Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Lífið hrundi þegar pabbi hvarf

$
0
0

Þegar Valgeir Víðisson hvarf var Óðinn, sjö ára sonur hans, tekinn af móður sinni og vistaður á geðdeild. Þar fékk hann allskyns greiningar og lyf en hvorki ást né umhyggju. Hann fékk nánast enga skólagöngu og var þvælt á milli stofnana og misjafnra manna í sveitum landsins. Það kemur kannski ekki á óvart að hann sitji nú á Litla-Hrauni með tugi dóma á bakinu. 

Óðinn Valgeirsson er 75% öryrki og hefur í tvígang hlotið alvarlega heilaskaða. Hann hefur nokkrum sinnum reynt að svipta sig lífi og er enn með áverka eftir þær tilraunir. Hann er laskaður á líkama og sál og þegar við ræðum saman lýsir hann heiftarlegum fráhvörfum sem daglegu lífi á Litla-Hrauni. Hann hefur framið svo marga smáglæpi að hann hefur enga tölu á þeim. Í þetta sinn situr hann inni fyrir frelsissviptingu á ungri konu, innbrot í apótek og á hótel. Eftir að hann var settur inn fékk hann viðbótardóm fyrir fjölmörg búðahnupl. Hann heldur að þetta sé í sjötta sinn sem hann situr af sér á Hrauninu. En upphafið af þessum ógöngum Óðins rekur hann til hvarfs föður síns. Þegar lífið tók óvænta stefnu.

Fyrstu ár ævinnar bjó Óðinn í Grafarvogi með móður sinni, Unni Millý Georgsdóttur, og eldri systur sinni. „Hann var einstaklega lífsglatt og athafnasamt barn. Vel gefinn og forvitinn um alla hluti. Krafturinn í honum var rosalegur og hann lét sér aldrei leiðast. Hann var samt ekki til vandræða og hefði líklega ekki verið talinn ofvirkur,“ segir systir hans.

25088
Óðinn Valgeirsson þrettán ára gamall.

Á þessum tíma var Grafarvogur að byggjast upp og fjölskyldufólk úr hinum ýmsu áttum settist þar að. „Fjölmargir fluttu þangað úr Breiðholtinu. Sumar fjölskyldur, sem höfðu verið í félagsíbúðum í langan tíma og voru með einhverjum hætti fastar í kerfinu, fengu forkaupsrétt á raðhúsum í hverfinu sem auðveldaði þeim að koma undir sig fótunum. Þetta var svolítið gott úrræði og raunveruleg hjálp. Það voru því rosalega margir krakkar að koma nýir inn í hverfið á sama tíma,“ segir hún.

Líf Óðins var ekki ósvipað lífi annarra barna í hverfinu og stundum fór fjölskyldan í útilegur og veiðiferðir. Óðinn á góðar minningar frá þessum tíma og gleymir aldrei hvað honum þótti gaman að fara til pabba síns um helgar.
„Hann var rosalega flottur karl og helgarnar með honum voru algjört ævintýri. Ég elskaði hann svo mikið og mér þótti mjög vænt um þessar stundir. Samt var eins og ég hafi skynjað að tími okkar væri naumur,“ segir Óðinn.

Sumarið áður en Óðinn átti að byrja í skóla, árið 1994, komu lögreglumaður og prestur að heimsækja hann. „Þeir sögðu að þeim þætti leiðinlegt að tilkynna mér að pabbi minn hefði horfið sporlaust og að það væri út af einhverjum fíkniefnum. Fyrir sjö ára krakka voru þetta óskiljanlegar upplýsingar. Mig langaði bara að vita hvað fíkniefni væru. Svo beið ég eftir því að pabbi kæmi aftur.“

Skömmu áður hafði faðir hans, Valgeir Víðisson, yfirgefið heimili sitt um miðja nótt og aldrei skilað sér aftur. Valgeir hafði átt við fíknivanda að stríða og hlotið dóma fyrir minniháttar glæpi sem raktir voru til neyslu hans. Lögregluna grunaði að hann skuldaði peninga og að óvildarmenn hans hefðu átt þátt í hvarfinu. Óðinn vissi ekkert um þetta fyrr en hann sá forsíður blaðanna.

Varð fjölmiðlamatur

Hvarf Valgeirs varð vendipunktur í lífi Óðins. „Það fór allt úr skorðum. Við urðum fjölmiðlamatur í margar vikur og málið var stanslaust til umfjöllunar. Það voru allir að tala um þetta en enginn gerði neitt,“ segir systir hans. Sögurnar fóru á kreik í hverfinu og krakkarnir fóru ekki varhluta af þeim.
Móðir hans lýsir því að Óðinn hafi orðið fyrir einelti og man eftir krökkum sem hjóluðu að húsinu þeirra til að kíkja á gluggana.
„Þau sögðu mér að pabbi minn væri dópisti og ég ætti eftir að verða það líka,“ segir Óðinn.
„DV skrifaði til dæmis að Valgeir hefði verið sprautufíkill og foreldrar í hverfinu vildu ekki leyfa börnunum sínum að vera í kringum okkur eftir það. Inn á heimilinu var auðvitað reynt að vernda okkur fyrir þessu en þú getur ímyndað þér hvernig honum leið að heyra svona um pabba sinn,“ segir systir Óðins.

25088_2
Feðgarnir Óðinn og Valgeir Víðisson á sólríkum degi við Barnafossa í Borgarfirði.

Til stóð að Óðinn byrjaði í grunnskóla haustið eftir hvarf Valgeirs en þangað fór hann aldrei. Hann var vistaður á Barna- og unglingageðdeildinni á Dalbraut, þar sem hann var látinn verja mest öllum tíma næstu árin.
„Ég var bara lokaður inni,“ segir Óðinn. „Ég vildi auðvitað bara vera hjá mömmu. En hún var einstæð og þeir gáfu henni ekkert val, hún varð að gera það sem þeir sögðu.“ Móðir hans og systir segja svipaða sögu. Þess hafi verið krafist að Óðinn yrði vistaður á Dalbraut, aðeins örfáum dögum eftir hvarf Valgeirs.
„Þeir sögðust vilja veita mér áfallahjálp en það var ekki það sem ég fékk. Ég fékk sautján eða átján mismunandi greiningar og allskonar lyf. Mér leið hræðilega og var brjálæðislega reiður og sorgmæddur. Ég viðurkenni alveg að ég var mjög óþekkur krakki en ég hefði þurft einhverja andlega hjálp.“

Óðinn segist meðal annars hafa verið greindur ofvirkur og hvatvís með mikinn athyglisbrest. „Kannski var það allt rétt en ég held ég hafi ekki orðið svona fyrr en eftir áfallið. Ég kunni ekkert að díla við þetta. Læknarnir dældu í mig lyfjum, gáfu mér rítalín og róandi til skiptis og ég fékk ábyggilega hálft pilluglas, nokkrum sinnum á dag. Ég var bara útúrdópaður krakki.“

Greindur í gegnum síma

Móðir Óðins og systir upplifðu ástandið með svipuðum hætti og þeim fannst læknarnir gefa honum óheyrilegt magn af lyfjum. Þær segjast báðar margoft hafa heimsótt hann á Dalbraut þar sem hann var bæði dofinn og stjarfur af lyfjagjöf. „Ef hann sýndi einhverjar eðlilegar tilfinningar, varð reiður eða æstur, þá var enginn sem settist niður með honum og veitti honum það sem hann þurfti. Honum var alltaf hent inn í „pullu“,“ segir systir hans og á við bólstrað herbergi á geðdeildinni. Móðir hans minnist þess ekki að nokkur ráðgjafi eða meðferðarfulltrúi hafi fylgt honum eftir í lengri tíma. „Það voru stöðugt nýir læknar og nýjar skýrslur og nýir meðferðarfulltrúar. Það var eins og hann væri tilraunadýr. Einn læknirinn greindi hann bara í gegnum síma.“

Óðinn segir sorgina við föðurmissinn og aðskilnaðinn frá móður sinni hafa gert hann reiðan og erfiðan einstakling. „Ég neitaði að trúa því að pabbi minn væri dáinn og þeir greindu mig veruleikafirrtan. Þegar ég tók köst og brjálaðist var ég snúinn niður, settur í pulluherbergið og pilluskammturinn aukinn. Ef ég var leiður þá þurfti að laga það og ef ég var reiður þá þurfti að gefa mér pillur við því. Þegar mamma spurði læknana hvort það væri eðlilegt að dópa mig svona niður, sögðust þeir bara vera að laga lyfjaskammtana. Þegar hún heimtaði að fá mig út af deildinni, þá hótuðu þeir að taka mig alveg af henni.“

Óðinn rifjar upp atvik sem hann segir að hafi alltaf setið í sér. „Eitt skiptið var komið með glænýtt billjardborð í kjallarann á Dalbraut og ég var rosalega spenntur að sýna mömmu það. Þegar hún kom í heimsókn stökk ég upp og hoppaði og skoppaði af spenningi. Þá komu þrír starfsmenn hlaupandi og öskrandi: „Hann er að taka kast!“ og mér var auðvitað dúndrað inn í pulluherbergi,“ segir Óðinn og klökknar.

„Ég fer bara að gráta að rifja þetta upp. Mér leið svo hræðilega. Ég gengst alveg við því að hafa átt við allskonar geðræn vandamál að stríða. En ég þurfti eitthvað allt annað en þetta. Þeir settu mömmu meira að segja í þjálfun í því að snúa mig niður en hún gerði það auðvitað ekki.“

Önnur kynslóð vistheimilabarns

Móðir Óðins hafði sjálf verið send nauðug á vistheimili þegar hún var yngri, þar á meðal í Breiðavík og á Unglingaheimili ríkisins. Hún hefur áður lýst ofbeldinu sem hún sætti þar í fjölmiðlum og hefur á síðari árum beitt sér með Samtökum vistheimilabarna. Hún segir að lítið mark hafi verið tekið á hennar orðum í kerfinu og bæði hún og Óðinn hafi ávalt verið tortryggð. „Og afkomendur vistheimilabarnanna eru mörg hver í sömu sporum og Óðinn. Ég var til dæmis alfarið á móti öllum greiningunum sem hann fékk, því það liggur í eðli mannsins að líða allskonar. Eftir áfall er það alls ekkert óeðlilegt. En það var ekkert hlustað á mig.”

Fjölskyldan fullyrðir að Óðinn hafi fengið litla sem enga skólagöngu á geðdeild en hann var um tíma einn í bekk í Dalbrautarskóla og enginn kennari sjáanlegur. Hann hafi hinsvegar lært margt um fíkniefni þarna inni. „Fljótlega kviknaði mikill áhugi hjá mér á dópinu sem pabbi minn hafði notað, en ég gerði mér enga grein fyrir að það var verið að stafla þessu drasli í mig. Venjulegur krakki hefði ábyggilega ákveðið að koma aldrei nálægt fíkniefnum, en ekki ég. Ég vildi vita meira. Ég vildi vita hvað pabbi minn hafði verið að gera. Ég var rosalega óþekkur krakki. Þarna inni fengum fræðsluefni um áhrif fíkniefna og ég lærði allt um kókaín, heróín og kannabisefni. Það var eiginlega það mikilvægasta sem ég lærði þarna inni.“

25088 Óðinn Valgeirss 2
Vídjóið sem búið var til í Dalbrautarskóla með Óðni átta ára gömlum að þykjast reykja hass úr pípu.

Fyrir fáeinum árum voru myndir af Óðni frá Dalbrautartímanum birtar í fjölmiðlum en þær voru teknar úr vídeói sem krakkarnir í skólanum gerðu um fíkniefnaneyslu. Óðinn segir kennarann hafi átt hugmyndina að vídeóinu en krakkarnir hafi búið það til. Á myndunum er Óðinn átta ára gamall að þykjast reykja hass úr pípu.

Fór aldrei í jarðarför

Óðinn segir að nokkrum sinnum hafi verið reynt að setja hann í venjulegan skóla en þær tilraunir hafi staðið í nokkra daga í senn. „Ég fór bara inn á klósett og bjó til hasspípur eða eitthvað álíka, sýndi bara svoleiðis takta. Skólastjórarnir vildu ekkert hafa svona krakka í skólanum svo ég var alltaf látinn hætta. Ég var bara einn dag í Austurbæjarskóla áður en ég var rekinn.“
Eftir nokkur ár inn og út af Dalbraut bjó Óðinn hjá mömmu sinni við Bústaðaveg og síðar á Njálsgötu. Þaðan slæptist hann um bæinn í misjöfnum félagsskap, stal, reykti og dópaði. Hann fullyrðir að hann sé langerfiðasta barn móður sinnar og hann hafi gert öllum í kringum sig lífið leitt.

Áhugi Óðins á fíkniefnum jókst og áður en hann var tíu ára hafði hann komist upp á lagið með kannabisreykingar. Þrettán ára gamall var hann kominn í dagneyslu á e-pillum og því sem gat komist yfir. Efnin urðu harðari og frá sextán ára aldri hefur Óðinn neytt morfíns nærri daglega. Neyslan hefur heltekið líf hans síðan. Kontalgín og sambærileg læknalyf hefur Óðinn keypt í undirheimunum frá því á unglingsárum.

Að sögn systur hans vildi hann vingast við ákveðinn hóp af fólki til að fá svör um hvað hefði orðið um pabba hans. „Hann var alltaf að leita að morðingja pabba síns.“
„Mér fannst ég sjá pabba alls staðar og vildi ekki trúa því að hann væri horfinn. Ég saknaði hans svo innilega og ég fékk ekki einu sinni að kveðja hann. Ég fór ekki í neina jarðarför. Mamma skildi mig vel, tók utan um mig og sagðist líka sjá hann alls staðar,“ segir Óðinn.

En þar sem Óðinn var ekki húsum hæfur þótti tilvalið að senda hann í sveit. „Ég veit ekki hvað ég fór í margar sveitir. Það var alltaf verið að senda mig á einhverja bæi.“ Hann fór margoft á Stuðla og meðferðarheimili á afskekktum stöðum. Einhverntíma var hann vistaður á Hvítárbakka og einhverntíma á bæ nálægt Vík í Mýrdal. Á einum bænum var húsráðandinn barnaníðingur sem síðar var dæmdur fyrir að misnota tvær stúlkur.

Ekki hugað líf

Fimmtán ára gamall var Óðinn sendur til Bandaríkjanna til stjúppabba síns þar sem vonir voru bundnar við að hann sneri við blaðinu og vegna þess að hann hafði ekki fengið neina skólagöngu á Íslandi. „Mamma vildi gefa þessu séns því ég var orðinn svo mikill vandræðaunglingur. Ég var svo reiður út í heiminn, að lífið hefði hrifsað pabba minn í burtu. Mér varð sama um allt og fannst enginn skilja mig. Ég át allar pillur, týndi alla sveppi og deyfði mig með öllu. Ég tók tíu millígröm af valíum á dag og reykti krakk. Þó fósturpabbi minn hafi verið góður við mig og viljað mér allt það besta þá var engin leið að tjónka við mig. Á endanum reyndi ég að hengja mig og við það brotnuðu þrír brjóskhringir í hálsinum á mér. Ég vaknaði á spítala þremur vikum síðar og þekkti ekki foreldra mína í sjón.“ Eftir þetta var Óðni ekki hugað líf og þurfti hann að undirgangast fjölmargar aðgerðir á öndunarvegi.

25088 Óðinn Valgeirs1

Þegar Óðinn varð eldri fór hann í meðferðir á Vogi og hefur margoft verið lagður inn á fíknigeðdeild fyrir fullorðna á Landspítalanum. Neyslan varð sífellt harðari og innbrotin fleiri. „Ég hef aldrei náð löngum tíma edrú þó það sé auðvitað það sem ég vilji helst. Mig langar til að vera eðlilegur en ég er bara búinn að skemma svo margt fyrir sjálfum mér. Ég hef verið vondur við svo marga og gert svo margt sem ég sé eftir.“

Líf hans snýst nú aðallega um að verða sér út um lyfin sem hann er háður, hvort sem hann er innan eða utan fangelsisveggjanna. Örorkubætur hans fara allar í að kaupa lyfin og hann segist yfirleitt klára þær á tveimur til þremur dögum. „Þá þarf maður að stunda glæpi til að fjármagna neysluna. Fara með bakpoka inn í verslanir og fylla hann af kjöti og allskonar varningi.“
Óðinn segist þekkja fjölmarga sem láti hann fá lyf fyrir svona varning. „Það veit allt þjóðfélagið að læknadóp gengur kaupum og sölum úti á götu. Þeir menn sem ég þekki vorkenna mér nú oftast og sýna mér þægilegra viðmót en læknarnir. Þegar ég fer til lækna og lýsi fyrir þeim fráhvörfunum mínum og hvað ég sé veikur, segjast þeir þvert nei. Það komi bara upp í tölvunni að ég sé fíkill.”

Vill ekki vera í vímu

Á undanförnum árum hefur Óðinn helst viljað nota viðhaldslyfin Subutex og Suboxone og þau hefur hann ýmist fengið á Vogi eða á svörtum markaði. Lyfin eru sérstaklega þróuð fyrir langt leidda morfín- og heróínfíkla og gefin til að halda niðri öllum fráhvörfum og fíkn í önnur lyf. Aðeins langt leiddum fíklum er gefið lyfið og ef það er rétt skammtað veldur það engri vímu. Óðinn er í fámennum hópi fíkla á Íslandi sem á tímabilum hefur fengið lyfið vikulega af læknum á Vogi. Þó eru alltaf einhverjir sem misnota lyfið og þeir sem ekki hafa þróað með sér lyfjaþol, eins og Óðinn, verða fárveikir af inntöku lyfsins. Að sögn Óðins hefur hann náð bestum tökum á lífi sínu þegar hann nær að neyta eingöngu Suboxone. „Þá næ ég að vera algjörlega eðlilegur og fúnkerandi einstaklingur. Ef ég er ekki á þessu lyfi, þarf ég að lifa á því sem gefst hverju sinni.“

Skilyrðin fyrir því að fá Suboxone eru hinsvegar ströng og þeir sem fá lyfið mega alls ekki neyta annarra lyfja. Það hefur Óðinn hinsvegar oft gert, mælst með kannabis eða önnur efni í þvagi og því dottið af lista yfir þá sem mega fá lyfið. „Og þá þarf ég að fara að kaupa þetta dýrum dómum. Innan veggja fangelsisins er verð á 2,5 töflum af Suboxone 25 þúsund krónur. Allir mínir peningar fara í að útvega þetta.“
Óðinn segir að þó fíknin í önnur efni hverfi algjörlega á Suboxone þá lækni það hann aldrei almennilega af þráhyggjunni fyrir öðrum lyfjum. „Því fíknin er bæði andleg og líkamleg. En ég er bara að reyna að halda heilsu og eftir svona mikla lyfjanotkun hefur mér fundist Suboxone vera það eina rétta. Stundum hefur mér orðið á að taka inn eitthvað annað á meðan ég er á því og hef alltaf dauðséð eftir því. Þetta er langbesta lausnin fyrir mig.“

Á Litla-Hrauni eru margir fíklar að reyna að verða sér úti um þetta sama lyf og það aldrei hægt að treysta á framboðið. Neysla Óðins er því mjög sveiflukennd og flesta daga er hann að glíma við einhver fráhvörf.
„Stundum þegar ég ligg hérna inni, einn og innilokaður, að drepast í maganum, ískalt, nötrandi og hnerrandi í fráhvörfum, þá hugsa ég hvað þetta sé ömurlegt líf. Mig langar auðvitað til að lifa allt öðruvísi. Geta fundið mér kærustu og vinnu og kannski leigt mér íbúð en fíknin stjórnar öllu hjá mér. Þjóðfélagið vill ekki hafa glæpamann eins og mig á götunum, af hverju má ég þá ekki fá lyfið sem ég þarf til að þess að hætta að stunda þessa glæpi?“

 

The post Lífið hrundi þegar pabbi hvarf appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652