðingar ráðamann um að Ísland sé fyrirmynd annarra þjóða í efnahagsmálum. Svo er náttúrlega ekki. Þær þjóðir sem eru til fyrirmyndar hjá Standard & Poors eru þessar með lánshæfnismat AAA eða 10,0 í einkunn: Ástralía, Bretland, Danmörk, Hong Kong, Kanada, Liechtenstein, Lúxemborg, Noregur, Singapúr, Svíþjóð, Sviss og Þýskaland.

Næstar koma með AA+ eða 9,5: Austurríki, Bandaríkin, Finnland, Holland og Kúwait. Og AA eða 9,0: Belgía, Frakkland, Nýja Sjáland, Qatar og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Og AA- eða 8,5: Chile, Eistland, Kína, Japan, Saudi Arabía, Taívan og Tékkland.Þar næst fylgja þessi lönd með A+ eða 8,0: Bermúda, Írland, Ísrael, Rwanda og Suður-Kórea. Og þessi með A eða 7,5: Slóvakia og Trinidad & Tobago. Og loks eftirtalin lönd með A- eða 7,0: Botswana, Lettland, Litháen, Malasía, Óman, Pólland og Slóvenía.

Þar næst fylgja þessi lönd með A+ eða 8,0: Bermúda, Írland, Ísrael, Rúanda og Suður-Kórea. Og þessi með A eða 7,5: Slóvakía og Trínidad & Tóbagó. Og loks eftirtalin lönd með A- eða 7,0: Botsvana, Lettland, Litháen, Malasía, Óman, Pólland og Slóvenía.

Þarna í efri flokkum eru allar nágrannaþjóðir Íslendinga og þær smáþjóðir sem við berum okkur helst saman við. En þarna eru líka lönd sem oft voru nefnd í sömu andrá og Ísland í umfjöllun um hrunið 2008; Írland, Lettland, Litháen. Sagt var að munurinn á Íslandi og Írlandi væri bara einn stafur og fjórir mánuðir og átti það að merkja að allar þær hörmungar sem lögðust yfir Íslendinga myndu einnig ganga yfir Íra. Nú er munurinn sá að Írland fær 8,0 hjá Standard & Poors en Ísland bara 5,5. Það meira en bitamunur.

Auðvitað má ekki gera of mikið úr lánshæfnismati þessara fyrirtækja. Þau höfðu alvarlega mikið rangt fyrir sér í aðdraganda Hrunsins. Ofmat þeirra á getu íslenska ríkisins, og enn frekar stjarnfræðilega vitlaust mat þeirra á styrk íslensku bankanna, jók mjög á vanda Íslendinga; kveikti undir góðærinu og gerði hrunið umfangsmeira og skaðlegra fyrir íslenskan almenning og skattgreiðendur.

En samt segir mat þessara fyrirtækja nokkra sögu um mismunandi stöðu ríkissjóða einstakra ríkja. Matið segir hversu þung vaxtabyrðin er og mun verða í náinni framtíð. Það gefur líka til kynna hversu líkleg ríkin eru til að standa undir velferðarkerfi og hversu mikið öryggi þau geta búið borgurunum. Það er bjartari framtíð í þeim ríkjum sem hafa fengið gott mat en þeim sem eru í eða við ruslflokk.

Með því að skoða söguna sjáum við líka að Íslendingar geta ekki vænst meira á næstu fimm til tíu árum en að ná svipaðri stöðu og landið hafði á níunda áratugnum; einkunn sem væri nálægt 7,5 eða A hjá Standard & Poors og Fitch og A2 hjá Moody’s. Þetta er staðan sem Slóvakía hefur í dag, en líklega verður Slóvakía komin með betra mat þegar Ísland hefur náð þarna upp. Það er ólíklegt að Ísland komist hærra með sínu ótryggu mynt og þá efnahagslegu veikleika sem afhjúpuðust í Hruninu. Að öllu óbreyttu geta Íslendingar ekki vænst þess að fá sambærilegt lánshæfnismat og næstu nágrannalönd. Til þess eru veikleikarnir í íslensku efnahagslífi of margir of djúpstæðir.

En hefur Ísland ekki sloppið miklu betur út úr Hruninu en evrulöndin?

Svona skiptast einkunnir landanna í eurozone samkvæmt Standard & Poors:

10,0 = AAA: Lúxemborg og Þýskaland
9,5 = AA+: Austurríki, Finnland og Holland
9,0 = AA: Belgía og Frakkland
8,5 = AA-: Eistland
8,0 = A+: Írland
7,5 = A: Slóvakía
7,0 = A-: Lettland, Litháen og Slóvenía
6,5 = BBB+: Malta
6,0 = BBB: Spánn
5,5 = BBB-: Ítalía
4,5 = BB: Portúgal
3,5 = B+: Kýpur
1,0 = CCC-: Grikkland

Meðaleinkunn segir voða lítið; en hún er engu að síður 7,3. Þrjú lönd hafa lakara lánshæfimat en Ísland; Portúgal, Kýpur og Grikkland. Ítalía fær sömu einkunn og Ísland en fimmtán evrulönd hafa betra lánshæfismat en Ísland.

Evrópusambandslöndin sem ekki eru með evrur fá þessar einkunnir hjá Standard & Poors:

10,0 = AAA: Bretland, Danmörk og Svíþjóð
8,5 = AA-: Tékkland
7,0 = A-: Pólland
5,5 = BBB-: Rúmenía
5,0 = BB+: Búlgaría og Ungverjaland
4,5 = BB: Króatía

Þarna eru þrjú lönd með lakari einkunn en Ísland, Rúmenía er með þá sömu og fimm eru með betra lánshæfnismat. Meðaleinkunin er sú sama og í evrulandi eða 7,3.

Ef tökum öll lönd sem Standart & Poors meta þá má skipta þeim í þessa flokka:

Úrvalsflokkur eða AAA: Ástralía, Bretland, Danmörk, Hong Kong, Kanada, Liechtenstein, Lúxemborg, Noregur, Singapúr, Sviss, Svíþjóð og Þýskaland.

Há einkunn eða AA+, AA og AA-: Austurríki, Bandaríkin, Belgía, Chile, Eistland, Finnland, Frakkland, Holland, Japan, Kína, Kúwait, Nýja Sjáland, Qatar, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Saudi-Arabía, Taívan og Tékkland.

Efri meðaleinkunn eða A+, A og A-: Bermúda, Botsvana, Írland, Ísrael, Lettland, Litháen, Malasía, Óman, Pólland, Rúanda, Slóvakía, Slóvenía, Suður-Kórea og Trínidad & Tóbagó.

Lægri meðaleinkunn eða BBB+, BBB og BBB-: Andorra, Arúba, Azrbaijan, Bahamas, Bahrain, Brasilía, Filippseyjar, Indland, ÍSLAND, Ítalía, Kasakstan, Kólumbía, Malta, Marokkó, Mexíkó, Panama, Perú, Rúmenía, Spánn, Suður-Afríka, Taíland og Úruguay.

Áhættuflokkur eða BB+, BB og BB-: Bangladess, Bólivía, Búlgaría, Dóminíska lýðveldið, Georgía, Guatemala, Indónesía, Jórdanía, Kosta Ríka, Króatía, Makedónía, Paraquay, Portúgal, Rússland, Serbía, Súrínam, Tyrkland, Ungverjaland og Víetnam.

Flokkur mikillar áhættu eða B+, B og B-: Albanía, Angóla, Barbados, Belize, Bosnía og Herzegovía, Burkina Faso, Ecuador, Egyptaland, El Salvador, Eþíópía, Fiji-eyjar, Gabon, Ghana, Grænhöfðaeyjar, Hondúras, Hvíta-Rússland, Jamaika, Kamerún, Kenýa, Kongó, Kongó lýðveldið, Kýpur, Líbanon, Mongólía, Mozambique, Nígería, Pakistan, Papúa Nýja Gínea, Senegal, Sri Lanka, Svartfjallaland, Úganda og Zambía.

Ríki í greiðslufalli og með litlar batalíkur eða CCC-, CC, C og D: Argentína, Grikkland, Púertó Ríkó, Úkraína og Venúzúela.

Það eru ellefu Evrópulönd sem eru í flokkum neðar en Ísland: Albanía, Bosnía og Herzegovía, Búlgaría, Grikkland, Hvíta-Rússland, Króatía, Kýpur, Makedónía, Portúgal, Rússland, Serbía, Svartfjallaland, Tyrkland og Ungverjaland.

Í sama flokki og Ísland eru eftirtalin Evrópulönd: Andorra, Ítalía, Malta og Spánn.

Í flokkunum fyrir ofan Ísland eru síðan þessi lönd: Austurríki, Belgía, Bretland, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Holland, Írland, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Noregur, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Sviss, Svíþjóð, Tékkland og Þýskaland.

Af þeim löndum sem eru í flokkunum fyrir neðan Ísland eru tíu af fjórtán ríkjum hluti af hinni föllnu kommúnísku Austur-Evrópu. Sjö fyrrum kommúnistaríki eru hins vegar í flokkunum fyrir ofan Ísland; Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Slóvakía, Slóvenía og Tékkland. Ísland skipar sér því á mörkin á milli skásta þriðjungs fyrrum kommúnistaríkja og miðþriðjungsins.

Af þeim löndum sem eru í flokkunum fyrir neðan Ísland eru fjögur af fjórtán ríki Suður-Evrópu; Grikkland, Kýpur, Portúgal og Tyrkland. Með Íslandi í flokki er fjögur til viðbótar; Andorra, Ítalía, Malta og Spánn. Í flokkunum fyrir ofan Ísland eiga bara Frakkland og Slóvenía land að Miðjarðarhafinu. Ísland væri því nokkuð fyrir ofan miðju í ríkjum Suður-Evrópu.

Af þeim löndum sem eru í flokkunum fyrir neðan Ísland er Portúgal eina Vestur-Evrópulandið og í flokki með Íslandi eru síðan fjögur önnur. En í flokkunum fyrir ofan Ísland eru hins vegar fjórtán lönd Vestur-Evrópu. Ísland er því í neðri fjórðung ríkja Vestur-Evrópu.

Ekkert Norður-Evrópuríki fær lakara lánshæfnismat en Ísland og ekkert jafn slæmt heldur. Ísland er því lakasta land Norður-Evrópu að þessu leyti.

Samkvæmt þessu er Ísland afleitt Norður-Evrópuland, slæmt Vestur-Evrópuland, miðlungs Suður-Evrópuland en ágætt Austur-Evrópuland.

Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is

The post Í hvaða flokki er íslenska ríkið? appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652