Talið er að fíkniefnalögreglumaður, sem sætt hefur rannsókn vegna misferlis í starfi, hafi sent brotamanni sms og beðið hann um peninga. Fyrrum starfsmaður sérstaks saksóknara fór með upptöku af samtali lögreglumannsins og brotamannsins til ákæruvaldsins. Upptakan er talin styðja þá kenningu að peningar hafi farið á milli lögreglumannsins og brotamanns.
Smáskilaboðin og hljóðupptakan eru sterkustu gögnin sem ákæruvaldið hefur í málinu gegn fíkniefnalögreglumanninum. Skilaboðin fundust í síma lögreglumannsins á lögreglustöðinni. Í skilaboðunum er talið að hann sé að biðja brotamann um peninga. Engar sannanir eru fyrir því að greiðslurnar hafi átt sér stað.
Rannsókn á málinu hefur staðið yfir síðan í desember og bæði brotamaðurinn og fíkniefnalögreglumaðurinn hafa setið í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Líklegt er að ríkissaksóknari gefi út ákæru á hendur fíkniefnalögreglumanninum á næstu vikum fyrir brot í starfi og mútuþægni. Þá er líklegt að brotamaðurinn verði ákærður fyrir að bera mútur á lögreglumann. Málið er á borði Helga Magnúsar Gunnarssonar.
Málið fór af stað í desember í fyrra þegar maður, sem eitt sinn starfaði fyrir sérstakan saksóknara, fór með upptöku af samtali brotamannsins og fíkniefnalögreglumannsins, til ákæruvaldsins. Í upptökunni, sem er um hálftíma löng, heyrast lögreglumaðurinn og brotamaðurinn ræða saman. Brotamaðurinn og fyrrum starfsmaður sérstaks saksóknara tengjast. Á ákveðnum tímapunkti í upptökunni er rætt um peningaupphæð. Truflanir eru á upptökunni svo ekki heyrist nægilega vel í hvaða samhengi peningaupphæðin kemur til tals.
Annar maður, sem gengdi stöðu lögreglufulltrúa og yfirmanns í fíkniefnadeild lögreglunnar, sætir einnig rannsókn vegna misferlis í starfi. Hann er grunaður um langvarandi samskipti við einn þekktasta mann í undirheimum á Íslandi. Grunsemdir um óeðlileg tengsl þeirra, hafa ítrekað komið upp.
Í desember í fyrra leitaði lögfræðingur til ríkissaksóknara og óskaði eftir samningaviðræðum. Hann sagðist geta haft milligöngu um að veittar yrðu upplýsingar um samskipti lögreglufulltrúans og mannsins í undirheimunum. Lögfræðingurinn vildi að fallið yrði frá ákæru á hendur undirheimamanninum gegn því að upplýst yrði um samskipti hans við lögreglufulltrúann.
Samkvæmt heimildum Fréttatímans var þessu tilboði lögfræðingsins ekki tekið og engin heimild er í lögum til að semja við fólk um að það njóti friðhelgi gegn því að veita upplýsingar.
Við yfirheyrslur hefur maðurinn í undirheimunum játað að lögreglufulltrúinn hafi gert honum viðvart, einu sinni, þegar fíkniefnadeildin ætlaði að framkvæma húsleit vegna kannabisræktunar. Þegar lögreglan kom á staðinn var húsnæðið tómt.
Átök eru innan lögreglunnar um hvort mál lögreglufulltrúans hafi verið þaggað niður af fyrrum yfirmönnum hans, meðal annars þeim Karli Steinari Valssyni og Friðriki Smára Björgvinssyni. Margir fíkniefnalögreglumenn eru ósáttir við viðbrögð þessara manna við ábendingum um misferli lögreglufulltrúans.
Miklar deilur hafa skapast um rannsókn málsins þar sem Grímur Grímsson var í upphafi fenginn til að stýra rannsókninni. Grímur er náinn vinur Karls Steinars Valssonar. Hann sagði sig frá rannsókninni eftir að athugasemdir voru gerðar við tengslin. Málið hefur verið til meðferðar hjá embætti héraðssaksóknara.
Rannsókn á máli lögreglufulltrúans er á lokastigi og er talið ólíklegt að gefin verði út ákæra í málinu. Honum mun því bjóðast að starfa áfram hjá lögreglunni.
The post Fíkniefnalögga bað brotamann um peninga appeared first on Fréttatíminn.