Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

„Þið gerið ykkur enga grein fyrir hvað það eru miklir peningar í slorinu“

$
0
0

Löngu áður en Landsbankinn í Lúxemborg fór að stofna aflandsfélög fyrir íslenska auðmenn á Tortóla höfðu íslenskir útgerðarmenn og fiskútflytjendur komið sér upp félögum á Kýpur sem notuð voru til að halda hluta söluverðs undan skiptum og gjaldeyrisskilum.

Samkvæmt heimildum Fréttatímans notuðu fjölmörg íslensk útgerðarfélög kýpverska banka til að skjóta fé undan skatti og skiptum á tíunda áratug síðustu aldar, nokkru fyrr en Landsbankinn og Kaupþing í Lúxemborg fóru að stofna aflandsfélög á Tortóla.

Venjubundin leið var sú að þegar gámur af ferskfiski eða afli af frystitogurum var seldur voru gefnar út tvöfaldar faktúrur. Önnur hélt utan um peningana sem sendir voru til Íslands, komu til skipta með áhöfninni og til skattaskila. Hin nótan hélt utan um þóknun útgerðarmannsins. Þeir peningar voru sendir til Kýpur inn á reikning félags sem stofnað var kringum þessi undanskot.

518267437_15629655-eab84ed0f58dd858bbfec7c9a228395784ea7e6c-1
Ofvaxið bankakerfi Kýpur hrundi í kjölfar alþjóðlegu fjármálakrísunnar. Það hafði belgst út af flóttapeningum héðan og þaðan en líklega mest frá Rússlandi. En íslenskir útgerðarmenn og fiskútflytjendur höfðu einnig notað skattaskjólin á Kýpur til að koma fé undan skatti og skiptum. Hrun bankakerfisins hafði víðtæk áhrif á Kýpur. Þar eins og annars staðar bar alþýða manna þyngstu byrðarnar.

Viðmælandi Fréttatímans, sem tók þátt í sölu á ferskfiski og afla út fyrstitogurum á tíunda áratug síðustu aldar, lýsir þessu svo að þetta hafi verið alvanalegt. Hann hafi sjálfur ekki haft frumkvæði að þessu heldur hafi starfsmaður skipafélags verið sendur á hann til að kenna honum hvernig kaupin gerðust á eyrinni. Hann fór til Kýpur, stofnaði félag og skráði það til heimilis í póstboxi og fór síðan í banka og stofnaði reikning með 50 þúsund dollurum. Eftir það var frá 2 prósentum og allt upp í 10 prósent af söluverðmætinu sent inn á slíkan reikning.

Sé miðað við frystitogara á þessum árum getum við gert ráð fyrir að aflaverðmætið hafi verið um 200 milljónir króna á núvirði. Hver togari gat farið um tíu túra á ári. Heildarverðmætið var þá nálægt 2 milljörðum á ári. Af því fóru líklega um 100 milljónir króna á reikninginn á Kýpur.

„Þið gerið ykkur enga grein fyrir hvað það eru miklir peningar í slorinu,“ segir viðmælandi Fréttatímans.

Þegar viðmælendur Fréttatímans eru spurðir um hvað hafi verið gert við peningana nefndu þeir týpíska ofsaeyðslu í útlöndum. Á Ventura í Orlando í Flórída mun vera fjölmörg hús í eigu svona kýpverskra félaga í eigu útgerðarmanna. Gagnvart íslenskum skattayfirvöldum virðist sem útgerðarmennirnir séu að leigja húsin þegar þeir fara í sumarleyfi en í raun eru þeir að leigja af sjálfum sér eða taka út þá fjármuni sem þeir skutu undan.

Önnur dæmi eru nefnd. „Börn útgerðarmanna taka aldrei námslán,“ sagði einn. Annar nefndi að það hefði tíðkast þegar áhöfn frystitogara var boðið til útlanda að útgerðarmaðurinn borgaði allt. Þótt áhöfnina hafi ef til vill grunað að það væri í raun hún sjálf sem væri að borga með peningum sem skotið hefði verið undan skiptum þá gat hún ekki bent á hvernig það hefði verið gert.

Það hefur löngum verið vitað að peningum væri skotið undan skatti, skiptum og gjaldeyrisskilum við sölu á sjávarafurðum. Í síðasta Fréttatíma var rifjað upp að Richard Thors gat lifað á slíku fé í næstum 35 ár eftir að Kveldúlfur varð gjaldþrota. En þessi undanskot tilheyra ekki aðeins löngu liðnum tíma. Eins og fram kemur í ummælum viðmælenda Fréttatímans voru þessi undanskot almenn og stórtæk áður en bankarnir fóru að bjóða upp á aflandsfélög í stórum stíl.

Og eftir Hrun skrifaði Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og máltæknimanna, grein um gríðarlegan mun á markaðsvirði sjávarafurða og því verði sem kom til skipta á Íslandi. Eftir að hafa dregið fram nokkur slík dæmi skrifaði Guðmundur: „Sjómenn, og þjóðin öll, eiga skýlausa kröfu á að þessi mál verði útskýrð. Ef stjórnendur útgerðanna eru að gefa afurðirnar frá sér vegna lélegrar sölumennsku verða þeir stjórnendur að víkja. Það er efnahagslegt skemmdaverk að gefa frá okkur sjávarafurðirnar á miklu lægri verðum en nágrannaþjóðirnar eru að fá, ef sú er raunin.“

Í kjölfar greinarinnar var fjallað um málið í Kastljósi en síðan hefur lítið verið fjallað um málið. Miðað við samanburð Guðmundar munar tugum milljarða króna á ári á uppgefnu söluverðmæti og því sem ætla má að útflytjendur geti fengið á frjálsum markaði. Vandinn á Íslandi er sá að flest útgerðarfélög eiga sjálf sölufyrirtæki erlendis og því er engin frjáls verðmyndun, menn eru mest að selja sjálfum sér aflann.

Eftirlitskerfið með þessum gríðarlegu viðskiptum heitir Verðlagsstofa skiptaverðs. Og eins og þau eftirlitskerfi sem fjallað er um í greininni hér til hliðar er hún bæði fjársvelta og hefur ekki mannskap til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Á meðan svo er hafa útgerðarmenn þetta eins og þeim sýnist, segir Guðmundur Ragnarsson.

The post „Þið gerið ykkur enga grein fyrir hvað það eru miklir peningar í slorinu“ appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652