Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all 7652 articles
Browse latest View live

Eins og sveskjusteinn í sálinni

$
0
0

Sjóveikur í München er skáldævisaga Hallgríms Helgasonar og lýsir níu mánuðum í lífi hans 22 ára gamals. Þá var hann nemi í Listakademíunni í München, aleinn í heiminum og um það bil að fæðast sem listamaður. Hallgrímur segir það hafa tekið mikið á að skrifa þessa bók en hann geri sér grein fyrir því að án þessarar reynslu í München væri hann ekki sá listamaður sem hann er í dag.

 

Það er grenjandi rigning og Reykjavík eins grá og hún getur orðið þegar við Hallgrímur hittumst á kaffihúsi að morgunlagi. Hann er samt bara á sumarjakka en hatturinn og rauði trefillinn eru á sínum stað og lífga eilítið upp á grámann. Hann hefur áður lýst því í viðtölum hvað Reykjavík hafi verið ömurlegur staður í kringum 1980 og að það hafi verið ein af ástæðum þess að hann þráði að komast í almennilega stórborg. Sú dvöl varð ekki eins og hann hafði séð hana fyrir sér, svo vægt sé til orða tekið, og þótt hin sífelldu uppköst í bókinni séu seinni tíma tilbúningur segist hann hafa verið hálfveikur allan þennan vetur í München. En hvað kom til að hann ákvað að bregða út af vana sínum og gera eigið líf að viðfangsefni í sögu?

Ég kom aftur til München haustið 2011 til að kynna Konuna við 1000° sem gekk vel í Þýskalandi. Það var uppselt á upplesturinn í Literaturhaus, viðtal við mig í Süddeutsche, allt í einu var ég orðinn sökksess í borg sem fyrir mig þýddi bara sársauka og þar sem ég hafði átt erfiðasta vetur lífs míns. Þetta var mjög einkennileg blanda af tilfinningum og um kvöldið, uppá hótelherbergi, rann upp fyrir mér að ég var í raun bara hreinlega veikur þennan vetur þarna um árið og nokkrum mínútum síðar fékk ég hugmyndina að þessum uppköstum, svörtu ælunum. Þar með var komin aðferð til að segja þessa sögu, allt í einu gat þessi vetur orðið að skáldsögu, þannig gat ég lyft þessu upp úr því að verða hrein ævisaga. Endurminningasögur geta verið ansi flatar og maður þarf að finna einhverja nýja leið til að gera þær áhugaverðar.“

23441 Hallgrimur Helga 11063

Sjóveikur í München er flokkuð sem skáldævisaga en Hallgrímur segir þó flest sem í henni stendur vera sannleikanum samkvæmt. „Þetta er skáldævisaga, já, þótt megnið af þessu sé alls ekki skáldað. Hlutir eru færðir til og sumir ýktir smávegis, en það eina sem er hreinn skáldskapur eru uppköstin, já, og líka ein settleg sena bakvið gardínu…“

Hvað var svona hræðilegt við þennan vetur? „Það er bara svo vont að vera ungur. En það er nú samt sjúkdómur sem læknast með tímanum, hér er ég samt að lýsa sjúkdómseinkennunum. Óöryggið, feimnin, óvissan, einmanaleikinn. Unglingabólur og almennt volæði. Að vera aleinn í heiminum, bögglast og burðast með sjálfan sig og vita ekkert hver maður er. Í raun eru ælurnar eins og morgunógleði, það má segja að bókin sé lýsing á níu mánaða meðgöngu og síðan fæðist eitthvað að vori…“

Reykjavík líktist kommúnistaríki

Þrátt fyrir að þó nokkrir íslenskir stúdentar væru við nám í München á sama tíma og Hallgrímur segist hann ekki hafa passað inn í þann hóp og hvergi fundið sig í borginni. „Ég passaði bara ekkert inn í München. Á þessum tíma var ég ekki hrifinn af neinu af því sem borgin stendur fyrir, sem sé óperum, heimspeki og bjórdrykkju. Með tímanum hef ég nú lært að meta tvennt af þessu, en geymi heimspekina þar til síðar. Og Íslendingarnir voru þarna ansi heimaríkir og hrokafullir. Nema náttúrulega Ásgeir Sigurvinsson sem var þarna á mála hjá Bayern og kemur aðeins við sögu. Íslenskt námsmannasamfélag í erlendri stórborg getur stundum verið enn andþrengra en hin mestu krummaskuð. En ég var semsagt mjög óviljugur að vera þarna, vildi fara til Berlínar, en listaakademían í München var eini skólinn sem var opinn þegar mér datt í hug að sækja um. Ég var sannfærður um að ég fengi ekki dvalarleyfi í Þýskalandi nema vera í skóla og þannig endaði ég í München.“

Hallgrímur var 22 ára gamall þegar hann hleypti heimdraganum og þrátt fyrir að hafa sumrin áður stundað brúarvinnu vestur á fjörðum og nokkrum sinnum farið í styttri ferðir til útlanda var þetta í fyrsta sinn sem hann fór að heiman til lengri dvalar. „Maður var ansi grænn og blautur á bak við eyrun. Á þeim tíma var miklu meiri munur á Reykjavík og erlendum stórborgum og viðbrigðin meiri þegar út var komið. Í Reykjavík voru þá engir pöbbar, aðeins tveir restaurantar, eitt kaffihús og einn skemmtistaður sem var opinn tvö kvöld í viku, og fyrir framan hann var því alltaf klukkutíma biðröð. Bjórinn var enda bannaður og eina leyfilega útvarpsstöðin lék eingöngu fúgur og serenöður allan daginn. Stemmningin var ansi þung og grá, soldið eins og í ströngu kommúnistaríki. Ofan á þetta bættist svo kaldastríðsmórallinn sem ekki leyfði neina liti, allt var svart eða hvítt, með eða á móti. Samt var nú alltaf gaman á Borginni, þegar maður komst inn.“

Aðalpersóna bókarinnar heitir Ungur Maður og hann er ekki bara á skjön við München heldur eiginlega á skjön við lífið og sjálfan sig. Varstu alltaf þannig? „Nei, ætli ég hafi ekki verið meira normal í menntaskóla. Ég hafði átt góða æsku og það var engin byrði á herðum mér. En undir lok menntaskólans fór að gerjast í manni hvað maður ætlaði að gera í lífinu og þá fóru þessar hræringar í gang. Það datt í mig að skrifa smávegis og svo var myndlistin alltaf að knýja á og þetta fór allt saman að bögglast fyrir manni. Lífið varð allt flóknara og þyngra. Þá kom þessi þörf til að einangra sig frá öllu, fara út í einhverja stórborg og vera þar aleinn, helst ekki tala við nokkurn mann. Það var draumurinn: Að losna við fjölskylduna, vinina, landið, tungumálið, skólana, öll þessi lífsins fög og forskriftir. Losna bara undan öllum höftum og vera frjáls maður. Ætli þetta hafi ekki verið svipað og gamli skáldadraumurinn um klausturvistina, og í raun langar Ungan Mann mest til að láta loka sig inní fangelsi. Einvera er undirstaða allrar sköpunar. Frelsisdrauminn upplifir Ungur fyrstu tvær vikurnar í München en svo byrjar skólinn, Íslendingarnir mæta á svæðið og hann sogast aftur inn í þessar klassísku viðjar.“

23441 Hallgrimur Helgason

Enn einn kallinn með endurminningar

Þegar þú talar um bókina þá segirðu alltaf að þetta sé lýsing á meðgöngu, getur þú sem femínisti notað þá líkingu? Veistu eitthvað hvernig það er að ganga með barn? „Nei, en mér fannst það ágætis leið til að lýsa þessu, en það er best ég hætti því. Svona gamlir femínistar eins og ég þurfa sífellt að vera í endurmenntun og nú er að skrá sig á nýtt námskeið. Ég hafði einmitt smá áhyggjur af því hvað það eru margir karlmenn að skrifa endurminningar sínar núna og hvað þetta er orðin vel mönnuð bókmenntagrein, til dæmis eru tvær eða þrjár bækur á þessari vertíð endurminningabækur miðaldra karla eins og ég er orðinn. En auðvitað heldur fólk áfram að skrifa æviminningar og hver maður á víst bara eina ævi, og hjá sumum er hún karlkyns. En ég varð samt að finna mína leið, reyndi að gera þetta aðeins öðruvísi.“

Listamaðurinn sem þú gekkst með í þessa níu mánuði var ekki rithöfundurinn heldur myndlistarmaðurinn, eða hvað? „Ja, nú er að lesa bókina… Að vera ófæddur listamaður er dálítið eins og að vera inni í skápnum en vita samt ekkert hvað samkynhneigð er. Maður gat ekki útskýrt þetta fyrir neinum, en var að bögglast með þetta einn og það var ekki svo létt.“

Sambúð var frelsisskerðing andskotans

Þú varst alltaf alveg einn, áttir aldrei neinar kærustur og leitaðir ekki einu sinni eftir því. Varstu hræddur við sambönd? „Já. Þegar maður er í svona erfiðu sambandi við sjálfan sig þá er ekkert pláss fyrir þriðju manneskjuna. Það var líka ákveðinn ótti í mér við að binda mig og algjört tabú í mínum augum að fara í sambúð. Það var frelsisskerðing andskotans að fara að búa með konu sem gæti svo orðið ólétt og þá væri lífið bara búið! Ég var mjög hræddur við það.“
Hvaðan hafðirðu þessa fyrirmynd af hinu frjálsa listamannalífi? „Ég var eingyðistrúar og dýrkaði Marcel Duchamp, skrifa mikið um það í bókinni. Þessi franski myndlistamaður sem bjó mest í New York var stóra fyrirmyndin mín, ég lagðist í djúpar stúderingar á honum og bókin fjallar líka um þær. Hann var leiðtogi lífs míns. Svona framan af. Svo fékk ég nóg af honum, list hans er auðvitað mjög vitræn. Ungt fólk tekur gjarnan svona trú á eitthvað, hvort sem það er kommúnismi, anarkismi, dauðarokk eða í þessu tilfelli dadaískur konsept-snillingur með stærðfræðigáfu, og trúir á það eingöngu. Æskan er alltaf soldið fasísk hvað þetta varðar, þarf haldreipi í óreiðukennt líf sitt. En svo kemur að því að maður þroskast, vex upp úr þessu og leggur æskugoðið til hliðar, hættir vera einfaldur aðdáandi og fer að gera sína eigin hluti.“
Þú passaðir ekki inn í þær kreðsur sem þú varst í þarna í München, fílaðir ekki borgina, fannst þig ekki í náminu, hvers vegna fórstu ekki bara eitthvert annað? „Það er góð spurning, en mér bara datt það ekki í hug. Ég er svo skyldurækinn sérðu, var búinn að komast inn í skólann og leigja mér herbergi og það hvarflaði aldrei að mér að gefast upp. Ég hélt þetta út fram á vorið 1982 og þá bara fór ég heim og hóf minn feril upp á eigin spýtur, fór að mála og sýna.”

Óttast viðbrögð barnanna

„The rest is history“ eins og sagt er. Hallgrímur hélt sína fyrstu einkasýningu 1984, flutti til New York og síðan Parísar, var með goðsagnakennda pistla á Rás 2, gaf út sína fyrstu bók árið 1990 og er löngu orðinn einn virtasti rithöfundur og myndlistamaður þjóðarinnar. Var erfitt að takast á við þennan unga týnda mann frá 1981? „Já, það var soldið erfitt, en létt líka, því það er að mörgu leyti auðveldara að skrifa um hluti sem maður hefur sjálfur upplifað, í stað þess að þurfa að skálda allt út í loftið. Erfiðleikarnir sneru þá mest að því hverju bar að sleppa og síðan hinu: Að horfast aftur í augu við þá hluti sem gerðust. Um suma kafla fékk ég þau komment frá yfirlesurum að þeir væru ekki nógu sannfærandi, þá hafði ég ekki þorað að fara alla leið inn í gamlan sársauka. Það var einkum í kafla sem lýsir nauðgun, en það er nú eitt af því sem gerist á lífsleiðinni að manni er nauðgað af ókunnugum manni í erlendri borg. Þetta kom fyrir mig þennan vetur og á endanum varð ég að lýsa því bara í bókinni eins og það gerðist. En ég hafði læst þetta svo djúpt í lífsins skáp að skúffan var nánast ryðguð föst. Sumt í bókinni þurfti ég að ýkja, en þarna þurfti ég að ýkja sjálfan mig til að geta skrifað frekar óýktan kafla. Þetta var orðið eins og sveskjusteinn í sálinni sem var orðinn svo glerharður að ég þurfti virkilega að taka öllu mínu til að ná að leysa hann upp svo hann gæti gengið niður af mér. En allan tímann reyndi ég að skrifa bókina út frá manninum sem ég var 1981, og bætti engum aukahugsunum við frá mér núna, ég kem ekki með neina eftiráspeki, þá hefði bókin líka orðið þúsund síður, sem er kannski full mikið fyrir einn vetur í lífi manns.“

Svo eignaðistu konu og börn og allan pakkann, skemmdi það fyrir listamanninum? „Nei, þá var ég tilbúinn til þess, enda orðinn 44 ára gamall og orðinn hundleiður á barlífi. Ég eignaðist dóttur 1984 en var aldrei uppalandi hennar, hún bjó á Höfn á Hornafirði en ég í útlöndum, þannig að sambandið var stopult. Svo eignaðist ég tvö börn, 2003 og 2005, og fór að lifa þessu venjulega fjölskyldulífi, hef verið að því síðan. Sæll og glaður íbúi Skutlheimsins. Ég hef þó enn þörf fyrir einveru og fer þá einn út á land til að skrifa, kannski í mánuð í senn, en þá rekur maður sig á ansi skemmtilegan hlut: Maður saknar fjölskyldunnar! Að auki er ég svo kominn með hund og snjallsíma sem báðum þarf mikið að sinna, þannig að nú er kominn tími á bókartitilinn “Maðurinn er aldrei einn”.“

Finnst þér þú vera að opinbera sjálfan þig í sjóveikur í München, er þetta einhver hlið á þér sem fólk hefur ekki fengið að sjá? „Já, ég hef allavega aldrei skrifað um eigin ævi áður, svo þetta er nýtt fyrir mér og vonandi fleirum, og líka erfitt á annan hátt en áður, sem og fyrir aðra kannski. Ég reyni allavega að lýsa sjálfum mér eins og ég var og ekki fela neitt, því annað eru jú bara vörusvik í ævisagnabransanum. Það nennir enginn að lesa slíkt. Ég lét nú mína fjölskyldu lesa bókina yfir til öryggis, en ég held að þau hafi ekkert að óttast, enda er þetta ekkert ákæruskjal gegn hörmulegri barnæsku. Vona svo bara að gamlir vinir tjúllist ekki. Ég hef kannski dálitlar áhyggjur af því hvernig yngri börnin taki því ef þau heyra af erfiðum köflum í bókinni, í hverju pabbi þeirra lenti, eða stelist til að lesa þá of fljótt. En ég þarf bara að tala við þau og útskýra þetta varlega fyrir þeim.“

Hvað heldurðu að hefði gerst ef þú hefðir ekki farið til München þarna 1981? „Þá væri ég allt öðruvísi listamaður. Hefði aldrei komist í samband við sjálfan mig og væri enn að berjast um í galleríunum á Coste del Sol með splassí upphleyptar skopmyndir sem væru eins og óáfeng blanda af Halldóri sáluga Péturssyni og Jackson Pollock. Væri svo örugglega hjá heyrnardaufum spænskum sálfræðingi að gráta það líf sem ég hefði getað eignast.“

The post Eins og sveskjusteinn í sálinni appeared first on Fréttatíminn.


Guðbjart­ur Hann­es­son látinn

$
0
0

Guðbjart­ur Hann­es­son, alþing­ismaður og fyrr­ver­andi ráðherra, er látinn 65 ára að aldri eftir baráttu við krabbamein.

Guðbjart­ur var fædd­ur á Akra­nesi 3. júní árið 1950. Hann var menntaður kennari og stundaði framhaldsnám í skólastjórn við Kennaraháskóla Íslands. Hann lauk meistaraprófi frá kennaraháskóla Lundúna.

Guðbjartur var kennari og skólastjóri á Akranesi um árabil. Hann vann að sveitastjórnarmálum í heimabænum og var kjörinn á Alþingi fyrir Samfylkinguna 2007. Hann var fé­lags- og trygg­inga­málaráðherra og heil­brigðisráðherra 2. sept­em­ber 2010 til 31. des­em­ber 2010 og vel­ferðarráðherra frá 2011-2013.

Eft­ir­lif­andi maki Guðbjarts er Sigrún Ásmunds­dótt­ir yf­iriðjuþjálfi. Dæt­ur þeirra eru Birna fædd 1978 og Hanna María fædd 1988.

The post Guðbjart­ur Hann­es­son látinn appeared first on Fréttatíminn.

Hringbraut eða „besti staður“

$
0
0

Blaðaauglýsingar Samtaka um Betri spítala á betri stað hafa vakið athygli að undanförnu en þar segja nafngreindir einstaklingar, sem jafnframt kosta auglýsingarnar, að sterk rök bendi til þess að ódýrara, fljótlegra og betra verði að byggja nýjan Landspítala frá grunni á besta mögulega stað, fremur en byggja við og endurnýja gamla spítalann við Hringbraut. Skorað er á alþingi og ríkisstjórn að láta gera nýtt staðarval með opnum og faglegum hætti.

Í hópi þeirra sem senda áskorunina eru margir heilbrigðisstarfsmenn en meðal þess sem þeir telja að skoða þurfi er stofnkostnaður og rekstrarkostnaður „bútasaumaðs“ spítala annars vegar og nýs spítala á „betri stað“ hins vegar, áhrif hækkandi lóðaverðs í miðbænum, umferðarþungi og nauðsynleg umferðarmannvirki, byggingartími, ferðatími og ferðakostnaður notenda spítalans eftir staðsetningum og hversu aðgengilegir bráðaflutningar eru með sjúkrabílum og þyrlum.

Fyrir liggur þingsályktun frá því í fyrra þar sem Alþingi fól ríkisstjórninni að byggja upp spítalann við Hringbraut og eftir þeirri ályktun vinnur heilbrigðisráðherra. Ráðherrann fól fyrr á árinu Nýjum Landspítala ehf. að hefjast handa við undirbúninginn. Áskorendahópurinn sem vill mat á staðarvalinu bendir hins vegar á að margt vinnist með því að byggður verði nýr spítali á „besta mögulega“ stað. Það sé fjárhagslega hagkvæmt því selja megi núverandi eignir sem losna, þörf fyrir umferðarmannvirki verði minni og árlegur kostnaður lægri. Þá verði fljótlegra að byggja á nýju svæði. Góðir stækkunarmöguleikar séu enn fremur gríðarlega verðmætir þar sem notendum spítalans muni stórfjölga á næstu áratugum og fyrirséð að spítalinn þurfi að stækka mikið. Þó búið sé að eyða 3-4 milljörðum króna í undirbúning fyrir spítala við Hringbraut margborgi sig að byggja nýjan spítala frá grunni á besta mögulega stað og hluti undirbúningsins nýtist þar. Þeir sem vilja spítalann burt frá Hringbraut benda á að hagkvæmast sé að byggja nýjan spítala frá grunni, nálægt búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins og nálægt stórum umferðaræðum. Svæðið kringum Vífilsstaði hefur verið nefnt í því sambandi.

Þótt fyrir liggi þingsályktun um byggingu nýs spítala við Hringbraut hefur komið fram hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra að til lengri tíma litið væri skynsamlegt að byggja nýjan spítala annars staðar en þar. Nýta mætti söluandvirði húsnæðis Landspítalans við Hringbraut til að reisa nýjan spítala. Mat forsætisráðherra var að fá mætti meira en 21 milljarð króna fyrir húsin.
Um staðsetninguna eru, og hafa lengi verið, skiptar skoðanir, hvort heldur er hjá almenningi eða sérfræðingum. Fram hefur komið hjá Ásdísi Hlökk Theódórsdóttur, forstjóra Skipulagsstofnunar, að staðsetning spítalans við Hringbraut falli best að aðalskipulagi Reykjavíkur og markmiðum þess um þéttingu byggðar, auk nálægðar við háskólana tvo.

Bygging nýs spítala hefur lengi verið í umræðunni enda endurnýjunar þörf. Starfsemi Landspítalans er á nærri tuttugu stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Það er óhagkvæmt rekstrarlega og óhagræði bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk. Athyglisverð er hins vegar niðurstaða könnunar meðal 800 íslenskra lækna um staðsetningu nýs Landspítala, sem Ríkisútvarpið greindi frá í mars síðastliðnum. Þar kom fram að innan við 20% þeirra eru sáttir við að nýr spítali verði byggður á lóð þess gamla við Hringbraut. Hins vegar vilja 44% sérfræðilækna nýja spítalann ekki á þeim stað. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, vek að þessum niðurstöðum í pistli og sagði það vera mikið umhugsunarefni að svo lítill stuðningur væri meðal lækna við staðsetningu nýs spítala við Hringbraut. Jafnframt er augljóst, sagði hann, að við Vífilsstaði er miklu meira svigrúm til uppbyggingar spítala til lengri framtíðar. Þar vitnaði hann meðal annars í Hróðmar Helgason, sérfræðing í hjartaskurðlækningum barna, sem sagði staðsetninguna við Hringbraut í besta falli vafasama og benti á Vífilsstaði.

„Sennilega er tímabært,“ sagði Styrmir í mars síðastliðnum, „að ítarlegri umræður fari fram um staðsetningu spítalans en fram hafa farið til þessa.“

Undir það skal tekið.

The post Hringbraut eða „besti staður“ appeared first on Fréttatíminn.

Það kom aldrei til greina að hætta

$
0
0

Verkfræðingurinn Geir Ómarsson er nýkominn frá Hawaii þar sem hann keppti einni stærstu aflþraut heims, svokölluðum járnkarli. Geir var á meðal 2400 keppanda í járnkarlinum og vann sér þátttökurétt sjö vikum fyrir keppni. Hann segir hugarfarið hafa farið með sig alla leið, en viðurkennir að þreytan hafi sagt til sín á lokametrunum. Hann kláraði keppnina á rétt rúmum tíu klukkustundum og var á meðal þeirra 600 efstu. Rúmlega 2000 manns kláruðu keppnina svo árangurinn var nokkuð góður hjá fertugum verkfræðingi. Meðal þeirra sem kláruðu ekki var kokkurinn góðkunni Gordon Ramsay.

„Ég var alltaf í handbolta og fótbolta í gamla daga og síðan hef ég nú alltaf verið að skokka, svona öðru hvoru,“ segir Geir Ómarsson, fertugur verkfræðingur sem keppti á dögunum í stærstu Ironman keppni heims, á Hawaii, eða svokölluðum járnkarli. „Ég hafði öðru hvoru farið í maraþon, eins og gengur. Svo fyrir fimm árum þá plataði vinur minn mig til þess að fara í hálfan járnkarl hérna heima,“ segir hann. „Eftir það setti ég það á fimm til tíu ára planið að taka heilan. Þessi vinur minn er samt löngu hættur, en hann er að byrja aftur,“ segir Geir.

23423-1

Mikill hiti á Hawaii

Þríþrautin getur verið allskonar vegalengdir, en járnkarlinn er stærsta keppnin þar sem lengstu vegalengdirnar eru farnar í hverri þraut. Geir tók þátt í Ironman í Kaupmannahöfn í lok ágúst og vann sér þátttökuréttinn til þess að keppa á mótinu sem haldið var í Kona á Hawaii. „Þetta er allt tekið í einni beit, með skiptingum á milli greina,“ segir hann. „Þeir hröðustu eru rúma 8 tíma að þessu og þeir síðustu fá 17 tíma til þess að klára. Ég var tíu tíma og tuttugu og fimm mínútur,“ segir Geir. „Ég hafði vonast til þess að fara hraðar. Ég var í rauninni ennþá þreyttur eftir keppnina í Kaupmannahöfn. Þeir sem eru að þessu að atvinnu keppa í mesta lagi þrisvar á ári, en keppnin í Danmörku var bara sjö vikum áður, sem er of stutt,“ segir hann.
„Það var samt síðasti sénsinn til þess að vinna sér inn rétt til þess að keppa á Hawaii. Það er þokkalegt að ná þessu á þessum tíma hafandi bara keppt einu sinni áður,“ segir Geir með semingi og það er greinilegt keppnisskap í honum. „Ég var betri í Kaupmannahöfn, en það eru allir þeir bestu að keppa á Hawaii og aðstæður erfiðari. Það var rúmlega 30 gráðu hiti, sem er óvenju heitt, og rakt. Ég hafði undirbúið mig undir það með því að hjóla inni í hita, og í meiri fötum en ég er vanur. Svo var ég töluvert í gufu, en ég held að við litlu mennirnir þolum hita betur en margir aðrir. Margir kvörtuðu yfir hitanum en hann var ekki að trufla mig mikið,“ segir Geir. „Gordon Ramsey var á meðal keppanda, en hann náði ekki að klára,“ segir hann með glotti.

„Auðvitað þarf maður að næra sig á þessum langa tíma og ég tók inn svokallað gel sem inniheldur öll helstu næringarefnin, en maður vill síður vera að stoppa til þess að fara á klósettið og slíkt. Maður þarf bara að gera sitt á hjólinu,“

20 tímar á viku í æfingar

„Það eru töluvert miklar æfingar fyrir svona langa keppni en ég tók þetta á löngum tíma,“ segir Geir. „Lengstu vikurnar var ég að æfa um það bil 20 tíma á viku og meira en helminginn á hjólinu. Annars voru þetta svona 12-20 tímar á viku. Maður verður að taka hvíldir inn á milli því það er auðvelt að ofþjálfa sig í þessum aðstæðum. Margir halda að þríþraut sé bara þessar löngu vegalengdir, en það eru margar útgáfur af þessu,“ segir Geir.
„Það er mjög gaman að taka þátt í mörgum af þessum keppnum og þetta er grein sem margir geta tekið þátt í. Þeir sem hafa verið að hlaupa í maraþoninu eða verið að hjóla eins og er vinsælt, geta fundið keppni sem henta þeim. Við sem erum í þessari hreyfingu hér heima erum alltaf að hvetja fólk til þess að koma og prófa stutta keppni,“ segir hann. „Þetta snýst ekki bara um járnkarlinn, heldur bara um góða hreyfingu. Það er auðvelt að stýra því hvað maður gerir mikið í hverri keppni.“

 „Þetta er dellusport eins og annað og það er auðvelt að missa sig í því að kaupa dýrustu og flottustu hjólin og hjálmana. Það er samt ekkert mál að keppa í þríþraut á fjallahjólinu sínu og synda bara í venjulegri sundskýlu. Það geta allir tekið þátt.“

Gerði þarfirnar á hjólinu

Geir segir að fyrir utan það að vera í góðu formi þá skipti hugarfarið gríðarlega miklu máli þegar kemur að því að taka þátt í keppni eins og járnkarlinum. „Ég var ágætlega undirbúinn,“ segir hann. „Ég kom vel undirbúinn frá Danmörku og vissi að ég mundi alltaf klára þetta. Ég dó samt svolítið hlaupinu og það hægðist á mér jafnt og þétt. Ég hugsaði samt aldrei um að stoppa nema til þess að fá mér að drekka og henda á mig klökum til þess að kæla mig. Það kom aldrei hugsunin að hætta. Svona keppni snýst 90% um hausinn á manni. Ég vildi samt helst ekki gefast upp, kominn alla þessa leið með fjölskylduna með mér,“ segir Geir en eiginkona hans, Hrefna Thoroddsen, var með í för ásamt dætrum þeirra tveimur.
„Það var ómetanlegt að hafa þær með, og gaman að geta gert ferð úr þessu. Ekki á hverjum degi sem maður fer á þessar slóðir. Algert ævintýri fyrir stelpurnar og okkur.
Ég er sterkastur í hlaupinu, þó það hafi ekki gengið sem best hjá mér á Hawaii. Ég hef alltaf verið góður að hlaupa síðan maður var í útihlaupunum með ÍK í Kópavoginum í gamla daga,“ segir hann. „Auðvitað þarf maður að næra sig á þessum langa tíma og ég tók inn svokallað gel sem inniheldur öll helstu næringarefnin, en maður vill síður vera að stoppa til þess að fara á klósettið og slíkt. Maður þarf bara að gera sitt á hjólinu,“ segir Geir og hlær. „Maður þarf samt að æfa það og það er erfitt,“ segir hann.
„Þetta er dellusport eins og annað og það er auðvelt að missa sig í því að kaupa dýrustu og flottustu hjólin og hjálmana. Það er samt ekkert mál að keppa í þríþraut á fjallahjólinu sínu og synda bara í venjulegri sundskýlu. Það geta allir tekið þátt,“ segir hann. „Þríþraut hefur verið vinsæl hjá miðaldra skrifstofufólki sem þarf á meiri hreyfingu að halda en yngra fólki er að fjölga í greininni sem er jákvæð þróun.“

23423-4

Alltaf fleiri að taka þátt

Geir var ekki eini Íslendingurinn sem keppti en ásamt honum keppti Þurý Guðmundsdóttir í járnkarlinum á Hawaii. „Hún býr í Bandaríkjunum og var að keppa í annað sinn,“ segir Geir. „Það var mjög gott að hafa hana innan handar til þess að segja manni ýmislegt um þetta,“ segir hann. „Við tókum æfingar saman og undirbjuggum okkur fyrir þetta. Planið mitt eftir þetta er að keppa hérna heima á næsta ári, sem mér finnst hrikalega gaman. Það er metnaður hjá þríþrautarfélögunum að fá hingað erlenda keppendur til að keppa. Þetta er viðurkennd grein innan ÍSÍ og það er uppgangur í þessu og með því að fá gott fólk úr sundinu og öðrum greinum til þess að prófa þá er hægt að ná langt í þessu. Ég fékk gríðarlegan stuðning frá sundfélaginu Ægi, sem ég æfi hjá, og vinnustaðnum mínum, Odda, þar sem ég var hvattur vel áfram,“ segir Geir Ómarsson þríþrautarkappi.

The post Það kom aldrei til greina að hætta appeared first on Fréttatíminn.

Er oft misskilin

$
0
0

Uppistandshátíðin Reykjavík Comedy Festival fer fram um helgina í Hörpu, Háskólabíói og í Þjóðleikhúskjallaranum. Margir uppistandarar, innlendir sem erlendir, koma fram á hátíðinni sem haldin er í annað sinn. Á laugardaginn, klukkan 22.30, koma fram þeir Ben Kronberg og Dagfinn Lyngbo og mun Þórdís Nadia Semichat hita upp fyrir þá. Þórdís Nadia hefur verið mjög iðinn við uppistand að undanförnu og hlakkar mikið til kvöldsins.
„Ég er mjög spennt,“ segir hún. „Ég byrjaði í uppistandi árið 2010 og var í því í svona 2 ár og hætti í einhver þrjú ár og byrjaði svo aftur í byrjun þess árs,“ segir Nadia. „Ég hætti því ég var að byrja á sviðshöfundabrautinni í Listaháskólanum og fannst ég þurfa að taka mig alvarlega sem listamann. Svo eftir útskrift þá fattaði ég að þetta væri listform sem hentaði mér mjög vel,“ segir hún. „Ég tala um rasisma og fordóma í mínu uppistandi. Bæði mína eigin og annarra. Steríótýpur og hvað ég get verið misskilinn manneskja. Fólk bæði misskilur mig og ég misskil aðstæður líka oft,“ segir hún.
„Ég hlakka mikið til að hita upp fyrir Ben Kronberg, sem er í uppáhaldi hjá mér, og líka Dylan Moran sem er líka í uppáhaldi hjá mér. Ég ætla að reyna að sjá allt og kannski kemur einhver nýr sem maður hefur aldrei heyrt í áður. Dagskráin er mjög fjölbreytt,“ segir Nadia sem hefur verið iðinn við uppistandið og nóg er fram undan hjá henni. „Við höfum nokkur verið með mánaðarlegt uppistand á Húrra að undanförnu sem við höldum áfram, og svo er ég líka skemmta fyrir hina og þessa,“ segir Þórdís Nadia Semichat uppistandari.

The post Er oft misskilin appeared first on Fréttatíminn.

Arnaldur til Random House

$
0
0

Íslenskir útgefendur eru nokkuð kátir með árangur af ferð sinni á bókamessuna í Frankfurt um síðustu helgi, enda hefur eftirspurn eftir íslenskum bókum aukist gríðarlega og öll samningagerð við erlenda útgefendur auðveldari en áður.
Hver útgáfusamningurinn af öðrum var undirritaður og meðal annars var væntanleg bók Arnaldar Indriðasonar, Þýska húsið, seld risaútgefandanum Random House í Bretlandi. Auk nýju bókarinnar, sem kemur út 1. nóvember að vanda, var gengið frá fimm öðrum samningum um bækur Arnaldar.
Heimska, ný skáldsaga Eiríks Arnar Norðdahl, var seld til Svíþjóðar og Frakklands en síðasta bók hans, Illska, hefur átt mikilli velgengni að fagna í Frakklandi undanfarin misseri. Þá var gengið frá útgáfu á Drápu Gerðar Kristnýjar í Noregi, Svíþjóð og Bretlandi.

 

The post Arnaldur til Random House appeared first on Fréttatíminn.

Það eru engin typpi í mínum bókum

$
0
0

Þórdís Gísladóttir á tvær bækur í flóðinu þetta haustið, ljóðabókina Tilfinningarök og barnabókina Randalín og Mundi og afturgöngurnar. Hún er auk þess mikilvirkur þýðandi og langt komin með raunsæja unglingabók.

 

„Ætlarðu að spyrja mig um typpi,“ spyr Þórdís Gísladóttir þegar hún heyrir að það er blaðamaður á línunni. „Það eru typpi í bókum, Bubba, Jóns Gnarr og Hallgríms, það er það eina sem ég veit um það mál. Það eru engin typpi í mínum bókum, eða jú, það eru reyndar munnmök í Tilfinningarökum svo það er dálítið óljóst. Og ekki minnst einu orði á typpi í Randalín og Munda.“

Byrjaði sem sálmur

Með þessari opnun er Þórdís eiginlega búin að rústa byrjunarlínunni minni sem átti að snúast um það að mér fyndist ekki eins mikil kaldhæðni í Tilfinningarökum og í fyrri ljóðabókum hennar, en ég læt hana samt vaða. „Veistu, ég held það sé bara rétt hjá þér,“ segir Þórdís. „Ég skrifaði þessa bók eiginlega í einum rykk síðastliðinn vetur og ástæðan fyrir því að ég byrjaði var að ég var beðin að semja sálm fyrir Dómkirkjuna, sem síðan var frumfluttur á Menningarnótt. Ég hafði aldrei skrifað sálm og svo sem ekki velt þeim sérstaklega fyrir mér, þótt ég hafi lengi verið í kór og sungið mjög mikið af sálmum. Ég settist niður og fór að velta þessu fyrir mér og fékk ýmsar hugmyndir, meðal annars þó nokkrar sem ég vissi að ég gæti ekki notað í sálmi og þá urðu þessi ljóð til.“

Fjórtán ára og langar að vera á föstu

Þórdís segist hafa haft það bak við eyrað í töluverðan tíma að skrifa söguljóð með samhangandi sögu og látið reyna á það við skriftir þessara ljóða til að sjá hvort hún gæti það og hvernig það kæmi út. Spurð hvort það merki að hún sé á leiðinni yfir í prósa, hummar hún dálítið og vill lítið gefa upp. „Ég veit það bara ekki, það getur alveg verið,“ segir hún. „Ljóðin mín eru nú flest smáprósar svo það er ekki stórt stökk. Reyndar erum við Hildur Knútsdóttir langt komnar með raunsæja unglingabók þar sem aðalpersónurnar eru strákar og hún verður vonandi það næsta sem kemur út.“
Spurð hvort raunsæ unglingabók þýði einhvers konar áframhald á Fimmtán ára á föstu og Sextán ára í sambúð hlær Þórdís og segir að þetta sé frekar Fjórtán ára sem langar að vera á föstu.

Ekkert yfirskilvitlegt

Talandi um unglinga er stutt skref yfir í barnabækurnar en þriðja bók Þórdísar um Randalín og Munda er væntanleg hvað úr hverju. Henni hefur verið legið á hálsi fyrir að láta aðalpersónurnar framkvæma ýmsa hluti sem börn eigi ekkert að gera, eru þau skötuhjúin enn við það heygarðshornið í nýju bókinni? „Ég fékk nú ekki beint skammir, en það svelgdist sumum dálítið á við lestur fyrri bókanna, jú,“ viðurkennir hún. „Þetta eru uppátækjasamir krakkar, en þau gera ekkert af sér í þessari bók sem ekki er leiðrétt fljótlega.“ Spurð hvort afturgöngurnar í titlinum þýði að hún sé farin að skrifa um yfirskilvitlega heima harðneitar hún því. „Það er kannski leiðinlegt að ljóstra því upp, en annars vegar telja þau sig sjá afturgöngur og hins vegar fá þau hlutverk í bíómynd þar sem þau leika afturgöngur, þaðan kemur nú þessi titill.“

Nauðsynlegt að þýða

Auk þess að senda frá sér tvær frumsamdar bækur í haust er Þórdís afkastamikill þýðandi sem síðast þýddi Skuggadreng eftir Carl-Johan Vallgren sem kom út í vor, er hún með nýja þýðingu í tölvunni? „Nei, ég er í smápásu núna meðan vertíðin er að ganga yfir, en ég fer sjálfsagt eitthvað að þýða fljótlega. Mér finnst það eiginlega alveg nauðsynlegt. Ég náttúrulega byrjaði sem þýðandi og mér finnst einhvern veginn að ég þurfi að þýða til að fara í saumana á textum, pæla virkilega í tungumálinu og hvernig orðin raðast saman. Það hjálpar mér í mínum skrifum.“
Þórdís er ein þeirra ljóðskálda sem lesa upp í Ljóðapartíi á Gauknum í kvöld, föstudagskvöld 23. október, og hún segist finna fyrir miklum áhuga á ljóðum í samfélaginu. „Já, ég held það að áhugi á ljóðum sé að aukast. Ég fæ stundum símtöl og pósta frá menntaskólanemum og mömmum menntaskólanema sem segja mér að þeim hafi alltaf þótt ljóð leiðinleg en svo lesið bækurnar mínar og skipt um skoðun. Það er nú varla hægt að fá meira hrós en það.“

 

The post Það eru engin typpi í mínum bókum appeared first on Fréttatíminn.

Vetrarfrí eða vetrarvandræði?

$
0
0

Vetrarfrí og starfsdagar kennara valda mörgum foreldrum og atvinnurekendum hugarangri. Vetrarfrí grunnskólanna hefur nú fengið 13 ára reynslutíma og talsmaður borgarinnar segir foreldra almennt vera ánægða með fyrirkomulagið. Samtök atvinnulífsins taka í sama streng og telja atvinnulífið hafa aðlagast breyttum orlofsdögum. Það sama gildi þó ekki um starfsdaga kennara sem séu alltaf jafn „óþolandi“. 

„Þetta er alltaf púsl. Fjölskyldan er ekki saman. Redda pössun eða taka krakka með í vinnuna. Það er svona stemningin,“ segir eitt þeirra foreldra sem Fréttatíminn ræddi við um vetrarfrí og starfsdaga kennara. Langflestir viðmælendur tóku í sama streng þó sumir hafi lært af reynslunni og eyrnamerki sér nokkra sumarfrísdaga til að eiga frí með börnunum. Það á þó ekki við alla og reynist til dæmis verktökum erfitt. „Ég er verktaki og hef ekki efni á því að missa úr vinnu í október en það eru 3 starfsdagar og 3 vetrarfrísdagar í þessum mánuði. Þetta er heil vika í vinnutap en samt sem áður býðst okkur ekki frístund í vetrarfríinu.“
„Lausnin virðist vera að eyrnamerkja nokkra sumarfrísdaga á vetrarfríið til að dæmið gangi upp. Það má því segja að vetrarfrí sé í raun sumarfrí og að vetrarfrí þýði ekki meiri samveru með börnunum, heldur dreifðari samveru,“ segir annar viðmælandi á meðan enn annar segir hugmyndina um vetrarfrí vera fallega en það sé þó ekkert fallegt við það að „sum börn fái frí með foreldrum á meðan önnur sitji ein heima og horfi á sjónvarpið því foreldrarnir annað hvort komast ekki frá vinnu eða hafa ekki efni á að taka sér frí.“

Borgin býður upp á fjölskyldudagskrá

Helgi Grímsson, yfirmaður skóla- og frístundasviðs borgarinnar segir upphaf hugmyndarinnar um vetrarfrí mega rekja til umræðu meðal foreldra og skólafólks um afar langa vinnulotu nemenda frá skólabyrjun í ágúst og fram að jólaleyfi. „Þessi vinnulota varð mjög áberandi þegar skólaár var lengt úr 170 dögum í 180 daga. Í Reykjavík var ákveðið að hafa tvískipt vetrarleyfi og lengja skólann sem því nemur fram á sumar. Var vísað til góðrar reynslu foreldra sem höfðu búið erlendis, en í Evrópulöndum og víðar eru gjarnan haust- og vetrarleyfi.“
Helgi segir Reykjavíkurborg einnig hafa kannað viðhorf foreldra til vetrarfrís með reglubundnum hætti og að í öllum könnunum hafi fleiri verið samþykkir þeim en á móti. „Vissulega er það svo að sitt sýnist hverjum þegar kemur að vetrarleyfum og á það bæði við um foreldra og starfsmenn skóla. Þess er gætt að frídagar í leikskóla- og grunnskóla í sama hverfi séu samræmdir eins og frekast kostur er og eins er í hverju hverfi borgarinnar útbúin dagskrá sem á að stuðla að samveru fjölskyldunnar,“ segir Helgi.

Atvinnulífið virðist hafa aðlagast vetrarfríi

Ári eftir að vetrarfrí var sett á, árið 2002, tilkynntu Samtök atvinnulífsins að þau væru reiðubúin til að taka þátt í samráði um skipan þessa mála og þannig stuðla að því að vetrarfrí ylli sem minnstri röskun fyrir atvinnulífið en frá upphafi bárust samtökunum margar kvartanir frá foreldrum sem komust ekki frá vinnu. „Það var mikil umræða um vetrarfrí fyrst eftir að það var sett á,“ segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA. „Fólk hafði mikið samband við okkur og var greinilega í vandræðum með þetta. En svo fjaraði þetta út og við teljum að vinnumarkaðurinn hafi aðlagast. Það má segja það að einhverju leyti hafi orlofið færst yfir á vetrartímann. Fólk er líklega farið að skipuleggja sig betur og margir fara í skíðaferðir sem hlýtur að vera merki um aðlögun.“

„Óþolandi“ starfsdagar

SA gera reglulega kannanir þar sem athugað er hvað betur mætti fara í atvinnulífinu og Hannes segir vetrarfríið ekki hafa komist þar á blað. Hinsvegar ríki óánægja með starfsdaga leikskóla. „Það er alltaf jafn mikil óánægja með ósveigjanleika leikskólanna, bæði vegna sumarlokana og vegna starfsdaganna. Þeir loka sinni þjónustu í marga daga á ári bara svo starfsfólkið geti rætt málin. Þetta geta venjuleg þjónustufyritæki auðvitað ekki gert. Þetta er gert til að spara því annars þyrftu þau að gera þetta utan vinnutíma og borga fyrir það. Það er vandamál og erfitt fyrir fólk að redda sér þessa daga. Starfsdagar eru viðvarandi vandamál sem ekki er hægt að laga sig að. Þetta er alltaf jafn óþolandi og við höfum reynt að beita sveitarfélögin þrýstingi hvað þetta varðar.“

Sveitarfélög velta kostnaði á atvinnulífið

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA, segir atvinnulífið reyna eins og hægt er að koma til móts við foreldra.
„Atvinnulífið hefur skilning á því að foreldrar bera skyldur gagnvart börnum sínum. Það er hins vegar ergilegt hvernig sveitarfélög velta miklum kostnaði yfir á foreldra og atvinnulífið án nokkurrar umræðu eða samráðs. Í skólum Hjallastefnunnar er boðið upp á frístund allan daginn í vetrarfríinu gegn sanngjörnu gjaldi. Það gefur fjölskyldum valkost. „Vetrarfrí“ í október er t.d. tími sem hentar sjaldnast til sameiginlegrar frítöku fjölskyldu. Mjög margir foreldrar eru því ergilegir og telja sveitarfélög lítinn skilning hafa á stöðu foreldra.“
Ragnar segir ekki hafa verið rætt að taka upp almenna orlofstöku til samræmis við skóladagatal sveitarfélaga. „Það gengur ekki upp. Atvinnulífið er nýkomið út úr sumarfrístörninni þegar fyrstu vetrarfrí skella á. Við erum að vinna að aukinni framleiðni í rekstri og mikilvægt að hægt sé að halda úti fullri þjónustu og framleiðslu yfir veturinn.“

Reykjavíkurborg gerði könnun á afstöðu foreldra til vetrarfrís árið 2012.
Ánægðir 48%
Óánægðir 31%
Hvorki né 21%

 

The post Vetrarfrí eða vetrarvandræði? appeared first on Fréttatíminn.


Gubbum ekki fyrir sýningu

$
0
0

Spaugstofan er fyrir löngu orðin stofnun í íslensku gríni og leiklistarlífi. Fyrir 30 árum mynduðu fimm kumpánar hóp sem tók að hittast reglulega og hafa í flimtingum flest milli himins og jarðar. Sumir kölluðu þá rugludalla, aðrir kölluðu þá snillinga, enn aðrir dóna, klámhunda og guðlastara. Sjálfir kölluðu þeir sig Spaugstofuna. Þetta samstarf reyndist í meira lagi vanabindandi – og enn hefur þeim ekki tekist að hætta. Nú birtast þeir á Stóra sviði Þjóðleikhússins í sýningunni Yfir til þín, og hafa líklega aldrei verið ruglaðri. Að minnsta kosti er þeim ennþá ekkert heilagt. Randver Þorláksson segir grínið allt vera til staðar á harða diskinum.

„Það er mikið af nýju efni í þessu hjá okkur og við rifjum upp gamla karaktera sem koma ljóslifandi úr sjónvarpinu. Mér sýnist þeir allir pluma sig vel á stóru sviði, enda eru þeir margir stórir og grófir.“

„Það er alltaf fiðringur fyrir frumsýningu,“ segir Randver Þorláksson leikari um frumsýningu Spaugstofunnar í Þjóðleikhúsinu á laugardag.
„Við gubbum samt ekki neitt. Við erum hættir því,“ segir hann.
„Það er góður andi í hópnum og hefur alltaf verið. Ég var í fríi frá hópnum í einhvern tíma en það var ekkert mál að finna taktinn aftur. Þetta er allt á harða disknum og svo höfum við aldrei hætt alveg að vinna saman,“ segir hann. „Við unnum þetta saman að miklu leyti en svo kláruðu strákarnir þetta. Þetta er ekki beint efni úr sjónvarpinu, heldur meira blanda af efni sem við höfum verið að nota og skrifum upp á nýtt ásamt alveg glænýju. Þetta er svona kabarett með mörgum atriðum. Þetta er upprifjun,“ segir Randver. „Þetta eru hátíðahöld. Eru ekki allir að halda upp á afmæli,“ segir hann. „Það er mikið af nýju efni í þessu hjá okkur og við rifjum upp gamla karaktera sem koma ljóslifandi úr sjónvarpinu. Mér sýnist þeir allir pluma sig vel á stóru sviði, enda eru þeir margir stórir og grófir. Við erum vanir þessu og flestir okkar búnir að vera sem áratugum skiptir í þessu húsi. Ég byrjaði 1970 hjá Þjóðleikhúsinu en er í dag kominn á aldur, eins og sagt er,“ segir Randver.
„Það er fínt og ég get einbeitt mér að öðru. Ég vatt mér í ferðamennskuna og er leiðsögumaður. Ég er búinn að vera í því á fullu. Svo hef ég sinnt óperunni vel sem er mitt uppáhald og í rauninni það skemmtilegasta sem ég veit,“ segir hann. „Tónlistin og óperuformið inniber allt sem maður vill sjá í leikhúsi. Þetta er „maximum“ form og ég hef fylgst með óperum lengi. Við frumsýnum á laugardaginn og það er að seljast vel. Við verðum allavega fram að jólum og svo sjáum við til,“ segir Randver. „Svo veltur þetta bara á eftirspurn eins og venjan er. Það er bara svo mikið og gott starf og prógram í Þjóðleikhúsinu að það kemst auðvitað ekki allt fyrir. Við vonumst til að fá sem flesta af þeim sem höfðu gaman af þessu í sjónvarpinu á sínum tíma,“ segir Randver.
„Þessir þættir voru auðvitað með alveg svakalegt áhorf þegar best lét og þetta var fjölskylduþáttur. Okkar helstu fylgjendur eru nú líklega farnir að reskjast, en það er von til þess að þeir vilji koma og rifja þetta upp með okkur,“ segir hann. „Spurning hvort börn þess tíma séu ekki líka bara fullorðið fólk í dag og taki sín börn á sýninguna til þess að kynna þau fyrir okkur. Þetta verður ekkert bannað börnum. Við vorum nú dæmdir á sínum tíma fyrir guðlast og klám, en þetta er ekki of gróf sýning. Við höfum möguleika á því líka að bæta inn efni ef það er eitthvað merkilegt sem gerist í fréttum, svo það er von á einhverju nýju í einhverjum sýningum,“ segir Randver Þorláksson leikari.
Yfir til þín, er frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í kvöld, laugardagskvöld.

The post Gubbum ekki fyrir sýningu appeared first on Fréttatíminn.

Rigning, rok og rúllukragar

$
0
0
ErlaMaria_rúllukragar

1. Bakkakot. Hlý og mjúk rúllukragapeysa úr „boucle“ bandi. Hentar báðum kynjum. 100% ull.
Farmers Market, verð: 24.900 kr.

2. Sandur, rúllukragapeysa úr 100% merino-ull. Létt en hlý í vetrarkuldanum.
Farmers Market, verð: 15.900 kr

3. Fyrir þær heitfengu. Tilvalinn undir jakka.
Topshop, verð: 4.930 kr.

4. Rúllukraginn er ekki bara kósí flík, það er vel hægt að klæða sig í kraga fyrir fínni tilefni.
Lindex, verð: 9.995 kr.

5. Skarðshlíð. Peysan dregur nafn sitt af samnefndum bæ undir Eyjafjöllum og segir þjóðsagan að Grettir Ásmundarson beri ábyrgð á skarðinu. 100% ull.
Farmers Market, verð:  25.500 kr.

6. Röndótt verður áfram vinsælt í vetur.
Topshop, verð: 10.855 kr.

7. Karrígulur er einn af litum haustsins.
Lindex, verð: 7.995 kr.

8. Peysukjóll í hinu fullkomna víða sniði.
Topshop, verð: 11.845 kr.

9. Rendur verða áberandi í bolum jafnt sem kjólum.
Lindex, verð: 5.995 kr.

10. Ponsjó sem gott er skutla yfir nánast hvaða dress sem er.
Lindex, verð: 6.995 kr.

11. Toppblanda af glamúr og kósíheitum.
Topshop, verð: 9.870 kr.

12. Kjóll með víðum kraga. Flottur við sokkabuxur eða yfir buxur.
Lindex, verð: 5.995 kr.

The post Rigning, rok og rúllukragar appeared first on Fréttatíminn.

Snjóblinda Ragnars til Ítalíu

$
0
0

Snjóblinda kom upphaflega út á íslensku árið 2010 og gerist að vetrarlagi á Siglufirði, þegar snjóflóð lokar bænum í miðri morðrannsókn. Bókin hefur nú þegar komið út í Þýskalandi, Póllandi og Bretlandi, en í síðastnefnda landinu náði hún efsta sæti á metsölulista Amazon Kindle af metsölubókinni Stúlkan í lestinni. Snjóblinda hefur jafnframt verið seld til Bandaríkjanna.
Ný spennubók eftir Ragnar, Dimma, kemur út hjá Veröld í lok mánaðarins, en þar segir frá lögreglukonu í Reykjavík sem er á leið á eftirlaun en tekur að sér að rannsaka eitt mál að lokum, voveiflegt dauðsfall hælisleitanda.

The post Snjóblinda Ragnars til Ítalíu appeared first on Fréttatíminn.

Fallegar vörur sem eiga ekki heima inni í skáp

$
0
0

„Ég elska Le Creuset vörurnar mínar og á pott og pönnu frá þeim, ég verð því að nefna bæði.“ Marta segir þessi kaup vera með betri fjárfestingum sem hún hefur gert í eldhúsinu. „Ástæðan er sú að ég get sett bæði pottinn og pönnuna í ofninn. Ég er dugleg að hægelda og þá nota ég pottinn í allt ferlið. Ég byrja á að steikja kjötið á hellunni og helli svo lauk, kartöflum og kryddi og mögulega smá hvítvíni og og set svo allt saman inn í ofn með lokinu. Síðast gerði ég hægeldaðan lambapottrétt sem sló í gegn.“

Matar- og lífsstílsbloggarinn Marta Rún heldur mikið upp á Le Creuset, svo mikið að potturinn og pannan fara aldrei inn í skáp, heldur prýða helluborðið í eldhúsinu. Mynd/Hari.
Matar- og lífsstílsbloggarinn Marta Rún heldur mikið upp á Le Creuset, svo mikið að potturinn og pannan fara aldrei inn í skáp, heldur prýða helluborðið í eldhúsinu. Mynd/Hari.

Marta segir fegurð Le Creuset varanna heldur ekki skemma fyrir. „Þetta eru svo fallegar vörur að ég tími ekki að setja inn í skápa, heldur eru þær alltaf á hellunum.“ Aðspurð um litavalið segir Marta að hún hafi þurft að vanda valið. „Litirnir frá Le Creuset eru æðislegir og á hverju ári frumsýna þeir nýjan lit. Ég fékk mer ljósbrúnan pott sem er frekar einfaldur en svo skærbláa pönnu sem var einmitt nýi liturinn það árið. Nýi liturinn í ár er fallega kóngablár og er ekkert smá flottur. Hver veit nema að ég bæti honum í safnið.“

Marta Rún er búsett í fallegri íbúð í bryggjuhverfinu. Hér má sjá innlit í eldhúsið hjá Mörtu sem birtist í Heimili & hönnun í Fréttatímanum í september. 

The post Fallegar vörur sem eiga ekki heima inni í skáp appeared first on Fréttatíminn.

Sálfræðingar og geðlæknar koma í tíma til mín

$
0
0

Hljómsveitin Thin Jim sendi á dögunum frá sér lagið Ást úr steini sem er samið af þeim Margréti Eir, söngkonu sveitarinnar, og Jökli Jörgensen bassaleikara, sem semur tónlist og texta sveitarinnar. Jökull er mikill Reykvíkingur og er annt um borgina og er textinn tileinkaður Reykjavíkurborg. Honum finnst mikil neikvæðni í borginni þessa dagana. Mikið um mótmæli og fólk er ósátt við ráðamenn borgarinnar. Jökull ákvað að þetta væri besti tíminn til að koma með mjúkan og róandi tón inn í höfuðborgina. Reykjavík ber með sér mikinn þokka og í leiðindum og hversdagsleikanum gleymist það gjarna.

„Þetta lag er það fyrsta sem við Margrét semjum saman og bara það fyrsta sem hún semur yfir höfuð. Sem segir manni að það er aldrei of seint. Það er alltaf von.“

Jökull Jörgensen, bassaleikari og lagahöfundur Thin Jim, er rakari. Hann hefur klippt og rakað Reykvíkinga um árabil á Rakarastofu almúgans sem hann rekur á Laugaveginum. Hann segir starf rakarans oft vera eins og sáluhjálp. „Það er auðvitað mikil neikvæðni allt í kringum okkur. Maður þarf ekki annað en að opna Facebook þar sem neikvæðnin er mjög ráðandi, og Íslendingar eru fóðraðir af neikvæðni alla daga,“ segir hann.
„Það gleymist oft að líta á það sem jákvætt er. Ég var orðinn svo leiður á þessari neikvæðni og fór að hugsa til þess þegar ég var lítill gutti, áhyggjulaus heima hjá mér. Þá var hlustað á óskalög sjúklinga og sjómanna og þá voru þessi rómantísku lög sem voru sungin. Lögin sem Elly og Villi sungu ásamt fleirum sem voru alltaf smá halló, en svo fallega saklaus. Mig langaði að gera eitthvað sem væri afturhvarf til þessara laga,“ segir hann. „Gefa borginni smá séns. Þetta er góð borg og mig langaði að benda á það sem er svo gott og fallegt.
Ég er búinn að vera með rakarastofuna á Laugaveginum í 30 ár í ár,“ segir Jökull. „Í gegnum tíðina hafa geðlæknar og sálfræðingar komið í tíma til mín,“ segir hann og hlær. „Frægir geðlæknar koma kannski tvær vikur í röð í stólinn. Það er auðvelt fyrir sæmilega greindan mann að finna púlsinn í samfélaginu með því að reka rakarastofu. Ég gæti skrifað heilu bækurnar um það sem gerist í götunni. Um daginn kom til mín maður sem fannst ég full fínn í tauinu fyrir að kalla mig rakara almúgans,“ segir hann. „Ég sagði honum að það væri ekkert göfugt við fátækt, en ekki við ríkidæmi heldur. Almúgamaður er huglægt ástand og spurning um hjartalag,“ segir Jökull.
Thin Jim er hljómsveit Jökuls og Margrétar Eirar söngkonu, sem einnig er sambýliskona hans. Sveitin er alltaf að og segir Jökull svona verkefni vera skuldbindingu. „Þetta er eins og hvert annað barn og svona verkefni er hugsað sem lífvera sem maður hefur alið af sér, og það verður alltaf til,“ segir hann. „Þetta er vettvangur fyrir mína sköpun og okkar. Þetta lag er það fyrsta sem við Margrét semjum saman, og bara það fyrsta sem hún semur yfir höfuð. Sem segir manni að það er aldrei of seint. Það er alltaf von,“ segir hann. „Sem er einmitt inntakið í textanum. Það er alltaf von. Þetta er lag vonarinnar. Mér finnst oft vanta rómantík og skáldskap í textum í dag og við verðum að hafa þessa hluti uppi við til þess að hafa svigrúm fyrir ímyndunaraflið,“ segir Jökull Jörgensen, tónlistarmaður og rakari almúgans.
Thin Jim heldur tónleika á Rósenberg laugardaginn 31. október og mun frumflytja nýja lagið, Ást úr steini, ásamt fleira af nýju efni í bland við önnur lög sveitarinnar og annarra.

The post Sálfræðingar og geðlæknar koma í tíma til mín appeared first on Fréttatíminn.

Ceasetone til Texas

$
0
0

Það kom öllum að óvörum þegar ung íslensk hljómsveit að nafni Ceasetone var tilkynnt í fyrstu fréttatilkynningu tónlistarhátíðarinnar South by Southwest, skammstöfuð SXSW. Hátíðin er haldin í Austin í Texas í Bandaríkjunum í mars á næsta ári og hana sækja tugir þúsunda, þar af mikið af mikilvægu fólki úr tónlistarbransanum um heim allan.
Ceasetone hefur aðeins starfað sem fjögurra manna hljómsveit í stuttan tíma en á undan því hafði nafnið staðið fyrir sólóverkefni Hafsteins Þráinssonar. Hafsteinn hefur vakið mikla athygli fyrir óaðfinnanlegan gítarleik sinn og var hann til að mynda fenginn til að spila með Agent Fresco á útgáfutónleikum þeirra í Hörpu. Þetta reyndust vera ansi merkilegir tónleikar, ekki aðeins fyrir Agent Fresco, heldur einnig fyrir Hafstein og hljómsveitina hans þar sem einn skipuleggjandi frá SXSW var meðal áhorfanda og kolféll fyrir þessum unga hæfileikaríka dreng.
Hafsteinn og Sólrún Mjöll Kjartansdóttir, trommari Ceasetone, segja að spennandi tímar séu framundan. Þau eru mjög spennt fyrir því að feta í fótspor hljómsveita á borð við Of Monsters and Men, Ólafs Arnalds og nú síðast Kaleo, og spila á þessari mögnuðu hátíð. Ferðalagið verður þó ekki auðvelt þar sem þau þurfa að fylgja eftir ítarlegri kynningaráætlun til að halda í við aðrar hljómsveitir á svæðinu, en hátíðin er einnig þekkt fyrir gríðarlega mikla samkeppni.
Um þessar mundir er Ceasetone að æfa fyrir Iceland Airwaves hátíðina, þar sem þau munu spila sex sinnum, auk þess sem þau eru að undirbúa útgáfu á fyrstu breiðskífu sinni sem kemur út á næsta ári.

The post Ceasetone til Texas appeared first on Fréttatíminn.

Sjálfsofnæmi en ekki óþol

$
0
0

„Stundum er gaman að fá eitthvað sérstakt“

Diljá Þóra Friðriksdóttir er 7 ára og greindist með seliak sjúkdóminn þegar hún var þriggja og hálfs árs. Hún hefur því verið með sjúkdóminn frá því hún man eftir sér en finnst oft erfitt að fá öðruvísi mat en jafnaldrar hennar, sérstaklega í afmælum. „En stundum er gaman að fá eitthvað sérstakt.“

Diljá segir að vinir sínir spyrji mikið hvaða matur sé glútenlaus og hún reynir að vera dugleg að segja þeim frá því. Henni finnst þó mikilvægast að allir viti hversu sjúkdómurinn er alvarlegur. „Ég vil að allir viti að ég get orðið veik ef ég fæ óvart glúten.“

Diljá Þóra og Daniel Sean hafa verið með seliak sjúkdóminn frá því þau muna eftir sér. Mynd/Hari
Diljá Þóra og Daniel Sean hafa verið með seliak sjúkdóminn frá því þau muna eftir sér. Mynd/Hari

„Verð stressaður þegar ég borða annars staðar en heima“

Daniel Sean Hayes greindist með seliak sjúkdóminn fyrir fimm árum, þá 4 ára gamall. Hann glímir einnig við skjaldkirtilsvandamál og mjólkuróþol, sem oft er fylgifiskur sjúkdómsins. Hann segir það erfiðasta við sjúkdóminn sé að þurfa að fara reglulega í blóðprufur. „Svo er líka erfitt þegar krakkarnir í skólanum mínum eru endalaust að spyrja mig af hverju ég megi ekki borða sama mat og þeir.“ Daniel á hins vegar góða vini sem hjálpa sér þegar hann fær margar spurningar um sérfæðið sitt og styðja hann ef honum er strítt.

Langar stundum að geta bara pantað pítsu

Daniel segir að hann verði stressaðir þegar hann borðar annars staðar en heima hjá sér því hann vill ekki verða lasinn. „Ég vildi geta farið út að borða með fjölskyldunni og líka ekki þurfa að taka alltaf nesti með í veislur og afmæli. Stundum langar mig bara að geta pantað pítsu eða farið í bakarí og svoleiðis.“ Daniel er þó duglegur að líta á björtu hliðarnar og vegna sjúkdómsins er hann duglegur að stússast í eldhúsinu með mömmu sinni. „Ég fæ oft að baka með mömmu því við kunnum að búa til alls konar glútenlaust.“

Anna Kolbrún Jensen, dóttir hennar Diljá Þóra Friðriksdóttir, Sóley Guðmundsdóttir, Sólveig Ásgeirsdóttir og sonur hennar Daniel Sean Hayes vilja öll vekja fólk til umhugsunar um seliak sjúkdóminn. Diljá, Sólveig og Daniel eru með seliak og segja að fólk mætti vera skilningsríkara þegar kemur að sjúkdómnum. Mynd/Hari
Anna Kolbrún Jensen, dóttir hennar Diljá Þóra Friðriksdóttir, Sóley Guðmundsdóttir, Sólveig Ásgeirsdóttir og sonur hennar Daniel Sean Hayes vilja öll vekja fólk til umhugsunar um seliak sjúkdóminn. Diljá, Sólveig og Daniel eru með seliak og segja að fólk mætti vera skilningsríkara þegar kemur að sjúkdómnum. Mynd/Hari

„Fólk heldur oftast að ég sé bara í megrun“

Sóley Björk Guðmundsdóttir greindist með seliak sjúkdóminn fyrir þremur árum. Hennar fyrstu viðbrögð voru gleði, þar sem loksins var komin ástæða fyrir áralöngum veikindum. „Ég hugsaði ekki einu sinni út í að þetta yrði erfitt eða flókið, það eina sem ég hugsaði um var allt sem ég gæti farið að gera með fulla heilsu.“

Lærði að vera skipulögð

„Að taka út glúten var pínu flókið. Mestu og erfiðustu breytingarnar sneru að skipulagningu. Ég þurfti allt í einu að fara að undirbúa nesti fyrir hvern dag,“ segir Sóley, aðspurð um hvað hafi verið erfiðast við að fá greininguna. Sóley segir jafnframt að fólk viti lítið sem ekkert um sjúkdóminn. „Flestir halda að ég sé í megrun, sem er eiginlega hræðilegt, því þá er ég ekki tekin alvarlega. Flestir átta sig einfaldlega ekki á því að nánast ósýnileg mylsna af brauði er nóg til að gera mig fárveika.“

Dýrt að vera með seliak

Sóley segir að mikill kostnaður fylgi því að vera á sér fæði. „Ég fæ mér hnetur og ávexti í morgunmat og í kaffinu. Ég baka mín eigin brauð úr sérstöku hveiti sem er mun dýrara en venjulegt hveiti. Ég bý mér til mína eigin hnetumjólk og versla mikið í lífrænum deildum og heilsubúðum því þar er margt sem ég má borða, en það er alls ekki ódýrt.“ Sóley ráðleggur þeim sem greinast með sjúkdóminn að leita til Seliak samtakanna eftir aðstoð. „Þetta kann að virðast sem ógnvænlegur frumskógur, en þetta lærist!“

„Flestir átta sig einfaldlega ekki á því að nánast ósýnileg mylsna af brauði er nóg til að gera mig fárveika.“

Sóley greindist með seliak fyrir þremur árum og hennar fyrstu viðbrögð voru gleði, þar sem hún fékk loks að vita ástæðu fyrir áralöngum veikindum sínum. Mynd/Hari
Sóley greindist með seliak fyrir þremur árum og hennar fyrstu viðbrögð voru gleði, þar sem hún fékk loks að vita ástæðu fyrir áralöngum veikindum sínum. Mynd/Hari

Seliak sjúkdómurinn og glútenóþol:

Hvað er glúten?
Glúten er prótein sem á uppruna sinn í hveiti-, bygg- og rúgkorni.

Hvað er seliak sjúkdómur?
Glútenóþol eða seliak sjúkdómur er krónískur þarmasjúkdómur og lýsir sér þannig að slímhúð smáþarmanna skaðast og bólgnar af völdum glútens. Seliak nafnið kemur frá grískum lækni sem greindi sjúkdóminn og kallaði hann koiliakos, sem þýða má lauslega sem þeir sem þjást vegna þarmanna. Á ensku kallast sjúkdómurinn coeliac eða celiac disease og þaðan er íslenska nafnið komið.

Er munur á seliak og glúteinóþoli?
Það er svolítið villandi að nota orðið glútenóþol um þarmasjúkdóminn glútenóþol. Vissulega lýsir hann sér í óþoli fyrir glúteni en það er stórmunur á því að hafa Seliak glútenóþol og að vera viðkvæmur fyrir glúteni. Seliak er sjálfsofnæmissjúkdómur sem lýsir sér þannig að þegar sá sem hann hefur borðar glúten veldur það skemmdum á þarmavegg viðkomandi. Þarmatoturnar fletjast út svo upptaka næringarefna skerðist verulega. Einnig fylgja þessu yfirleitt einkenni frá meltingarvegi svo sem niðurgangur, kviðverkir og uppþemba. Þyngdartap, þreyta og slen eru algengir fylgifiskar sem og verulegur skortur á næringarefnum, t.d. B12 vítamíni og járni.

Þeir sem eru viðkvæmir fyrir glúteni en hafa ekki seliak geta einnig haft ýmis einkenni sem lagast þegar glúten er tekið úr fæðunni. Grundvallarmunurinn er þó sá að þarmaskemmdirnar eiga sér ekki stað. Samtökin vilja ekki að gera lítið úr þessari tegund glútenóþols, en segja að það sé mikilvægt að átta sig á muninum. Greining á sjúkdómnum er aðeins gjaldgeng ef læknir hefur gert viðeigandi próf, það er blóðprufu eða sýnatöku úr þörmum.

Hver eru einkenni seliak sjúkdómsins?
Einkenni geta verið mörg og mjög ólík milli einstaklinga. Næringarskortur, þyngdartap, kviðverkir, niðurgangur, uppþemba, þreyta, þunglyndi, höfuðverkir, sár í munni, exem og hármissir eru einkenni sem geta komið fram. Hjá börnum lýsir sjúkdómurinn sér oft með einkennum eins og vaxtastöðvun, vanlíðan, vítamín- og steinefnaskorti, þreytu, langvarandi niðurgangi, þyngdartapi og fleira.

Hvernig er seliak sjúkdómurinn greindur?
Sjúkdómurinn er greindur með blóðprufu sem mælir ákveðin mótefni í blóði og með sýnatöku frá smáþörmum. Ef blóðsýni bendir til seliak er framkvæmd magaspeglun þar sem tekið er sýni úr smáþörmum til að staðfesta greiningu. Þetta er sjálfsofnæmissjúkdómur og oft fylgja aðrir sjálfsofnæmissjúkdómar, til dæmis skjaldkirtilssjúkdómar. Einnig er algengt að mjólkuróþol og önnur óþol fylgi sjúkdómnum.

Er til meðferð?
Já. Þeir sem greinast með sjúkdóminn eru með hann alla ævi, eina meðferðin er 100% glútenlaust fæði.

Hvar er hægt að nálgast upplýsingar um seliak sjúkdóminn?
Á heimasíðu Seliak og glúteinóþolssamtakanna, gluten.is, má finna ítarlegar upplýsingar um sjúkdóminn.

 

The post Sjálfsofnæmi en ekki óþol appeared first on Fréttatíminn.


Lögin eldast of vel

$
0
0

Á kvennafrídaginn, 24. október 1975, hljómaði baráttusöngurinn Áfram stelpur fyrst í útvarpi og skömmu síðar kom út hljómplatan Áfram stelpur þar sem íslenskar leik- og söngkonur sungu baráttusöngva kvenna í tilefni kvennafrídagsins. Þessi plata rataði inn á mörg heimili og greyptist í huga stelpna og stráka, yngri og eldri sem féllu fyrir grípandi lögum og skemmtilegum textum en ekki síður baráttuandandanum, þorinu, viljanum og getunni sem ólgaði undir niðri. Nú, á fertugsafmæli Kvennafrísins og hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna, ætla fjórar reglulega kvenlegar leik- og söngstelpur að flytja plötuna Áfram stelpur í heild sinni á tónleikum í Iðnó, og vekja af værum blundi hjúkkuflugfreyjuna, Þyrnirós, Gunnu og Sigga, ánægðu ömmuna á Grund og síðasta sumarblómið og vona að sem flestir taki undir.

„Við ætlum að syngja plötuna í heild sinni á þessum tónleikum,“ segir Esther Jökulsdóttir söngkona sem ásamt þeim Brynhildi Björnsdóttur, Aðalheiði Þorsteinsdóttur og Margréti Pétursdóttur stendur að tónleikunum. Leik- og söngkonan Sigríður Eyrún Friðriksdóttir kemur einnig fram sem sérstakur gestur. „Þetta erum við að gera í tilefni af því að það eru komin 40 ár síðan hún kom út. Þegar platan kom út var það hópur af leik- og söngkonum sem tóku sig saman og gerðu þessa plötu,“ segir hún. „Konur eins og Bríet Héðinsdóttir, Kristín Ólafsdóttir og Steinunn Jóhannesdóttir meðal annarra sem voru virkar í kvennahreyfingunni og höfðu tekið þátt í leiksýningu sem hét „Ertu nú ánægð kelling,“ sem var sýnd í Þjóðleikhúsinu.
Lögin eru flest úr þessari sýningu og Steinunn Jóhannesdóttir ákvað svo að koma lögunum á plötu í aðdraganda kvennafrídagsins 24. október,1975. Þessi lög eldast eiginlega of vel,“ segir Esther. „Vissulega hefur margt breyst en það er sorglegt að segja frá því að það er margt sem hefur ekkert breyst.“ Höfundar textanna á plötunni voru þau Böðvar Guðmundsson, Þrándur Thoroddsen, Dagný Kristjánsdóttir, Kristján Jónsson og svo átti Megas eitt lag og ljóð. Lögin eru eftir Svíann, Gunnar Edander, fyrir utan Víðihlíðina hans Megasar.
Ég er yngst í hópnum og kynntist ekki plötunni á þeim tíma sem hún kom út, en á heimilum Brynhildar, Aðalheiðar og Margrétar hljómaði þessi plata mikið. Brynhildur var fimm ára þegar mamma hennar þaut niður á Austurvöll til þess að taka þátt í dásemdinni á kvennafrídeginum,“ segir hún. Mamma Margrétar, hún Soffía Jakobsdóttir, söng á sviðinu með Steinunni og félögum, þó hún hafi ekki sungið með á plötunni,“ segir Esther. „Við tökum öll lögin á plötunni og syngjum allar og Aðalheiður leikur einnig undir á píanó. Við tölum svolítið á milli laganna og berum saman bækur um hvað hefur gerst á síðustu 40 árum,“ segir hún. Stiklum á stóru, vitnum í textana og förum yfir hvað hefur breyst og hvað ekki. Þetta verður bara smá spjall til þess að tengja saman þetta prógram,“ segir Esther Jökulsdóttir söngkona.
Tónleikarnir á laugardaginn hefjast klukkan 17 og er miðasala í Iðnó á virkum dögum milli klukkan 11 og 16, og á föstudag milli 18 og 20.

The post Lögin eldast of vel appeared first on Fréttatíminn.

Körfubolti á mannamáli

$
0
0

Sportið er oft fyrirferðarmikið í mínu sjónvarpsáhorfi, enda „sportidjót.“ Á veturna er gósentíð okkar sem fylgjumst mikið með fótbolta og mörgum þykir nóg um. Ég er það heppinn að vera ekki dæmdur á mínu heimili fyrir þennan áhuga þar sem ég er sanngjarn og horfi á rómantískar gamanmyndir með konunni án þess að fara í fýlu.
Á dögunum byrjaði körfuboltavertíðin af miklum krafti hér á Íslandi og á Stöð 2 sport var brugðið á það ráð að byrja með umræðuþætti í anda Pepsi markanna í sumar og messu enska boltans. Í fyrstu var þetta eitthvað sem ég kveikti ekkert á, enda er ég ekki mikill körfuknattleiksáhugamaður. Hef ekki horft á körfu síðan snemma á tíunda áratugnum þegar NBA var í beinni á nóttunni, og minn maður Patrick Ewing gladdi mitt litla hjarta. Ég rambaði samt á þennan umræðuþátt um Dominos deildina um daginn og verð að segja að ég festist. Þessir gaurar sem voru á skjánum, sem ég kann engin deili á, töluðu mannamál. Létu leikmenn bara heyra það ef þeir voru slakir og mærðu svo þá sem gátu eitthvað í hástert. Ef eitthvað var þá fannst mér brotin úr leikjunum skemma fyrir. Ég hefði getað hlustað á þá allt kvöldið frussa út úr sér gullnum frösum og líkingum sem ég hefði ekki einu sinni ímyndunarafl til þess að koma frá mér. Þetta er frábær viðbót fyrir okkur „sportidjótana.“

The post Körfubolti á mannamáli appeared first on Fréttatíminn.

Elskar Dominospítsur og Vesturbæjarís

$
0
0

Staðalbúnaður

Undanfarið hef ég keypt svolítið af fötum í Nike og ég er mikill stuðningsmaður Zöru á Íslandi. Oftast nær kaupi ég samt föt í útlöndum í búðum eins og River Island og H&M. Ég pæli alveg í því hverju ég klæðist, ég er mikið í gallabuxum og reyni að vera nokkuð fínn í skólanum og þegar ég kem á æfingar.

Hugbúnaður

Ég æfi oftast sex daga vikunnar og að meðaltali tekur það fjóra tíma frá því ég mæti og þar til ég er farinn út. Þegar ég á lausan tíma er ég mikið með fjölskyldu, vinum og vinkonum. Mér finnst Vesturbæjarís mjög góður og fer oft þangað og einstaka sinnum fer ég í bíó með strákunum. Ég drekk ekki áfengi og hef aldrei gert og er því ekki mikið að stunda skemmtanalífið. Ég kíki auðvitað einstaka sinnum niður í bæ, kíki á lýðinn, en finnst skemmtilegra þegar strákarnir eru bara að drekka heima.

Vélbúnaður

Ég er mikill Apple-maður, er með iPhone 5s eins og stendur og Macbook Pro. Ég er á eiginlega öllum samfélagsmiðlum, Twitter, Facebook, Instagram og Snapchat, og er ágætlega virkur þar. Ég skoða samt meira heldur en ég pósta og svo tala ég mikið við vinina á Messenger og Snap.

Aukabúnaður

Ég er svakalegur stuðningsmaður Dominos og Glóar, ég tek þetta alveg í báðar áttir. Ég elska bæði pepperoni-veisluna á Dominos og Street Food á Gló. Svo fer ég stundum á Roadhouse inni á milli. Ég kann líka að elda sjálfur og tel mig sérfræðing í kjúklingabringum. Ég fæ að nota bíl eftir vinnu hjá mömmu og pabba en fer fljótlega að fá mér bíl sjálfur. Annars fer ég mest í strætó og hjóla eins og hægt er. Ég hef aldrei notað snyrtivörur fyrir utan rakspíra og hef ekki sett vax eða gel í hárið á mér síðustu 4-5 árin. Ég hef mjög gaman af því að ferðast. Ég fer til Barcelona með strákunum í Breiðabliki í lok mánaðarins og svo ætla ég Bandaríkjanna að heimsækja bróður minn um jólin, eftir að ég verð stúdent. Skemmtilegasta ferð sem ég hef farið var þegar ég fór með landsliðinu til Ísrael. Við fórum meðal annars til Jerúsalem og það var svakaleg upplifun að vera þarna. Ég ætla klárlega að fara í fleiri slíkar ferðir í framtíðinni. En þó ég elski að ferðast elska ég líka að vera heima hjá mér, ég elska Ísland. Maður kann að meta landið sitt miklu betur þegar maður er búinn að prófa að flytja út. Þetta er minn uppáhalds staður.

The post Elskar Dominospítsur og Vesturbæjarís appeared first on Fréttatíminn.

Ekki verið kallaður „kall“ áður

$
0
0

Leikarinn Sigurður Þór Óskarsson leikur eitt hlutverkanna í sjónvarpsþættinum Réttur, sem frumsýndur var á Stöð 2 um síðustu helgi. Í þáttunum leikur Sigurður ungan mann sem vinnur í félagsmiðstöð og er flæktur inn í vafasaman hring atburðarásar þáttanna. Sigurður Þór, eða Siggi Þór eins og hann er kallaður, er vanur því að leika unga menn enda er útlitið unglegt, enda er hann ekki nema 27 ára gamall. Hann leikur einnig í sýningunni um Hróa hött í Þjóðleikhúsinu þar sem hann fær að vera vondi karlinn.

„Ég hefði sætt mig meira við að vera kallaður „maður“ segir hann og hlær. „Ég ímynda mér alltaf bara einhvern í kringum sjötugt þegar ég heyri einhvern tala um „kall.“

Daginn eftir frumsýningunni á Rétti birtist færsla á Facebook-síðunni „Beauty-Tips“ þar sem spurt var „Hvað á þessi kall að vera gamall?“ og mynd af Sigga, Sigurði Þór Óskarssyni, í hlutverki sínu fylgdi með. Siggi segist ekki vera viss hvernig hann eigi að taka því að vera kallaður „kall“ aðeins 27 ára gamall. „Ég er ekki vanur því að vera kallaður „kall“,“ segir Siggi. „Það er samt mjög algengt að ég sé látinn leika niður fyrir mig í aldri,“ segir hann. „Mér finnst það bara fínt. Ég veit að ég er unglegur og það er bara flott, en ég vil ekki festast í því samt. Ég græði samt á því verandi tiltölulega nýkominn úr skóla og slíkt. Það þarf oft einhvern unglegan. En svo vill maður líka fá að leika sinn eigin aldur,“ segir Siggi.
„Í Hróa fæ ég að leika vonda karlinn sem er gjörspilltur og siðlaus náungi, sem er önnur áskorun. Fyrirmyndin af honum er kannski King Geoffrey í Game Of Thrones sem er svona ungur, dekraður drengur sem fær allt upp í hendurnar. „Hlutverkið mitt í Rétti er ungur strákur sem vinnur í félagsmiðstöð og án þess að gefa neitt upp er viðriðin ýmislegt grunsamlegt“ segir Siggi. „Í undirbúningnum las ég ýmis dómsmál um svipuð málefni og talaði við fólk sem vinnur í félagsmiðstöðvum til að fá smjörþefinn af því hvernig stemningin í þeim er í dag. Svo skoðaði ég líka góða í þessum karakter,“ segir hann. „Ég leitaði að því góða í honum því ég held að hann átti sig sjálfur ekkert á afleiðingum gjörða sinna. Hann er algjörlega blindur á það hvað er siðferðislega rétt og rangt,“ segir Siggi.
Umræðan um aldur Sigga á samfélagsmiðlum fór þó ekki mikið fyrir brjóstið á honum, þó honum hafi brugðið við að vera kallaður „kall“. „Ég hefði sætt mig meira við að vera kallaður „maður,“ “segir hann og hlær. „Ég ímynda mér alltaf bara einhvern í kringum sjötugt þegar ég heyri einhvern tala um „kall.“ Í rauninni var þetta samt bara ágætt því þá er ekkert geirneglt hvað hann á að vera gamall í þáttunum. Enda skiptir það litlu máli,“ segir Siggi sem heldur áfram að leika unga menn eftir áramót.
„Ég er að fara að leika í spennuverkinu Hleyptu þeim rétta inn, þar sem ég leik 12 ára strák,“ segir hann. „Þetta er hrikalega spennandi verk og handritið er æðislegt og ég er mjög spenntur að byrja á því. Þetta er í rauninni stærsta hlutverkið sem ég hef fengið í leikhúsunum og um leið það mest krefjandi, sem er bæði stressandi og spennandi,“ segir Sigurður Þór Óskarsson leikari.

The post Ekki verið kallaður „kall“ áður appeared first on Fréttatíminn.

Dúfur eru vinsæl nýjung í veislum

$
0
0

Ragnar Sigurjónsson hafði lengi dreymt um að rækta dúfur þegar hann fékk loks tækifærið fyrir 10 árum síðan. Í dag á hann um hundrað dúfur sem hann elur af mikilli ástríðu auk þess að vera fréttaritari Bréfdúfufélags Íslands. Hann segir bréfdúfuna vera einstaklega gáfaðan og skemmtilegan fugl sem unun sé að ala og þjálfa. Ragnar rekur veisluþjónustu sem býður upp á að dúfum sé sleppt við hin hátíðlegustu tækifæri.  

„Áhuginn á dúfum hefur nú bara fylgt mér alla tíð,“ segir Ragnar Sigurjónsson, fréttaritari Bréfdúfufélags Íslands og einn af tuttugu meðlimum félagsins. „Ég var alltaf með dúfur sem krakki og unglingur í Vestmannaeyjum en þegar maður fór svo að búa varð þetta aðeins flóknara. Þá var ekki jafn mikið pláss fyrir dúfurnar, svona eins og gengur og gerist,“ segir Ragnar sem byrjaði aftur af fullum krafti í dúfnarækt fyrir 10 árum síðan og á nú eitt hundrað bréfdúfur. „Ég saknaði þess alltaf mikið að halda dúfur og svo fékk ég tækifærið þegar við hjónin ákváðum að flytja hingað í Gaulverjabæ. Mig hafði lengi langað til að flytja út fyrir borgina og loks var komið tækifæri þegar konan fór að vinna hér sem kennari.“

Ragnar Sigurjónsson dúfukarl Dúfur Raggi Sjonna

Skemmtilegt ástarlíf

„Það er svo gaman að ala dúfur því þær gefa mjög mikið af sér. Það er með þær eins og með öll önnur dýr, maður þjálfar þær með mat og það er frekar auðvelt að þjálfa þær, það þarf bara að vita hvert er rétta augnablikið til að umbuna þeim. Svo er virkilega gaman að fylgjast með ástarlífi dúfna því þær verða svo yfir sig ástfangnar. Þær þrífa hvor aðra voðalega vel og svo mata þær hvor aðra til skiptis áður en þær hafa mök,“ segir Ragnar sem hjálpar þeim með makavalið svo útkoman verði sem best. „Ég para þær saman yfir pörunartímabilið eftir því sem mér finnst passa, til að fá sem besta einstaklinga. Það tekur svona 2 daga og þá eru þær orðnar par og halda tryggð við hvor aðra. Eftir 10 daga kemur svo egg og 17 dögum síðar kemur ungi. En svo þarf ég að slíta pörin í sundur að hausti því annars fyllist hér bara allt af ungum. En þær sem gefa mér góða og skemmtilega unga, sem eru fljótir að snúa heim, fá að para sig aftur.“

Ragnar Sigurjónsson dúfukarl Dúfur Raggi Sjonna

Bréfdúfufélagið

Bréfdúfur eru gæddar þeim merkilega eiginleika að fljúga alltaf þangað sem þær eru fæddar sé þeim sleppt. Bréfdúfufélag Íslands stendur fyrir hraðakeppni dúfna á hverju sumri en þá er nokkur hundruð merktum dúfum sleppt einhversstaðar á landinu og þær fyrstu heim verða verðlaunadúfur sumarsins. „Mínar dúfur fengu nú engin verðlaun þetta árið en unnu aftur á móti tvö síðustu ár. Besta dúfan mín fór frá Grímsstöðum á Fjöllum og heim til mín, 303 kílómetra í beinni loftlínu, 1478 metra á mínútu, það er 90 kílómetra hraði, sem þýðir að hún var um 3 tíma á leiðinni sem er frábær tími. Þetta er ofsalega skemmtilegt sport. Bréfdúfufélagið hafði legið í dvala um langt skeið þegar við endurvöktum starfsemina fyrir sex árum síðan. Flestir eru af Stór-Reykjavíkursvæðinu og svo er einn og einn á stangli hér við Selfoss. Þetta er dálítið karlasport en það er einn kvenmaður í félaginu og við erum voðalega ánægðir með það.“
Aðspurður segist Ragnar leggja sér dúfur til munns því annað væri synd. „Stundum þarf maður að grisja og þá lætur maður þetta fína kjöt ekki fara til spillis. Ég er ekki hrifinn af því að sóa mat. En þetta er líka hið besta kjöt, mjög gott enda alið á sérfæði, þetta eru engar húsdúfur af götunni.“

Vinsælt að sleppa dúfum í veislum

Auk þess að eiga fjörugt ástarlíf, keppa á mótum og vera aldar á sérfæði þá eru dúfurnar hans Ragnars líka hluti af veisluþjónustu sem er nokkuð nýstárleg hér á landi.
„Ég er með þjónustu þar sem ég lána dúfur sem er svo sleppt í veislum á borð við brúðkaup, skírnir eða jarðarfarir. Þetta er amerískur siður en hann er að vaxa hér á landi, enda afskaplega fallegur siður. Ég kem þá á staðinn í mínu fínasta pússi með fallegar hvítar bréfdúfur sem fólk sleppir við fallega athöfn. Til dæmis er orðið vinsælt í brúðkaupum að brúðguminn sleppi karldúfu og brúðurin sleppi kvendúfu og svo óska brúðhjónin sér. Svo skila dúfurnar sér auðvitað aftur heim til mín. Það er nú alltaf jafn merkilegt því líkt og engin getur útskýrt af hverju krían fer til Afríku og ratar svo til baka þá getur engin útskýrt afhverju bréfdúfur snúa alltaf heim. Það er bara einn af leyndardómum lífsins.“

Ragnar SigurjónssondúfukarlDúfurRaggi Sjonna

Staðreyndir um dúfur:
-Karlkyns dúfur geta mjólkað rétt eins og kvenkyns dúfur.
-Dúfur geta orðið 30 ára.
-Bréfdúfur fljúga að jafnaði á 80 til 100 km hraða.
-Vitað er um bréfdúfur sem flogið hafa 1120 km á einum degi.
-Uppruni bréfdúfusportsins er í Belgíu.
-Dúfur hafa flutt skilaboð síðan á tímum Persa.
-Reuters fréttaveitan hóf störf sín með bréfdúfum.

 

The post Dúfur eru vinsæl nýjung í veislum appeared first on Fréttatíminn.

Viewing all 7652 articles
Browse latest View live