Atli Þór Fanndal / Mynd: Jakob Sigurðsson
ritstjorn@frettatiminn.is
Laun lögregluþjóna hækka ekki með aukinni ábyrgð vegna meðhöndlunar skotvopna. Byssur eru í 11 lögreglubílum og útlit er fyrir fjölgun. Landssamband lögreglumann gerði árið 2012 könnun meðal lögreglumanna um vopnaburð. 83 prósent vildu þá skotvopn læst í bílum. Ríkislögreglustjóri hefur ítrekað vitnað í könnuna í skýrslum sínum sem rökum fyrir auknu aðgengi að vopnum. „Lögreglumenn eru verulega ósáttir við að það skref sem stigið var varðandi skotvopnin, með þeirri auknu ábyrgð sem það hefur í för með sér fyrir hinn almenna lögreglumann, skuli hafa verið stigið án þess að þess sjáist merki í launaumslögum lögreglumanna,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.
– Hvað með launauppbót vegna þjálfunar við meðhöndlun skotvopna?
„Nei, það er ekkert slíkt.“
Ríkislögreglustjóri sver af sér aukinn vopnaburð
„Aðgengi lögreglumanna að skotvopnum hefur ekki verið aukið né eru uppi áætlanir um breytingar frá núverandi reglum,“ segir í svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Fréttatímans. Þetta er í andstöðu við upplýsingar fengnar hjá lögregluembættum. Hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra hefur ákvörðun um hvort vopn verði færð í bíla ekki verið tekin en er til skoðunar. Um þá túlkun Jóns F. Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá embætti ríkislögreglustjóra, að ekki felist aukið aðgengi að skotvopnum með því að færa þau í læstar hirslur bíla, er vert að benda á að ólíkt lögreglustöðvum eru bifreiðar gæddar þeim eiginleika að fara í útköll með lögregluþjónum. Ríkislögreglustjóri telur hins vegar að aðgengi sé óbreytt sökum þess að reglum hefur ekki verið breytt, aðeins framkvæmd þeirra.
Nítján Glock skammbyssur
Fyrirspurn Fréttatímans sneri að því hvaða greining, gögn og rannsóknir væru lögregluembættum til stuðnings við að ákvörðunartöku vegna skotvopna. Því var ekki svarað en í upphafi árs svaraði Ólöf Nordal innanríkisráðherra ítarlegri fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, um meðferð lögreglu á skotvopnum. Þar kemur fram að 19 Glock skammbyssur séu þegar geymdar í 11 bifreiðum þriggja lögregluembætta á Vestfjörðum, Austurlandi og Suðurlandi. Skotvopn eru sömuleiðis geymd á 36 lögreglustöðvum. Alls telur vopnabúr lögreglu um 600 skotvopn. Ríkislögreglustjóri leggur mat á þörf lögreglu fyrir vopnun en lögreglustjórar meta staðsetningarþörf. Ákvörðunin er studd með hættumötum greiningadeildar, þarfagreiningu ríkislögreglustjóra og áhættugreiningu á viðbúnaðargetu.
Tveggja daga námskeið
Á síðasta ári hóf Lögregluskóli ríkisins, í samstarfi við ríkislögreglustjóra, að auka aðgerðar- og valdbeitingarþjálfun almennra lögregluþjóna. „Farið var yfir reglur um valdbeitingu sem og meðferð valdbeitingartækja og vopna.“ Námskeiðin voru átta og stóðu hvert um sig yfir tvo daga í um tuttugu klukkustundir. „Á námskeiðunum voru m.a. handtökuæfingar, sjálfsvörn, skotvopnaþjálfun o.fl.,“ segir í svari ríkislögreglustjóra. Til að hljóta heimild til beitingar vopna þurfa lögreglumenn að hafa hlotið „tilskilda þjálfun,“ standast skotpróf árlega og hljóta samþykki lögreglustjóra.
Friðsælasta ríki heims
Fjallað er um Ísland í bókinni Háttur byssunnar – blóðugt ferðalag um heim skotvopna, eftir Ian Overton blaðamann. Ísland telst friðsælasta ríki heims. Rúmlega 72 þúsund skotvopn eru löglega skráð samkvæmt ríkislögreglustjóra. „Ég valdi að fjalla Ísland vegna þess að landið er ótrúlega friðsælt þrátt fyrir talsverða byssueign,“ segir höfundur bókarinnar. Overton kom til Íslands skömmu eftir að Sævar Rafn Jónsson var skotinn af lögreglu.
Stjórnmálin sinni eftirliti
„Mikilvægt er að fólk spyrji hvað kalli á aukinn vopnaburð lögreglu,“ segir Overton. „Þegar stjórnmálamenn reyna að setja lögreglu reglur þá er það sjaldan til að takmarka vald lögreglu til valdbeitingar. Ímyndaðu þér stjórnmálamann sem segir einfaldlega: „Nei, lögreglan fær ekki skotvopn.“ Sex mánuðum síðar er lögreglumaður skotinn. Ekki þarf mikið ímyndunarafl til átta sig á hvað verður um stjórnmálamanninn sem ekki vill leyfa lögreglunni að verjast. Lögreglan verður ósnertanleg stétt og því er ásetningur lögregluyfirvalda til að vopnast ekki dreginn of mikið í efa.“ Í þessi samhengi vekja ummæli innanríkisráðherra, við fréttastofu RÚV um tilfærslu vopna í lögreglubíla, athygli. „Ég held að þarna sé ekki verið að auka vopnaburð, þarna er ekki verið að koma með ný vopn til lögreglunnar út af þessu, það er verið að breyta framkvæmdalegum atriðum sem eru á forræði lögreglunnar og eru ekki á borði innanríkisráðherra.“
Aðdáunarverð staða Íslands
„Á Íslandi ræddi ég við nokkra einstaklinga innan lögreglunnar og allir lýstu þeir lögreglu sem legði mikið upp úr því að sýna þolinmæði og umburðarlyndi gagnvart ókyrrð og borgaralegri óhlýðni,“ segir Overton. Hann segir hættu á að aukið aðgengi að skotvopnum umturni sýn almennings á lögreglu og grafi undan trausti. „Ákveðin menning fylgir skotvopnum. Það þarf ekki annað en að skoða alþjóðlegar ráðstefnur þar sem lögreglumenn hittast til að sjá hversu hratt áhrifin leka á milli menningarheima.“ Hann segir hættuna að aukast á Íslandi sökum þess hve meðvitaðir Íslendingar séu um stöðu landsins á alþjóðavettvangi. Við viljum vera tekin alvarlega meðal stórþjóða. Hann segir umræðuna verða að snúast um vandann sem á að leysa og hvernig aukið aðgengi að vopnum feli í sér lausn. „Séu byssur vandamál á Íslandi þá er það líklegast vegna slysahættu en það að skotvopnavæða lögregluna leysir þann vanda ekki.“
The post Skammbyssur í ellefu lögreglubílum appeared first on Fréttatíminn.