Það hefur valdið miklu fjaðrafoki að bresku tónlistarverðlaunin, líkt og Óskarinn, skortir allan fjölbreytileika í tilnefningum. Brit Awards fóru fram á miðvikudaginn og voru aðeins tveir breskir tónlistarmenn, sem eru ekki hvítir, tilnefndir.
Það þótti sérstaklega fráleitt þar sem Grime senan í London, tegund af rapptónlist, hefur rutt sér til rúms á vinsældalistum. Rapparar á borð við Skepta, Stormzy og JME áttu mörg vinsælastu lög ársins. Lady Leshurr töldu margir að hefði einnig átt myndband ársins skilið en hún var ekki tilnefnd.
Skipuleggjendur hátíðarinnar neyddust til að tjá sig um málið eftir mikla pressu. Þeir lofa meiri fjölbreytni á næsta ári og kenna strúktúr hátíðarinnar um, þeir tónlistarmenn sem eru efst á vinsældalistum séu einfaldlega tilnefndir. Á næsta ári lofa þeir fleiri nýjum flokkum til þess að auka fjölbreytni.
Stormzy botnar ekkert í þeim rökum og rappaði „freestyle“ á tónleikum í Japan stuttu áður. Hann spyr: „Er andlitið mitt of svart?“ Því lögin hans trónuðu á öllum vinsældalistum og segir hann tómar lygar að halda að það sé nóg.
The post „Er andlitið mitt of svart?“ appeared first on Fréttatíminn.