„Ég var að drífa mig í skólann enda alltof seinn, það var þoka og ég var með tónlist í eyrunum. Þegar ég er næstum kominn að skólanum fer ég yfir götuna, lít til hliðar og sé sporvagninn á fullri ferð, minna en metra frá mér,“ segir Valdemar Árni Guðmundsson myndlistarnemi, sem slasaðist illa þegar hann varð fyrir sporvagni í Amsterdam.
„Ég hélt reyndar meðvitund þegar sporvagninn keyrði á mig og man eftir að þeytast marga metra og fann fyrir rosalegum sársauka. Sporvagnstjórinn hljóp út úr vagninum en í stað þess að hafa áhyggjur af mér byrjaði hún að skamma mig fyrir að hafa verið fyrir sér. Ég skildi ekki það sem hún sagði en held hún hafi aðallega haft áhyggjur af því að ég hefði skemmt sporvagninn eitthvað,“ segir Valdemar og hlær.
Hann segir þó að fjölmargir vegfarendur hafi komið honum strax til hjálpar og hringt á sjúkrabíl.
„Mér leið eins og hann væri eilífð á leiðinni en kannski voru það bara nokkrar mínútur. Þetta var allt svo hádramatískt að það er fyndið núna. Á leið á spítalann var ég til dæmis einn í sjúkrabílnum með sjúkraliðum sem töluðu óðamála á hollensku og ég skildi ekkert. Þau voru svo háalvarleg að ég spurði þau á ensku: „Er ég að fara að lifa þetta af?“ Og þau svöruðu alvarleg: „Við vitum það bara ekki ennþá.““
Valdemar lifði slysið aldeilis af en hnéskeljar hans voru þó brotnar og úr lið, hann viðbeinsbrotnaði og var með innvortis blæðingar. „Hnén eru í lagi í dag en detta reglulega úr liði og þá eru þau kannski viku að komast aftur í lag.“
Valdemar tók sér ársfrí frá námi sínu við myndbands- og hljóðdeild listaháskólans Gerrit Rietveld í kjölfar slyssins, en er nú kominn aftur út að klára námið. Hann segist fara allra sinna ferða með sporvagni og veigra sér ekki við það, þrátt fyrir þessa reynslu.
„Ég kem náttúrlega frá Hveragerði, þar sem er nákvæmlega engin hjólamenning, í þetta hjólabrjálæði í Amsterdam. Týpískt að ég yrði strax fyrir sporvagni!“

The post Lífsreynslan – Varð fyrir sporvagni í Amsterdam appeared first on Fréttatíminn.