Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Þekktu þig til að kenna á þig

$
0
0

Við vitum allt um kynlíf vinkvenna okkar en það er tabú að ræða sjálfsfróun, segir Indíana Rós Ægisdóttir. Hún fjallaði um tengingu sjálfsfróunar kvenna við sjálfsímynd og ánægju í kynlífi í lokaritgerð sinni. 

„Ég veit nánast allt um ástarlíf vinkvenna minna. Hjá hverjum þær sofa, hverskonar kynlíf þær stunda og hversu oft. Hinsvegar er engin umræða um sjálfsfróun,“ segir Indíana Rós Ægisdóttir sem er að útskrifast með BSc gráðu í sálfræði. Lokaritgerðin hennar fjallaði um tengsl sjálfsfróunar kvenna við sjálfstraust, líkamsímynd og ánægju í kynlífi.

Niðurstaða BSc ritgerðarinnar var sú að þær sem stunda sjálfsfróun njóta kynlífs betur. „Þetta liggur kannski í augum uppi, þær sem stunda sjálfsfróun og þekkja sinn líkama hafa mesta ánægju af kynlífi. Þetta mál hefur hinsvegar verið afar lítið rannsakað og fáar tölur til á svörtu og hvítu. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að konur sem stunda sjálfsfróun og eru í sambandi eru ánægðastar í kynlífi.“

Aðspurð um hvaða breytingar væri óskandi að sjá í viðhorfi íslensks samfélags til sjálfsfróunar kvenna, segir Indíana af mörgu á að taka. „Um 16% af 99 kvenna úrtaki skömmuðust sín eða urðu vandræðalegar eftir að stunda sjálfsfróun. Og það eru allt menntaðar konur á aldrinum 20-25 ára í sálfræði og íþróttafræði, í stærra úrtaki yrði niðurstaðan líklega meira sláandi. Við þurfum að kynnast okkur sjálfum til þess að vita hvað okkur finnst gott og geta gefið leiðbeiningar í kynlífi. Sjálfsfróun er eðlilegur og náttúrlegur hlutur, það er hálfskrítið hversu mikið tabú sjálfsfróun er, miðað við að vera öruggasta leiðin til fullnægingar. Það verður engin ólétt eða fær kynsjúkdóm við að fróa sér. Mitt ráð til kvenna er að prófa sig áfram, nota sleipiefni, gefa sér tíma og njóta.“

26712 Indiana 02362

Indíana starfar sem ritari hjá Kynfræðifélagi Íslands þar sem Sigga Dögg kynfræðingur fer með formennsku. Markmið félagsins er að efla þekkingu á kynfræði og kynhegðun fólks í íslensku nútímasamfélagi. Í gegnum starfið hefur Indíana orðið vitni að því þekkingarleysi og skömm sem fylgir umræðunni um sjálfsfróun kvenna. „Við sjáum aldrei konur stunda sjálfsfróun í sjónvarpi. Konur hafa oft engin viðmið og telja sína iðkun gjarnan eðlilega, eða normið ef þær stunda sjálfsfróun oft eða sjaldan. Það er hinsvegar engin regla í þessu.“

Indíana stefnir á meistaranám í kynfræði við Háskólann og leiðréttir blaðamann þegar hann ber fram kynjafræði. „Fólk ruglast mikið á þessum tvennu, kynfræði snýr að kynverunni sem maðurinn er. Ég hef brennandi áhuga á þessu fagi og skil ekki hvernig þetta getur ekki heillað alla.“

The post Þekktu þig til að kenna á þig appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652