Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Vilja rífa „kvennabúrið“ í Ármúlanum

$
0
0

„Múslimakonur sem vilja fylgja íslam en ekki menningarkreddu utan af heimi, fá skýr skilaboð um að þær séu ekki velkomnar í moskuna, nema þær passi að heyrast hvorki né sjást.“ Þetta segir Agnes Ósk Þorgrímsdóttir, íslenskur múslimi.

„Í mosku Félags íslenskra múslima í Ármúla er konunum vísað inn í trébúr sem hefur verið óklárað og hráslagalegt í 10 ár. Þar heyra þær illa í ræðumönnum og sjá ekki inn í moskuna sitjandi.“ Þetta segir Ibrahim Sverrir Agnarsson, fyrrverandi formaður félagsins, en hann segist hafa tekið slaginn með íslenskum konum innan safnaðarins um að rífa búrið og hafa eitt bænarúm fyrir bæði kynin. Hann hafi hinsvegar tapað þeim slag.

„Því miður getum við ekki sætt okkur við ástandið í moskunni í Ármúlanum,“ segir Agnes Ósk Þorgrímsdóttir. „Það átti að tryggja okkur aðgang að nýju moskunni, en nú er kominn nýr formaður og ég veit ekki hvað verður. Mér er alveg sama þótt við biðjum fyrir aftan mennina, en ég vil betri aðstöðu þar sem hægt er að sjá ímaninn. Við viljum ekki fylgja einhverri karlrembumenningu utan úr heimi. Þetta er ekki íslam, þetta er einhver menning frá þeirra heimalöndum sem þeir reyna að troða inn í moskuna hér. Það er fullt af körlum sem styðja okkur konurnar en hinir ráða ferðinni. Mér finnst leiðinlegt að þetta sé svona, en ég er þreytt á að tala undir rós þótt ég eigi það á hættu að einhverjir rasistar fari að smjatta á þessu næstu vikurnar.“

Sverrir bendir á að staða kvenna innan bænafélaganna sé alþjóðleg umræða og víða mikið hitamál, líkt og í Bandaríkjunum. Þar hafi allir helstu fræðimenn á sviði íslam, margir hverjir mjög íhaldssamir og menntaðir í frægustu háskólum hins íslamska heims, stutt kröfu kvenna um breytingar í moskunum. Á Íslandi taki menn hinsvegar upp merki karlrembunnar og fjallaþorpanna.
„Við héldum kvennafund síðasta haust og þar var kosið um þetta mál,“ segir Agnes Ósk. „Kosningin var ekki upp á marga fiska, þarna voru konur sem eru ekki í félaginu, þær eru í hinni moskunni, þar er líka kynjaskipt en í Ýmishúsinu sjáum við ímaninn og heyrum í honum. Við erum ekki lokaðar af.“
Sverrir segir að börn allt niður í sjö ára hafi fengið að greiða atkvæði og konur úr öðru múslimafélagi, þar sem sé rekin mun meiri harðlínustefna. Þess vegna hafi málið verið fellt.

The post Vilja rífa „kvennabúrið“ í Ármúlanum appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652