Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Álagið jókst jafnt og þétt

$
0
0

Ásta Kristín Andrésdóttir hjúkrunarfræðingur var sýknuð af manndrápi af gáleysi í desember. Aldrei fyrr hefur heilbrigðisstarfsfólk verið sótt til saka samkvæmt hegningarlögum. Ásta byrjaði á Landspítalanum stuttu eftir að kreppan skall á og segir álagið hafa aukist jafnt og þétt.

Sjá umfjöllun Fréttatímans um streitu og kulnun í starfi

„Það var svakalegur léttir að fá loks niðurstöðu. Það var bara svo gott að skilja loks hvað hafði gerst. Það er eiginlega hægt að lýsa þessu eins og ég hafi tekið tonn af bakinu á mér og skilið það eftir á gangstéttinni,“ segir Ásta sem hafði lifað í stöðugum ótta í þrjú ár þegar hún var sýknuð af manndrápi af gáleysi í desember.
Ásta var á vakt þann 3. október árið 2012 þegar sjúklingur á gjörgæsludeild Landspítalans lést. Í ákærunni kom fram að sjúklingurinn hefði kafnað skömmu eftir að hann var tekinn úr öndunarvél og að hjúkrunarfræðingnum hafi láðst að tæma loft úr belg barkaraufartúbu þegar tengingu við öndunarvél var skipt út fyrir talventil. Ásta var sýknuð af ákærunni þar sem ekki þótti sannað að rekja mætti andlátið til mistaka.

Álagið ekki metið til sakar

Í dómnum var einnig tekið tillit til þess að Ásta hafði unnið erfiða dagvakt á svæfingadeild Landspítalans og eftir hana hafði hún verið beðin um taka kvöldvakt á gjörgæsludeild. Auk þess kom fram í dómi að á gjörgæsluvakt hafi vantað margt starfsfólk og að vaktin hafi verið „mjög tætt“. Í niðurstöðu dómsins segir meðal annars: „Vinnulag og vinnuhraði sem krafist var af Ástu Kristínu og sundurslitin umönnun hennar með sjúklingnum, sem var vegna mikil álags og undirmönnunar deildarinnar, verður ekki metið henni til sakar.“
„Ég flutti heim frá Danmörku rétt eftir að kreppan skall á og fór að vinna á Landspítalanum. Um leið og ég kom inn þá var sett ráðningarbann þannig að upplifði mig sem nýja starfsmanninn í tvö ár á deildinni. Vaktirnar tóku breytingum með tímanum. Þegar ég byrjaði unnum við þriðju hverju helgi en svo kom niðurskurðurinn og þá vorum við sett á vakt aðra hverja helgi. Það í sjálfu sér er streituvaldandi í svona starfi. Maður var alltaf upptekin og álagið jókst jafn og þétt,“ segir Ásta sem á sama tíma var að hlúa að börnunum sínum og hjónabandinu.

Kulnun eftir dóminn

Rannsóknir sýna að starfsfólk heilbrigðisstofnana er í mikilli hættu á streitu og ýmis verkfæri eru notuð til að koma í veg fyrir að starfsfólk kulni í starfi. Ásta segist hafa verið undir miklu álagi þó hún hafi ekki séð það sjálf á þeim tíma. „Það er svo merkilegt að þó ég hafi lesið fræðin og eigi að þekkja einkenni streitu þá gerði ég mér ekki grein fyrir því hvað álagið var mikið. Ég var sennilega farin að nálgast kulnun en vissi það ekki þá. Það var ekki fyrr en eftir dóminn sem ég upplifði kulnun og vildi fara í annað starf. En það voru kannski frekar viðbrögð við atvikinu og tilfinningalegt sjokk.“
Ásta segir alla mjög meðvitaða um gegnsæ samskipti í dag. „Það er svo mikilvægt að samskiptin á milli allra séu góð því það bæði minnkar streitu og öryggi sjúklinga. Spítalinn þarf auðvitað alltaf að manna allar vaktir en við berum sjálf ábyrgð á því hvort við tökum tvöfaldar vaktir eða ekki og ég ákvað eftir atvikið mitt að taka aldrei aftur tvöfalda vakt.“

The post Álagið jókst jafnt og þétt appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652