Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem íhugar forsetaframboð, stendur frammi fyrir erfiðu verkefni ef marka má viðbrögð við frétt Fréttatímans á Facebook í gær. Langflestir, sem lýstu skoðun sinni, fundu framboði hennar allt til foráttu og segja má að það hafi fengið falleinkunn á samfélagsmiðlinum vinsæla. Ummæli á borð við „Nei takk“, „ekki á þessari öld“, „kysi frekar hundinn í næsta húsi“, „ekki í þessu lífi“, „nei, nei…. fussum svei!“ voru áberandi og fráleitt til þess fallin að gefa framboði hennar byr undir báða vængi. Auk þess virðist ekki hafa fennt yfir umdeildar afskriftir kúluláns eiginmanns hennar Kristjáns Arasonar í Kaupþingi rétt fyrir hrun og voru mörg ummæli sem tengdust því.
Þó eru nokkrar ljósglætur í myrkrinu fyrir Þorgerði. Sjálfstæðismenn, fyrrverandi fréttastjóri og bókaútgefandi voru meðal þeirra sem ruddust fram á ritvöllinn til að verja sína konu fyrir oft á tíðum svæsnum athugasemdum netverja.
Þannig sagðist Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sannfærð um að „hún yrði frábær í þessu starfi“ og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingsflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, myndi styðja hana. Bókaútgefandinn Kristján B. Jónasson minnist hennar sem framboðsskörungs frá menntaskólaárunum, lögmaðurinn Sigríður Rut Júlíusdóttir segir hana ágætlega geymda í forsetaembættinu og Freyr Einarsson, fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2, taldi hana hafa þekkingu og reynslu til að verða ekki minna en „glæsilegur þjóðarleiðtogi“.
The post Forsetaframboð Þorgerðar Katrínar fær falleinkunn á Facebook appeared first on Fréttatíminn.