Gunnar Þorsteinsson, fyrrverandi forstöðumaður Krossins, vinnur nú hörðum höndum að því að skrifa ævisögu sína. Hann hefur þegar fengið hótunarbréf frá lögmanni sem segir að umbjóðendur hans muni leita réttar síns ef fjallað verði um einkamálefni þeirra í væntanlegri bók. Hann segir að það hafi verið kokkuð upp lygasúpa til að bregða fæti fyrir sig og eiginkonu sína, Jónínu Benediktsdóttur, og hann ætli að vísa henni rækilega til föðurhúsanna í nýju bókinni.
Gunnar segir að þjóðþekktur undirheimaforingi hafi einnig hótað Jónínu og hún hafi snúið sér í kjölfarið til lögreglunnar. Þá hafi komið í ljós að menn væru markvisst að reyna að sölsa undir sig hús Krossins og Krossgatna sem eru 3300 fermetrar að flatarmáli. „Græðgin hefur mörg andlit og þarna kom í ljós að menn voru að villa á sér heimildir,“ segir hann
Gunnar segist ekki vera fullkominn, hann hafi aldrei haldið því fram: „Reyndar hef ég margsinnis sagt um mig og þá sem ég hef notið þess heiðurs að fá að leiða frá myrkri til ljóss að við séum, almennt talað, verri en annað fólk,“ segir hann.
Gunnar segist líta svo á að með þessu hótunarbréfi séu menn að játa að þeir hafi óhreint mél í pokahorninu. Hann segir að það hafi sett að honum óstöðvandi hlátur þegar hann las það. „Þær upplýsingar sem ég hef undir höndum eiga mikið erindi við almenning, enda kemur fram í þessum gögnum önnur mynd og mér hliðhollari. Reyndar eru þær heimildir sem ég hef safnað hreint með ólíkindum og ber að kynna fyrir þeim sem vilja setja sig inn í þessi mál og hafa sannleikann að leiðarljósi.“
The post Titringur vegna ævisögu Gunnars í Krossinum appeared first on Fréttatíminn.