Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Helsti kjúklingabóndi landsins er aflandsfélag á Möltu

$
0
0

Systkinin sem eiga Matfugl, Gunnar Þór, Guðný Edda, Halldór Páll og Eggert Árni Gíslabörn, létu félag í sinni eigu, sem skráð er á Möltu, kaupa um tvo þriðju hluta Langasjávar árið 2011 fyrir rúmlega 250 milljónir króna. Ekki fylgir sögunni hvernig þau eignuðust þetta félag, en Malta er skattaskjól. Og var það enn frekar en undanfarin ár hafa OECD og Evrópusambandið mjög þrýst á stjórnvöld á Möltu að herða skattalöggjöf sína. Lengst af hafa félög skráð á Möltu ekki þurft að greiða neina skatta af tekjum sem verða til utan Möltu né af útgreiðslum sem renna til aðila utanlands eða sem varið er til neyslu utan eyjunnar.

Gunnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri Langasjávar, sagðist í samtali við Fréttatímann ekki kannast við að Malta væri skattaskjól og sagðist ekki þekkja skattareglur þar. Hann sagði að Coldrock borgaði skatta þar ytra og ef til þess kæmi að félagið greiddi eigendum sínum arð myndu þau systkinin borga skatta hér heima.

Gunnar lýsti aðkomu Coldrock Investment að Langasjó í blaðagrein fyrir rúmu ári, löngu áður aflandsfélög urðu að almennu fréttaefni á Íslandi. Þar sagði Gunnar Þór: „Við systkinin erum endanlegir eigendur að Coldrock Investments Limted. Skýringin á tilvist félagsins í hluthafahópi Langasjávar ehf. er að eitt af dótturfélögum Langasjávar ehf. þurfti fjárhagslegan stuðning árið 2011 og við nýttum fjármuni sem við áttum erlendis til að auka eigið fé fyrirtækjanna á Íslandi.

Ekki kemur fram í grein Gunnars hvernig systkinin fluttu féð til Möltu og hann vildi ekki til greina frá því í samtali við Fréttatímann. „Eitt af fyrirtækjunum lenti í vandræðum vegna gengislána og við öfluðum peninga. Við áttum peninga erlendis og þeir voru í Coldrock. Þeir peningar voru fluttir til Íslands,“ sagði Gunnar.

Umtalsverðar greiðslur til eigenda

Þau systkinin eru umsvifamikil í íslensku viðskiptalífi og landbúnaði. Auk Matfugls á Langisjór grænmetissölufyrirtækið Mata, Síld og fisk og Salathúsið.

Frá því að Coldrock Investment greiddi inn rúmar 250 milljónir króna í Langasjó hefur fyrirtækið greitt umtalsvert fé út til eigenda sinna. Það hefur verið gert með kaupum á eigin hlutabréfum og með því að lækka hlutafé. Í ársreikningi fyrir árið 2014 kemur fram að vegna þessara viðskipta hafi greiðsla til hluthafa verið rúmlega 800 milljónir króna. Þar sem maltverska félagið er skráð sem 60 prósent hluthafi hefur það fengið góðan hluta þessara upphæðar eða um 485 milljónir króna. Greiðslur til hluthafa, samkvæmt reikningum fyrir árin 2013 og 2012, námu samtals um 357 milljónum króna á verðlagi áranna. Samtals nema greiðslur til hluthafa á þessum þremur árum um 1,2 milljörðum króna á núvirði, samkvæmt þessum ársreikningum.

Coldrock Investment hefur því fengið framlag sitt margfalt til baka á skömmum tíma.

Fær um 2,5 milljarða í neytendastuðning

Kjúklingarækt nýtur, sem kunnugt er, ríkulegs stuðnings stjórnvalda. Þótt kjúklingabændur fái ekki beina styrki úr ríkissjóði fær atvinnugreinin stuðning af tollvernd. Í nýlegri grein Guðjóns Sigurbjartssonar viðskiptafræðings og Jóhannesar Gunnarssonar, formanns Neytendasamtakanna, áætluðu þeir verðgildi þessa stuðnings upp á tæplega 5,2 milljarða króna.

Samkvæmt mati Samkeppnisstofnunar nemur markaðshlutdeild Matfugls um 35 til 40 prósent af markaðnum. Samkvæmt því nemur styrkur neytenda til Matfugls í gegnum of hátt verð um 1,8 til 2,1 milljarðs króna á ári.

En Coldrock Investment á líka Síld og fisk í gegnum Langasjó. Markaðshlutdeild Síldar og fisks er um 40 til 45 prósent í sölu svínakjöts, samkvæmt mati Samkeppnisstofnunar. Stuðningur ríkisins við þá grein er ívið minni að mati Guðjóns og Jóhannesar, eða um tæplega 1,8 milljarðar á ári. Hlutur Síldar og fisks í þeim stuðningi er um 715 til 800 milljónir króna.

Samanlagt er því stuðningur neytenda við fyrirtæki Langasjávar í gegnum tollvernd og hátt verð um 2,5 til 2,9 milljarðar króna árlega. Það verður að teljast kostulegt í ljósi frétta síðustu vikna að langstærsti eigandi Langasjávar er aflandsfélagið Coldrock Investment.

The post Helsti kjúklingabóndi landsins er aflandsfélag á Möltu appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652